Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 maí 2004

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraHeitast í umræðunni
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, stefnir að því að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á útvarpslögum á næsta þingi og ætlar að vinna að því í sumar að ná endanlegu samkomulagi milli stjórnarflokkanna um breytingar á Ríkisútvarpinu. Undirbúningsvinna er þegar hafin og nefnd sem mun vinna að þessu mun taka til starfa innan skamms og skila af sér skýrslu og tillögum að frumvarpi í lok sumarsins. Ráðherra stefnir að því að ná einkum samkomulagi um að leggja niður afnotagjöldin og gjörbreyta hlutverki útvarpsráðs, til greina kemur að afnuma pólitíska stjórnun á því. Vill ráðherra að í stað afnotagjaldanna verði tekinn upp nefskattur eða jafnvel gjöld tengd fasteignagrunni. Jafnframt breytingunum yrði stjórnskipulag RÚV stokkað upp. Tillögur ráðherra sem fyrr eru nefndar eru ágætis byrjun á allsherjarbreytingum á rekstrinum. Það er undarlegt að ekki eru nefndar tillögur sem leiða að breytingum á sjálfu rekstrarfyrirkomulaginu, þannig að líklegt er að ráðherra ætli ekki einu sinni að vinna að breytingum í þá átt. Það er alveg lágmark í stöðunni að rekstur RÚV verði hlutafélagavæddur, allt annað er tímaskekkja. Helst ætti reyndar að selja stofnunina. Löngu er kominn tími til að afnema afnotagjöldin, en hafna ber annarskonar skattheimtu. Þeir sem vilja borga áskrift sjálfviljugir eiga að halda uppi rekstrinum, ekki á að halda áfram á sömu braut og verið hefur. Þessar tillögur eru fín byrjun, en ganga alltof skammt til raunverulegra breytinga.

ÞingsalurSamkomulag hefur náðst milli þingflokkanna að ljúka þingstörfum í kvöld. Með því samkomulagi náðist sameiginleg niðurstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að fresta tveimur stjórnarfrumvörpum, annarsvegar frumvarpi um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hinsvegar frumvarpi um breytingar á einkamála- og þjóðlendulögum. Þingmál er lúta að rjúpnaveiðum, vændi og áfengiskaupaaldri falla líka út af dagskránni og verður frestað til hausts. Mjög slæmt er að ekki hafi náðst að klára að samþykkja frumvarp um áfengiskaupaaldurinn, enda er það stórt skref fram á við og mikilvægt að fá það í gegn. Væntanlega verður það mál klárað síðar á árinu, eftir að þing kemur saman í haust. Það sem þó verra er á þessari stundu er að allt stefnir í það að tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum verði ekki lagðar fram fyrir lok vorþingsins. Í upphafi vikunnar sagði fjármálaráðherra að tillögurnar yrðu kynntar fyrir lok þingsins, en það virðist ekki ætla að ganga eftir vegna mikillar andstöðu framsóknarmanna. Það er ekki bara nauðsynlegt að leggja tillögurnar fram nú, heldur mikilvægt til að standa við gefin loforð til kjósenda í þingkosningunum fyrir rúmu ári. En það er greinilegt að framsóknarmenn vilja ganga á bak orða sinna.

George W. Bush og John KerryGreinilegt er á öllu að John Kerry forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, er orðinn margsaga í Íraksmálinu eins og flestum öðrum stefnumálum. Í gær hélt hann ræðu í Seattle, við upphaf 11 daga kosningaferðar sinnar um Bandaríkin, og gagnrýndi þar harðlega George W. Bush forseta, og utanríkisstefnu stjórnar hans. Reynir Kerry að fjarlægjast stefnu forsetans sem mest, í kjölfar ræðu forsetans um framtíðarskipun mála í Írak. Kerry hefur rekið sig á hvern vegginn eftir öðrum í kosningabaráttunni, trúverðugleiki hans jafnvel meðal skráðra demókratakjósenda hefur minnkað, einkum í ljósi auglýsingaherferðar Bush sem sýnir svo ekki verður um villst að Kerry er orðinn margsaga í afstöðu sinni til Íraks á rúmu ári, eða eftir að hann hóf kosningabaráttu sína á fullu. Kerry er því vandi á höndum og rær nú róður sem mest frá fyrri orðum sínum um málið. Rúmir fimm mánuðir eru til forsetakosninganna, 2. nóvember nk.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Tveir virkilega góðir pistlar á frelsinu í dag. Annarsvegar er pistill eftir Jón Elvar um skattamál. Þar segir orðrétt: "Sú stefna sem verið hefur í skattamálum hér á landi og hefur leitt til verulegrar lækkunar á tekjuskattshlutfalli félaga, eignarskatti, fjármagnstekjuskatti, erfðafjárskatti o.fl. verður að telja mjög til bóta frá því ástandi sem áður ríkti. Jafnframt verður að telja að boðaðar breytingar til lækkunar á tekjuskattshlutfalli einstaklinga og afnám eignarskatts verði til að bæta ástandið hér í skattamálum enn frekar þó auðvitað megi gera enn betur." Einnig er pistill eftir Helgu um jafnréttismál. Þar segir orðrétt: "Jafn réttur einstaklinga fyrir lögum og gegn ómálefnanlegri mismunun á ekkert skylt við jöfnun hlutfalla milli einstakra hópa samfélagsins. Slíkar jöfnunaraðgerðir geta þvert á móti brotið gegn jafnrétti með því að draga inn (kven)kyn sem sérstakan verðleika í stjórnun fyrirtækja. Jafnréttisbarátta fyrri alda snerist að miklu leyti um að litið væri á konur sem hæfa starfskrafta þrátt fyrir kyn þeirra. Hún snerist um að uppræta allar þær forneskjulegu hugmyndir um konur sem leiddu til þess að lítið var gert úr verðleikum þeirra. Í dag eru slík viðhorf úreld og ekki nema einstaka flón sem heldur því fram að konur geti ekki sinnt störfum jafn vel og karlar sökum þess að þær séu svo miklar tilfinningaverur eða kunni ekki rökhugsun." Góðir pistlar, sem ég hvet lesendur þessa vefs til að kynna sér.

SólVeðurblíða
Mikil veðurblíða hefur verið hér seinustu daga á Norðurlandi, sannkölluð hitabylgja. Það er freistandi að álykta sem svo að sumarið sé komið, allavega hefur fólk verið alsælt yfir veðrinu. Á miðvikudag fékk ég í heimsókn gesti sem verða hér fram að helgi, hefur verið gott að geta notað tímann seinnipartana til að sýna þeim bæinn og svona kynna þeim það helsta, sem þau vilja skoða. Það er svo margt sem stendur upp úr sem hægt er að sýna ferðafólki hér, það eru auðvitað öll söfnin, fórum t.d. í gær að sjá listsýninguna í Listasafninu þar sem eru myndir Goya. Í gærkvöldi fórum við út í Hrísey, alltaf gaman að koma þangað. Bráðum verða Akureyri og Hrísey eitt sveitarfélag, sem er mjög gott. Fengum okkur að borða á veitingastaðnum Brekku, útsýnið er alltaf unaðslegt frá veitingastaðnum yfir í land. Fórum svo á eftir smá göngutúr um eyjuna en tókum svo ferjuna til baka. Er aftur kom heim til Akureyrar fórum við í bíó og á eftir á kaffihús. Í dag er enn sama einstaka veðurblíðan og nú er bara að vona að hitabylgjan verði hjá okkur yfir helgina.

Dagurinn í dag
1972 Edward VIII deyr í Frakklandi, 77 ára að aldri. Hann varð konungur Englands í janúar 1936, en varð að segja af sér krúnunni í desember sama ár til að geta gifst unnustu sinni, Wallis Warfield Simpson. Hún var tvífráskilin og þingið og þjóðkirkjan sættu sig ekki við ráðahaginn. Frá afsögn sinni til dauðadags bjó Edward í útlegð í Frakklandi og sleit nær öllu sambandi við fjölskyldu sína, en hafði undir lok ævi sinnar mikil samskipti við Karl ríkisarfa, frænda sinn
1978 Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn fellur - vinstriflokkar ná meirihluta
1983 Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli, það stóð einungis í nokkra daga
1994 R-listinn vinnur kosningasigur í borgarstjórnarkosningum - hefur setið við völd síðan
1999 Þriðja ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tekur við völdum - hún sat til ársins 2003

Snjallyrði dagsins
Í 26. grein stjórnarskrár er forseta veitt heimild til að synja lagafrumvarpi staðfestingar, þar eð enginn forseti hefur beitt þessu ákvæði er það í reynd dauður bókstafur.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands (um 26. grein stjórnarskrár - 1977)