Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 mars 2005

AkureyriHeitast í umræðunni
Eins og vel hefur komið fram í skrifum mínum seinustu daga er mikil reiði hér á Akureyri vegna þeirrar ákvörðunar Ríkiskaupa að semja við pólska skipasmíðastöð um endurbætur á varðskipunum Ægi og Tý. Er ekki óeðlilegt að svo sé. Með þessari ákvörðun er íslenskum skipa- og málmiðnaði sýnd mikil lítilsvirðing og um er að ræða áfall fyrir okkur hér í bænum. Þetta mál var rætt á fundi bæjarstjórnar í gær og farið yfir málið. Afstaða okkar hér á Akureyri er alveg skýr. Á fundinum kom fram þverpólitísk samstaða í málinu og mikill samhljómur allra bæjarfulltrúa um að tala gegn þessum vinnubrögðum Ríkiskaupa.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, lagði fram ályktun í bæjarstjórn af hálfu hennar. Var hún samþykkt samhljóða, með atkvæðum 11 bæjarfulltrúa. Hún hljóðar svo: "Bæjarstjórn Akureyrar lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun Ríkiskaupa að ganga að tilboði pólskrar skipasmíðastöðvar í viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý. Með þessu verklagi er vegið að rótum íslensks iðnaðar, sem hlýtur að vekja furðu, ekki síst í ljósi þess að íslenskum stjórnvöldum er fullljóst að skipasmíðar hér á landi keppa á þessu sviði við ríkisstyrktan erlendan atvinnurekstur.

Tilboð Slippstöðvarinnar sýnir að íslenskur skipasmíðaiðnaður stenst erlend tilboð á þessu sviði án þess að tillit sé tekið til þess óbeina hagnaðar sem íslenskt samfélag hefur af því að verkið skuli unnið hér á landi. Að taka ekki tilboði Slippstöðvarinnar undir þessum kringumstæðum sýnir fyrst og fremst skort á vilja og metnaði til þess að hlú að þessari mikilvægu atvinnugrein í landinu. Bæjarstjórn Akureyrar skorar á fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra og iðnaðarráðherra að beita sér fyrir því að ákvörðun Ríkiskaupa um að taka hinu pólska tilboði verði endurskoðuð og tryggja að viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý fari fram í íslenskum skipasmíðastöðvum.
" Þessi ályktun segir allt sem segja þarf um málið. Pólitísk samstaða er hér um að senda pólitískum forystumönnum þennan tón.

Á mánudag tjáði ég mig um málið á vef flokksins, hér í bænum. Ég tel rétt á þessum degi, eftir þessa afgerandi samþykkt bæjarstjórnar að birta hér að lokum niðurlag þessa pistils míns um þetta mál. Persónulegar pælingar af minni hálfu um stöðu mála. Fá orð vissulega - en þau segja það sem mikilvægt er! "Spurt er: hvað ætla ráðamenn að gera í stöðunni? Er verjandi að fara með verk á borð við þetta til Póllands og sýna íslenskum skipa- og málmiðnaði þá lítilsvirðingu sem felst í ákvörðun Ríkiskaupa. Það væri gott að fá svar við því og ekki síður útskýringar á hversvegna kontóristar taki ákvörðun á borð við þessa þegar ljóst er að munurinn á milli tilboðanna er það lítill að hann hverfur við kostnaðinn af því að koma skipunum til Póllands og halda uppi starfsfólki og tengdu liði á erlendri grundu. Stjórnmálamennirnir skulda okkur hér skýringar á þessum verknaði. Það er svo einfalt."

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraÍ gær var formlega lagt fram á Alþingi, frumvarp til laga um breytingar á útvarpslögum. Frumvarpið er mjög athyglisvert. Las ég það allt seinnipartinn í gær er það var fyrst kynnt á vef þingsins. Markar þetta frumvarp vissulega tímamót. Þetta er í fyrsta skipti í tvo áratugi sem meginbreytingar verða á útvarpslögum. Hefur til fjölda ára verið unnið að því að stokka rekstur RÚV eitthvað upp, en gengið brösuglega að ná saman um grunnforsendur í þeim efnum. Það hefur nú tekist. Loks er farið einhver skref fram á veginn. Mikilvægasta skrefið á þessari vegferð er hiklaust að útvarpsráð mun brátt heyra sögunni til. Rekstrarstjórn kemur til sögunnar, sem taka mun á rekstrarmálum RÚV og ber loks ábyrgð á rekstrinum og tengdum málum. Það hefur lengi verið einn af akkilesarhælum RÚV að þar hefur verið raðað upp í fremstu röð hverri silkihúfunni á eftir annarri sem enga ábyrgð ber á rekstrarlegum forsendum. Nú breytist það. Nú verða menn að fara að reka RÚV sem hvert annað fyrirtæki en ekki stofnun, sem er kyrfilega njörvuð á jötuna. Nú breytist það! Er það gott mál. Svo stíga menn í áttina að sölu Rásar 2: loksins, loksins; segi ég!

Í gærkvöldi fór Þorgerður Katrín yfir helstu atriði frumvarpsins í ítarlegu viðtali við Eyrúnu Magnúsdóttur og Sigurð G. Valgeirsson í Kastljósinu í gærkvöldi. Var hún stödd á Egilsstöðum, enda verið á ferð um Austurland um daginn og undirritað á Breiðdalsvík fyrr um daginn samning um samstarf ríkis og allra sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. En þetta frumvarp er mikilvægt, eins og fyrr segir, að hlutverk RÚV breytist. Rekstrarlegar forsendur verða loks meginstef. Ekki veitir nú af. Við höfum nýlega séð grunntölur RÚV. Þær eru ekki fagrar. Bendi ég á pistil minn um málefni RÚV í seinustu viku, þar fer ég yfir tölurnar og stöðu RÚV almennt. Óþarfi að tvítelja upp það efni sem þar stendur. Lesið það efni endilega. En í stuttu máli sagt: það er allt í kaldakoli rekstrarlega séð hjá RÚV og vantar að gera einhvern ábyrgan fyrir rekstrinum. Það verður að reka þetta eins og hvert annað fyrirtæki, ekki stofnun sem getur rekið sig áfram án tillits til rekstrartekna. Er mjög slæmt að menn fari einhverja málamiðlunarleið að hætti Framsóknar og endi í einhverju sameignarfélagsformi en fari ekki beint í hlutafélagaformið, sem er hið eina og réttasta í grunninum sem forsenda. En þetta er svona og það verður að vinna úr þeirri stöðu með þeim hætti sem best er. En þetta frumvarp er skref í áttina og því ber vissulega að fagna að RÚV þokist í átt til framtíðar. Eftir því hef ég lengi persónulega beðið og fagna því. En þetta er bara skref, það eru mörg eftir!

Punktar dagsins
Silvio Berlusconi

Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, lýsti því yfir í spjallþætti á ítalskri sjónvarpsstöð í gærkvöldi að ítölsk yfirvöld myndu brátt draga úr herstyrk sínum í Írak. Hefur hann í símtali við George W. Bush forseta Bandaríkjanna, sagt að hann vilji hefja brottflutning hermanna í september. Rúmlega 3.000 ítalskir hermenn eru nú í Írak. Er um að ræða nokkur þáttaskil en forsætisráðherrann hafði áður sagt að það væri ekki komin nein tímamörk á það hvernig Ítalir myndu draga úr herstyrk sínum í landinu. Berlusconi kom löndum sínum mjög á óvart með þessari yfirlýsingu og hefur nú slegið öll vopn úr höndum stjórnarandstöðunnar á Ítalíu, sem ætlaði sér að gera þetta mál að lykilmáli kosningabaráttunnar til þings í landinu síðar á árinu. Með þessu hefur Berlusconi tekið mál pólitískt úr umferð, enda ljóst að pólitísk samstaða er um grunn þess. Eitt sem hefur eflaust flýtt fyrir því að þessi ákvörðun sé kynnt er mál leyniþjónustumannsins sem féll í Bagdad nýlega, en Berlusconi hefur tjáð sig af krafti um það mál seinustu daga og verið áberandi í umræðunni vegna þess. En það verður fróðlegt að sjá hvernig kosningabaráttan fyrir ítölsku þingkosningarnar muni spilast í kjölfar þessa.

Sveitarfélög

Eins og fram kom hér á vefnum á sunnudag blasir við að 23. apríl gengur ekki upp sem kjördagur um sameiningu sveitarfélaga. Það var loks staðfest í dag af Árna Magnússyni félagsmálaráðherra. Eins og fram kom í skrifum mínum um málið þá er aðeins rúmur mánuður til stefnu og blasir við að þurfi lengri tíma til að vinna málið og ekki síður kynna það fyrir kjósendum. Er talað um 8. október sem grunnkjördag um málið. Hinsvegar er sveitarfélögunum heimilt að vinna málið á eigin forsendum og láta kosningu fara fram fyrr. Eins og ég hef sagt tel ég 8. október ómögulegan kjördag, enda þá orðið mjög stutt í sveitarstjórnarkosningar og ljóst að ferli mála eftir slíka kosningu tekur sinn tíma og er þá kominn inn á þau tímamörk sem fylgja kosningaundirbúningi. Að mínu mati á því að kjósa í júní um málið, eða í síðasta lagi í júlí. Ekki tel ég vænlegt að láta kosningu fara fram síðar. En málið er komið loks í visst ferli og þessi mál taka brátt að skýrast enn frekar. En grunnur þessa alls er hvað kemur út úr vinnu nefndar um verkefna- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Með henni sést hvort sameining er gerleg eða vænleg í stöðunni.

Fahrenhype 9/11

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, efnir til sýningar á myndinni Fahrenhype 9/11 á skemmtistaðnum Dátanum, hér á Akureyri á morgun, fimmtudaginn 17. mars. Mun sýningin hefjast kl. 20:00. Kvikmyndin Fahrenheit 9/11 hefur notið mikilla vinsælda og mótað skoðanir margra á stríðinu í Írak. Þeir sem hafa séð Fahrenheit 9/11 spyrja sig hvort hún varpi raunverulegu ljósi á stríðið í Írak. Í Fahrenhype 9/11 er skýrt frá því hvernig Michael Moore fór fram með hálfsannleik og ósannsögli í umfjöllum um stríðið í myndinni Fahrenheit 9/11. Rætt er við marga sem komu fram í mynd Moore sem og marga áhrifamikla þátttakendur í bandarískum stjórnmálum. Helsta má nefna Zell Miller fyrrv. öldungardeildarþingmann demókrata frá Georgíufylki, Edward I. Koch fyrrv. borgarstjóra í New York, David Frum fyrrum ráðgjafa George W. Bush, og Dick Morris fyrrum pólitískan ráðgjafa Bill Clinton. Þetta er áhugaverð mynd og ég hvet alla Norðlendinga sem áhuga hafa á myndinni að mæta á staðinn og horfa á hana. Allir eru velkomnir!

Húmorinn í góðu lagi :)

Þetta hlýtur að vera ein besta skopmynd seinustu vikna. Óhætt að segja að ég hafi brosað mikið yfir þessari mynd, en hún hefur farið víða á netinu seinustu vikurnar. Skemmtilega saman sett og alveg frábær gamanmál þarna á ferð. Um að gera að setja hana hér inn og leyfa öðrum að njóta hennar. Þetta er sko húmor í góðu lagi. :)

Saga dagsins
1237 Gvendardagur - dánardagur Guðmundar góða Arasonar Hólabiskups - hann var biskup frá 1203
1940 Sænski rithöfundurinn Selma Lagerlöf lést, 81 árs að aldri - Selma varð bæði ein af virtustu og þekktustu rithöfundum Norðurlanda og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels, fyrst kvenna, árið 1909
1976 Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti og tilkynnir ennfremur að hann hætti formlega þátttöku í stjórnmálum. Kom tilkynning hans öllum að óvörum, aðeins fimm dögum eftir sextugsafmæli hans. Wilson hafði þá verið leiðtogi breska Verkamannaflokksins í 13 ár og var forsætisráðherra 1964-1970 og aftur frá 1974. Hann var sigursælasti leiðtogi breskra vinstrimanna á 20. öld, ásamt Tony Blair. Eftirmaður hans í embætti varð James Callaghan og var við völd í þrjú ár
1978 Aldo Moro leiðtoga kristilega demókrataflokksins og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, rænt af Red Brigade, hópi öfgasinnaðra vinstrimanna. Moro var forsætisráðherra Ítalíu 1963-1968 og 1974-1976. Moro var haldið föngnum af samtökunum í 55 daga, þar til þau drápu hann. Lík hans fannst í maí 1978
1983 Reykjavíkurborg keypti Viðey af íslenska ríkinu - endurbótum lauk þar formlega á árinu 1988

Snjallyrðið
Being prime minister is a lonely job... you cannot lead from the crowd.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)