Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 ágúst 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, tilkynnti formlega á laugardag á fundi með blaðamönnum að hann hefði í hyggju að taka við embætti utanríkisráðherra, samhliða ráðherrahrókeringum í ríkisstjórninni eftir mánuð, 15. september nk. Með yfirlýsingu Davíðs er því ljóst að hann og Halldór Ásgrímsson munu einfaldlega skipta á ráðuneytum eftir mánuð og jafnframt er komið á hreint hvernig ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins verður eftir hrókeringarnar. Hún verður óbreytt fyrir utan það að Davíð tekur við utanríkisráðuneytinu og Sigríður Anna Þórðardóttir verður umhverfisráðherra, samhliða því að sjöundi ráðherrastóllinn færist til okkar og framsóknarmenn fá fimm í stað sex áður. Davíð hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að Sjálfstæðisflokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Forysta hans í borgar- og landsmálum seinustu áratugi hefur verið okkur mikilvæg, og er mjög gott að hann hefur tilkynnt um pólitíska framtíð sína að því leyti að fyrir liggur að hann verði áfram ráðherra eftir að hann lætur af forsætisráðherraembættinu, nú í haust. Það er mikilvægt að til starfa í utanríkisráðuneytið veljist af hálfu flokksins, sterkur og traustur forystumaður sem hefur mikla þekkingu á málaflokknum og er sköruglegur talsmaður fyrir málaflokkinn. Fáir efast um hæfni Davíðs til að leiða þennan málaflokk, hann hefur sem forsætisráðherra leitt landsstjórnina með farsælum hætti og það er enginn vafi á því að forysta hans í utanríkismálum verður traust. Framundan eru mörg stór málefni á verksviði utanríkisráðuneytisins og enginn vafi á því í mínum huga að margt þurfi þar að stokka upp, gott dæmi er utanríkisþjónustan sem slík sem hefur tútnað út í valdatíð Halldórs Ásgrímssonar. Er nauðsynlegt að tekið sé á henni með markvissum hætti af sjálfstæðismönnum eftir ráðherraskiptin.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherraÁ sama tíma og ráðherramál Sjálfstæðisflokksins virðast að mestu leyst og frágengin, eru mikil læti og átök innan Framsóknarflokksins með ráðherramál flokksins. Samhliða því að formaður flokksins tekur við forsætisráðuneytinu verður þingflokkurinn að velja fimm til setu í ríkisstjórn í stað sex áður. Þingmönnum og forystu flokksins er því mikill vandi á höndum, enda vill enginn sitjandi ráðherra flokksins víkja af stóli sínum og allir berjast fyrir því að sitja áfram. Mikið hefur verið um það rætt að Siv Friðleifsdóttir sé ótrygg með stöðu sína í ljósi þess að ráðuneyti hennar færist til Sjálfstæðisflokks. 40 framsóknarkonur auglýsa í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í dag til að vekja athygli á því að konur hafi leitt helming framboða flokksins í seinustu alþingiskosningum og gera kunnugt með því að þær vænti þess nú að þingflokkurinn virði lög Framsóknarflokksins um jafnrétti og standi undir væntingum kjósenda við val á ráðherrum nú þegar flokkurinn taki við forsæti í ríkisstjórn. Enginn vafi er á því að þessi auglýsing er sett fram til að verja stöðu Sivjar. Þessi auglýsing hefur leitt til ágreinings og hefur Hjálmar Árnason þingflokksformaður, minnt á að framsóknarkonur eigi ágætan aðgang að þingmönnum flokksins og hefðu getað tjáð skoðun sína á miðstjórnarfundi. Dagný Jónsdóttir alþingismaður, segist í pistli á vef sínum furða sig á því að þingflokknum skuli ekki treyst til að velja hæfustu manneskjuna í ráðherrastól og veltir fyrir sér hvort þessi barátta snúist frekar um framgang ákveðinna kvenna frekar en kvenna almennt. Það logar því allt í illdeilum og óskiljanlegt hvers vegna formaður flokksins útkljáði ekki ágreining um ráðherrastóla strax í maí í fyrra en leyfir þessu að malla svo lengi. Óneitanlega er langlíklegast að Siv Friðleifsdóttir muni missa ráðherrastólinn við þessar aðstæður.

Árni Ragnar Árnason (1941-2004)Árni Ragnar Árnason (1941-2004)
Árni Ragnar Árnason alþingismaður og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, lést á Landsspítalanum í gær. Árni Ragnar fæddist á Ísafirði þann 4. ágúst 1941. Hann var formaður Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Keflavík 1966 til 1971, og átti sæti í stjórn SUS, 1969-1974. Hann átti sæti í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Keflavík, síðar Reykjanesbæ, frá 1964 og var formaður þess 1987-1991. Hann var í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi og síðar Suðurkjördæmis frá 1966. Hann var bæjarfulltrúi í Keflavík 1970-1978. Árni Ragnar var fyrst kjörinn á Alþingi árið 1991 sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi. Hann leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í hinu nýja Suðurkjördæmi í alþingiskosningunum 2003 og sat á þingi af hálfu kjördæmisins frá 2003 til dánardægurs. Á Alþingi átti hann sæti í fjölmörgum fastanefndum, var t.d. formaður sjávarútvegsnefndar þingsins. Árni Ragnar var fulltrúi þingflokksins í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Eftirlifandi eiginkona Árna Ragnars er Guðlaug P. Eiríksdóttir og eiga þau fjögur uppkomin börn. Árni hafði háð hetjulega baráttu við krabbamein með hléum í tæpan áratug. Æðruleysi hans og ótrúlegur styrkur í erfiðum veikindum var aðdáunarverður og skarð er fyrir skildi hjá Sjálfstæðisflokknum við andlát þessa mæta félaga okkar. Ég vil á þessari stundu votta fjölskyldu og vinum Árna samúð mína, og sendi þeim innilegar kveðjur mínar. Minning um góðan mann lifir.

Áhugavert á Netinu
Umræða um Evrópumálin - pistill Stefáns Friðriks Stefánssonar
Davíð Oddsson verður utanríkisráðherra við ráðherrahrókeringar
Halldóri Ásgrímssyni líst mjög vel á ákvörðun Davíðs Oddssonar
Umfjöllun um áróðursmynd Michael Moore - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Umfjöllun um vinstrimenn og tekjuskattinn - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Líf eftir stjórnmálaþátttöku - dagblaðspistill Valgerðar Bjarnadóttur
Framsóknarkonur mótmæla í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í dag
Dagný ósammála framsóknarkonum - Hjálmar undrandi á auglýsingu
Aðild að Evrópusambandinu myndi þýða afsal fiskveiðistjórnunar
Sjö aðilar sóttu um stöðu ráðuneytisstjóra í Félagsmálaráðuneytinu
Kosningabarátta á fullu í Bandaríkjunum - auglýsingaslagurinn harður
John Kerry lætur sækja hárgreiðslukonu frá Washington til sín í Oregon
Gerhard Schröder og kona hans ættleiða þriggja ára rússneska stelpu
Spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey tekur sæti í kviðdómi í morðmáli
Travis Bickle úr kvikmyndinni Taxi Driver, valinn besta andhetjan í könnun

Dagurinn í dag
1945 Indónesía hlýtur fullt sjálfstæði frá Hollandi, eftir að hafa barist fyrir sjálfstæði til fjölda ára
1982 Furstahjónin af Mónakó, Grace Kelly og Rainier, komu í heimsókn til landsins ásamt börnum sínum, Albert og Stefaníu. Grace furstaynja lést af völdum áverka í bílslysi í Mónakó mánuði síðar
1987 Rudolf Hess, einn nánasti samstarfsmaður Hitlers, sviptir sig lífi í Spandau fangelsinu
1988 Muhammad Zia ul-Haq leiðtogi Pakistans, ferst í flugslysi - talið að hann hafi verið myrtur
1998 Bill Clinton forseti, viðurkennir að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Monicu Lewinsky

Snjallyrði dagsins
Hvernig væri það, ISG, að hreinsa til í borginni í stað þess að læðupokast á þingi?
Jónas Bjarnason efnaverkfræðingur (í grein í Morgunblaðinu - 16. ágúst 2004)