Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 nóvember 2004

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, og Geir H. Haarde fjármálaráðherra, kynntu í dag áætlun um lækkun skatta á kjörtímabilinu en ríkisstjórnin samþykkti í morgun frumvarp sem felur í sér 4% lækkun tekjuskatts einstaklinga, afnám eignarskatts á einstaklinga og fyrirtæki og að barnabætur hækki um 2,4 milljarða króna. Heildaráhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru metin til rúmlega 22 milljarða króna að teknu tilliti til veltuáhrifa sem einkum falla til á árunum 2006 og 2007. Er miðað við að með hliðsjón af horfum í efnahagsmálum og tímasetningu stóriðjuframkvæmda að meginþungi tekjuskattslækkunarinnar muni koma til framkvæmda á árinu 2007. Á næsta ári kemur fyrsti áfangi lækkunar tekjuskatts einstaklinga til framkvæmda og verður skatthlutfallið þá lækkað um 1%, úr 25,75% í 24,75%.

Ennfremur munu allar viðmiðunarfjárhæðir tekjuskatts, eignarskatts og barnabóta hækka um 3%. Árið 2006 tekur annar áfangi tekjuskattslækkunar gildi og þá lækkar skatthlutfallið aftur um 1%, í 23,75%. Ennfremur kemur til framkvæmda fyrri áfangi hækkunar barnabóta sem felur í sér 25% hækkun tekjuskerðingarmarka og ótekjutengdra barnabóta og 10% hækkun tekjutengdra bóta. Þá er gert ráð fyrir að eignarskattar einstaklinga og fyrirtækja verði felldir niður. Árið 2007 kemur lokaáfangi tekjuskattslækkunar og sá stærsti til framkvæmda þegar skatthlutfallið verður lækkað um 2%, í 21,75%. Þá kemur einnig til framkvæmda síðari áfangi hækkunar barnabóta sem felur í sér 20% hækkun tekjuskerðingarmarka og ótekjutengdra barnabóta og 1% lækkun tekjuskerðingarhlutfalls, úr 3% í 2% með fyrsta barni, úr 7% í 6% með öðru barni og úr 9% í 8% með þriðja barni og umfram það. Fjármálaráðuneytið segir í yfirlýsingu í dag að auk 4% lækkunar tekjuskatts sé gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um 8% þannig að samanlagt feli breytingarnar í sér 20% hækkun skattleysismarka á tímabilinu, úr 71.270 kr. á þessu ári í 85.836 árið 2007. Ástæða er til að fagna því að fyrir liggi ramminn að skattalækkunum ríkisstjórnarinnar með skýrum hætti og allt komið á hreint.

Chelsea og Bill ClintonBill Clinton 42. forseti Bandaríkjanna, vígði formlega í gær forsetabókasafn sitt í Little Rock í Arkansas, við hátíðlega athöfn. Þar voru viðstaddir fjórir forsetar landsins, auk Clintons þeir George W. Bush núverandi forseti Bandaríkjanna, og fyrrum forsetarnir Jimmy Carter og George H. W. Bush. Fjöldi tiginna gesta var við athöfnina og margir þjóðarleiðtogar, t.d. Davíð Oddsson utanríkisráðherra. Hellirigning var í Little Rock við athöfnina og þurftu viðstaddir að vera með regnhlíf meðan hátíðarathöfn vegna opnunarinnar fór fram. Regnið dundi á prúðbúnum gestum, en ákveðið var engu að síður að breyta ekki dagskrá og hún var haldin utandyra eins og áður hafði verið ákveðið. Clinton var reffilegur þegar hann birtist með öðrum forsetum í sögu landsins við opnun safnsins. Greinilegt er að hann hefur grennst mjög eftir veikindi sín fyrr á árinu. Það var magur og fölur Clinton sem birtist við opnunina en augljóslega mjög hrærður yfir viðtökunum sem hann fékk er hann birtist á hátíðarsviðinu ásamt eiginkonu sinni, Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmanni, og dóttur þeirra, Chelsea.

Safnið er reist í fyrrum heimabæ Clintons, Little Rock. Hann er fæddur og uppalinn í Arkansas-fylki og var ríkisstjóri þar 1979-1981 og aftur 1983-1992. Hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember 1992 og endurkjörinn í forsetakosningunum 1996. Hann lét af embætti í janúar 2001 og er eini demókratinn sem hefur setið 8 ár, tvö kjörtímabil, á forsetastóli frá stríðslokum. Í safninu er farið ítarlega yfir ævi Clintons og henni gerð skil. Þar eru til sýnis hlutir úr eigu Clinton-hjónanna, ræður hans og myndir af stjórnmálaferli hans. Á litríkum forsetaferli tók hann þátt í því að leiða til lykta friðarviðræður Palestínu og Ísraels 1993 og er þætti hans í friðarmálefnum í M-Austurlöndum og N-Írlandi gerð góð skil. Ennfremur hneykslismálinu sem næstum kostaði hann embættið árið 1998. Það er enginn vafi á því að Clinton forseti, er sigursæll stjórnmálamaður sem hefur kunnað þá list að ná til almennings og heilla hann með sér. Það er óneitanlega alveg magnað að hlusta á hann flytja ræður, hann hefur það sem þarf til að koma vel fyrir sig orði á leiftrandi og kraftmikinn hátt. Er sá eiginleiki hans án nokkurs vafa lykillinn að því að hann varð jafnsigursæll á stjórnmálasviðinu sem raun ber vitni.

Forsetabókasafn Bill Clinton vígt í Little Rock í Arkansas
Myndasafn af opnun forsetabókasafns Clintons forseta á fimmtudag

BrekkuskóliÁlyktanir stjórnar Varðar
Stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, kom saman til fundar í gær undir minni stjórn. Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, fordæmir það hvernig kennarar hafa notað börn sem vopn í baráttu sinni að undanförnu. Félagið fordæmir einnig yfirlýsingu kennara við Brekkuskóla á Akureyri, sem birtist í formi andlátsfregnar á skólastefnu hans "Ánægðir kennarar - góður skóli". Vörður styður mótmæli foreldra í garð kennara skólans. Að mati félagsins skulda kennarar við Brekkuskóla foreldrum og ekki síst börnunum og öðrum bæjarbúum afsökun.

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, vill árétta það sem komið hefur fram í nýlegri ályktun frá félaginu að Norðlendingar þurfi að vinna saman í stóriðjumálinu. Félagið mótmælir orðum Örlygs Hnefils Jónssonar, varaþingmanns Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, um að stóriðja skuli rísa á Húsavík, eingöngu á þeim forsendum að orkan sé í Þingeyjarsýslu. Vörður bendir á virkjunarsvæði Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, en orka er flutt þaðan í Hvalfjörð og til Straumsvíkur. Þingeyingar þurfa að átta sig á að það eru hvorki þeir né Eyfirðingar sem ákveða hvar næstu stórframkvæmdir verða, heldur mun sú ákvörðun undir fjárfestunum komin.

SUS-arar í Washington DCFerð utanríkismálanefndar SUS til Washington DC
Utanríkismálanefnd SUS hélt til Washington DC 6. - 10. okt. sl. í þeim tilgangi að fylgjast með kosningaslagnum í Bandaríkjunum og heimsækja marga áhugaverða staði sem tengjast stjórnmálum á einn eða annan hátt. Það er draumur hvers áhugamanns um stjórnmál og mannkynssöguna að fara til Washington DC, höfuðborgar Bandaríkjanna. Borgin er táknmynd fyrir stjórnmálasögu Bandaríkjanna og sögu heimsins. Þar hafa örlög heimsins jafnan ráðist, þar situr valdamesti maður heims á valdastóli og stjórnar öflugasta ríki samtímans. Það jafnast fátt á við að fara til Bandaríkjanna, og fyrir stjórnmálaáhugamann var auðvitað einstakt tækifæri að fara þangað innan við fjórum vikum fyrir forsetakosningar í landinu. Ég hafði lengi viljað fara til Washington, segja má að ég sem þyki vera frekar mikill áhugamaður um stjórnmál og söguna hafi lengi beðið færis á að heimsækja þessa borg borganna. Að mínu mati var Washington áður en ég lagði af stað táknmynd alls þess sem ég stend fyrir í stjórnmálum: frelsisins í allri sinni mögulegu mynd í heiminum. Óhætt er að segja að borgin hafi staðið undir væntingum mínum og gott betur. Það var sannkölluð upplifun að fara þangað og þetta skynja allir þeir sem hafa farið til borgarinnar og munu skynja þegar þeir fara þangað fyrsta sinni. Bandaríkin hafa alltaf heillað mig og ég hafði farið þangað áður og kynnst öllum kostum þess, en Washington er perla landsins, þangað verða allir að fara að minnsta kosti einu sinni á ævigöngu sinni.

Pistill minn um ferðina til Washington DC
Umfjöllun á sus.is um ferðina til Washington DC
Myndir á heimasíðu SUS frá ferðinni til Washington DC

Dagurinn í dag
1875 Thorvaldsensfélagið, elsta kvenfélag í Reykjavík, var stofnað til að sinna mannúðarmálum
1946 Ísland fékk aðild að Sameinuðu þjóðunum er gengið var að sáttmála þeirra í kosningu á þingi
1959 Auður Auðuns tók við embætti borgarstjóra í Reykjavík, fyrst kvenna - varð ráðherra fyrst kvenna árið 1970. Auður sat í borgarstjórn Reykjavíkur 1946-1970 og var forseti borgarstjórnar 1954-1959 og 1960- 1970. Auður var alþingismaður fyrir Reykjavík árin 1959-1974. Hún lést í október 1999
1974 Geirfinnur Einarsson hvarf í Keflavík - þar með hófst rannsókn eins umfangsmesta sakamáls 20. aldarinnar. 1977 lágu fyrir játningar þriggja manna um að hafa ráðið honum bana. Dómur yfir þeim var kveðinn upp í Hæstarétti 1980. Sakborningar í málinu hafa síðan neitað því að hafa ráðið Geirfinni bana. Hæstiréttur hafnaði 1998 beiðni þeirra um endurupptöku málsins. Lík Geirfinns fannst aldrei
1977 Anwar Sadat forseti Egyptalands, verður fyrstur leiðtoga Araba til að fara í opinbera heimsókn til Ísraels. Hann fór þangað eftir að Menachem Begin forsætisráðherra Ísraels, bauð honum formlega. Í ferð sinni til Ísraels ávarpaði Sadat ísraelska þingið, Knesset. Þessi ferð forsetans varð upphafið að friðarferli milli Ísraels og Egyptalands og sömdu leiðtogar landanna um frið formlega í Camp David 1978 - friðarviðleitanir Sadats kostuðu hann lífið, öfgamenn myrtu hann á hersýningu í október 1981

Snjallyrði dagsins
Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
borgina hrundu sé við himin ljóma,
og heyri aftur fagra, forna hljóma,
finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.

Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.
Minning þín opnar gamla töfraheima.
Blessað sé nafn þitt bæði á himni og á jörðu.

Brosin þín mig að betri manni gjörðu
Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.
Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú finn ég angan)