Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 janúar 2004

PrósenturHeitast í umræðunni
Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð virðast vera að bæta við sig miklu fylgi, ef marka má nýja skoðanakönnun Viðskiptablaðsins sem gerð var í vikunni. Báðir flokkar bæta við sig miklu fylgi frá seinustu alþingiskosningum, 10. maí sl. Frjálslyndi flokkurinn virðist skv. könnuninni ekki vera að upplifa neina blómatíð og þurrkast út af þingi í einni svipan ef niðurstöður hennar verða að veruleika. Fylgi Samfylkingarinnar minnkar allverulega og er komið nokkuð vel undir þann 30% múr sem forystumenn flokksins hafa alloft miðað við fyrir og eftir innkomu borgarfulltrúa R-listans í forystusveit sína. Framsóknarflokkurinn missir fylgi ennfremur í könnuninni. 41 og hálft prósent landsmanna styðja Sjálfstæðisflokkinn samkvæmt könnuninni, hefur bætt við sig um 8 prósentustigum frá kosningunum. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 13,8%, minnkar um tæp 4% frá kosningunum. Stjórnarflokkarnir bæta því við sig fjórum prósentustigum, stjórnarandstaðan veikist og eins og fyrr segir þurrkast einn stjórnarandstöðuflokkurinn út í könnuninni. Samfylkingin fengi 25,5% atkvæða sem er minna en flokkurinn fékk í kosningunum 1999, og tæplega 7% minna en í kosningunum í fyrra. 13,8% styður VG í könnuninni. Einungis 2,7% segjast styðja Frjálslynda flokkinn, sem er brotlending fyrir flokkinn miðað við seinustu kannanir.

Hannes Hafstein við þingsetningu árið 19051. febrúar nk. er öld liðin frá því að heimastjórn varð að veruleika á Íslandi. Þann dag kom til framkvæmda ný stjórnskipan, sem fól í sér skipan íslensks ráðherra sem myndi bera ábyrgð gagnvart Alþingi. Hannes Hafstein varð fyrsti ráðherra Íslendinga og gegndi embættinu tvisvar, 1904-1909 og 1912-1914. Í dag verður afhjúpaður á Ísafirði minnisvarði um Hannes. Hann var sýslumaður á Ísafirði er hann var skipaður ráðherra árið 1904. Um er að ræða einn lið í hátíðahöldum sem menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar hyggst gangast fyrir á árinu. Í vikunni var gefið út frímerki með mynd af Hannesi á, til minnis um heimastjórn á Íslandi í öld.

Idol stjarnan Karl Bjarni GuðmundssonIdol - stjörnuleit
Karl Bjarni Guðmundsson var krýndur poppstjarna Íslands á úrslitakvöldi Idol-stjörnuleitar í Smáralind í gærkvöldi. Gríðarleg stemmning var um allt land í gærkvöldi vegna úrslitaþáttar Idol. Má þó eflaust segja að stemmningin hafi náð hæstum hæðum í herbúðum stuðningsmanna Kalla Bjarna, Önnu Katrínar og Jóns Sigurðssonar sem kepptu til úrslita. Stuðningsmenn Kalla Bjarna fjölmenntu í Festi í Grindavík, stuðningsmenn Önnu Katrínar komu saman í Sjallanum á Akureyri og þeir sem studdu Jón í Nasa í Reykjavík. Í beinni útsendingu þáttarins var sýnt beint frá stemmningunni þar. Í upphafi úrslitaþáttarins tóku þau 9 sem komust í úrslitakeppnina í Smáralind saman lag Hljóma, Sveitapiltsins draumur. Keppni hófu upphaflega: Karl B. Guðmundsson, Jón Sigurðsson, Anna Katrín Guðbrandsdóttir, Ardís Ólöf Víkingsdóttir, Tinna Marína Jónsdóttir, Helgi Rafn Ingvarsson, Rannveig Káradóttir, Sesselja Magnúsdóttir og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir. Í úrslitaþættinum sungu keppendurnir þrír tvö lög hvor. Fyrst sungu allir sama lagið, nýtt lag Stefáns Hilmarssonar og Jóns Ólafssonar. Í seinni umferðinni söng Anna Katrín lagið Imagine, Kalli Bjarni söng Mustang Sally og Jón lagið Words. Allir keppendur stóðu sig með miklum sóma. Það kemst enginn svona langt í keppni nema standa sig vel og hafa unnið fyrir tilverurétti sínum í lokaþættinum. Öll sönnuðu þau óhikað að þau eiga framtíðina fyrir sér í þessum bransa. Kalli Bjarni vann sigur í símakosningunni og á þann sigur vel skilið, stóð sig frábærlega alla keppnina. Hann sem sigurvegari keppninnar fær plötusamning hjá Skífunni. Hvet alla til að líta á frammistöður keppenda í lokaþættinum.

Plata Óskars PéturssonarTónlist - bækur
Keypti í vikunni geisladisk Akureyringsins Óskars Péturssonar (upphaflega er hann Skagfirðingur), Aldrei einn á ferð. Hafði ég lengi viljað eignast þennan disk, en ég hélt alltaf að ég fengi hann í jólagjöf frá einhverjum, en svo fór ekki. Fékk ég tvö eintök af diski Mínus, þannig að ég skipti öðrum og fékk mér Óskar. Plata hans var sú mest selda fyrir jólin, mér skilst að hún hafi selst í u.þ.b. 14.000 eintökum. Ekki kemur það á óvart, enda Óskar magnaður söngvari og lagavalið mjög gott. Hann fær til sín gestasöngvara, þau Diddú og Akureyringinn Jónsa. Bestu lögin eru hiklaust Nautabaninn, Þú gætir mín, Aldrei einn á ferð (íslensk þýðing á Liverpool laginu You'll Never Walk Alone), Augun þín blá (smellur Jóns Múla og Jónasar) og Hún hring minn ber. Magnaður diskur. Hef seinustu daga verið að lesa bækur sem ég keypti á Amazon: Governor Reagan: His Rise to Power, The Collected Speeches of Margaret Thatcher auk nýjustu útgáfu kvikmyndahandbókar Maltins.

Vefur dagsins
Kvikmyndin Something's Gotta Give með Jack Nicholson og Diane Keaton verður frumsýnd hérlendis eftir nokkrar vikur og hefur fengið góða dóma vestan hafs og eru báðir aðalleikararnir tilnefndir til Golden Globe verðlauna. Í dag bendi ég á heimasíðu myndarinnar.

Snjallyrði dagsins
Hver sá sem er tilbúinn að fórna frelsi fyrir frið, á hvorugt skilið.
Abraham Lincoln forseti Bandaríkjanna (1809-1865)