Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 janúar 2005

Dr. Condoleezza RiceHeitast í umræðunni
George Walker Bush forseti Bandaríkjanna, mun sverja embættiseið öðru sinni á fimmtudag. Þessa dagana einkennist öll umræða um stjórnmál í Bandaríkjunum af upphafi seinna kjörtímabils forsetans og vangaveltum stjórnmálaspekúlanta um það hvernig hann muni halda á málum á næstu fjórum árum. Eins og venjulega er þar helst beint sjónum að utanríkis- og varnarmálum, sem verið hafa lykilmálaflokkar fyrra kjörtímabils forsetans og munu vafalaust verða það áfram á seinna tímabilinu. Allt frá því forsetinn tilkynnti fyrir tveim mánuðum að dr. Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi stjórnarinnar og einn af nánustu ráðgjöfum hans í utanríkismálum, myndi verða utanríkisráðherra og taka við embættinu af Colin Powell, hefur verið deilt um hverjar yrðu áherslur hennar í embætti og hvort áherslur utanríkismálanna myndu taka á sig annan blæ en verið hefur. Ekki er hægt að segja að val forsetans á utanríkisráðherra kæmi á óvart. Condi Rice er sérfræðingur í málefnum A-Evrópu, M-Austurlanda og Rússlands. Hún talar rússnesku, frönsku, kínversku, spænsku og ítölsku reiprennandi. Hún er mjög reynd í utanríkismálum og var ráðgjafi George H. W. Bush í forsetatíð hans, 1989-1993, í málefnum Sovétríkjanna og Rússlands og var áberandi í þeim málaflokki sérstaklega við lok kalda stríðsins og mótaði öllum öðrum fremur utanríkisstefnu sonar hans frá því hann tók við embætti árið 2001. Ekki er því vænst mikilla breytinga.

Condi kom í dag fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í yfirheyrslu sem er hluti af staðfestingaferlinu sem þarf að eiga sér stað áður en skipan hennar verður formlega staðfest. Þar lýsti hún því yfir að hún muni í embætti á næstu árum leggja mikla áherslu á að nota samninga og samstarf mun meira en verið hefur í samskiptum Bandaríkjastjórnar við umheiminn. Óhætt er að segja að þingmenn demókrata hafi spurt Condi ítarlegra spurninga og verið öflugir í framgöngu sinni. Hún var spurð í þaula um stefnu Bandaríkjastjórnar á alþjóðvettvangi og sérstaklega í Írak, og hvað tæki við í þeim málum eftir að hún tekur við embætti. Er um að ræða fyrri dag yfirheyrslna en talið er að á morgun muni hún fá ítarlegar spurningar um Íraksmálið og þátt sinn í þeim málum á undanförnum árum sem þjóðaröryggisráðgjafi. Eftir stendur að skipan Condi Rice í þessa valdamiklu áhrifastöðu í ríkisstjórn Bandaríkjanna er mjög söguleg. Hún verður fyrsta blökkukonan sem sest í stól utanríkisráðherra Bandaríkjanna og er aðeins önnur konan í sögunni. Madeleine Albright, forveri Colin Powell í embættinu var fyrsta konan sem varð utanríkisráðherra en hún var seinni utanríkisráðherra Clinton-tímans, sat í embætti 1997-2001. Segja má um Condi að hún sé fagmanneskja á sínu sviði. Fróðlegt er að kvenréttindasinnar og svokallaðir jafnréttissinnar hafa þagað þunnu hljóði yfir þessum þáttaskilum í stjórnmálasögunni, sem verða óhjákvæmilega með þessum ráðherraskiptum. Embætti utanríkisráðherra er gríðarlega valda- og áhrifamikið og stendur sem þriðja í valdaröðinni á eftir varaforseta og forseta fulltrúadeildarinnar. Það er því alveg ljóst að enginn getur neitað að um sögulegan atburð í stjórnmálasögu Bandaríkjanna er að ræða, þegar blökkukona tekur við embættinu, hvort sem vinstrimenn þola að heyra á það minnst eður ei.

Anders Fogh RasmussenAnders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti í dag að þingkosningar myndu fara fram í landinu þann 8. febrúar nk. og rauf með því þing landsins. Blasað hefur við í nokkrar vikur að forsætisráðherrann myndi boða til kosninga fyrr en nauðsyn krefur í ljósi skoðanakannana sem sýnt hafa fram á að ríkisstjórn frjálslyndra og íhaldsmanna myndi halda velli ef gengið væri til kosninga nú. Kjörtímabil stjórnarinnar lýkur í haust, en mikil umræða hafði átt sér stað um að forsætisráðherrann og hægristjórnin myndi ekki bíða til haustsins. Samkvæmt danskri þinghefð boðar forsætisráðherra til kosninga með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara. Kosningar fóru fram í Danmörku síðast haustið 2001. Í þeim kosningum féll vinstristjórn Poul Nyrup Rasmussen en hún var minnihlutastjórn jafnaðarmanna varin vantrausti af minni vinstriflokkum. Þá hafði Nyrup verið forsætisráðherra í rúm 8 ár og vinstrimenn leitt landsstjórnina samfellt þann tíma undir hans forystu eftir 10 ára setu hægristjórnar þar áður. Skömmu eftir kosningarnar hætti Nyrup afskiptum af danskri pólitík og varð þingmaður á Evrópuþinginu.

Allt frá valdamissinum og brotthvarfi Nyrups hafa jafnaðarmenn átt erfitt með að fóta sig að nýju og finna fyrri takt. Mogens Lykketoft sem var fjármálaráðherra í stjórn Nyrups tók við leiðtogahlutverkinu af honum innan flokksins. Hefur honum gengið brösuglega að ná trausti kjósenda og höfða til þeirra og þykir mörgum, m.a. kjósendum flokksins hann vera staðnaður í hlutverki sínu og þreytulegur fulltrúi valdaferils Nyrups og vanta þann kraft og ferskleika sem þarf til að höfða til kjósenda. Jafnaðarmenn hafa á seinustu vikum verið að undirbúa kosningabaráttuna sem blasti við að myndi hefjast innan skamms og hafa í málflutningi sínum lagt mikla áherslu á að skapa þurfi fleiri störf í landinu, einkum fyrir menntafólk, og bæta stórlega þjónustu við barnafjölskyldur, bæði sjúklinga og aldraða. Ekki virðist málflutningur þeirra þó breyta miklu um stöðu mála eða því að staða stjórnarinnar er sterk og bendir flest til þess að hún muni halda völdum með nokkuð afgerandi hætti. Í dag eftir tilkynningu Fogh var kynnt ný skoðanakönnun Gallup sem bendir til þess að ríkisstjórnin auk stuðningsflokka sinna muni fá 92 þingsæti í kosningunum af alls 175 og missi með því tvö sæti. Stjórnarandstaðan myndi hljóta 83 þingmenn. Framundan er snörp kosningabarátta í Danmörku, þriggja vikna slagur um völdin. Verður fróðlegt að sjá hvernig staða mála verði í dönskum stjórnmálum eftir kjördaginn og hverjir muni leiða Dani á næstu árum, hvort stjórnin haldi velli eða muni missa völdin.

SeðlarStríðsmenn hjartans - sýning í Listasafninu á Akureyri
Ég fór um helgina í Listasafnið hér á Akureyri á athyglisverða sýningu sem ber yfirskriftina "Stríðsmenn hjartans" sem var formlega opnuð á laugardaginn. Já athyglisverð er hún svo sannarlega. Hún varð til í samstarfi listamannsins Ashkan Sahihi og Hannesar Sigurðssonar safnstjóra. Sýningin ætti að snerta við okkur öllum, skiptir þá engu máli hvort við höfum áhuga á að fylgjast með stefnum og straumum í listalífi almennt eða erum of önnum kafin á stríðsvelli hversdagsins. Orðrétt segir um sýninguna á vef safnsins: "Nú má fara í Listasafnið á Akureyri og láta sig dreyma um að allir reikningar hafi verið greiddir og sandur af seðlum afgangs til að láta sér líða vel því á safninu má einmitt sjá sand af seðlum, 100 milljónir króna í beinhörðum peningum - arfareiðufé - lungamjúku kapítali allra þeirra hluta sem gera skal." Vissulega er kostuleg stemmning í salnum þegar gengið er þar um og skoðuð listin, eða ættum við að segja horfst í augu við alla peningana. Í hátölurunum hljómar söngur tíbeskra munka í sérstakri útfærslu Hilmars Arnar Hilmarssonar tónskálds. Einnig hljómar söngur reggígoðsins Peter Tosh og rokkarans Mick Jagger í laginu: Don't look back. Til að komast inn í sýningarsalina þarf að smeygja sér framhjá þungum stálvegg. Þetta er því allt alveg kostulegt.

Meira segir um sýninguna á vef safnsins. Þar segir: "Augljóst er að svona haugur af peningum getur sjokkerað og vakið athygli. Seðlar í búntum grípa augað í hvaða samhengi sem er. Staflar af seðlum, glás af peningum, böns af monníngum. Orðaforðann þrýtur þegar lýsa á svo grófri sýningu, svo plebbalegri peningadýrkun, en um leið eru seðlarnir ótrúlega aðlaðandi og heillandi - tælandi - lofandi ríkidæmi, meira frelsi og betra lífi. Samt eru verkin á sýningunni afskaplega blátt áfram og sakleysisleg. Þetta eru jú bara seðlar þegar allt kemur til alls, gamalt niðursagað skilningstré. Við haldleikum peninga á hverjum degi og við hugsum um þá allan daginn. Við vitum hvað þarf sirka mikið af þeim til að kaupa pott af mjólk eða næstum hvað sem er. Ef peningar eru núna orðnir að list þá þarf aðeins að ráða í boðskapinn. Orð er svo takmörkuð. Þarf að hafa fleiri orð um það? Nú taka peningarnir til máls, mál málanna." Þessi sýning er alveg mögnuð, hefur mikil áhrif. Hafa peningar annars ekki alltaf áhrif, er þetta ekki bara leikur að okkur, finna á hvaða status við hugsum um peninga. Ég held það svei mér þá. Gott ef það er ekki svo. Allavega þeir sem eiga leið um Akureyri eða eru hér í bænum, ég hvet ykkur til að kíkja í safnið, þefa af peningunum og horfast í augu við þá. Alveg mögnuð tilfinning, vægast sagt!

Áhugavert efni
Skattar að lækka - pistill Sindra Guðjónssonar
Tækifæri í pólitík - pistill Kristins Más Ársælssonar
Umfjöllun um áfengismálin - pistill Vef-Þjóðviljans
Mun tími Jóhönnu koma með póstinum? - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Umfjöllun um Schengen-samstarfið - pistill Hjartar J. Guðmundssonar

Saga dagsins
1930 Hótel Borg tók formlega til starfa þegar veitingasalirnir voru opnaðir, en gistihúsið var tekið í notkun í maímánuði. Var þá og er enn í dag eitt af glæsilegustu veitinga- og gistihúsum á landinu
1937 Snjódýpt í Reykjavík mældist 55 sentimetrar sem er það mesta síðan mælingar hófust í borginni.
1963 Hugh Gaitskell leiðtogi breska Verkamannaflokksins, deyr úr hjartasjúkdómi, 56 ára að aldri. Hann var leiðtogi flokksins frá 1955 til æviloka. Eftirmaður hans á leiðtogastóli varð Harold Wilson
1968 Gunnar Tryggvason leigubílstjóri í Reykjavík, skotinn til bana í bifreið sinni. Rannsókn málsins var mjög umfangsmikil en varð aldrei formlega upplýst, einn var grunaður um morðið en sýknaður
1998 Matt Drudge birtir fyrstur allra frétt á vef sínum, Drudge Report, um ástarsamband Bill Clinton forseta Bandaríkjanna, og Monicu Lewinsky lærlings í Hvíta húsinu. Clinton neitaði formlega um tilvist sambandsins á blaðamannafundi í Hvíta húsinu, 26. janúar 1998. Síðar kom í ljós að forsetinn sagði ósatt og viðurkenndi hann það um sumarið eftir að tilvist sambandsins hafði í raun verið staðfest. Leiddi það til þess að þingið ákvað að stefna forsetanum fyrir embættisafglöp, öðrum forsetanum í sögu landsins. Leiddi það þó ekki til afsagnar forsetans sem sat allt til loka tímabilsins

Snjallyrðið
Ástar minnar eldur hreinn,
augnaljósi kveiktur þínu
lifa skal um eilífð einn
óslökkvandi í hjarta mínu.
Páll Ólafsson skáld (1827-1905) (Ástareldur)