Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 febrúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um væringarnar í Framsóknarflokknum, sem hafa verið mjög áberandi í stjórnmálaumræðunni að undanförnu. Hefur þetta birst vel í aðdraganda flokksþings framsóknarmanna sem haldið var um helgina. Í flokknum virðist allt loga í illdeilum og lyktin af sundurlyndinu og hjaðningavígunum á bakvið tjöldin, sögusagnir um átök og valdaerjur, berast langar leiðir og barist virðist með ákveðnum hætti. Þetta fer ekki framhjá neinum sem fylgist með íslenskum stjórnmálum. Losarabragurinn á Framsóknarflokknum og pólitískri forystu flokksins er að verða mjög áberandi og svo virðist sem að þar sé hver höndin upp á móti annarri. Fulltrúar flokksins í fremstu víglínu skiptast núorðið á að koma fram með umsnúninga á ummælum og fullyrðingum af hálfu hvers annars. Sem dæmi er að ráðherrar þeirra virðast hættir að tala saman nema gegnum fjölmiðla, og þá með beinskeyttum hætti, svo eftir er tekið. Forystumenn flokksins tókust á um Evrópumálin fyrir opnum tjöldum á flokksþinginu um helgina. Fjalla ég um Evrópuumræðuna þar innbyrðis og titringinn sem kom fram er rætt var um hvort flokkurinn ætti að leggja til að Ísland myndi hefja aðildarviðræður við ESB.

- í öðru lagi fjalla ég um umræðuna um uppstokkun Stjórnarráðs Íslands, í kjölfar þess að Árni Magnússon félagsmálaráðherra, lagði fram tillögur sínar og hugmyndir í vikunni. Tek ég undir sumt sem Árni hefur lagt fram, en er ósammála sumu. Hef ég persónulega margoft tjáð mínar skoðanir á mikilvægri uppstokkun ráðuneyta og fækkun ráðherra. Nefni ég í pistlinum tvær hugmyndir mínar, sem ég vék að í útvarpsviðtali á Rás 2 í febrúar 2004, í miðri umræðunni um uppstokkun reglugerðar um Stjórnarráðið á margfrægum ríkisráðsfundi í byrjun þess mánaðar. Annars vegar að sameina dóms- og kirkjumálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti í eitt ráðuneyti innanríkismála. Ennfremur yrðu með því byggðamál færð úr iðnaðarráðuneyti til þessa nýja ráðuneytis. Hinsvegar minni ég á tillögu um að sameina atvinnuvegaráðuneytin: landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, í eitt. Hvet ég til þess að umræða fari fram um þessi mál og þetta verði stokkað upp eftir næstu kosningar.

- í þriðja lagi fjalla ég um velheppnaða Evrópureisu George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Almennt er litið á þessa fyrstu Evrópureisu forsetans, eftir endurkjör hans í nóvember, sem mikla sigurför og niðurstaða hennar túlkuð sem mikill diplómatískur sigur fyrir hann og stefnu hans. Sögulegar sættir náðust milli Bush forseta og þjóðarleiðtoga í Evrópu í þessari ferð sem hann deildi við í Íraksmálinu og sterk tengsl hans og Putins Rússlandsforseta, komu vel í ljós. Segja má að ferðin hafi gengið vel og verið mikilvægur vitnisburður þess að leiðtogarnir horfa fram á veginn, til þeirra úrlausnarefna sem blasa við, og einblína ekki á fortíðina.

Punktar dagsins
Jóhannes Páll páfi II

Jóhannes Páll páfi II kom öllum á óvart í dag með því að birtast opinberlega í fyrsta skipti eftir að hann gekkst undir aðgerð á fimmtudag. Þá varð að gera á honum barkaskurð til að hann gæti andað eðlilega og var komið fyrir barkaraufspípu til að auðvelda honum öndun. Jafnframt varð ljóst að hann gæti ekki talað næstu vikurnar meðan hann væri að jafna sig af læknismeðferðinni. Margar sögur höfðu gengið um ástand hans, fullyrt var að hann væri vel á sig kominn miðað við aðstæður og ennfremur að hann væri í lífshættu og alvarlega veikur. Er ekki hægt að segja annað en að ástand páfa sé óvenjulega gott miðað við allt sem á honum hefur dunið. Raddir um heilsufar hans og hvernig honum liði þögnuðu skyndilega er hann birtist í glugga sjúkrastofu sinnar og veifaði til fólks fyrir utan. Í fyrsta skipti á rúmlega 26 ára ferli hans sem páfa gat hann ekki flutt blessunarorð í sunnudagsbænum í dag. Páfa var ekið í hjólastól út að glugganum. Gerði hann krossmark og benti á háls sinn, sem merki um að hann gæti ekki talað. Þó er auðvitað ljóst að heilsfar hans er orðið mjög brothætt. Verður fróðlegt að fylgjast með heilsu hans á næstunni.

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra

Athyglisvert var venju samkvæmt að horfa á dægurmálaþættina. Sunnudagsþátturinn á Skjá einum hófst með viðtali Katrínar Jakobsdóttur við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Ræddu þær um málefni skólastigsins og tillögur í þá átt að stytta framhaldsskólanám og stokka upp skólastigin. Vinna við það hefur staðið í ráðuneytinu í nokkur ár og tók Þorgerður við málinu af forvera sínum, Tómasi Inga Olrich sem skipaði nefnd um málið árið 2002. Fóru þær yfir málið í fróðlegu spjalli, gott að heyra Þorgerði skýra málið og fara yfir það í spjallinu. Því næst ræddi Illugi við Steingrím J. Sigfússon formann VG, um málefni Símans. Hann á lítinn hlut í fyrirtækinu, en var mjög virkur á seinasta aðalfundi þess og nýtti hlutinn vel við að bera upp tillögur. Var kostulegt að heyra skoðanir hans á málefnum Símans. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, var gestur Óla Teits og Guðmundar. Fór hún yfir flokksþing framsóknarmanna. Greinilegt að það andar köldu frá henni í garð Kristins H. og hún sýndi hversu Evrópusinnuð hún er, en hún vill greinilega gera ESB að kosningamáli fyrir næstu kosningar. Valla er einn öflugasti talsmaður Halldórsarmsins í flokknum og hefur alla tíð verið og er ein helsta málpípa forsætisráðherrans í stefnumálum. Orð hennar verða að orðum Halldórs. Þannig er það bara. Hjá Agli var mjög fróðleg umræða um fasteignaverð þar sem Gunnar I. Birgisson fór yfir málin í kjölfar umræðu seinustu daga ásamt fleirum. Svo var athyglisvert að sjá umræðuna um trúmál þar sem Jón Valur Jensson og Sigurður Hólm Gunnarsson ræddu um kristinfræðikennslu í skólum.

Hosni Mubarak

Stórtíðindi eru að eiga sér stað í egypskum stjórnmálum. Í gær tilkynnti Hosni Mubarak forseti Egyptalands, hugmyndir sem leiða eiga til lýðræðisáttar þar. Boðaði hann þar beinar forsetakosningar og frjáls framboð. Það hefur verið þannig til fjölda ára að Mubarak hefur verið einn í kjöri til embættisins og ekki er frjálst að fara í mótframboð gegn honum. Mubarak hefur nú setið á forsetastóli í 24 ár, eða allt frá því að Anwar Sadat var myrtur í nóvember 1981. Hann var varaforseti þá en hefur verið kjörinn þrisvar: 1987,1993 og 1999. Kjörtímabil forseta Egyptalands er 6 ár. Flest bendir til þess að Mubarak, sem verður 77 ára í maí, ætli sér að gefa kost á sér að nýju. Einnig er líklegt að Mubarak ætli syni sínum, Gamal Mubarak að taka við embættinu og jafnvel sé honum ætlað að fara fram núna og forsetinn dragi sig því hlé. Efnt hefur verið til mótmæla í Egyptalandi seinustu ár gegn fyrirætlunum Mubaraks að gefa kost á sér enn einu sinni og það enn einu sinni að vera einn í kjöri. Eins og lögin eru núna er efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um einn forsetaframbjóðanda og þingið staðfestir kjörið. Þjóðarlýðræðisflokkur forsetans hefur haft meirihluta á þinginu frá 1970 og að óbreyttu hefur hann því forsetaembættið í hendi sér.

Ísnálar á Akureyri

Það hefur verið merkilegt veður hér á Akureyri seinustu daga. Þoka hefur legið yfir bænum síðustu daga, sem sett hefur flugsamgöngur úr skorðum. Annað blasti þó við t.d. á föstudag í Hlíðarfjalli, þar var glaðasólskin meðan þokuteppi lá alveg yfir bænum. Stórmerkileg sjón alveg. Er Akureyringar vöknuðu að morgni laugardags blasti við athyglisverð sjón, sem ekki sést á hverjum degi og ég hef ekki séð fyrr hér í bænum. Um nóttina hafði þokan breyst í nokkurskonar hrímþoku. Tré bæjarins voru öll fagurhvít um morguninn og langt fram á daginn. Hrímþokan kallar til sín ísnálar sem þéttast á greinunum og eru mjög fagrar á að líta. Mögnuð sjón og ég bendi fólki á að skoða fallega myndasyrpu á vef bæjarins af ísnálunum og þessum stórmerkilega atburði. Sjón er sögu ríkari!

Saga dagsins
1638 Eldgos hófst í Vatnajökli - vötn á Austurlandi fylltust af flóði og báru mikinn vikur allt út á sjó
1928 Togarinn Jón forseti frá Reykjavík, fórst við Stafnes - 15 manns drukknuðu en 10 var bjargað
1941 Togarinn Gullfoss frá Reykjavík, fórst skammt frá Snæfellsnesi - 19 manns fórust með honum
1975 Samþykkt var að friðlýsa Hornstrandir, sem eru norðvestan Skorarheiðar í N-Ísafjarðarsýslu
1991 George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir því yfir að Kuwait hafi verið frelsað undan oki Íraka, eftir að þeir höfðu þá formlega viðurkennt ósigur sinn í stríðinu. Persaflóastríðið stóð í rúman mánuð. Saddam Hussein sat þó áfram á valdastóli í Írak, en hann var felldur af valdastóli í apríl 2003

Snjallyrðið
Langt fyrir utan ystu skóga
Árið sem að gullið fannst
Einn bjó smiður út í móa
Og hans dóttir sem þú manst.

Litla smáin lofið fáin
Lipurtáin gleðinnar
Ertu dáin út í bláinn?
Eins og þráin sem ég bar.
Halldór Kiljan Laxness skáld og rithöfundur (1902-1998) (Klementínudans)