Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 febrúar 2004

Einar Oddur KristjánssonHeitast í umræðunni
Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, vill að lög um veiðigjald sem eiga að taka gildi í haust verði afnumin því þau séu óréttlát. Á móti verði reynt að semja við útgerðina um afnám sjómannaafsláttar en frumvarp fjármálaráðherra um afnám sjómannafsláttarins hefur verið kynnt á þingi án þess að fyrir liggi stuðningur við að það verði að lögum. Fram hefur komið í viðtölum við Einar Odd að "menn verði að átta sig á að frumvarp fjármálaráðherra um afnám sjómannaafsláttarins hafi aðeins verið lagt fram til kynningar og umfjöllunar, hvorugur þingflokkur ríkisstjórnarinnar hafi gert neina samþykkt um að knýja það mál í gegn núna. Heldur ætli menn að átta sig á því hvernig taka megi á málum." Sjálfur gefur hann ekki upp hvort hann er hlynntur frumvarpinu eður ei. Veiðigjaldið á samkvæmt lögum að taka gildi í haust, Einar Oddur telur að framkvæmd þess eigi eftir að bitna á launþegum í sjávarútvegi sem sé rangt, hér séu vandamál að leysa þetta gæti verið ein leið. Einar Oddur gefur ekki upp hvort eða hve mikinn stuðning hann á við þessa hugmynd. Í mínum huga er mikilvægt að frumvarp um afnám sjómannaafsláttar nái fram að ganga, það er ekki vegna illkenndar í garð sjómanna. Það er mín skoðun að enginn eigi að vera undanskilinn skatti og svona á ekki að eiga sér stað í nútímanum. Ég er kominn af miklum sjómannaættum og tala ekki gegn sjómönnum, en tel rétt að breyta þessu og vona að samstaða náist um það.

HollandNeðri deild hollenska þingsins samþykkti í dag umdeilt frumvarp sem heimilar stjórnvöldum að vísa úr landi 26.000 útlendingum þar hafa leitað hælis og senda þá til heimalanda sinna. Mikil andstaða er við frumvarpið í Hollandi og alþjóðleg mannréttindasamtök gagnrýna það hástöfum. Frumvarpið verður ekki að lögum fyrr en efri deild þingsins hefur lagt blessun sína yfir það en það nær yfir alla þá sem leituðu hælis í Hollandi fyrir 1. apríl 2001. Sumir þeirra eru í vinnu í Hollandi og hafa komið sér upp hollenskumælandi fjölskyldum. Stjórn Jans Peters Balkenende þykir með frumvarpinu hafa gengið mun lengra en stjórnmálamaðurinn Pim Fortuyn, sem myrtur var fyrir tveimur árum, en hann vildi takmarka möguleika útlendinga á að setjast að í Hollandi. Hann var hinsvegar fylgjandi því að þeir sem dvalist höfðu í landinu í nokkur ár án þess að fá þar hæli fengju að vera þar áfram. Samkvæmt frumvarpinu verða þeir sem neita að fara af fúsum og frjálsum vilja settir í sérstakar búðir áður en þeir verða sendir til heimalands síns. Samband hollenskra kirkna og nokkrir borgarstjórar í Hollandi hafa barist gegn frumvarpinu og í mótmælabréfi kirkjunnar manna til stjórnvalda segir að margir þeirra sem leitað hafi hælis í landinu búi við afar erfiðar aðstæður. Margir eigi við andleg og líkamleg vandamál að stríða, margar fjölskyldur hafi tvístrast og mikið óöryggi sé í heimalöndum þeirra.

NammiSælgætisverksmiðja hefur hafið tilraunaframleiðslu á Dalvík. Mun hún heita Molinn, og verða rekin í húsakynnum Íslandsfugls á Dalvík, í skemmu þar. Áætlað er að vinna bolsíur, sleikipinna og annað nammi. Fyrirtækið sem er stofnað af Sif Sigurðardóttur og Rúnari Jóhannessyni á Akureyri, er þessa dagana í samningarviðræðum við Akra um að hefja á ný framleiðslu á hinum þekktu Akra töggum, sem voru vinsælar seinnipart seinustu aldar, en hætt var framleiðslu á í kringum 1980. Er reiknað með að framleiðslan verði komin í fullan gang að mánuði liðnum. Vonandi er að þetta fyrirtæki dafni vel, enda um að ræða snjalla hugmynd.

Halldór Karl HögnasonSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu, fjallar Dóri um fjölmiðla og hvort þörf sé á lagasetningu um eignaraðild þeim tengdum. Orðrétt segir: "Hvað eiga Kveldúlfur, Hagkaup, Samband íslenskra samvinnufélaga og hinn svokallaði „kolkrabbi“ sameiginlegt? Jú, allt voru þetta fyrirtæki sem á sínum tíma náðu mikilli markaðshlutdeild á sínu sviði og voru talin njóta yfirburðastöðu gagnvart keppinautunum. Með reglulegu millibili hafa á Íslandi risið upp viðskiptablokkir sem virst hafa óhagganlegar, öllu ráða og allt eiga. Undantekningalaust hafa þær hins vegar þurft að víkja fyrir nýjum aðilum fyrr eða síðar. Þar þurfti hvorki að koma til lagasetning af hálfu ríkisins um eignarhald né vopnaðrar byltingar alþýðunnar. Val einstaklinga á frjálsum markaði sá til þess að breytingar urðu. Í dag er komin upp ný staða á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem kallað hefur á mikla umræðu í þjóðfélaginu um hlutleysi og eignarhald fjölmiðla. Umræðan hefur stigmagnast og telja ýmsir stjórnmálamenn að nú sé lagasetningar þörf um eignarhald á fyrirtækjum í fjölmiðlarekstri." Góð grein og ítarleg.

The Thin Red LinePólitíkin - kvikmyndir
Klukkan átta fór ég á bæjarmálafund í Kaupangi, þar sem helstu bæjarmálin voru rædd venju samkvæmt. Var gott spjall þar um helstu mál við bæjarstjóra og bæjarfulltrúa okkar sjálfstæðismanna. Eftir fundinn var haldið heim og horft á góða mynd. Litum á stórmyndina The Thin Red Line. Segir frá herflokki sem sendur er til eyjarinnar Guadalcanal til að berjast gegn Japönum og freista þess að stöðva sókn þeirra í Kyrrahafi í síðari heimsstyrjöldinni. Myndin er samt miklu meira en venjuleg stríðsmynd því hún segir á afar áhrifaríkan og beittan hátt frá því hvernig þessi blóðuga og mannskæða barátta gróf sig inn í vitund þeirra sem tóku þátt í henni, breytti þeim og markaði líf þeirra að eilífu. Í upphafi voru þessir hermenn að berjast fyrir fósturjörðina og málstaðinn en áður en varði snerist baráttan upp í örvæntingarfulla tilraun til að lifa af með öllum þeim afleiðingum sem slík barátta hefur á einstaklinginn. Með aðalhlutverkin fer stór hópur úrvalsleikara, má þar nefna þá Sean Penn, Woody Harrelson, Nick Nolte, George Clooney, Ben Chaplin, John Cusack og John C. Reilly. Stórfengleg mynd.

100.000 heimsóknir100.000 heimsóknir
Dagurinn er hiklaust merkisdagur í sögu þeirra vefa sem ég sé um. Í dag leit 100 þúsundasti gesturinn hingað inn til mín. Þetta eru merk tímamót. Allt frá því nýja útgáfan af heimasíðunni opnaði í fyrrasumar hefur gestum fjölgað til mikilla muna og eru heimsóknir hingað og á heimasíðuna mælanlegar í hundruðum dag hvern. Þetta hefur frá upphafi gengið vel og ég ánægður með hvernig til hefur tekist. Hvet ég ennfremur alla til að senda mér línu í gegnum MSN, en þar spjalla ég við alla þá sem það vilja. Ef fólk vill ræða nánar einstök atriði pistlaskrifa eða eitthvað allt annað er þeim velkomið að senda mér póst og fara yfir málin. Er alltaf gaman að ræða við annað fólk um málefni samtímans. Áherslum mínum til mála er hægt að kynnast hér og á bloggvef mínum þar sem eru dagleg skrif. Ég þakka fyrir góðar viðtökur og vona að fólk fylgist vel með skrifum mínum. Ég leitast við að tjá skoðanir mínar af krafti gegnum þessi skrif.

Dagurinn í dag
* 1866 Kristján Jónsson Fjallaskáld, orti kvæðið Þorraþrælinn (Nú er frost á Fróni)
* 1906 Fyrsta fréttamyndin birtist í blaðinu Ísafold - var frá konungskomu
* 1947 Ingólfur Arnarson, fyrsti Nýsköpunartogarinn svokallaði, kom til landsins
* 1969 Golda Meir verður fyrsti kvenforsætisráðherra Ísraels
* 1990 Vaclav Havel kom til landsins og sá leikrit sitt, Endurbygginguna, í Þjóðleikhúsinu

Snjallyrði dagsins
The greatest trick the devil ever pulled was convincing the world he didn't exist.
Verbal Kint í The Usual Suspects