Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 janúar 2004

Halldór e/ Hannes Hólmstein GissurarsonHeitast í umræðunni
Um fátt hefur meira verið rætt í umræðunni seinustu vikur en Halldór, fyrsta bindi ævisögu dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Halldór Kiljan Laxness rithöfund og skáld. Fyrsta bindið nær yfir fyrstu 30 ár ævi Halldórs, 1902-1932. Seinustu vikur hafa margir aðilar sem í gegnum tíðina hefur verið í nöp við Hannes komið fram og sakað hann um ritstuld frá skáldinu í ævisögunni. Hefur geisað aðför að Hannesi úr ýmsum áttum. Í gær skrifaði Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur, ítarlega grein í Viðskiptablaðið og fer þar yfir málið og fjallar um helstu hliðar þess. Orðrétt segir hann: "Virðist sem fjandmenn Hannesar hafa hvorki fundið ástæðu til árása á bókina vegna staðreyndavillna eða skorts á nærgætni við skáldið. Í örvæntingu sinni hengja þeir hatt sinn á heimildanotkun Hannesar. Úr skúmaskotum Háskóla Íslands spretta fram í dagsljósið fótnótufræðingar tveir, Helga Kress og Gauti Kristmannsson, og herja á Hannes í nafni fræða sinna. Þeim finnst ekki vera nógu margar fótnótur í bók hans! Fáar bækur í seinni tíð gera þó jafn rækilega grein fyrir heimildum sínum og bók Hannesar Hólmsteins. Tilvísanaskráin í bókinni er 44 blaðsíður með smáu letri sett í tvídálk (bls. 563-607). Alls eru fótnóturnar 1.627, eða tæplega 3 á hverja lesmálssíðu í bókinni. Þetta er með því mesta sem þekkist um tilvísanir í bókum af þessu tagi eftir virta fræðimenn og rithöfunda. Það nær því engri átt að saka Hannes um að fara dult með heimildir sínar." Lýsa skrif Jakobs málinu vel. Hef ég lesið bókina og kynnt mér hana vel. Er um að ræða eina vönduðustu ævisögu seinni ára hérlendis. Hún ber að öllu leyti vitni einkar vönduðum vinnubrögðum.

Frambjóðendur demókrata 200410 dagar eru í fyrsta forval demókrata, sem verður í Iowa ríki. Að því loknu mun taka við forkosningar í hinum ríkjunum og standa fram á vorið. Baráttan í demókrataflokknum fyrir forsetakosningarnar í nóvember er gríðarlega hörð. Hvergi er sparað í auglýsingum og orrahríð. 9 frambjóðendur keppast við að saka hvorn annan um óheilindi. Svo virðist vera sem 8 þeirra hafi sameinast í að ráðast helst að Howard Dean fyrrum ríkisstjóra í Vermont, sem virðist um þessar mundir leiða í slagnum. Skv. könnun hefur hann um 5% forskot á næsta frambjóðanda, Wesley Clark hershöfðingja. Hefur forskot Dean minnkað verulega eftir handtöku Saddams Husseins, en hann var eini frambjóðandinn sem hafði áður reynt að ýta undir andstöðu við stríðið þar og sat því eftir á kafi við handtökuna og hefur nú misst forskotið. Bendir nú flest til að þeir muni berjast um útnefninguna meðan eldri og reyndari menn innan flokksins, t.d. Dick Gephardt, Joe Lieberman og John Kerry sitja eftir í fjarska. Að sögn bandarískra fjölmiðla er Clark fyrir Dean mesta ógnin, ekki vegna málefna heldur vegna peninga, enda er Clark eini frambjóðandinn sem getur keppt á jafnréttisgrundvelli við Dean á þeim slóðum. Framundan er spennandi slagur og nú fara frambjóðendur demókrata brátt að týna tölunni.

SpaugstofanSamkvæmt nýjustu áhorfskönnun Gallups horfa 66,8% landsmanna á Spaugstofuna sem sýnd er í Sjónvarpinu á laugardagskvöldum. Er það því langvinsælasti þátturinn í íslensku sjónvarpi. Laugardagskvöld með Gísla Marteini er í öðru sæti og Idol - stjörnuleit í hinu þriðja. Báðir þættir hafa um 50% áhorf. Munur á áhorfi á fréttir Ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2 minnkar nokkuð. Könnunin var gerð í gegnum síma dagana 3.-9. desember 2003. Tíu vinsælustu þættirnir eru fyrir utan þá þrjá sem nefndir eru: fréttir í Sjónvarpinu, þátturinn Hljómar, Kastljósið, Hálandahöfðinginn, Af fingrum fram og Bráðavaktin. Athygli vekur að Skjár einn á engan þátt í topp 10 en Stöð 2 aðeins einn, Idol. Sjónvarpið hefur því gríðarlega yfirburði þegar kemur að mælingu á áhorfið.

Ásgeir JóhannessonSvona er frelsið í dag
Fullt af góðu efni á frelsinu í dag. Birtist góður pistill eftir Ásgeir félaga minn þar sem hann fjallar um lýðræðið. Orðrétt segir hann: "Fylkingar frjálshyggjumanna, íhaldsmanna, miðjumanna og jafnaðarmanna hafa allar kennt sig við lýðræði. Þótt þjóðernissinnar og kommúnistar hafi einnig stundum viljað láta bendla sig lýðræði, tengja flestir nútímamenn lýðræði við andstöðu gegn þessum hreyfingum og í stjórnmálaumræðu síðustu áratuga fór lýðræði nánast að merkja alla jákvæða eiginleika sem stjórnskipan ríkja í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku hafði umfram stjórnskipan í kommúnistaríkjum og öðrum einræðisríkjum. Þrátt fyrir þennan óljósa og víða skilning á hugtakinu er kjarni lýðræðishugsjónarinnar sá að stjórnmál séu ekki fyrir fáeina útvalda heldur komi þau almenningi við og alþýða manna eigi að fá að hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir. Yfirleitt er eðlilegt að tala um lýðræði þar sem öllum er frjálst að taka þátt í stjórnmálum og hafa áhrif." Góð grein sem allir verða að líta á. Að auki birtist ítarleg grein Jakobs F. Ásgeirssonar vegna gagnrýni á bók Hannesar Hólmsteins um Laxness. Ennfremur birtist smáumfjöllun um táknræna gjöf Eyjamanna í Eyverjum til Heimdallar og stuðningur við stefnu félagsins og ungra sjálfstæðismanna almennt við að einkavæða beri RÚV. Líst vel á þetta hjá Eyverjum og gleður mig, sem baráttumann fyrir fjölmiðlun án þátttöku ríkisins að sjá þetta.

Stefán Friðrik StefánssonPóstlisti á stebbifr.com
Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að koma mér upp póstlista á heimasíðu minni, stebbifr.com. Þar verður kynnt a.m.k. vikulega nýtt efni á vef mínum og bent á skrif mín á aðra vefi ef einhver eru þá vikuna og ennfremur gestapistla og fleira efni á vefnum. Upphaflega átti bara að vera um að ræða póstlisti fyrir þá sem ég þekki best eða vildu fá tilkynningu. Eftir að þetta spurðist út hafa margir haft samband og vilja fara á listann. Vil ég kanna hérmeð hvort fleiri hafi áhuga á því að fara á þennan póstlista. Ef svo er hvet ég viðkomandi til að senda tölvupóst til mín með upplýsingum um nafn og netfang þess sem um ræðir. Ég vil ennfremur þakka öllum þeim sem sent hafa skeyti seinustu daga með kveðjum vegna áramótapistilsins. Margir hafa lesið hann og sent kveðju, þakka öllum þeim sem höfðu samband fyrir kveðjuna.

kvikmyndir.comMyndbandahandbók á kvikmyndir.com
Í vikunni opnaði kvikmyndir.com ítarlega myndbandahandbók á slóðinni myndbond.com. Þar eru aðgengilegir þeir dómar sem birst hafa á kvikmyndir.com á undanförnum árum, eða allt frá opnun, í desember 2000. Vefurinn er mjög vel uppbyggður og þar er fjöldi kvikmyndaáhugamanna að skrifa um kvikmyndir, frá öllum hliðum. Hef ég sérhæft mig þarna í að skrifa pistla um kvikmyndir og leikstjóra og tek að mér skrif á næstunni um helstu kvikmyndaverðlaun, t.d. Golden Globe og Óskarsverðlaunin sem einn aðalpistlahöfunda vefsins. Þessi nýjung sem myndbandahandbókin er, mun án nokkurs vafa verða kærkomin fyrir kvikmyndaunnendur sem líta á vefina.

Vefur dagsins
Bendi í dag á vef góðs félaga míns úr ungliðahreyfingunni, Bjarka Baxter. Hann er duglegur að tjá skoðanir sínar á vefnum á mönnum og málefnum. Góður vefur hjá honum.

Snjallyrði dagsins
Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.
Milton Friedman