Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 nóvember 2003

Heitast í umræðunni
Illugi Jökulsson og Mikael Torfason hafa verið ráðnir ritstjórar DV. Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri blaðsins, verður leiðarahöfundur þar. Illugi sem er eins og allir vita landsþekktur pistlahöfundur hefur ekki komið nálægt dagblaðaútgáfu í fjölda ára en var eitt sinn stjórnandi helgarblaðs DV. Mikael stýrði eitt sinn blaðinu Fókus. Ráðning þeirra er til marks um það að blaðið verður beitt og kraftmikið áskriftarblað og stimpill gulu pressunnar verður þar áberandi. Er áætlað að fyrsta blað DV eftir breytingar komi út í vikunni.

Ástandið í Georgíu er mjög slæmt, stjórnarandstæðingar í Georgíu ætla að halda áfram mótmælum og krefjast afsagnar Eduards Shevardnadse forseta. Stjórnarandstaðan sakar forsetann og stuðningsmenn hans um víðtækt svindl í kosningunum fyrir viku og krefjast þess að þær verði ógiltar. Yfirkjörstjórn hefur ógilt úrslit í um 10% kjördæma landsins og boðað nýjar kosningar þar 16. þessa mánaðar. Dagný Jónsdóttir alþingismaður, var í Georgíu við kosningaeftirlit í þessum kosningum og fjallar um þær á athyglisverðan hátt á vef sínum.

Air Greenland hefur ákveðið að hætta flugi milli Akureyrar og Kaupmannahafnar vegna harðnandi samkeppni. Áætlað er að síðasta flug félagsins frá Akureyri verði 1. desember n.k. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir ferðaþjónustu á öllu Norðurlandi, enda voru miklar vonir bundnar við þessa nýjung. Það er slæmt að svo sé komið. Þjónusta var til fyrirmyndar og þetta góður kostur sem eftirsjá er að.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Atli Rafn góðan pistil um hækkun afnotagjalda nú nýlega um 5%. Erum við frændurnir á svipuðum slóðum í seinustu tveim pistlum á frelsinu, að fjalla um RÚV og ríkistengda fjölmiðlun. Eins og Atli bendir réttilega á er algjörlega óviðunandi að ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins taki þessa ákvörðun þvert á þá stefnu sem mótuð hefur verið um að álögur á almenning skuli lækka. Afnotagjöldin sem ríkisútvarpið innheimtir kemur beint úr vösum almennings en báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu í kosningabaráttunni kjósendum umtalsverðum skattalækkunum á kjörtímabilinu. Í ljósi þeirra loforða eru umræddar hækkanir óviðunandi. Ríkisstjórninni ber að sýna aðhald í efnahagsmálum, sem á að fela í sér niðurskurð á útgjöldum ríkisins, en ekki hækkun skatta.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Silfri Egils í gærkvöldi var Steingrímur J. Sigfússon formaður VG, aðalgesturinn. Þar var hann að tjá sig um landsfund VG og útkomu hans. Rætt var mikið um nýfeminíska ímynd flokksins, en tvær konur um þrítugt eru nú komnar í forystusveit hans. Sagði formaðurinn að nú væri VG orðin ímynd feminískra gilda. Ja, dámar ekki Gvend er Steingrímur frá Gunnarsstöðum orðinn ímynd femínisma í íslenskri pólitík. Best að fá sér te meðan maður meðtekur þessa nýju ímynd hans. Í Kastljósinu í gærkvöld ræddi Kristján Kristjánsson við hinn merka sjónvarpsmann Sir David Attenborough. Enginn maður hefur betur kynnt dýr og lífsskilyrði þeirra fyrir sjónvarpsáhorfendum en hann. Goðsögn í lifanda lífi, einstakur sjónvarpsmaður sem kann þá list betur en nokkur annar að segja frá á lifandi og ferskan hátt. Einstakur karakter, er mikill unnandi sjónvarpsþátta hans.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Í gærkvöld var horft á þetta týpíska á sunnudagskvöldi; 60 mínútur, Sjálfstætt fólk, milljónaþáttinn með Jónasi R. (sem passar vel í stól stjórnandans, þjálfaður sjónvarpsmaður og kann listina að skemmta betur en margir aðrir). Seinnipart kvöldsins ákváðum við Ólöf frænka að hittast og rabba málin. Horfðum við á kvikmyndir og ræddum ýmislegt spennandi. Er heim var komið tók við smáspjall á MSN, alveg magnað hvað er gaman að ræða pólitík og málin almennt á þessu einstaka spjallkerfi. Bravura!

Vefur dagsins
Í seinustu viku voru vefir tengdir Akureyrarbæ í vefhorni vikunnar. Þessa vikuna kynni ég hægrivefsíður af ýmsu tagi. Fyrst ber að benda á Íslending, vef Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og Norðausturkjördæmi. Íslendingur er vefrit víðsýnnar, frjálslyndrar og þjóðlegrar framfarastefnu sem er ætlað að miðla upplýsingum og skýra sjónarmið sjálfstæðisfólks á Akureyri og í Norðausturkjördæmi. Lögð er áhersla á að kynna félagsstarf sjálfstæðisfélaganna, fulltrúaráðsins og kjördæmisráðsins.

Snjallyrði dagsins
Það er betra fyrir mannkynið að leyfa manni að lifa eins og honum þykir gott en að kúga hvern mann til að lifa eins og öllum gott þykir.
John Stuart Mill