Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 apríl 2004

Dick Cheney og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna, munu í dag bera vitni fyrir frammi rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings sem rannsakaðar aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001, í Hvíta húsinu fyrir luktum tjöldum. Verður þetta eini vitnisburðurinn hjá nefndinni sem ekki verður tekinn upp eða sýndur opinberlega. Fyrr í þessum mánuði bar Dr. Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, vitni fyrir nefndinni. Í þessum mánuði var ennfremur gert opinbert, minnisblað sem Bush forseti, fékk mánuði fyrir árásirnar en þar komu fram upplýsingar um al Qaeda. Stjórnvöld í Hvíta húsinu hafa ávallt haldið því fram að þau hafi engar skýrar upplýsingar fengið um að al Qaeda hygðist ráðast á Bandaríkin. Deilt er um hvort og þá hvað Bandaríkjastjórn vissi um ógnina af hryðjuverkum al Qaeda, þegar hryðjuverkasamtökin létu til skarar skríða. Nefndin, sem skipuð er fimm demókrötum og fimm repúblikönum, mun biðja forsetann að gefa vísbendingar um hvað honum hafi verið sagt um hryðjuverkaógnina sumarið 2001 og til hvaða aðgerða hann hafi gripið á þeim 9 mánuðum sem hann sat á forsetastóli, fram að árásunum. Cheney hefur sem fyrrum varnarmálaráðherra landsins mikla þekkingu á utanríkismálum og hefur verið áhrifamikill í stjórn forsetans sem slíkur allt frá valdatöku Bush stjórnarinnar 20. janúar 2001.

Ariel SharonUm helgina verður kosið innan Likud flokksins í Ísrael um áætlun Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, um að leggja niður allar landtökubyggðir gyðinga á Gaza og fjórum litlum byggðum á Vesturbakkanum en samhliða því innlima stærstu landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakka Jórdanar í Ísrael. Bandaríkjastjórn hefur lýst yfir stuðningi við tillögurnar og hefur t.d. John Kerry forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, tekið undir þær ennfremur. Skv. skoðanakönnun sem birt var í gær er meirihluti liðsmanna flokksins á móti tillögum Sharons. Likud hefur alla tíð stutt landnám gyðinga á herteknu landi og er stefna flokksins þó mun harðskeyttari nú en var í stjórnartíð fyrri forsætisráðherra flokksins, Menachem Begin og Yitzhak Shamir. Sharon, sem alla tíð hefur verið umdeildur vegna harkalegrar stefnu sinnar í málefnum miðausturlanda hefur óhikað sagt að áætlun hans sé að drepa alla leiðtoga Palestínumanna, og nú þegar liggja tveir leiðtogar Hamas í valnum og ófriðurinn sjaldan meiri. Á meðan á öllu þessu stendur vofir hneykslismál yfir forsætisráðherranum og alls óvíst að hann muni ná að sitja út kjörtímabil sitt á valdastóli.

Davíð Þór Björgvinsson prófessorDavíð Þór Björgvinsson prófessor við Háskólann í Reykjavík, var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu á þingi Evrópuráðsins í Strassborg í gær. Hann mun taka þar sæti frá 25. september n.k. Hann mun taka sæti Gauks Jörundssonar dómara og fyrrum umboðsmanns Alþingis, sem lætur þá af störfum vegna aldurs. Tilnefndir voru af Íslands hálfu til setu í réttinum auk Davíðs, héraðsdómararnir Sigríður Ingvarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon. Laganefnd þings Evrópuráðsins lýsti alla frambjóðendur Íslands hæfa til setu í dómstólnum. Dómarar við réttinn eru kjörnir til sex ára í senn. Laganefnd þings Evrópuráðsins lýsti alla frambjóðendur Íslands hæfa til setu í dómstólnum. Davíð Þór var formaður fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra, sem nýlega skilaði ítarlegri skýrslu. Almennt hefur verið lýst yfir mikilli ánægju með skýrsluna, sem gagnlegu riti um stöðu fjölmiðla nú.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Tveir góðir pistlar eru á frelsinu í dag. Annarsvegar ítarlegur pistill frá stjórn Heimdallar þar sem skrifum og gagnrýni á félagið er svarað. Orðrétt segir: "Þeir félagsmenn sem tekið hafa þátt í starfinu í vetur hafa getað haft áhrif á stefnu og störf félagsins. Hver með sínum hætti. Mikið hefur verið um að vera í vetur og góð málefnaleg umræða hefur farið fram um félagið, stefnu þess og starfsemi, á fundum þess. Hefur stjórn félagsins jafnan reynt að taka sem best mið af sjónarmiðum almennra félagsmanna og verður að telja miðað við viðbrögð þeirra að almenn ánægja ríki um starf stjórnar félagsins. Margrét og Þorbjörg eru hvattar til þess að láta af þessum skemmdarverkum, taka þátt í starfinu eða koma skilaboðum áleiðis til stjórnar félagins með öðrum hætti en áður hefur verið vikið að. Það er betra að byggja upp en brjóta niður. Ennfremur pistill eftir Jón Hákon þar sem hann leiðréttir rangfærslur þingmanns Samfylkingarinnar í blaðagrein. Þar segir: "Þegar menn gefa kost á sér til þess að gegna embættisverkum á hinu virðulega Alþingi verða þeir að passa sig á því að tapa sannleikanum ekki í yfirlýsingagleði sinni. Það á jafnt við um Björgvin G. Sigurðsson og aðra þingmenn. Kjósendur eiga það skilið."

The Thomas Crown AffairSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Gærkvöldið var fínt. Horfði á báða fréttatímana venju samkvæmt. Leit svo á Kastljósið þar sem Svansí ræddi við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um fjölmiðlafrumvarpið. Var þetta gagnlegt og gott viðtal. Þorgerður útskýrði vel skoðanir sínar á þessu máli og niðurstöðum skýrslunnar og um væntanlegt frumvarp til laga um eignarhald á fjölmiðlum. Horfði því næst á Stöð 2, þar sem var matreiðsluþáttur Jóa Fel, en gestir hans að þessu sinni voru þeir félagar í 70 mínútum á PoppTíví: Auddi, Pétur Jóhann og Sveppi. Fór svo í tölvuna og ræddi smá um fjölmiðlafrumvarpið á spjallvef, við nokkra aðila. Voru að mestu málefnalegar og góðar umræður. Alltaf gaman að ræða málin á málefnalegum forsendum. Eftir það var horft á kvikmyndina The Thomas Crown Affair með Steve McQueen og Faye Dunaway í aðalhlutverkum. Stórfengleg mynd er fjallar um Thomas Crown, auðugan viðskiptajöfur sem fremur hið fullkomna bankarán, enda hver ætti að gruna hann um græsku? Er tryggingaspæjarinn Vicki Anderson, fer að kanna ránið, hitnar þó í kolunum. Flott mynd með heillandi leikurum. Hlaut óskarinn fyrir besta kvikmyndalagið 1968, The Windmills of Your Mind.

Dagurinn í dag
1106 Jón Ögmundsson var vígður sem fyrsti biskupinn að Hólum í Hjaltadal - hann lést 1121
1958 Söngleikurinn víðfrægi, My Fair Lady frumsýndur í London - var kvikmyndaður 1964
1986 Wallis Warfield Simpson hertogaynja af Windsor, jarðsungin við látlausa athöfn
1992 Fjöldaóeirðir í Los Angeles í kjölfar sýknudóms yfir þeim sem réðust að Rodney King
1994 Steingrímur Hermannsson skipaður seðlabankastjóri - sama dag baðst hann lausnar sem formaður Framsóknarflokksins og alþingismaður - Halldór Ásgrímsson tók við formennsku

Snjallyrði dagsins
Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda.
Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar (um Baug - í umræðu á þingi 22. janúar 2002)