Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 apríl 2004

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Um fátt var rætt meira í gær, sumardaginn fyrsta, en skýrslu nefndar menntamálaráðherra og væntanlegt frumvarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, um eignarhald á fjölmiðlum. Efni skýrslu fjölmiðlanefndarinnar verður rætt á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun. Ríkisstjórnarfundi sem fram átti að fara í morgun var frestað vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Áður höfðu meginþættir skýrslunnar verið gerðir opinberir í ítarlegri frétt fréttastofu Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Skýrsla nefndar menntamálaráðherra er ítarleg og tekur á öllum hliðum málsins. Meðal atriða sem fjölmiðlanefndin leggur til er að hugað verði að því að setja beinar reglur um eignarhald og útbreiðslu fjölmiðla. Eins og flestum ætti að vera kunnugt er slíkt frumvarp þegar komið fram. Forsætisráðherra hefur eins og fyrr er sagt lagt fram í nafni ríkisstjórnarinnar frumvarp þessa efnis. Þar sem um er að ræða svokallað bandormsfrumvarp sem tekur til laga sem varða fleiri en eitt ráðuneyti, leggur forsætisráðherra það fram. Veruleg fákunnátta stjórnarandstöðunnar í reglum um mál af hálfu ríkisstjórnar almennt, hefur verið afhjúpuð í þessu máli, enda hafa stjórnarandstæðingar fullyrt hver á eftir öðrum í sjónvarpsviðtölum seinustu tvo sólarhringana að Davíð leggi frumvarpið fram vegna ýmissa ástæðna sem vinstrimenn telja svo upp af hentugleikum. Það væri þarfaverk ef stjórnarandstæðingar kynntu sér betur málin.

NorðurljósFjölmiðlanefndin segir í niðurstöðum sínum, að væri litið til aðstæðna á markaði hérlendis, væri ljóst að markmiðum beinna reglna um eignarhald væri ekki að fullu náð nema þær yrðu gerðar afturvirkar. Það þýðir einfaldlega að reglurnar yrðu að mæla fyrir um að núverandi uppbygging á íslenskum fjölmiðlamarkaði yrði brotin upp. Nefndin gerir ráð fyrir að öllum fyrirtækjum í bæði dagblaðaútgáfu og rekstri ljósvakafyrirtækja verði gert skylt að veita upplýsingar um eignarhald og að tilkynna verði breytingar á eignarhaldi þeirra. Jafnframt blasir við að Samkeppnisstofnun fái auknar heimildir til að koma í veg fyrir breytingar á eignarhaldi fjölmiðlafyrirtækja. Nefndin leggur ennfremur til að samkeppnisyfirvöld fái heimildir til að banna fyrirtækjum sem eiga í öðrum rekstri að eignast hlut i fjölmiðlafyrirtæki. Það kæmi þannig út að fyrirtæki í dagblaðaútgáfu eða fyrirtæki sem væri öflugt í útgáfu dagblaða, muni ekki fá leyfi til reksturs ljósvakamiðla, eða verði ekki gert kleift að stunda slíkan rekstur samhliða. Verður þetta ekki skilið á annan veg en þann, að slík lög myndu leiða til þess að eignarhald Norðurljósa á fjölmiðlum og fjölmiðlunarfyrirtækjum yrði brotið upp að mestu. Óhætt er að fullyrða að þetta mál verði aðalmál í íslenskum stjórnmálum næstu vikurnar.

Jafnréttisstefna AkureyrarbæjarNýrri jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar var dreift á öll heimili í bænum á miðvikudag. Undanfarna mánuði hefur fjölskyldu- og jafnréttisnefnd bæjarins unnið að nýjum tillögum í jafnréttismálum og móta stefnu í þessum málaflokki til framtíðar. Jafnréttisstefnan takmarkast við jafnrétti kynjanna líkt og fyrri áætlanir bæjarins í jafnréttismálum og tekur mið af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Birtast þarna leiðir til framtíðar í þessum málum og fastmótuð stefna í takt við nútímann. Ný jafnréttisstefna bæjarins er um margt ólík þeim fyrri að því leyti að ekki er eingöngu um viljayfirlýsingar að ræða heldur er kveðið á um verkefni sem vinna á að, ákveðnir aðilar gerðir ábyrgir og tímamörk sett. Jafnréttisstefnan er unnin í svipuðum anda og fjölskyldustefna bæjarins og er henni ætlað að styðja þá ímynd að á Akureyri sé að finna öll lífsins gæði. Á vef bæjarins er að finna ítarlega umfjöllun um jafnréttisstefnuna.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag fjalla ég í ítarlegum pistli um Evrópumál. 1. maí nk. verða þáttaskil í sögu Evrópusambandsins er 10 ný lönd verða formlega aðildarríki að sambandinu. Um er að ræða lönd í M-Evrópu og við Miðjarðarhafið. Þau lönd sem ganga í sambandið um mánaðarmótin eru: Tékkland, Kýpur, Eistland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía og Slóvenía. Áður hafa flest þessi lönd gengið í Atlantshafsbandalagið og eru vissulega söguleg tímamót að þessi gömlu einræðisríki kommúnismans séu komin í varnarbandalag annarra Evrópuþjóða og fari nú í Evrópusambandið. Fyrir eru í Evrópusambandinu alls 15 lönd: Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Portúgal, Spánn, Svíþjóð og Bretland. Samhliða þessum breytingum er fyrirhugað að komi til sögunnar stjórnarskrá Evrópusambandsins. Stefnt er að því að samkomulag náist um stjórnarskrána um miðjan júní og hún taki gildi í kjölfar þess síðar á árinu. Flest bendir til þess að haldnar verði þjóðaratkvæðagreiðslur, um fyrirhugaða stjórnarskrá ESB, í flestum aðildarríkja sambandsins. Til þess að stjórnarskráin nái fram að ganga þurfa öll aðildarríki Evrópusambandsins að samþykkja hana, annaðhvort með samþykki þjóðþings eða í gegnum þjóðaratkvæði. Ljóst er því að ef eitt ríki hafnar stjórnarskránni, t.d. eitt af hinum stóru, leiði það til pólitísks uppnáms innan sambandsins og átaka. Fjalla ég sérstaklega um málefni Bretlands og atburðarásina sem leiddi til ákvörðunar um þjóðaratkvæði þar.

House of Sand and FogSumardagurinn fyrsti - kvikmyndir
Þá er sumarið loks komið. Áttum góða stund í gær, litum í heimsókn til ættingja, fórum í sund og litum í afmæli vinar míns og hittum þar fjölda vina. Grilluðum svo undir kvöld. Semsagt ekta rólegheitadagur. Spáin framundan er góð, sól og hiti í kortunum sem betur fer. Kominn tími til að fá sannkallað vorveður. Horfðum svo í gærkvöldi á kvikmyndina House of Sand and Fog. Í myndinni segir frá Kathy sem missir húsið sitt vegna vangoldinna skulda við yfirvöld. Málið virðist þó á einhverjum misskilningi byggt og reynir hvað hún getur til að endurheimta húsið. En á meðan hún stendur í því kaupir ofurstinn Massoud Amir Behrani húsið fyrir fjölskyldu sína. Upp úr því hefjast miklar deilur og inn í söguna blandast sálarkreppur allra aðalpersónanna. Gríðarlega vel leikin mynd, Ben Kingsley og Shohreh Aghdashloo voru tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir stórleik sinn í hlutverkum Behrani hjónanna. Jennifer Connelly er svo gríðarlega sterk í hlutverki Kathy. Þessa mynd verða allir kvikmyndaunnendur að sjá. Tókum einnig eina gamla með og skemmtum okkur við að upplifa enn og aftur snilldina í hinni bráðskemmtilegu Naked Gun.

Dagurinn í dag
1902 Halldór Kiljan Laxness skáld og rithöfundur fæðist í Reykjavík - hann lést 8. febrúar 1998
1903 Sigfús Blöndal hóf söfnun í orðabók sína - gefin út 1920 og hefur komið út þrisvar síðan
1995 Önnur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum - sat til loka kjörtímabilsins 1999
1997 Páll Skúlason prófessor í heimspekideild, kjörinn rektor Háskóla Íslands
2001 Fréttablaðið kom út í fyrsta skipti

Snjallyrði dagsins
Hvers vegna ekki að grípa gleðina undir eins. Hve oft er hamingjunni ekki spillt með undirbúningi, heimskulegum undirbúningi.
Jane Austen