Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 september 2004

Davíð Oddsson utanríkisráðherraForsætisráðherraskipti í ríkisstjórn Íslands
Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, lét af embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum, eftir hádegið í dag og tók við embætti utanríkisráðherra við sama tilefni. Með því lýkur 13 ára samfelldri setu hans í forsæti ríkisstjórnar Íslands. Hefur hann setið lengur í forsæti ríkisstjórnarinnar en nokkur annar Íslendingur, þrem árum lengur en sá sem næstlengst sat, Hermann Jónasson. Davíð hefur setið á stóli forsætisráðherra landsins frá 30. apríl 1991, eða í 4522 daga, samtals 13 ár, 4 mánuði og 16 daga. Davíð sat á 13 ára forsætisráðherraferli í forsæti fjögurra ríkisstjórna. Fyrst sat hann í ríkisstjórn með Alþýðuflokknum, til aprílmánuðar 1995, og frá þeim tíma hefur hann starfað með Framsóknarflokknum undir forystu Halldórs Ásgrímssonar. Hafa alls 30 ráðherrar setið undir hans stjórn í þessum fjórum ríkisstjórnum. Í gær stýrði Davíð svo sínum seinasta ríkisstjórnarfundi, en hann hefur á þessum 13 árum stýrt alls 960 fundum. Á 13 ára forsætisráðherraferli hefur margt áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum langa tíma. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Tekist hefur að byggja upp traust og farsælt samfélag undir traustri forystu Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins í samstarfi við þá flokka sem með okkur hafa unnið þennan tíma. Davíð hefur með miklum leiðtogahæfileikum og baráttukrafti tryggt að Sjálfstæðisflokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum bæði skelft pólitíska andstæðinga flokksins og heillað þá fjöldamörgu sem aðhyllast frelsi einstaklingsins sem kristallast í sjálfstæðisstefnunni. Í dag birtist pistill minn á sus.is um þessar miklu breytingar.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHalldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, tók við embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundinum á Bessastöðum. Er það í samræmi við samkomulag Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá í fyrra þegar stjórnarsamstarf flokkanna, sem setið hefur við völd frá 1995, var endurnýjað. Mun Framsóknarflokkurinn taka við forsætisráðuneytinu og í hlut Sjálfstæðisflokksins koma í staðinn utanríkis- og umhverfisráðuneytið. Ljóst er að Halldór býr yfir mikilli reynslu, sem þingmaður og ráðherra. Hann er starfsaldursforseti þingsins og hefur setið á þingi í tæpa þrjá áratugi. Halldór hefur setið rúman hálfan annan áratug á ráðherrastóli, í rúm 9 ár sem utanríkisráðherra og 8 ár sem sjávarútvegsráðherra. Verður athyglisvert að sjá hvernig honum muni ganga að höndla nýtt hlutverk sitt í ríkisstjórninni á væntanlegum þingvetri. Enginn vafi er á því að tvö mál ber hæst á næstu vikum og mánuðum hjá ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar: standa að fullu við skattalækkunarloforð stjórnarflokkanna sem kynnt voru í stjórnarsáttmála flokkanna og klára að fullu sölu á hlut ríkisins í Símanum. Ef marka má yfirlýsingar forsætisráðherrans er hann tók við lyklum að Stjórnarráðinu úr hendi forvera síns í dag, er ljóst að þessi loforð verða efnd og stefnt er t.d. að sölu Símans í vetur og því að lækka skatta um 4% á kjörtímabilinu. Eins og fram hefði komið gæfu hagvaxtarspár til kynna að fullt svigrúm væri til þeirra. Forgangsmál að mati Halldórs væru lækkun tekjuskatts, eignarskatts og hækkun barnabóta. Er það gleðiefni að heyra þessi afdráttarlausu ummæli forsætisráðherra um næstu verkefni, enda er mikilvægt að efna loforð stjórnarsáttmálans að fullu. Er það von mín og okkar í SUS að Halldór haldi áfram á þeirri farsælu braut sem Davíð Oddsson hefur leitt okkur á, í forsætisráðherratíð sinni. Ég óska Halldóri góðs í störfum hans.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherraNýr umhverfisráðherra
Sigríður Anna Þórðardóttir tók við embætti umhverfisráðherra á ríkisráðsfundinum á Bessastöðum af Siv Friðleifsdóttur sem sinnt hefur umhverfismálunum í ríkisstjórn Íslands af miklum krafti undanfarin fimm ár. Mikil eftirsjá er af Siv úr stjórninni að mínu mati, enda um að ræða skeleggan stjórnmálamann og traustan málsvara þeirra verkefna sem hún tekur að sér. Það er óneitanlega undarlegt að sá þingmanna Framsóknarflokksins sem hefur flest atkvæði á bakvið sig, sé leiðtogi flokksins í stærsta kjördæminu, ein af forystukonum flokksins í rúman áratug og sem vinnur störf sín með einna nútímalegustum hætti, t.d. með virkum netskrifum og gagnvirkum samskiptum við kjósendur, missi ráðherrastól sinn við þessar aðstæður. Er það afskaplega sorglegt, þegar ljóst er að mun síðri ráðherrar sitja af hálfu flokksins í ríkisstjórn. Er hinsvegar afskaplega ánægjulegt að frænka mín, Sigríður Anna, taki loks sæti í ríkisstjórn. Hún hefur sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1998-2003 og formaður í þrem stórum þingnefndum (utanríkis,- menntamála- og umhverfisnefnd) seinustu árin sannað getu sína og á ráðherrastólinn fyllilega skilið. Næg verkefni eru framundan í umhverfisráðuneytinu á næstu árum undir forystu Siggu og verður ánægjulegt að fylgjast með henni á þessum vettvangi og verkum hennar í ríkisstjórn. Í dag réði hún sér aðstoðarmann í ráðuneytið og verð ég að lýsa ánægju minni með það val hennar að ráða Harald Johannessen hagfræðing, til starfa. Hann er afburðarmaður og mun reynast henni vel í störfum hennar.

Dagurinn í dag
1959 Nikita Khrushchev verður fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna sem kemur í heimsókn til Bandaríkjanna
1964 Breska æsifréttablaðið The Sun kemur út í fyrsta skipti - markaði þáttaskil í fréttamennsku
1972 Ásgeir Ásgeirsson fyrrv. forseti Íslands, lést, 78 ára að aldri. Ásgeir var einn af helstu stjórnmálamönnum landsins áður en hann varð forseti landsins, sat sem þingmaður í þrjá áratugi og var forsætisráðherra 1932-1934. Ásgeir var ennfremur forseti sameinaðs Alþingis og bankastjóri Útvegsbankans. Hann var forseti Íslands 1952-1968 og naut mikillar hylli landsmanna á ferli sínum
1973 Gústaf Adolf VI Svíakonungur, lést í Stokkhólmi, níræður að aldri - var konungur Svía frá 1950
2004 Davíð Oddsson lætur af embætti forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands - hann hafði þá setið í embætti forsætisráðherra frá 30. apríl 1991, eða í 4522 daga, lengur en nokkur annar Íslendingur

Snjallyrði dagsins
The reward of a thing well done is to have done it.
Ralph Waldo Emerson skáld (1803-1882)