Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 janúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um valdaátökin í Samfylkingunni, en formannsslagur milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar er hafinn af fullum krafti þar og virðist sem svo að öllum brögðum muni nú beitt í þessum harðvítugu átökum um völd og áhrif á vinstrivæng stjórnmálanna. Bæði eru að berjast fyrir pólitísku lífi sínu á komandi árum. Fyrstu augljósu merki þess að allt, nákvæmlega allt verður sett í baráttuna birtust í fréttum fjölmiðla í gær er verkalýðshreyfingin kom sér í fréttirnar og minnti á hlutverk Össurar í eftirlaunamálinu og að hann væri óhæfur bæði sem leiðtogi flokksins og gæti ekki leitt flokkinn til stjórnarforystu. Jafnframt kom fram að forystumenn í verkalýðshreyfingunni hefðu í hyggju að halda fund til að ræða hvort þeir ættu að beita sér í þágu Ingibjargar Sólrúnar í væntanlegu formannskjöri. Nú á greinilega að nota allt gegn Össuri til að grafa undan stöðu hans og menn komnir í fortíðargírinn greinilega. Verkalýðsarmurinn er orðinn eins og pólitískur hluti innan flokksins og beitir sér af krafti í sínu nafni í leiðtogakjöri og valdabaráttu beint. Virðist ASÍ vera pólitísk hreyfing, enda sat forseti ASÍ fund norrænna jafnaðarmannaleiðtoga í Viðey í ágúst í fyrra, enda ASÍ með aðild að bandalagi norrænna krataflokka. Alveg kostulegt.

Seinustu vikuna hefur enn og aftur verið deilt um Íraksmálið, fjalla ég um stöðu mála í því í ljósi frétta um að margnefndur listi sé löngu dottinn uppfyrir og að auglýsingaherferð svokallaðrar Þjóðarhreyfingar virðist hafi verið skot í myrkrinu. Frétt um helgina þess efnis að listinn sé svo ekki lengur til af hálfu bandarískra stjórnvalda undirstrikar endanlega á hvaða villigötum svokölluð Þjóðarhreyfing og stjórnarandstaðan hefur verið í málinu. Hafa sömu spekingar og reyna að teygja þetta mál fram og aftur reynt að láta líta svo út fyrir að pólitískir forystumenn landsins hafi ekki mátt taka þá ákvörðun að lýsa yfir stuðningi við innrásina. Eitthvað sljákkaði í þeim eftir að Eiríkur Tómasson forseti lagadeildar Háskólans, birtist í fréttum og lýsti því yfir að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu haft fulla lagalega heimild til þess að taka einir þá ákvörðun að styðja innrás Bandamanna í Írak. Hægt er því að fullyrða með sanni að fjarað hafi allhressilega undan málflutningi viðkomandi aðila í málinu sem hömuðust gegn stjórnvöldum. Niðurlæging þeirra sem stóðu að baki auglýsingunni í NY Times er því algjör og er ekki annað hægt að segja en að það sé neyðarlegt fyrir Ólaf Hannibalsson og félaga hans í hreyfingunni að reyna að snúa sér frá málinu án þess að missa algjörlega andlitið. Staðreyndin er sú að þeir og stjórnarandstaðan öll reyndar hafa algjörlega orðið að athlægi nú á seinustu dögum og vikum með málflutningi sínum. Að lokum fjalla ég um stöðu Bush forseta, en hann sór embættiseið öðru sinni í vikunni.

Johnny Carson (1925-2005)Johnny Carson látinn
Bandaríski spjallþáttastjórnandinn Johnny Carson er látinn, 79 ára að aldri. Hann fæddist í Iowa, 23. október 1925. Hann vann næstum alla ævi sína sem grínisti í sjónvarpi eða stjórnandi í spjallþáttum. Hann hóf feril sinn hjá sjónvarpsstöðum í Nebraska, þar sem hann bjó lengi, á fimmta áratugnum. Hann var skemmtikraftur á mörgum sjónvarpsstöðvum eftir það vítt um landið og var alla tíð þekktur fyrir leiftrandi húmor og skemmtilegt glott sem fékk alla til að brosa. Hann hóf feril sinn sem spjallþáttastjórnandi í þættinum 'The Tonight Show' hjá NBC, 2. október 1962. Hann var alla tíð mjög vinsæll og hélt sínum áhorfendafjölda og vinsældum allt til loka. Hann var einkar laginn við að hitta á góða punkta í gríni, og náðu þeir hæfileikar eflaust hámarki í Watergate-málinu í upphafi áttunda áratugarins. Brandarar hans um Nixon og þátt hans og nánustu samstarfsmanna í málinu vöktu mikla athygli og gleði fólks um allan heim. Árið 1980 lenti Carson í deilum við stjórnendur NBC er ákveðið var að stytta þáttinn úr 90 mínútum í klukkutíma, en þau leystust farsællega.

Hann fékk marga til að hlaupa oft í skarðið og meðal helstu gestastjórnenda þáttarins voru Joan Rivers, Jerry Lewis og Jay Leno, sem tók við þættinum við starfslok hans. Á níunda áratugnum náðu vinsældir Carson hámarki. Hann fékk metupphæð fyrir þáttinn og brandarar hans um Reagan forseta, þóttu í senn alveg kostulegir og hitta vel í mark. Sjálfur sagði Reagan eitt sinn að sinn óvægnasti andstæðingur á vettvangi stjórnmála væri Johnny Carson, sem þótti til marks um hversu demókratar væru lélegir í stjórnarandstöðunni. Er leið að lokum níunda áratugarins tilkynnti Carson að hann myndi ekki endurnýja samning sinn við stöðina og hann yfirgaf þáttinn eftir þriggja áratuga feril að kvöldi 22. maí 1992. Þá hafði hann stýrt 4.531 þáttum. Miklar deilur urðu um hver ætti að taka við forystu þáttarins sem ákveðið var að myndi halda áfram án hans. Jay Leno og David Letterman börðust hatrammlega um að taka við af Carson. Fór það svo að Leno vann það kapphlaup og hann tók við í maílok 1992 en Letterman fór á CBS. Eftir að Carson hætti á NBC dró hann sig algjörlega í hlé og var lítið sýnilegur í skemmtanabransanum en veitti stöku sinni viðtöl. Hans verður minnst fyrir líflega og hressilega brandara sem hittu í mark og kætti fólk um allan heim. Hann var einstakur grínisti.

Saga dagsins
1907 Togarinn Jón forseti, sem var fyrsti botnvörpungurinn sem Íslendingar smíðuðu, kom til landsins
1973 Eldgos hófst í Heimaey, um kl. 2 að nóttu - eldur og eimyrja vall upp úr tveggja kílómetra langri eldgjá sem myndast hafði. Langflestir af 5.500 íbúum Vestmannaeyja voru fluttir til lands á örfáum klukkutímum. Miklar skemmdir urðu fyrstu daga gossins er hluti bæjarins varð undir hrauninu. Um tíma leit út fyrir að höfnin myndi lokast af völdum gossins en svo fór ekki. Gosið stóð allt fram í júní
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, lýsir því yfir að náðst hafi friðarsamningur í Víetnam - hann var undirritaður í París síðar sama dag og tók gildi á miðnætti 27. janúar - stríðinu lauk 1975
1981 Tilkynnt var að Snorri Hjartarson hefði hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bók sína, Hauströkkrið yfir mér. Snorri var eitt af bestu ljóðskáldum landsins á öldinni. Hann lést 1986
1997 Madeleine Albright varð utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrst kvenna - sat í embætti til 2001

Snjallyrðið
Í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.

Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.

Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Vornótt)