Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 mars 2005

Bobby FischerLaugardagspælingin
Skákmeistarinn Bobby Fischer kom til Íslands að kvöldi skírdags eftir tæplega sólarhringslangt ferðalag frá Japan. Var hann látinn laus úr útlendingabúðunum í Japan um klukkan eitt að nóttu að íslenskum tíma aðfararnótt 24. mars, eftir að pappírar hans höfðu verið staðfestir og dómari samþykkt lausn hans. Fór hann að því búnu út á flugvöll þar sem hann hélt með flugvél til Kaupmannahafnar. Kjaftaði á honum hver tuska á flugvellinum. Sagði hann þar að honum hefði verið rænt af japönskum stjórnvöldum. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Junichiro Koizumi forsætisráðherra Japans, hefðu bruggað sér launráð og skipulagt það að loka hann inni. Sagði hann að réttast væri að hengja þá báða. Sagði hann að Japan væri gott land en þar væru glæpamenn við völd. Þessi ummæli Fischers voru send út til fjölmiðla um allan heim og voru fyrstu skilaboð hans eftir að losna úr prísundinni. Talsmátinn og orðaforðinn segir meira en mörg orð um geðheilsu skákmeistarans.

Greinilegt var að menn höfðu lært lexíuna varðandi skákmeistarann er til Kaupmannahafnar kom og einhverjir höfðu togað í spotta til að þagga mætti niður í helstu öfgaskoðunum hans. Var honum fylgt í lögreglufylgd úr flugvélinni og fjölmiðlar fengu ekki að ræða við hann. Þá hitti hann Sæmund Pálsson, en þeir hittust fyrr í mánuðinum í fyrsta skipti í 33 ár. Aðeins íslenskum fjölmiðlum var gefið tækifæri til að ræða við hann stuttlega í bíl við flugstöðina. Vegna þoku kom í ljós að ekki var ekki hægt að fljúga þaðan til Íslands, seinasta spölinn. Varð því úr að farið var með hann til Svíþjóðar þaðan sem fljúga ætti honum með einkaflugvél til landsins. Er líða tók á fimmtudaginn kom í ljós að einkaþotan sem fljúga skyldi Fischer seinasta spölinn til Íslands var borguð af Stöð 2, sem er í eigu 365-ljósvakamiðla, fjölmiðlafyrirtækis Baugs. Með Fischer í för voru m.a. Páll Magnússon sjónvarps- og fréttastjóri Stöðvar 2 og myndatökumenn sem höfðu fylgst með máli Fischers og t.d. fylgt Sæmundi Pálssyni til Japans fyrir nokkrum vikum.

Er leið á fimmtudagskvöldið hófst einhver athyglisverðasti fjölmiðlasirkus í sögu landsins og eru þá margir ógleymanlegir fjölmiðladekurtaktarnir teknir inn í, t.d. heimkoma forseta Íslands frá Mexíkó í maí 2004 eftir 14 tíma flug frá Mexíkó. Stöð 2 og Ríkissjónvarpið sýndu beint frá heimkomu Fischers um ellefuleytið í gærkvöldi, enda vissulega um merkilegan atburð að ræða. Sá var þó munurinn á að Stöð 2 var hvorki með viðtöl við fólk á staðnum né kynnti sögu málsins í útsendingunni eins og RÚV. Byggðist útsending Stöðvar 2 eingöngu á tali Kristjáns Más Unnarssonar í myndveri og Ingólfs Bjarna Sigfússonar sem var á staðnum um allt og ekki neitt tengt flugvélinni og samtali Kristjáns Más við Pál Magnússon sem talaði fram og til baka um allt og ekki neitt er vélin kom inn til aðflugs yfir Reykjavík. Bar öll útsendingin þess merki að Fischer væri eign Baugs og sérstaklega eyrnamerktur þeim með allótrúlegum hætti. Lýsingin á aðfluginu var allkostuleg og reyndar hvarflaði þá strax að mér að eitthvað stórundarlegt væri að fara að eiga sér stað. Reyndist það rétt.

Við lendinguna urðu áhorfendur Stöðvar 2 vitni að því að Kristján og Ingólfur skeggræddu um vélina, áhöfnina og lögregluna sem tollskoðaði vélina við komuna. Ég vil taka fram að ég hef sjaldan orðið í raun vitni að mannráni í beinni útsendingu, en það sem tók við var næsti bær við það að mínu mati. Allavega eins nálægt orðinu mannrán og hægt er nokkurntímann að komast því. Eins og fram kom ljóslega í útsendingunni hélt lögreglan öllum nema fréttamanni Stöðvar 2 innan svokallaðrar öryggislínu, er Fischer sté út úr flugvélinni. Stuðningsmenn Fischers og aðrir fréttamenn horfðu því upp á það álengdar þegar Ingólfur frá Stöð 2 óð fram fyrir lögreglumennina og beint að Fischer og var einn sem komst nálægt honum. Fékk hann algjört fríspil miðað við aðra. Eins og komið hefur nú í ljós af hálfu lögreglunnar var það Páll Magnússon sjálfur sem fyrirskipaði það hvernig allt fór fram á vellinum og hvernig staðið var að komu Fischers. Það var því auðvitað þess vegna sem fréttamaður Stöðvar 2 var sá eini sem komst að Fischer á vellinum og gat rætt við hann. Var sagt að hann væri "örþreyttur" og myndi fara beint á hótelið.

Þetta er ótrúleg lágkúra og skítleg auglýsingamennska, svo vægt sé til orða tekið, sem þjóðin varð þarna vitni að. Svo var allt ruglið endanlega kórónað með því að Páll (fréttastjóri Baugsmiðlanna í sjónvarpi og yfirskipuleggjandi komu Fischer og vinnubragða lögreglunnar) fór í framsæti Range Rover bifreiðar sem stóð álengdar hjá eins og planað hafði verið af Stöð 2 beint á þeirra vegum. Í ökumannssætið settist hinsvegar Heimir Jónasson dagskrárstjóri Stöðvar 2. Aftur í jeppa Baugsliða settust svo hinn formælandi skákmeistari, sambýliskona hans og "góðvinurinn" Sæmundur Pálsson. Var þetta allt mjög kómískt og jafnaðist á við farsa, rétt eins og allt þetta ótrúlega vitlausa og hofmóðuga mál hefur verið seinustu vikurnar. Svo sáu áhorfendur á Stöð 2 jeppalinginn aka í burt. Töldu þá flestir að "show-ið" væri nú búið og sirkusdýrinu hefði verið komið áleiðis. Það var einmitt það sem kom upp í huga minn við að sjá þetta. Bobby Fischer, andstæðingur auðvaldsins og peningahyggjunnar, var orðinn leiksoppur og sirkusdýr auðvaldsins. Þetta var allt á við vænan brandara.

Héldu Kristján Már og Ingólfur Bjarni áfram að tala í útsendingunni eftir að jeppinn fór. Fannst mörgum, allavega mér, skondið að útsendingunni skyldi haldið áfram svo lengi, enda helsta "show-ið" búið. En það var nú aldeilis ekki svo. Allt í einu sagði Kristján Már við Ingólf: "Ég er að heyra það að Fischer er á leiðinni til þín og þú getur því rætt meira við hann". Allt í einu gerist það að jeppinn með hinn "örþreytta skákmeistara" kemur aftur inn á vallarsvæðið. Voru þá um 15 mínútur liðnar frá því að honum var ekið á brott og flestir því auðvitað búnir að taka niður búnað sinn. Þar sat Ingólfur Bjarni Baugsliði einn að skákmeistaranum "örþreytta" og talaði við hann í rúma mínútu. Þá var honum loks ekið á hótelið. Missti þá Kristján Már út úr sér hina gullnu setningu kvöldsins: "þetta er glæsilegur Range Rover jeppi". Það blasti því við að honum hafði verið ekið um borgina nokkra hringi og svo bara komið með hann aftur í einkaviðtal til Baugs, sem meðhöndlaði hann eins og um væri að ræða hverja aðra eign sína eins og epli og appelsínu í ávaxta- og grænmetisborðinu í Hagkaup. Þetta var með ólíkindum á að horfa, umfram allt annað. Orðið fjölmiðlasirkus og sirkusdýr á best við.

Eins og kom í ljós í fjölmiðlum í gær var þetta allt þaulskipulagt og vinnubrögð Stöðvar 2 löngu ákveðin. Planað var með viðtalið fyrirfram og uppsetningin öll í takt við að um eign fyrirtækisins væri að ræða fyrst borguð var undir hann einkaflugvél alla leið. Reyndar er nú komið í ljós að einkaflugvélin er í eigu Baugs beint og notuð af yfirmönnum fyrirtækisins. Eins og blasir við var ofríki Stöðvar 2 algjört og farið með manninn, sem barist var fyrir að fá lausan úr haldi, eins og hann væri gísl eða fangi. Það blasir við að fréttastofa Stöðvar 2 og 365 - ljósvakamiðlar urðu sér til ævarandi skammar og niðurlægingar með vinnubrögðum sínum. Merkilegast var að þeir sem börðust hvað mest fyrir að fá þennan mann til landsins, stuðningsmannasveit hans, var meðhöndluð eins og henni kæmi málið ekkert við. Fischer var alveg eins og ódýrt sirkusdýr, sem gengur kaupum og sölum og er sýnt lokað í búri til skemmtunar öðrum. Þetta var allt mjög skondið og veitir ekki af fyrir yfirmenn Stöðvar 2 að skammast sín ærlega og spyrja sig að því hvort Páll Magnússon verði einhverntímann trúverðugur í fréttamennsku aftur eftir þessi afglöp sín.

Eftir að fjölmiðlasirkusnum lauk og búið var að bruna með sirkusdýrið "örþreytta" á hótelherbergið sitt sátu eftir í huga mér nokkrar spurningar. Hér eru nokkrar þeirra: hvers vegna voru Íslendingar að blanda sér í málefni sirkusdýrsins? - hvers vegna var farið með hann eins og eign auðmanna sem lifa af því að búta og bryðja stór og lítil fyrirtæki? - og síðast en ekki síst hin gullna spurning: hversu dýrkeypt mun koma sirkusdýrsins verða okkur þegar á heildina er litið? Í mínum huga, eftir allt þetta fjölmiðlafár og afglöp einnar stærstu fréttastofu landsins, er ekki fjarri því að manni líði eins og við séum komin í eina sápuóperuna í Hollywood, þar sem allt er sokkið í dramatík og rjómalagaða ævintýrakjaftæðisvellu. Einfalt mál!

Saga dagsins
1947 Knattspyrnusamband Íslands var stofnað - KSÍ er langfjölmennasta sérsambandið innan raða Íþrótta- og Ólympíunefndar Íslands, enda munu rúmlega 14.000 landsmenn iðka fótbolta hérlendis
1958 Leikarinn Sir Alec Guinness hlaut óskarinn fyrir frábæra túlkun sína á Nicholson ofursta í The Bridge on the River Kwai - Guinness var einn af bestu leikurum Breta á 20. öld og var þekktur fyrir glæsilega túlkun sína á svipmiklum karakterum. Guinness hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag sitt til leiklistar árið 1980. Hann var mjög sérlundaður og horfði t.d. aldrei á myndir sínar. Sir Alec lést 2000
1973 Flugvélin Vor fórst í Búrfjöllum, norður af Langjökli, og með henni fimm manns - meðal þeirra sem fórust í flugslysinu var einn af reyndustu flugmönnunum í flugsögu Íslendinga, Björn Pálsson
1990 Leikkonan Jessica Tandy hlaut óskarinn fyrir stórglæsilega túlkun sína á suðurríkjahefðarfrúnni Daisy Werthan í kvikmyndinni Driving Miss Daisy - með þessu varð Tandy elsti kvikmyndaleikarinn til að hljóta óskarsverðlaun, en hún var þá 81 árs að aldri. Tandy vann við leik allt til æviloka, þrátt fyrir að greinast með krabbamein árið 1991 vann hún við hverja myndina uns yfir lauk. Hún lést árið 1994
2000 Leikarinn Kevin Spacey hlaut óskarinn fyrir óaðfinnanlega túlkun sína á neðanmálsmanninum Lester Burnham í hinni ógleymanlegu American Beauty - Spacey, sem er einn besti leikari nútímans, hlaut áður verðlaunin fjórum árum áður fyrir magnaða túlkun sína á Verbal Kint í The Usual Suspects

Snjallyrðið
I always cheer up immensely if an attack is particularly wounding because I think, well, if they attack one personally, it means they have not a single political argument left.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)