Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 júní 2004

StjórnmálaflokkarnirHeitast í umræðunni
Skoðanakannanir Fréttablaðsins vekja oftast athygli að því er virðist vera í samfélaginu. Þó hefur sést að undanförnu að útkoma kannananna skipta mismiklu máli þegar kemur að því að slá þeim upp sem forsíðufrétt. Fyrir skömmu mældist Samfylkingin stærri en stjórnarflokkarnir til samans og þá var þeirri frétt slegið upp á forsíðu með stóru letri. Í dag birtist könnun þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist með meira fylgi en í þingkosningunum fyrir rúmu ári og því er auðvitað slegið upp í smárri klausu efst á forsíðu með vísan til fréttar inn í blaðinu. Kannski er þetta bara dæmi um fréttamat Fréttablaðsins og hvað þeir telja fréttir og ekki fréttir. Ég hélt að þeim þættu það fréttir að forystuflokkur ríkisstjórnarinnar fengi slíka mælingu eftir eitt mesta gerningaveður íslenskra stjórnmála, hin seinni ár að minnsta kosti. Það eru margir óákveðnir í þessari könnun, en þó taka fleiri afstöðu en seinast. Samfylkingin hefur naumt forskot á Sjálfstæðisflokkinn, skv. könnuninni. Framsóknarflokkurinn stendur veikt, vinstri grænir dala smá miðað við seinustu könnun og Frjálslyndir hafa rúm 3% sem kemur ekki á óvart miðað við framgöngu forystumanna þess flokks seinustu mánuði. Ríkisstjórnin bætir við sig fylgi í könnuninni. Ef eitthvað er að marka þessa könnun er rykið tekið að setjast vegna lagasetningarinnar um eignarhald á fjölmiðlum og landsmenn að átta sig vonandi á meingölluðum og fjarstæðukenndum málflutningi stjórnarandstöðunnar sem virðist stjórnast af einhverju allt öðru en efnislegri umræðu og áhuga á að ræða málið beint.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, sagði í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins í morgun að frumvarp um RÚV yrði lagt fram á þingi í haust, unnið væri að því þessa dagana að hefja vinnu við að semja frumvarp til breytinga á útvarpslögum. Hefur þetta legið fyrir nú í nokkrar vikur og fjallaði ég um þær tillögur sem líklega verða lagðar fram í bloggfærslu þann 28. maí sl. Eins og þá kom fram tel ég þær tillögur ganga alltof skammt og vera langt í frá fullnægjandi. Þorgerður sagði í viðtalinu í morgun að RÚV yrði aldrei selt meðan ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks væri við völd. Eru það svipuð ummæli og hún lét falla í tímaritsviðtali fyrr á þessu ári. Er ég algjörlega ósammála hennar mati og er gáttaður á því að hún fullyrði með þessum hætti og útiloki með öllu sölu á stofnuninni. Er svo komið að ég get ekki stutt framgöngu hennar í málefnum RÚV og tel hana á algjörum villustigum. Hef ég skrifað margar greinar þar sem ég hef skrifað um mjög ólíkar skoðanir mínar og ráðherrans um þetta tilgangslausa ríkisbákn á fjölmiðlamarkaði. Er ég almennt séð mjög ósáttur við framgöngu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og almennt dugleysi við að reka á eftir landsfundarsamþykktum flokksins um RÚV. Get ég ekki annað sagt en að framganga hennar og forsætisráðherrans í þessu máli valdi mér vonbrigðum og vona að þau hætti að standa í stað í þessum efnum. Það er fyrir löngu kominn tími til að þau vinni að breytingum á rekstrarfyrirkomulaginu, eins og er vilji flokksmanna.

Og eitt að auki. Ekkert hefur enn heyrst í Ólafi Ragnari, en hann lofaði á fundi með blaðamönnum fyrir tæpri viku að svara spurningum þeirra fljótlega. Virðist forseti almennt ekki vera hræddur við sviðsljósið og því undarlegt að hann sé nú í felum. Kannski er hann að finna upp eitthvað plott til að bjarga sér úr flækjunni, eitthvað er allavega undarleg töfin á því að hann útskýri efnislega ástæður ákvörðunar sinnar og rökstyðji gjána sem hann gaf í skyn að væri til staðar. Gæti verið að breyting verði þar á, á næstunni enda hefur mótframbjóðandi hans til forsetaembættisins, Ástþór Magnússon, skorað á hann í kappræður um fjölmiðlalögin og ákvörðun Ólafs, í Kastljósinu, áður en þátturinn fer í sumarleyfi í lok vikunnar. Gullið tækifæri er þarna fyrir Ólaf til að tala hreint út um málin. Ástþór fær prik fyrir að skora á forseta á hólm í kappræðum í Kastljósinu, og reyna að lokka hann fram í sviðsljósið á ný.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraPistill Björns
Í pistli á heimasíðu sinni fjallar Björn um andlát Reagans forseta, valdaerjur innan R-listans og umræður um þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalög og hvort setja eigi lágmarkskjörsókn svo niðurstöður hennar teljist gildar. Í hlutanum um Reagan segir svo: "Ronald Reagan verður talinn meðal merkustu forseta Bandaríkjanna. Hann þorði að taka umdeildar ákvarðanir og standa við þær, hvað sem tautaði og raulaði. Hann sætti gagnrýni ekki síst frá hinum talandi stéttum, fjölmiðlungum, háskólafólki og kaffihúsaspekingum, án þess að láta það hið minnsta á sig fá. Hann var sakaður um að stofna heimsfriðnum í hættu, vegna þess að hann vildi ekki una hernaðarlegum yfirburðum Sovétmanna. Hann yfirgaf fundinn í Höfða, án þess að láta undan og hélt fast við áform sín um stjörnustríðsáætlunina. Hann hafði skýr markmið, skýrði þau á einfaldan hátt og hélt ótrauður að þeim. Honum var einstaklega lagið að ná til áheyrenda sinna og hafði næma tilfinningu fyrir æðaslögum bandarísku þjóðarinnar. Hann var glaður og reifur og gat snúið málum sér í vil á leiftrandi hátt. Hans verður minnst fyrir að halda þannig á málum gagnvart Sovétríkjunum, að þau báru ekki sitt barr eftir friðsamleg átök við hann og lögðu síðan upp laupana. Ég tel forréttindi að hafa sinnt störfum sem fréttaskýrandi og fréttastjórnandi erlendra málefna á Morgunblaðinu í forsetatíð Reagans og hafa haft tækifæri til að fylgjast með störfum hans og stefnu frá degi til dags auk þess að taka þátt í að verja stefnu hans og Atlantshafsbandalagsins gagnvart úrtölumönnum, sósíalistum og kommúnistum hér á landi á níunda áratug tuttugustu aldarinnar."

Áhugavert á Netinu
Umfjöllun um skattadaginn og skattadagsskýrslu Heimdallar
Tengsl forsetans við Norðurljós eru augljós - pistill Jóns Hákons Halldórssonar
Konungsveldi á Íslandi? - pistill Stefáns Ottós Stefánssonar
Bandaríkjamenn minnast Reagans forseta - minningarathöfn
Margaret Thatcher og Bush-feðgarnir flytja minningarræður um Reagan
Umfjöllun um andlát Reagans - jarðarför Reagans á föstudag
Þingflokkur sjálfstæðismanna er einhuga að baki forsætisráðherra
Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalög í athugun
Ástþór Magnússon vill mæta forseta í sjónvarpskappræðum
Hafrannsóknarstofnun leggur fram tillögu um minni þorskafla á næsta ári
Fundir framundan á Akureyri og í Hrísey vegna sameiningarkosningar
Sorpeyðing Eyjafjarðar bs. opnar glæsilega heimasíðu á Netinu
Ruslasafnarar ætla að hreinsa allt rusl af hæsta fjalli heims, Mount Everest
Van Morrison á leið til Íslands - með tónleika í Laugardalshöll 2. október
Vandaður alfræðivefur fyrir alla þá sem vilja grúska í mannkynssögunni
Phylicia Rashad vinnur Tony leiklistarverðlaunin, fyrst blökkukvenna
Leikir gærkvöldsins í Landsbankadeildinni í fótbolta - EM hefst um helgina

Dagurinn í dag
452 Atli Húnakonungur, ræðst inn í Ítalíu - einn stærsti sigur hans
1783 Skaftáreldar hófust með eldgosi úr Lakagígum - eitt mesta eldgos sögunnar á Íslandi
1866 Kanadíska þingið kemur saman í fyrsta skipti í Ottawa - Kanada er undir stjórn Englands
1968 James Earl Ray handtekinn fyrir morðið á Martin Luther King - lést í fangelsi árið 1999
1982 50 Bretar farast í loftárás argentínska hersins á tvö birgðaskip á Falklandseyjum

Snjallyrði dagsins
Whatever else history may say about me when I'm gone, I hope it will record that I appealed to your best hopes, not your worst fears; to your confidence rather than your doubts. My dream is that you will travel the road ahead with liberty's lamp guiding your steps and opportunity's arm steadying your way.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)