Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 apríl 2004

Old TraffordHeitast í umræðunni
Flest bendir til þess að lögreglan í Manchester á Englandi hafi í gær, komið í veg fyrir þaulskipulagt hryðjuverk, sem talið er að stuðningsmenn hryðjuverkasamtaka Osama Bin Laden, al Qaeda, hafi ætlað að framkvæma á knattspyrnuleik Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni sem verður á laugardag. Lögregla handtók í gær alls 10 manns í nokkrum handtökum í norður og miðhluta Englands. Mun vera um að ræða íraska Kúrda og fólk af norður-afrískum uppruna. Að öllum líkindum mun þetta fólk hafa haft í hyggju að sprengja sig í loft upp meðal áhorfenda á leikvangi Manchester United, Old Trafford (67.000 áhorfendur komast þar fyrir). Skv. breskum fréttavefum í dag munu hin handteknu þegar hafa keypt miða á leikinn og ætlað að dreifa sér um leikvanginn til að valda sem mestu manntjóni. Greinilegt er því að komið hefur verið í veg fyrir gríðarlegt blóðbað. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva um allan heim. Ekki er þó víst að allir hryðjuverkamannanna hefðu náð að sleppa í gegnum öryggisgæsluna, enda er þar oft leitað á fólki til að koma í veg fyrir að óæskilegir hlutir, t.d. áfengi eða barefli komist á leikvanginn. Mánuður er liðinn frá hryðjuverkunum á Spáni og greinilegt á þessum tveim málum að herða verður baráttuna gegn hryðjuverkum og berjast gegn hryðjuverkaöflum af fullum krafti. Ekki verður samið við hryðjuverkamenn!

Sonia GandhiÞingkosningar hefjast á Indlandi í dag. Í kosningunum nú eru rúmlega 670 milljón Indverja á kjörskrá. Kosningalögin á Indlandi eru margflókin, og kosningar þar löngum vakið athygli fyrir að vera tafsamar. Kosningarnar fara fram í fjórum áföngum og mun ekki ljúka formlega um allt land fyrr en eftir tæpan mánuð, mánudaginn 10. maí. Erfitt er að spá í pólitíska ástandið á Indlandi, raunverulega getur allt gerst og þarf lítið að breytast til að stjórnarandstaðan komist til valda. Um er að ræða tvo valdapóla sem berjast um völdin. Annarsvegar er Janata, flokkur Atal Behari Vajpayee forsætisráðherra, og hinsvegar Kongressflokkurinn sem lengi var leiðandi afl í pólitíska landslagi landsins og er nú undir forystu Soniu Gandhi. Sonia er ekkja Rajivs Gandhi sem var forsætisráðherra landsins 1984-1989. Rajiv var myrtur í sprengjutilræði þann 21. maí 1991, en hann var þá í kosningabaráttu í héraðinu Tamil Nadu. Móðir Rajivs var Indira Gandhi sem var forsætisráðherra landsins 1966-77 og 1980-1984, en hún var myrt þann 31. október 1984. Ný kynslóð Gandhi ættarinnar er í framboði nú, meðal frambjóðenda Kongress flokksins eru börn Rajivs og Soniu, Rahul og Priyanka. Er almennt talið að Priyanka sé framtíðarleiðtogi Kongressflokksins, hún þykir um margt minna á ömmu sína. Sonia Gandhi neitaði lengi vel að taka við forystu flokks eiginmanns síns eftir morðið á honum, en gaf loks kost á sér til stjórnmálastarfa árið 1998 og er nú leiðtogi Kongressflokksins.

George W. Bush forsetiGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur aukið forskot sitt á John Kerry forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Gallup gerði um helgina fyrir CNN og USA Today. Kemur sú niðurstaða eflaust flestum stjórnmálaskýrendum nokkuð á óvart, enda var talið að fylgi forsetans hefði minnkað vegna fréttaflutnings af Íraksmálum og yfirheyrslum í bandaríska þinginu og ádeilum á ríkisstjórn forsetans þar, seinustu vikur. Samkvæmt þessari nýju könnun, nýtur Bush forseti nú fylgis 51% kjósenda en Kerry hefur 46%, er einungis er spurt um þá tvo. Þegar spurt er um fylgi við þá þrjá: Bush, Kerry og neytendafrömuðinn Ralph Nader sem er óháður frambjóðandi í kosningunum, mælist fylgi Bush 50%, Kerry 44% og Nader fékk þá 4%. Í svipaðri könnun sem gerð var í byrjun mánaðarins var ekki marktækur munur á frambjóðendunum, Bush hafði þá 48% og Kerry 45%. Aukin harka er að færast í kosningabaráttuna. Rúmt hálft ár er til kjördags, 2. nóvember nk. og greinilegt á öllu að frumundan er ein beittasta kosningabarátta seinni tíma vestanhafs. Væntanlega mun kosningabaráttan ná hámarki eftir flokksþing stóru flokkanna í sumar, þar sem línurnar verða lagðar og baráttan sett á fullt.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu ítarlegur pistill eftir Óla sem fjallar um Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Í pistlinum segir svo: "Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarna daga í kjölfar frétta um að hann hafi lagst gegn innrás Bandaríkjamanna í Írak í fyrra. Fæstir vita þó að hann á að baki glæstan feril í hernum og hefur honum stundum verið líkt við Dwight D. Eisenhower (1890-1969) fyrverandi forseta Bandaríkjanna og eins sigursælasta hershöfðingja Bandaríkjahers. Frami Powell er ævintýri líkastur, hann ólst upp í fátækrahverfum New York-borgar og honum gekk framan af mjög illa í skóla. Hann lét þó mótlætið ekki buga sig og skráði sig í herinn og hóf að klífa metorðastiga hersins. Þegar Powell hætti í hernum fyrir aldurs sakir gegndi hann æðsta embætti hersins." Fer Óli vel yfir störf Powells í bandaríska hernum og aðdragandann að því að hann varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta. Hvet alla til að lesa þennan fína pistil. Bendi ennfremur lesendum vefsins á góða Moggagrein Gunnars Ármannssonar og fjallar um kærunefnd jafnréttismála.

Bringing down the HouseGóðir þættir - kvikmynd
Var hið fínasta sjónvarpskvöld í gær. Eftir fréttatímana horfðum við á vandaðan heimildarþátt um ævi bresku skáldkonunnar George Eliot og síðar um kvöldið á lokaþátt eins lífseigasta þáttar hjá Ríkissjónvarpinu, Nýjasta tækni og vísindi. Hefur þátturinn verið á skjánum í rúm 30 ár og á þeim tíma hafa Örnólfur Thorlacius og Sigurður H. Richter, séð um hann, Sigurður einn seinustu 20 árin. Horfði ég stundum á þessa þætti og verður vissulega sjónarsviptir að þeim, enda oft margt athyglisvert þar sem fjallað var um. Eftir tíufréttirnar horfðum við á hina mögnuðu gamanmynd Bringing down the House með Steve Martin og Queen Latifah í aðalhlutverkum. Fjallar um lögfræðinginn Peter Sanderson sem ennþá er yfir sig ástfanginn af fyrrum konunni sinni Kate, og skilur ekkert í afhverju hún fór frá sér. Hann er ósköp einmana eftir skilnaðinn og ákveður til að reyna að koma lífi sínu á réttan kjöl að kynnast öðrum konum. Hann fer að spjalla við Charlene, á spjallrás á Netinu og hefur hug á að kynnast henni betur. Þegar á reynir er hinsvegar ljóst að Charlene hefur ekki alveg gefið upp réttar upplýsingar um sig og uppruna sinn og fortíð. Fyrr en varir hefur hún snúið lífi Peters alveg við. Í heildina er myndin hin besta skemmtun og ættu allir að geta hlegið að henni og átt notalega kvöldstund. Það var allavega þannig hjá okkur.

Dagurinn í dag
1602 Einokunarverslun Dana hófst á Íslandi - hún stóð í tæpar tvær aldir, lauk í árslok 1787
1950 Þjóðleikhúsið vígt - fyrstu verkin á fjalir leikhússins voru Nýársnótt og Íslandsklukkan
1972 11 íslenskir námsmenn réðust í sendiráð Íslands í Stokkhólmi og héldu því í tvær stundir
1999 Fjöldamorð í Columbine skólanum í Denver í Colorado-fylki - tveir nemendur skólans, Eric Harris og Dylan Klebold, drápu 13 manns í skothríð og frömdu að því loknu sjálfsvíg
2000 Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu vígt við hátíðlega athöfn

Snjallyrði dagsins
Ríkið er goðsögnin mikla um að allir geti lifað á kostnað annarra.
Frederic Bastiat