Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 janúar 2005

Dr. Condoleezza Rice ávarpar starfsmenn utanríkisráðuneytisinsHeitast í umræðunni
Dr. Condoleezza Rice tók að kvöldi miðvikudags formlega við embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna af Colin Powell. Er hún 66. utanríkisráðherrann í sögu landsins. Skipan hennar í embættið var samþykkt af öldungadeild Bandaríkjaþings eftir stormasamar umræður um ágæti hennar og utanríkisstefnu hennar og forsetans í þinginu. Sór hún að því loknu formlega embættiseið sinn í þinginu og var með því formlega orðin önnur konan til að taka við embættinu og fyrsta þeldökka konan að auki. Eflaust mun forsetatíðar George W. Bush lengi verða minnst síðar meir fyrir það að hann skipaði í embætti utanríkisráðherra landsins, fyrsta þeldökka manninn og fyrstu þeldökku konuna, Powell og Rice. Öldungadeildin staðfesti skipan Rice með 85 atkvæðum gegn 13 (allt demókratar). Það hefur aldrei gerst fyrr í sögu landsins að utanríkisráðherraefni forseta Bandaríkjanna fái andstöðu af þessu tagi. 7 þingmenn greiddu atkvæði gegn Henry Kissinger árið 1973 og 6 þingmenn gegn Alexander Haig árið 1981. Condi Rice fór í ráðuneytið í gærmorgun, heilsaði upp á starfsmenn og ávarpaði þá og tók formlega við lyklavöldum þar. Powell kvaddi starfsmenn ráðuneytisins þann 19. janúar en það tafðist að samþykkja Rice í embættið vegna andstöðu nokkurra demókrata.

Mörg flókin verkefni bíða utanríkisráðherrans fyrstu vikurnar í embætti. Ber þar hæst málefni Íraks og Mið-Austurlanda. Sést það glögglega af því að fyrsta ferð hennar í embætti verður um Mið-Austurlönd og Evrópu í byrjun næstu viku. Mun Condi fara til Bretlands, Þýskalands, Ítalíu, Frakklands, Belgíu, Lúxemborg, Póllands og Tyrklands, auk þess sem hún mun halda á Vesturbakkann, þar sem stefnt er að því að bæta með því tengsl Palestínu og Ísraels en búast má við að friðarviðræður hefjist brátt milli þeirra, nú eftir embættistöku Mahmoud Abbas forseta Palestínu. Mun hún leiðtoga beggja aðila í ferð sinni og reyna að ýta friðarferlinu formlega úr vör, sem er í samræmi við stefnu Bush forseta, sem hefur lýst því yfir að tryggja þurfi frið milli aðilanna. Er einnig ljóst að Bandaríkjastjórn og ráðherrann nýi stefna að því að bæta til muna samskipti Bandaríkjanna við mörg Evrópulönd, en þau hafa verið stirð seinustu ár að mörgum ástæðum eins og kunnugt er. Mun Rice eiga löng samtöl við utanríkisráðherra Frakklands og Þýskalands. Til áherslu við þetta er að Rice mun flytja sína fyrstu stórræðu sem utanríkisráðherra í Frakklandi. Bush forseti stefnir að því að fara í ferð til Evrópu í seinnihluta febrúarmánaðar og er Evrópuhluti ferðar Rice ætluð umfram allt til að undirbúa hana. Segja má um Condi að hún sé fagmanneskja á sínu sviði. Fróðlegt er að kvenréttindasinnar og svokallaðir jafnréttissinnar hafa þagað þunnu hljóði yfir þessum þáttaskilum í stjórnmálasögunni, sem verða óhjákvæmilega með þessum ráðherraskiptum. Embætti utanríkisráðherra er gríðarlega valda- og áhrifamikið og stendur sem þriðja í valdaröðinni á eftir varaforseta og forseta fulltrúadeildarinnar. Það er því alveg ljóst að enginn getur neitað að um sögulegan atburð í stjórnmálasögu Bandaríkjanna er að ræða, þegar blökkukona tekur við embættinu, hvort sem vinstrimenn þola að heyra á það minnst eður ei. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með verkum hennar í embætti næstu árin.

Páll MagnússonÞað var mikill æsifréttabragur á kvöldfréttum Stöðvar 2 að kvöldi miðvikudags. Fyrsta frétt var þess efnis að netfrétt á fréttavef CNN sannaði að Ísland hefði komist á lista yfir þær þjóðir sem studdu innrásina í Írak fyrir ríkisstjórnarfund sem haldinn var í Stjórnarráðinu að morgni 18. mars 2003. Páll Magnússon sjónvarpsstjóri og fréttastjóri Stöðvar 2, las sjálfur innganginn að fréttinni með ábúðarmiklum svip og horfði af krafti framan í myndavélina með glampa í augum. Hér var að þeirra mati um stórfrétt að ræða og fréttin höfð í forgrunni þetta kvöld. Yfirmaður stöðvarinnar áréttaði það með tjáningu sinni og hefur án vafa samþykkt fréttina sem fyrstu frétt. Það blasir við.

Ekki var ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur. Róbert Marshall formaður Blaðamannafélags Íslands, var með fréttina og leitaðist við að spinna upp einhverja stórmerkilega atburðarás, rakti ferli málsins og kom svo að aðalatriðinu að sínu mati. Sýndi hann þar umrædda netfrétt sem að hans mati átti að sanna að Ísland hefði komist á margumræddan lista fyrir ríkisstjórnarfund. Eftir að hafa sýnt glefsur úr gömlum fréttaviðtölum við forsætisráðherra og eldra myndefni, birtist svo formaður Blaðamannafélagsins í mynd (fyrir utan Stjórnarráðið, hvorki meira né minna) og kemur með lokaorð fréttarinnar. Segir hann þar orðrétt að fram að þessari stundu hafi málflutningur forsætisráðherra verið í besta falli villandi en nú sé hann beinlínis rangur. Fréttamaðurinn vænir í lokin forsætisráðherra um að hafa logið að þjóðinni.

Ég sá þessa frétt að kvöldi miðvikudags á Neskaupstað, þar sem ég var staddur á fundaferð flokksins um Norðausturkjördæmi, en ég hef seinustu daga verið í Fjarðabyggð. Þessi frétt vakti mig til umhugsunar um þessi mál, enda fannst mér tímasetningar fréttamannsins og það sem sýnt var í fréttinni merkilegt og þótti mér að tímasetningar stæðust ekki. Ljóst varð á morgni fimmtudags að formaður Blaðamannafélagsins hafði mislesið tímasetningarnar, misskilið tímamismun milli Íslands og Bandaríkjanna, sem er ótrúlegur dómgreindarbrestur hjá fréttamanni (og að auki formanni félags fréttamanna!) sem vill láta taka sig alvarlega. Forsætisráðuneytið svaraði fréttinni með fréttatilkynningu í gærmorgun. Leiddi sú fréttatilkynning til þess að Páll Magnússon las afsökunarbeiðni af sinni hálfu og fréttastofunnar í hádegisfréttum Bylgjunnar. Ég var staddur á Egilsstöðum er ég heyrði þann merka lestur og varð hugsi um hvað myndi nú gerast, hver yrðu örlög yfirmanna og fréttamannsins.

Ekki má gleyma því að Róbert ber ekki einn ábyrgð á fréttinni, vaktstjóri og fréttastjóri hljóta að hafa samþykkt slíka umfjöllun, slíka frétt. Mistökin eru ekkert síður þeirra. Ég var staddur á Mývatnsheiði, á leið heim seinasta spölinn, eftir fund í Mývatnssveit, er ég fékk símhringingu með þeim fréttum sem tilkynnt höfðu verið í tíufréttum Sjónvarpsins, að Róbert hefði sagt upp störfum. Ekki kom sú fregn á óvart, fyrr um kvöldið hafði ég séð byrjun fréttatíma stöðvarinnar á Hótel Seli í Mývatnssveit. Þar birtist sami Páll Magnússon og bað nú forsætisráðherra afsökunar á mistökum fréttastofunnar. Fréttastofan hafði misst trúverðugleika sinn, misst það sem mestu skiptir í fréttamennsku. Að auki hafði formaður Blaðamannafélags Íslands gert sig endanlega að fífli og er endanlega rúinn öllu trausti sem slíkur, eftir margar eldri bommertur og mistök. Ekki verður betur séð en að hans fréttamannsferli sé lokið. Eftir stendur hvort ekki sé rétt að yfirmaður Stöðvar 2 segi af sér einnig, eftir slík gríðarleg og ófyrirgefanleg mistök, svo Páll endi ekki með laskað bros í fréttaþularstól eins og Dan Rather.

ISG og markmiðið eina (mynd af málefnum.com)

Ég las drottningarviðtal Fréttablaðsins (365 - prentmiðla?) við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Mývatnssveit seinnipartinn í gær. Þar kemur fram eins og sést að ofan hvert eigi að vera eina markmið Samfylkingarinnar, ekkert skiptir meira máli en völdin greinilega. Valdagræðgi borgarfulltrúans og forsætisráðherraefnisins fyrrverandi er ekkert hernaðarleyndarmál svosem. Greinilegt er að allt er að fara í panikk innan flokksins með stöðu mála. Margir vilja flýta landsfundinum og segja að fjögurra mánaða kosningabarátta skaði flokkinn og hans innra starf. Mjög greinilegt er að þessi átök rista orðið mjög djúpt, enda virðist mikil harka í slagnum og allt látið flakka í hita leiksins og margir vilja flýta kattaslagnum og hafa hann snarpari.

Eins og fyrr segir hef ég seinustu daga verið á ferðalagi um Austurland og var í gær í Mývatnssveit. Er óhætt að fullyrða að mikil veðurblíða hafi verið miðað við að um janúarlok sé að ræða. Var ferðin austur sérstaklega ánægjuleg og víða farið. Mun ég fjalla vel um hana á sunnudag og segja frá því og fundum flokksins í kjördæminu, í sunnudagspistli um helgina. Sérstaklega ánægjulegt var að fara til Reyðarfjarðar og sjá þá miklu og ævintýralegu uppbyggingu sem á sér þar stað á öllum sviðum. Vil ég þakka vinum mínum á Reyðarfirði, þeim Gunnari Ragnari Jónssyni og Þórði Vilberg Guðmundssyni, kærlega fyrir að keyra mér um staðinn og sýna mér með skemmtilegum hætti það sem þar er að gerast og þá uppbyggingu sem þar er.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964)Davíð Stefánsson (1895-1964)
21. janúar sl. voru 110 ár liðin frá fæðingu Davíðs Stefánssonar skálds frá Fagraskógi. Í tilefni afmælis hans skrifaði ég ítarlega umfjöllun um ævi hans og skáldferil og birtist hún á bókmenntavefnum Skýjaborgum í vikunni. Davíð var eitt helsta skáld landsins. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Davíð Stefánsson var Akureyringur, þrátt fyrir að vera fæddur í sveit og að hafa ekki búið í bænum alla tíð. Hann varð Akureyringur án allra málalenginga og var að flestra mati stolt bæjarins og allra í firðinum á skáldferlinum. Vinsældir hans voru mjög miklar á heimavelli. Hann varð heiðursborgari Akureyrar á sextugsafmæli sínu, 21. janúar 1955.

Davíð fluttist árið 1944 í hús sem hann reisti sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma sem er erfitt að lýsa í orðum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari. Í umfjöllun minni fer ég yfir merk ljóð Davíðs og flétta saman í frásögn um ævi hans og feril sem skálds.

ÓskarinnÓskarsverðlaunin 2005
Tilkynnt var um tilnefningar til Óskarsverðlaunanna 2005 á þriðjudaginn. Það voru óskarsverðlaunaleikarinn Adrien Brody og Frank Pierson forseti bandarísku kvikmyndaakademíunnar, sem tilkynntu um tilnefningarnar á blaðamannafundi. Verðlaunin munu verða afhent 27. febrúar nk. og verður leikarinn Chris Rock kynnir að þessu sinni. The Aviator, kvikmynd Martin Scorsese, og fjallar um ævi hins sérvitra milljónamærings Howard Hughes, hlaut 11 tilnefningar til verðlaunanna. Var hún tilnefnd sem besta kvikmynd ársins, auk Million Dollar Baby, Sideways, Ray og Finding Neverland. Scorsese var tilnefndur til leikstjóraverðlaunanna fyrir The Aviator, auk hans hlutu tilnefningu í þeim flokki þeir Clint Eastwood fyrir Million Dollar Baby, Mike Leigh fyrir Vera Drake, Taylor Hackford fyrir Ray og Alexander Payne fyrir Sideways.

Tilefndir fyrir besta leik karla í aðalhlutverki voru Clint Eastwood sem fer með hlutverk í kvikmynd sinni, Million Dollar Baby, Don Cheadle fyrir leik sinn í Hotel Rwanda, Johnny Depp fyrir Finding Neverland, Leonardo DiCaprio fyrir The Aviator og Jamie Foxx fyrir Ray. Tilnefndar fyrir besta leik kvenna í aðalhlutverki voru Annette Bening fyrir leik sinn í Being Julia, Catalina Sandino Moreno fyrir Maria Full of Grace, Imelda Staunton fyrir Vera Drake, Hilary Swank fyrir leik sinn í Million Dollar Baby og Kate Winslet fyrir Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Tilnefndir fyrir besta leik karla í aukahlutverki eru Alan Alda fyrir leik sinn í The Aviator, Thomas Haden Church fyrir Sideways, Jamie Foxx fyrir Collateral, Morgan Freeman fyrir Million Dollar Baby og Clive Owen fyrir leik sinn í Closer. Tilnefndar fyrir besta leik kvenna í aukahlutverki voru Cate Blanchett fyrir leik sinn í The Aviator, Laura Linney fyrir Kinsey, Virginia Madsen fyrir Sideways, Sophie Okonedo fyrir Hotel Rwanda, og að lokum Natalie Portman fyrir leik sinn í Closer.

Saga dagsins
1907 Sláturfélag Suðurlands, SS, stofnað, sem samvinnufélag bænda - hét fyrst Sláturfélag Árnesinga og Rangæinga. Hefur lengi verið eitt öflugasta sölufyrirtæki á landbúnaðarafurðum í landinu
1935 Ísland verður fyrsta landið í heiminum til að leyfa fóstureyðingar með lagasetningu á þjóðþingi
1953 19 ára gamall breskur maður, Derek Bentley, hengdur fyrir að hafa myrt Sidney Miles - Bentley hélt fram sakleysi sínu í málinu allt til hinstu stundar. Alla tíð hefur leikið mjög mikill vafi á sekt hans
2002 Sænski barnabókarhöfundurinn Astrid Lindgren lést, 94 ára að aldri. Lindgren var ein af virtustu rithöfundum á sviði barnabókmennta og hlaut mikinn fjölda alþjóðlegra bókmenntaverðlauna
2004 Hutton lávarður kynnir skýrslu sína um dauða vopnasérfræðingsins David Kelly og tildrög þess - niðurstöður hennar voru áfellisdómur yfir fréttamennsku BBC og leiddi til sviptinga í forystu þess

Snjallyrðið
Höggið var þungbært og enn ég sakna þín,
þú kvaddir og eftir var tómið svarta,
sólin skein það sumar en myrkrið tók við án þín,
ekkert varð hér eftir nema minningin þín bjarta.
Stefán Friðrik Stefánsson (Söknuður)