Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 apríl 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Ítarleg umræða var í dag á þingi um skýrslu fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra. Kynnti þar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, skýrsluna í ítarlegri framsögu og fór yfir ýmsa þætti skýrslunnar og niðurstöðu hennar. Tjáði hún þar ítarlega afstöðu sína til niðurstaðnanna. Sagði hún samþjöppun í eignarhaldi fjölmiðla hvergi meiri en hér í hinum vestræna heimi. Ekki væri tilviljun að hvort sem litið sé til Evrópu eða Bandaríkjanna hafi menn talið nauðsynlegt að sporna gegn þróun af þessu tagi. Réðist hún óhikað að Samfylkingunni fyrir að skauta framhjá tilmælum Evrópuráðsins um eignarhald á fjölmiðlum þar sem þau henti ekki flokknum á þessum tímapunkti. Benti hún í máli sínu á umræður á þingi í febrúar 1995, þar sem núverandi forseti Íslands og þrír þingmenn Samfylkingarinnar tjáðu mikilvægi þess að setja lög um eignarhald fjölmiðla. Núverandi forseti var skorinorður í ræðu sinni og það ættu fáir að efast um afstöðu hans á þeim tímapunkti er þeir lesa ræðuna. Umræða á þingi í dag snerist ekki að mestu skýrsluna, heldur meira væntanlegt fjölmiðlafrumvarp forsætisráðherra sem verður rætt eftir helgina. Greinilegt er að stjórnarandstæðingar hafa tekið algjöra u-beygju í þessum málum frá febrúar 1995 þegar þáverandi höfuðforkólfar látinna stjórnmálaflokka vinstrisins möluðu sem hæst. Miðað við umfang umræðnanna í dag og átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu má búast við heitum umræðum um sjálft frumvarpið.

FréttablaðiðÍ gær fjallaði ég um ótrúlegan fréttaflutning dagblaða Norðurljósa, allir þeir sem litið hafa á þessi blöð seinustu daga hafa tekið eftir einhliða og ómálefnalegri umfjöllun þeirra um fjölmiðlamálið. Sérstaka athygli vakti er blaðið framkvæmdi skoðanakönnun um fjölmiðlafrumvarpið, áður en það var opinberlega kynnt og skýrslan formlega orðin opinber. Með fullri virðingu fyrir almenningi, leyfi ég mér að efast um að allir landsmenn hafi verið búnir að kynna sér alla þætti málsins á sunnudagskvöld er könnunin var gerð, t.d. lesið frumvarpið. Það er lágmarkskrafa sem hægt er að gera til fjölmiðla að umfjöllun sé á málefnalegan hátt og fagleg. Það er með algjörum ólíkindum að sjá á hverjum degi hvernig fréttamiðlar Baugs, einkum dagblöðin eru notuð til að kynda upp einhliða umfjöllun um málefni ríkisstjórnarinnar og ráðist að fólki. Í dag birtist skoðanakönnun sem virðist hönnuð til að sýna almenningi að frumvarpið skaði stjórnarflokkana eða málstað þeirra sem eru kjörnir fulltrúar þeirra. Athyglisvert er að í umfjöllun um könnunina er hvergi birt hversu margir neituðu að svara eða hversu hátt svarhlutfallið var. Svo vekur enn meiri athygli að Frjálslyndi flokkurinn sem nær ekki 5% lágmarki til að fá jöfnunarmenn, fær þrjá þingmenn kjörna skv. könnuninni. Það fær ekki staðist, flokkur með þetta fylgi hefur 1 eða 2 í mesta lagi og þá kjördæmakjörna, fær enga jöfnunarmenn. Til að kóróna skítkastið er fréttastjóri blaðsins með eina rógsgreinina enn á baksíðu blaðsins. Hvet alla til að kynna sér þessi óvönduðu og ófagmannlegu vinnubrögð sem þessir lágkúrulegu fjölmiðlar beita dag hvern.

Ríkisútvarpið við EfstaleitiAð mínu mati er fyllilega eðlilegt að taka upp umræðu um breytt regluform á fjölmiðlun hér á landi. Það skal fúslega viðurkennt að ég hef ekki verið mjög hlynntur því að ríkið setti skorður á regluramma hérlendis á fjölmiðlarekstri en eftir að hafa fylgst með einhliða áróðursmennsku fréttamiðla Baugs seinustu daga er ég óðum að komast á aðra skoðun. Tel rétt að taka umræðuna um þetta og kanna alla þætti málsins. Að mínu mati er þó enn mikilvægara að huga að uppstokkun Ríkisútvarpsins. Er enginn vafi á því í mínum huga að einkavæða eigi stofnunina og ríkið að hætta fjölmiðlarekstri. Ljóst er nú að stjórnarflokkarnir eru orðnir samstiga um að leggja niður afnotagjöldin og taka upp breytt form á því sviði. Það er svosem hænuskref í rétta átt, en betur má ef duga skal. Breyta þarf rekstrarforminu og síðar stefna að sölu fyrirtækisins, ef vel á að vera og færa fjölmiðlun hér í rétta átt. Uppstokkun á RÚV er ekki bara mikilvæg, heldur tímabær.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Kári Þór um íþrótta- og tómstundarekstur einkaaðila. Orðrétt segir: " þessu ári er áætlað að framlag borgarsjóðs, þ.e.a.s. skattpeningarnir okkar, verði 2,6 milljarðar til ÍTR en hækka svo að ári í 3 ma. Mér finnst þetta vera þremur milljörðum of mikið. Hversvegna megum við ekki ákveða sjálf hvaða áhugamál við viljum greiða fyrir? Til marks um þann litla hvata sem sveitarfélög hafa til þess að reka sundlaug er að í framtíðaráætlunum er búist við að aðsókn að sundlaugum muni standa í stað næstu fimm árin. Það er enginn hvati til staðar hjá Reykjavíkurborg til þess að auka aðsóknina að sundlaugunum vegna þess að þeir sjá sér engan hag í því. Einkarekstur á félagsmiðstöðvum er velþekktur í útlöndum t.d. í Bretlandi. Þar er það fátítt að hið opinbera reki starfsemi einsog félagsmiðstöðvar, vegna þess að þeir vita að einkarekstur er mun betri í alla staði. Það varð heldur en ekki meira upplit á hópi krakka sem komu frá Bretlandi seinasta sumar til þess að heimsækja Ísland þegar þeir heimsóttu félagsmiðstöð hér í Reykjavík. Munurinn var gífurlegur á allri aðstöðu. Mér finnst vinnumiðlunar starfssemi Hins hússins í samkeppni við einkaaðila vera algjör tímaskekkja og eigi ekki rétt á sér á 21. öldinni. Ég held að fáir andmæli því að einkaaðilar geti ekki rekið vinnumiðlun." Ennfremur bendi ég á ályktun stjórnar Heimdallar um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Íslenski draumurinnSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Gærkvöldið var mjög gott. Horfði á báða fréttatímana venju samkvæmt. Leit á Kastljósið þar sem Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, var gestur Kristjáns og Svansíar. Var þar rætt um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar og farið yfir marga fleti þessa máls, t.d. skýrsluna og niðurstöður hennar. Horfði svo á bæjarfréttirnar á Aksjón, og svo endursýningu á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudags, en ég missti af frumsýningu af fundinum fyrir viku. Að því loknu var horft á tíufréttir. Fékk heimsókn rétt eftir 10, þá leit Gunni vinur minn, við í kaffispjall. Eftir að hann fór horfðum við á meistaraverkið The Sixth Sense. Myndin segir frá virtum barnasálfræðingi, Malcolm Crowe, sem hefur tekið að sér að hjálpa átta ára gömlum strák, Cole Sear, að vinna bug á ótta sínum, en hann er gæddur þeim yfirskilvitlega hæfileika að geta séð hina dauðu og talað við þá. Málið er Malcolm einkar hugleikið því nokkrum árum fyrr hafði hann glímt við svipaðan vanda sem annar drengur átti við að stríða, en mistekist með þeim afleiðingum að drengurinn framdi sjálfsmorð á heimili Malcolms sjálfs. En er allt sem sýnist...? Frábær mynd. Haley Joel Osment, Bruce Willis og Toni Collette fara á kostum í aðalhlutverkunum. Þessi mynd er alltaf pottþétt.

Dagurinn í dag
1237 Bardagi háður að Bæ í Borgarfirði - féllu meira en 30 manns í þessum stórbardaga
1819 Tukthúsið í Reykjavík gert að embættisbústað - þar er nú skrifstofa forsætisráðherra
1945 Benito Mussolini fyrrum einræðisherra Ítalíu, tekinn af lífi á flótta ásamt ástkonu sinni
1969 Charles De Gaulle forseti Frakklands, biðst lausnar eftir ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu
1986 Sovétstjórnin viðurkennir loks tilvist kjarnorkuslyss í Chernobyl

Snjallyrði dagsins
Í hádeginu notaði ég tækifærið og fékk mér kínverskt nudd, sem var afar gott. Stúlkan sem nuddaði mig kunni greinilega til verka.
Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, í umfjöllun um Kínaferðina á heimasíðu sinni