Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 febrúar 2004

John KerryHeitast í umræðunni
John Kerry öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, sigraði í 5 ríkjum af þeim sjö þar sem demókratar efndu til forkosninga í gær vegna forsetakosninga síðar á árinu. John Edwards öldungadeildarþingmaður Norður-Karólínu, náði mikilvægum sigri í Suður-Karólínu, en Wesley Clark vann sigur í Oklahoma, vann nauman sigur á Edwards þar. Joe Lieberman náði ekki þeim árangri í forkosningunum sem hann sóttist eftir og tilkynnti er úrslit voru ljós í flestum ríkjum að hann drægi sig í hlé úr forsetaslag Demókrataflokksins. Hann var varaforsetaefni Al Gore árið 2000, og munaði litlu að framboð þeirra ynni sigur í kosningunum. Howard Dean sem fyrir rúmum mánuði var talinn ósigrandi í demókrataslagnum, hélt hinsvegar áfram leið sinni niðurávið eftir að hafa náð afleitum árangri í forkosningunum. Hann hefur hvergi náð að vinna það sem af er forkosningum flokksins, og blasir við að möguleikar hans á að ná tilnefningu flokksins minnka með hverri forkosningu. Hann hyggst halda áfram í forsetaslagnum, en flest bendir nú til að slagurinn standi í Suðurríkjunum milli Kerry og Edwards og reyndar þegar talað um að þessir tveir taki höndum saman og Edwards verði varaforsetaefni Kerry, ef hann nær útnefningunni, sem verður að teljast langlíklegast.

SparisjóðirnirValgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, kynnti í gærmorgun á fundi ríkisstjórnarinnar frumvarp um sparisjóðina. Frumvarpið á að tryggja stöðu sparisjóða í landinu og koma í veg fyrir kaup KB banka á SPRON. Það var lagt fram eftir að lá fyrir frumvarp sem tveir þingmenn höfðu unnið að og aflað stuðnings meirihluta þingmanna. Það er þó hvergi nærri samhljóða eða jafnafgerandi og frumvarpið sem þingmennirnir unnu að. Ríkisstjórnin samþykkti frumvarp ráðherra á fundi sínum. Viðkomandi þingmenn hættu þar með við að leggja fram sitt frumvarp en koma þess í stað fram með breytingartillögur við stjórnarfrumvarpið. Pétur Blöndal formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, hefur lýst sig andsnúinn frumvarpinu og sagt það sérkennilegt að leggja fram frumvarp til að koma í veg fyrir sameiningu KB banka og SPRON. Frumvarpið var í gær samþykkt í þingflokkum beggja stjórnarflokka, einungis Pétur einn lýsti yfir andstöðu við það. Það er því ljóst að frumvarpið verður að lögum á næstu dögum, enda með stuðning líka úr stjórnarandstöðu.

Tony Blair á þingfundiÓhætt er að fullyrða að staða Blairs forsætisráðherra, hafi lítt skánað í breskum stjórnmálum seinustu daga, þó svo hann hafi borið sigurorð í deilunni við BBC eftir úrskurð Huttons lávarðar. Í dag fór hann í þingsal yfir málið, í vikulegum fyrirspurnartíma til forsætisráðherra. Stjórnarandstæðingar beindu til hans beittum spurningum og fór forsætisráðherrann yfir þær og svaraði. Gera varð 10 mínútna langt hlé á þingumræðunni um skýrsluna vegna mótmælahrópa frá áhorfendabekkjum þingsins. Andstæðingar Íraksstríðsins fjölmenntu á bekkina og gerðu hróp að forsætisráðherranum. Var þingfundi frestað í rúmlega kortér eftir að Blair hefði verið truflaður í fimmta skiptið. Voru bekkir ruddir og lokað aðgang að þeim og er það í fyrsta skiptið frá 1987 sem það gerist.

Helga Baldvinsdóttir BjargardóttirSvona er frelsið í dag
Nóg af góðu efni í dag á frelsisvefnum. Í góðum pistli fjallar Helga um reglugerðarfarganið á skemmtilegan hátt: "Hvernig ætli það sé að vera stjórnmálamaður? Að sitja á þingi og semja eða samþykkja lagafrumvörp, sem svo verða til þess að stjórna og stýra hegðun allra landsmanna. Stundum virðist sem stjórnmálamenn missi sig í viðleitni sinni til að láta gott af sér leiða og úr verður flóknara og óskilvirkara ástand í kringum aðstæður en ef þeir hefðu látið málin þróast í frjálsum samskiptum manna á milli. Löggjafinn teygir sig inn á sífellt fleiri svið mannlífs með æ fleiri lögum, reglum og reglugerðum. Oftar en ekki eru þær síst til bóta. Fyrir þá sem sjá inngöngu í Evrópusambandið enn í hyllingum er hollt að minnast þess að þar ríkir sá alstærsti reglugerðarfrumskógur sem um getur í mannkynssögunni. Íslendingar fara jafnvel ekki varhluta af þeim skógi þótt þeir standi utan við sambandið því okkur er skylt að taka upp ýmsar reglur vegna EES-samningsins." Ennfremur eru á vefnum umfjöllun um góða grein Benedikts Jóhannessonar á heimur.is og umfjöllun um kandidatsritgerð míns góða félaga, Hafsteins Þórs Haukssonar formanns SUS, sem hann varði á málstofu í Háskóla Íslands í dag. Óska ég honum til hamingju með góða frammistöðu.

Jóhanna og ÞórhallurDægurmálaspjallið
Aðalumfjöllunarefni beggja dægurmálaþáttanna í gærkvöldi var forsetamálið, sem snýst eins og flestir vita um forseta í skíðafríi sem er afbrýðisamur vegna þess að hann fékk ekki að vita hvað gerðist meðan hann er í fríi. Á Stöð 2 ræddu Sigurður Líndal lagaprófessor og Svanur Kristjánsson prófessor, um þetta mál og voru ekki sammála, enda annar viðmælandinn einn helsti vinur forsetans en hinn einblínir á lögin og það sem réttara er. Í Sjónvarpinu voru Gulli Þór, Svanfríður og Guðjón Arnar gestir Svansíar og Kristjáns, og tókust á um það sama. Niðurstaðan eftir sem áður sú sama, forseti er í fríi þegar hann er í fríi. Svansí lofaði okkur að annað efni yrði í næsta þætti. Eins gott, enda þetta leiðinleg umræða um sama hlutinn aftur og aftur.

About SchmidtPólitík - kvikmyndir
Eftir dægurmálaþættina horfði ég á fréttir á Aksjón og svo upptöku frá bæjarstjórnarfundi fyrr um daginn. Farið var yfir ýmis mál á fundinum og margar athyglisverðar umræður um helstu umfjöllunarefni í bæjarmálum. Eftir fundinn horfði ég á kvikmyndina About Schmidt með Jack Nicholson. Kolsvört kómedía byggð á skáldsögu Louis Begley, er segir frá Warren R. Schmidt, ósköp hversdagslegum manni sem lendir á skömmum tíma í miklu mótlæti. Hann er að ljúka störfum sem tryggingasérfræðingur eftir margra ára starf, og veit ekki hvað hann á að taka sér fyrir hendur. Eiginkona hans fellur skyndilega frá, og einkadóttirin er að fara að gifta sig manni sem Warren líkar ekki við. Orðinn einstæðingur heldur Schmidt í örvæntingarfulla leit að fyllingu í sviplaust líf sitt, enda sjálfstraust hans í molum. Hann ákveður að leggja af stað í leit að sjálfum sér á æskuslóðum sínum og heldur áleiðis til Denver í brúðkaup dóttur sinnar. Frábær kvikmynd sem skartar hinum magnaða Jack Nicholson í mögnuðu hlutverki. Hann birtist hér áhorfendum í nýju gervi; glottið er hvergi sjáanlegt og sjálfstraustið er víðsfjarri, hann leikur karakter sem er í rusli tilfinningalega séð. Sannkölluð eðalmynd sem vekur mann til umhugsunar og skilur þónokkuð eftir í undirmeðvitundinni.

Dagurinn í dag
* 1789 George Washington kjörinn fyrsti forseti Bandaríkjanna
* 1947 Ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar tók við völdum og sat hún í tvö ár
* 1968 Fárviðri á Vestfjörðum. 25 manns fórust er tveir togarar fórust, einum tókst að bjarga.
* 1969 Yasser Arafat verður leiðtogi PLO (The Palestine Liberation Organization)
* 1974 Patriciu Hearst, barnabarni Randolphs Hearst, rænt af Symbionese Liberation Army

Snjallyrði dagsins
1970 Pontiac Firebird. The car I've always wanted and now I have it. I rule!
Lester Burnham í American Beauty