Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 september 2004

Dick CheneyHeitast í umræðunni
Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna, þáði útnefningu Repúblikanaflokksins sem varaforsetaefni hans í forsetakosningunum 2. nóvember í ítarlegri ræðu á flokksþingi Repúblikanaflokksins í Madison Square Garden í New York í gærkvöldi. Fór Cheney hörðum orðum um John Kerry forsetaframbjóðanda demókrata og réðist harkalega að honum og stefnu framboðs hans. Sagði hann að Kerry hefði á tveggja áratuga ferli sínum í öldungadeildinni hvað eftir annað aðhyllst misheppnaða stefnu í þjóðaröryggismálum og sagði að hann væri óákveðinn og skeikull. Sagði Cheney að forsetinn væri andstæða þessa, enda þurfti hann að taka erfiðustu ákvarðanir sem forseti gæti lent í að þurfa að taka. Cheney sagði að ógnin við frekari hryðjuverk gerðu kosningarnar í ár með þeim mikilvægustu í sögu landsins og ennfremur í sögu mannkynsins. Sagði hann að Kerry skildi ekki að heimurinn hefði breyst eftir 11. september. Ósamræmi væri í skoðunum Kerrys en það sæist þegar skoðað væri hvernig hann hefði notað atkvæði sín í öldungadeildinni. Sagði Cheney að hann hefði samþykkt að leyfa að afli yrði beitt gegn Saddam Hussein, en svo ákveðið að vera á móti stríðinu og kjósa gegn fjárframlögum til þeirra sem voru fulltrúar landsins á vígvellinum. Við þetta kölluðu þingfulltrúar háum rómi: Flip-flop-flip-flop... Fyrr um kvöldið ávarpaði Zell Miller öldungadeildarþingmaður demókrata í Georgíu, þingið og sagði að mikilvægt væri að forsetinn héldi völdum. Kerry væri með glataða stefnu í öryggis- og varnarmálum. Bush Bandaríkjaforseti mun ávarpa flokksþingið í nótt og flytur ræðuna á hringlaga sviði á miðju þingsvæðinu, sem er sérbyggt fyrir þá stund er forsetinn þiggur útnefningu flokksins.

Ronald ReaganRonald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, lést 5. júní sl. og var kvaddur hinstu kveðju við minningarsafn sitt að kvöldi 11. júní 2004. Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gegn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Ásamt Margaret Thatcher færði hann hægrimönnum um allan heim þá trú að hægt væri að vinda ofan af gríðarlegum ríkisafskiptum. Afskipti ríkisins af viðskiptum og fleiri ráðandi þáttum samfélagsins var alla tíð sem eitur í beinum Reagans forseta. Kraftmikil trú hans á einstaklinginn og mátt einkaframtaksins var grundvallarstef í öllum orðum og gerðum hans sem stjórnmálamanns og æðsta manns heims í 8 ára valdatíð sinni. Vegna þessara kosta forsetans mun ég ávallt bera hlýjan hug til hans og minningar hans. Reagan forseti hafði mikil áhrif á sögu seinni hluta 20. aldarinnar. Hann leiddi Kalda stríðið til lykta, tryggði endalok kommúnismans og trygga forystu Bandaríkjamanna á vettvangi heimsmálanna. Ronald Reagan setti sem forseti Bandaríkjanna mark sitt á söguna með baráttu sinni fyrir lýðræði og ekki síður með því að fylgja sannfæringu sinni í hvívetna og vera trúr lífshugsjónum sínum. Á flokksþingi repúblikana í gær kvöddu flokksmenn leiðtoga sinn hinni hinstu kveðju er Michael, sonur hans, flutti stutta ræðu og kynnti myndklippu um ævi hans og afrek. Hvet ég alla til að horfa á þessa ítarlegu og heillandi minningarmynd um einn helsta leiðtoga okkar hægrimanna á 20. öld. Hún er tilfinninganæm og slær á réttar nótur þegar minnst er þessa merkismanns. Minningin um manninn sem sigraði kommúnismann mun ávallt lifa.

ÞjóðminjasafniðDavíð Oddsson forsætisráðherra, vígði formlega Þjóðminjasafn Íslands við hátíðlega athöfn á áttunda tímanum í gærkvöldi. Var það fyrsta embættisverk hans eftir að hann lagðist inn á sjúkrahús, 21. júlí sl. vegna veikinda sinna. Er mjög ánægjulegt hversu Davíð hefur náð sér vel eftir veikindin. Safnið opnar nú loks eftir að hafa verið lokað í hátt á sjöunda ár vegna endurbyggingar þess. Fór ég oft á safnið eins og það var í gamla daga, og hef saknað þess að geta ekki farið þangað og litið á menningarverðmæti okkar. Er í raun hægt að segja að um allt annað safn sé að ræða en það sem fyrir var. Aðalsýningar safnsins hafa gjörbreyst og umbúnaður þess batnað að öllu leyti. Er nauðsynlegt að hlúa vel að þessu mikilvæga safni, þar sem ómetanlegar sögulegar minjar Íslendinga eru geymdar. Hlutverk safnsins er og verður alla tíð að auka og miðla þekkingu á menningararfi þjóðarinnar frá öndverðu til dagsins í dag. Það er mikilvægt að stuðla að því að sem flestir geti fræðst um sögu landsins og hefðir þess með því að líta á safnið. Ætla ég að fara á morgun og líta á safnið og kynna mér það vel eftir þessar miklu breytingar, áður en ég held á málefnaþing okkar SUS-ara á Selfossi, sem hefst á morgun. Þjóðminjasafnið og saga þjóðarinnar eru okkur mikilvæg og mér persónulega er annt um menningarsögu okkar. Það er okkar helsta verkefni að halda utan um sögu okkar, sem er svo verðmæt að hún verður að viðhaldast, okkur og afkomendum okkar til heilla og fræðslu.

SUSNefndafargan og ríkisafskipti
Í ítarlegri grein í smáriti Sambands ungra sjálfstæðismanna um landbúnaðarmál fjalla ég um nefndafargan og ríkisafskipti í landbúnaði. Ég og Kristinn Már Ársælsson sömdum í upphafi ársins greinaflokk um nefndafargan ráðuneytanna. Var athyglisvert að kynna sér þessi mál í nærvígi og fjalla ég í þessari grein um þá hlið sem snýr að landbúnaðarráðuneytinu. Orðrétt segir í greininni: "Nefndakerfið hefur lengi verið mjög umdeilt og umfang þess ekki allt legið fyrir með áberandi hætti. Áhugi á að fjalla um þessi mál leiddi til þess að ég og Kristinn Már Ársælsson, ákváðum að skrifa greinaflokk um nefndakerfi ríkisins fyrir frelsi.is, í upphafi ársins. Tilgangurinn með þeim skrifum var að kortleggja nefndir allra ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands og sýna almenningi með því fram á mikið umfang þeirra. Við vinnu pistlanna komumst við fljótt að raun um að orðið nefndafargan er staðreynd, er talað er um nefndir ráðuneytanna. Ríkisvaldið starfrækir rúmlega 850 nefndir, ráð og starfshópa. Er spurst var fyrir um kostnað einstakra ráðuneyta vegna starfrækslu allra þessara nefnda kom í ljós að litlar sem engar upplýsingar liggja almennt fyrir um þann kostnað. Við vinnslu greinanna varð áberandi að ekki virðast liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um störf þessara nefnda, t.d. er ekki hægt að sjá með óyggjandi hætti hvort þær séu allar starfandi eður ei. Þessi ótrúlegi fjöldi nefnda er enn ein sönnunin fyrir því að ríkisvaldið og afskipti þess hafa sífellda tilhneigingu til þess að aukast meir en góðu hófi gegnir." Hvet ég alla til að lesa greinar mínar og Kristins sem skrifaðar voru í upphafi ársins og bendi ég á þær hérmeð.

Nefndafargan ríkisvaldsins - pistill 1
Nefndafargan ríkisvaldsins - pistill 2

Dagurinn í dag
1625 Gos hófst í Kötlu í Mýrdalsjökli með miklu vatnsflóði - Katla hefur ekki gosið frá árinu 1918
1666 Bruninn mikli í London - mikill eldur kviknar í London sem verður að stórbáli sem barist er við í þrjá sólarhringa. Eyðilagði um 10.000 byggingar, t.d. St. Páls dómkirkju, 16 manns fórust í eldinum
1945 Seinni heimsstyrjöldinni lýkur formlega er Japanar undirrita yfirlýsingu um fulla uppgjöf sína
1967 Brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi vígð formlega - var önnur lengsta hengibrú landsins, 110 metra löng. Með því komust Öræfingar loksins í fullkomið akvegasamband við aðra landshluta
1973 J.R.R. Tolkien höfundur hinnar frægu Hringadróttinssögu, deyr í London, 81 árs að aldri

Snjallyrði dagsins
It is the story of this country that people have been able to dream big dreams with confidence they would come true, if not for themselves, then for their children and grandchildren. And that sense of boundless opportunity is a gift that we must pass on to all who come after us.
Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna (úr ræðu á flokksþingi repúblikana)