Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 febrúar 2005

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraHeitast í umræðunni
Líflegar umræður urðu á Alþingi í dag um málefni Ríkisútvarpsins í kjölfar yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um helgina, þess efnis að afnotagjöld yrðu brátt afnumin. Eins og vel hefur komið fram liggur ekkert meira fyrir en einmitt þetta og hefur ráðherra nefnt sem dæmi um framtíðarfyrirkomulag að stofnunin fari á fjárlög eða settur verði á nefskattur. Hef ég lítinn áhuga á báðum þessum kostum og tel þá vart koma til greina og verð því að tjá andstöðu mína við þessar hugmyndir menntamálaráðherra og pælingar í þá átt, ef þær eru það eina sem í stöðunni er. Hef ég talað fyrir því að skylduáskrift yrði afnumin, en tel koma til greina að halda gjaldtöku áfram og þeir sem vilji hafa t.d. rásir Ríkisútvarpsins borgi beint fyrir þær ef þeir vilja njóta þessara fjölmiðla áfram. RÚV á að byggjast á lögmálum markaðarins eins og aðrir fjölmiðlar og innheimta gjöld fyrir miðla sína og byggja rekstur sinn upp á því hverjir vilja hafa viðkomandi miðla. Með öðrum orðum tel ég réttast og öllu vænlegri kost í stöðunni að RÚV komi upp afruglarakerfi og stokkað verði upp staða mála þarna og reksturinn byggist á innheimtu afnotagjalda en ekki skylduáskriftar. Það er því vel athugunarefni að haga afnotagjöldunum sem nú eru innheimt með þessum breytta hætti.

Eins og kom fram í dag í yfirlýsingum Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, hefur ekki endanlega verið ákveðið með hvaða hætti rekstur RÚV verði fjármagnaður þegar innheimtu afnotagjalda verði hætt. Menntamálaráðherra sem er erlendis hefur ekkert tjáð sig meira um málið og voru eins og fyrr segir átök um það á þingi í dag. Þingmenn stjórnarandstöðu deildu hart á ráðherrann vegna yfirlýsinga hennar og hvernig þær voru uppstilltar. Get ég tekið undir það að ekki er vænlegt að velta upp boltanum um þetta í þessu formi án þess að fyrir liggi hvernig málum verði hagað á komandi árum. Fyrir þarf að liggja fljótlega hvert samkomulag stjórnarflokkanna verði um framtíð Ríkisútvarpið. Það er algjörlega ótækt ástand að vafi leiki á stöðunni og hvað eigi að gera og hvað skuli lagt til í væntanlegu frumvarpi til útvarpslaga. Fyrir liggur að nefnd á vegum stjórnarflokkanna, sem skipuð var í maí 2004, hafi nú skilað tillögum um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Ekki er vitað hver endanleg niðurstaða hennar er, en málið er til umræðu innan ríkisstjórnarinnar. Engin ákvörðun hefur því verið tekin um neitt, nema þá það sem fram hefur komið um helgina að afnotagjöldin heyri sögunni til. Í sunnudagspistli mínum í gær fór ég yfir þetta mál og ítrekaði skoðanir mínar um hvað eiga að gera í málum RÚV. Flestum ættu þær að vera orðnar vel kunnugar, enda hef ég skrifað fjölda greina um þessi mál og reynt að tjá mig af krafti um þetta mál. Að mínu mati skiptir máli að tekið verði á stöðu RÚV sem fyrst og málið leitt með afgerandi hætti til lykta, en ekki legið í vafa með stöðuna eins og nú virðist vera raunin. Einfalt er hvað þarf að gera: breyta þarf með afgerandi hætti rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar.

Farid Ayar tilkynnir úrslitinÞingkosningar fóru fram eins og kunnugt er í Írak, þann 30. janúar sl. Voru þær sögulegar umfram allt að því leyti að þær voru fyrstu fjölflokkaþingkosningar í landinu í 51 ár, eða frá árinu 1954. Ánægjulegasta niðurstaðan við kosningarnar og ferli þeirra var óneitanlega að uppreisnarmönnum í Írak mistókst að koma í veg fyrir þær og þá lýðræðisþróun sem hún markaði. Kjörsókn varð um 60%, og varð því mun meiri en búist hafði verið við hjá bjartsýnustu mönnum. Ástæða er til að gleðjast með þá niðurstöðu umfram allt, að hægt var að halda kosningarnar eins og til hafði staðið, þrátt fyrir hótanir hryðjuverkaafla um að reyna að eyðileggja þær og lýðræðisstarfið í kringum þær með öllum tiltækum ráðum. Úrslit kosninganna voru formlega kynnt í gær og var það Farid Ayar talsmaður yfirvalda við kosningarnar, sem kynnti úrslitin formlega.

Kosningabandalag flokka sjíta hlaut flest atkvæði í kosningunum, eins og búist hafði verið við. Hlaut það rúmlega 4 milljónir atkvæða af um 8,5 milljónum atkvæða sem greidd voru en kjörsókn var alls 58,7%. Kosningabandalag flokka Kúrda hlaut næstflest atkvæði eða 2,175 milljón atkvæði og flokkur Iyad Allawi forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar Íraks, hlaut 1,168 milljón atkvæði. Aðeins 3775 gild atkvæði voru greidd í Anbar-héraði, sem er hérað sunní-múslima, leiðtogar þeirra höfðu hvatt fólk til að sniðganga kosningarnar. Í Kúrdahéruðunum í norðurhluta Íraks greiddu 1,7 milljón manns atkvæði í kosningunum. Við blasir því að Sameinaða Íraksbandalagið, kosningabandalag sjíta, muni tilnefna nýjan forsætisráðherra, enda er bandalagið afgerandi sigurvegari kosninganna með nærri helming greiddra atkvæða og ráðandi stöðu. 275 þingsæti verða á írakska þinginu og samkvæmt útreikningum yfirvalda mun bandalag flokka sjíta hljóta rúm 130 sæti, flokkar Kúrda um 70 og flokkur Allawi um 40. Kúrdar eru nú komnir í oddaaðstöðu og munu sjítar væntanlega leita eftir samkomulagi við þá um stjórn landsins.

Punktar dagsins
Akureyri

Kraftmikil umræða hefur átt sér stað hér á Akureyri seinustu mánuði um skipulagsmál, ekki síst sem miðar að því markmiði að efla miðbæinn okkar, sem er óneitanlega hjarta okkar góða samfélags hér. Var mjög ánægjulegt að sjá hvernig nokkrir athafnamenn í bænum undir forystu Ragnars Sverrissonar kaupmanns í JMJ, tóku höndum saman í því markmiði að efla bæinn og stigu það skref að stofna með sér hóp og ákváðu að efna til íbúaþings um málið. Margar hugmyndir hafa vaknað um það hvernig byggja skuli upp miðbæinn og stokka hann upp. Verktakafyrirtækið SS Byggir áformar að reisa þrjá 16 hæða íbúðaturna á Sjallareitnum, við skemmtistaðinn Sjallann í miðbænum. Um er að ræða tveggja hæða verslunar- og bílageymsluhús að grunnfleti 8300 fermetrar.

Ofan á það munu svo koma þrír 14 hæða íbúðaturnar með 150-170 íbúðum. Byggingin gæti orðið allt að 47 metrar á hæð. Eins og fram hefur komið í fréttum njóta þessar hugmyndir stuðnings innan bæjarkerfisins. Umhverfisráð samþykkti á síðasta fundi sínum að taka jákvætt í þessar hugmyndir og telur þær falla vel að markmiðum Akureyrarbæjar um þéttingu byggðar á miðbæjarsvæðinu. Tek ég heilshugar undir það mat. Hef ég jafnan verið mjög hlynntur hugmyndum um háhýsi í miðbænum og tel þessar hugmyndir mjög vænlegar og vel til þess fallnar að efla miðbæinn í samræmi við verkefnið Akureyri í öndvegi. Tel ég að bygging þríburaturna í miðbæ Akureyrar muni skipta sköpum fyrir framtíð miðbæjarins.

Ray Charles

Bandaríski söngvarinn Ray Charles hlaut flest verðlaun á Grammy-tónlistarverðlaunahátíðinni í gær, eða alls átta. Charles var einn fremsti tónlistarmaður Bandaríkjanna og var konungur soul-tónlistarinnar. Hann lést í júní 2004. Meðal verðlauna sem hann hlaut var fyrir bestu plötu síðasta árs, Genius Loves Company, dúettaplötu, þar sem hann söng frábær lög með fjölda þekktra tónlistarmanna. Er þetta í annað skipti í sögu Grammy-verðlaunanna sem látinn tónlistarmaður vinnur verðlaunin fyrir plötu ársins. John Lennon hlaut verðlaunin skömmu eftir lát sitt fyrir plötu sína, Double Fantasy. Kvikmynd um ævi Charles hefur ekki síst aukið vinsældir hans að undanförnu, en myndin sem skartar leikaranum Jamie Foxx í hlutverki söngvarans hefur hlotið góða dóma. Meðal annarra helstu verðlaunahafa hátíðarinnar að þessu sinni voru jazz-söngkonan Norah Jones, blúspopparinn John Mayer og Alicia Keys. Hljómsveitin Green Day fékk verðlaun fyrir bestu rokkplötuna, American Idiot. Besta rokklag ársins var valið Vertigo með U2. Besta lag ársins 2004 í heildarflokki var lagið Here we go again með Ray Charles og Noruh Jones.

The Pianist

Var góð dagskrá í gærkvöldi í sjónvarpinu. Leit á seinni hlutann um Steinunni Truesdale, sem er í bandaríska hernum í Írak, 24 og Cold Case. Horfði svo á kvikmyndina The Pianist, meistaraverk frá leikstjóranum Roman Polanski. Er persónulegasta mynd hans á ferlinum og sú besta hingað til. Áður á hann að baki úrvalsmyndir á borð við Rosemary´s Baby og Chinatown. Hér fetar Polanski aðra slóð en áður á ferli sínum. Efni myndarinnar eru hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Sjálfur upplifði hann þessar hörmungar og litlu mátti reyndar muna að hann léti lífið í þeim hildarleik öllum. Hér segir frá ótrúlegu lífshlaupi pólska píanóleikarans Wladyslaw Szpilman og hvernig honum, með dyggri aðstoð pólsku andspyrnuhreyfingarinnar og ennfremur tilviljun og hreinni heppni, tókst að leynast fyrir nasistum meginhluta stríðsins, 1939-1945. Myndin fjallar um hernám Póllands 1939 og hvernig nasistar fóru með Pólverja í stríðinu, niðurlægðu þá og sviptu þá öllum mannréttindum, fluttu í útrýmingarbúðirnar þar sem þeim var þrælað eins og skepnum og að lokum murkað úr þeim líftórunni. Átakanlegt er að horfa á mikilfengleika þessa verks og hversu vel þetta er fært í kvikmyndabúning.

Polanski hefur aldrei farið troðnar slóðir í kvikmyndagerð á sínum ferli og þótt mistækur, átt bæði ógleymanleg meistaraverk og miðlungsmyndir. Hér er hann hinsvegar kominn með mynd ferils síns, hefur augljóslega lagt allt sitt í verkið og uppsker ríkulega eftir því. Öll umgjörð myndarinnar er stórfengleg; tónlist, handrit, framleiðsla og klipping - allt í fyrsta flokks klassa. Og langt er síðan nokkur leikari hefur unnið jafn eftirminnilegan leiksigur og sést í þessari mynd. Adrien Brody fékk óskarsverðlaunin fyrir magnaða túlkun sína í hlutverki Wladyslaw Szpilman. Þessi þrítugi New York-búi sem á að baki smáhlutverk í nokkrum myndum er orðin stórstjarna á einni nóttu. Hann er myndin The Pianist, hann skapar meistaraverkið og tryggir hversu vel útkoman heppnast. Myndin var tilnefnd til sjö óskarsverðlauna, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins. Hlaut þrjá óskara, fyrir leikara í aðalhlutverki, handrit byggt á áður útgefnu efni og hlaut Polanski leikstjóraóskarinn fyrir sitt glæsilega verk. Það er óhætt að mæla með þessari einstöku kvikmynd, að mínu mati besta kvikmynd ársins 2002. Mynd sem enginn sannur kvikmyndaáhugamaður má missa af.

Betri borg

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins opnaði á föstudag glæsilega heimasíðu. Á vefnum verður hægt að fylgjast með störfum og stefnu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og birtar verða fréttir af borgarmálunum, greinar og pistlar og fréttir af öðrum vettvangi sem varða borgarmálin. Eins og fram kemur á vefnum verður þar lögð áhersla á að kynna eins vel og kostur er þau málefni sem eru til umfjöllunar á vettvangi borgarstjórnar og efla umræðuna um borgarmálin. Ritstjóri vefsins er Magnús Þór Gylfason framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Gaman er að líta á vefinn og kynna sér efnið þar. Ljóst er að þessi vefur verður öflugur vettvangur okkar sjálfstæðismanna í borginni fyrir borgarstjórnarkosningar eftir rúmt ár.

Saga dagsins
1942 Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, stofnað - aðildarfélög bandalagsins eru nú á fjórða tug og félagsmenn eru um 20.000 talsins. Núv. formaður BSRB er Ögmundur Jónasson alþingismaður
1945 Herir Bandamanna varpa fjölda sprengja á þýsku borgina Dresden - fjöldi manna lét þá lífið
1989 Ayatollah Khomeini trúarlegur leiðtogi Írans, kveður upp dauðadóm yfir breska rithöfundinum Salman Rushdie vegna bókar hans, Söngvar Satans (Satanic Verses) - var í gildi allt til ársins 1998
1993 Tveggja ára gamall strákur, James Bulger, fannst látinn við lestarteina í Liverpool í Bretlandi - upptaka úr eftirlitsmyndavél í verslunarmiðstöð í Liverpool sýndi er tveir 10 ára gamlir drengir leiddu Bulger á milli sín og höfðu á brott. Málið vakti mikinn óhug og reiði um allan heim. Drengirnir, Jon Venables og Robert Thompson, voru sakfelldir fyrir morðið og sátu í fangelsi allt til ársins 2001, er áfrýjunarnefnd komst að þeirri umdeildu niðurstöðu að þeir væru ekki lengur hættulegir. Fengu þeir lausn úr varðhaldi og hlutu ný nöfn, þeim var haldið leyndum fyrir almenningi, vegna öryggis þeirra
1994 Björk Guðmundsdóttir söngkona, var valin besta alþjóðlega söngkonan og besti nýliðinn á Brit-tónlistarhátíðinni í Bretlandi. Björk hlaut söngkonuverðlaunin öðru sinni á Brit-hátíðinni árið 1998

Snjallyrðið
Smávinir fagrir, foldar skart,
fifill í haga rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.

Faðir og vinur alls sem er!
annastu þennan græna reit;
blessaðu faðir blómin hér;
blessaðu þau í hverri sveit.
Vesalings sóley! sérðu mig.
Sofðu nú vært og byrgðu þig;
hægur er dúr á daggarnótt,
dreymi þig ljósið, sofðu rótt.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Hulduljóð)