Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 júní 2005

Punktar dagsins
Reykjavíkurflugvöllur

Í gær sendi stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar út frá sér ályktun þar sem skorað er á samgönguráðherra að taka upp viðræður við Reykjavíkurborg um sölu á landi ríkisins sem Reykjavíkurflugvöllur stendur á. Einnig skorar félagið á ráðherra að vinna að því að finna heppilega staðsetningu fyrir nýjan innanlandsflugvöll í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Fáist ásættanlegt verð fyrir það landsvæði sem núverandi flugvöllur stendur á telur stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar einboðið að nýta þá fjármuni sem þannig fást til þess að reisa nýjan flugvöll og bæta samgöngur höfuðborgarinnar við aðra landshluta s.s. eins og með lagningu hálendisvegar yfir Kjöl. Það er ánægjulegt að stjórn Sjálfstæðisfélagsins hafi skoðanir og tjái þær með þessum hætti í þessari ályktun. Það er ekkert nema hið besta mál að það sé öflugt í að tjá sig um hitamálin. Þessi ályktun er innlegg okkar sjálfstæðismanna fyrir norðan í beitta umræðu um þessi mál. Hið eina rétta vissulega er að taka frumkvæðið í þeirri umræðu og benda á þennan kost í stöðunni.

Það er enginn vafi á því að mínu mati að okkar rétti punktur er að koma með útspil af þessu tagi. Ef Reykjavíkurborg er tilbúin til að borga fyrir landið sem völlurinn er á, segjum rúma 20 milljarða er það hluti sem er fjarri því hægt að líta framhjá. Með því er hægt að vinna að nýjum flugvelli. Það sem við erum með þessari ályktun að gera er að opna nýja umræðu. Vilji Reykjavík losna við völlinn geta þeir keypt landið þar sem völlurinn er og vinna með landið eins og það vill. Þá er hægt að nota þá peninga til uppbyggingar samgangna úti á landi og stokka upp hlutina með því. Ef Reykvíkingar hafa ekki áhuga á að sinna sínu hlutverki er sjálfsagt að velta þessu fyrir sér. Þetta er í raun það sem ég hef sagt allan tímann; Vatnsmýrin er ekki grunnpunktur málsins, sjálfur hef ég talað um höfuðborgarsvæðið allan tímann. Það er bara þannig. En það er auðvitað þannig að það er ekkert mál að færa stjórnsýsluna annað hafi menn ekki áhuga á að halda vörð um hlutverk Reykjavíkur til fjölda ára. Við hér fyrir norðan getum alveg tekið við nýjum verkefnum samhliða breyttri stöðu.

Í dag svaraði svo samgönguráðherra þessari ályktun okkar hér fyrir norðan. Segist hann ekki ætla að selja land ríkisins þar sem völlurinn er. Er hann nú sem fyrr á móti hálendisvegi. Það er merkilegt að heyra yfirlýsingar hans um hálendisveginn, en við sáum vel á fundi okkar með honum í mars að hann er mjög andsnúinn honum, a.m.k. á þessum tímapunkti. Telur hann okkur vera komna langt fram úr okkur. Það tel ég ekki vera, þetta er aðeins liður í umræðu sem þarna kemur fram. Annars verður merkilegast að sjá hvað gerist í málefnum vallarins í kosningabaráttunni sem framundan er í borginni. Völlurinn hlýtur þar að vera kosningamál, eitt helsta mál kosningabaráttunnar á næsta ári. Það er við hæfi að við hér úti á landi minnum á skoðanir okkar og það sem við erum að pæla í málunum. Það er því ekkert nema gott mál að stjórn félagsins hafi tjáð sig af krafti með þessum hætti.

Forsetahjónin auglýsa Skyr Smoothie

Í dag berast af því fréttir í Séð og heyrt og á Stöð 2 að Dorrit Moussaieff forsetafrú, hafi þegið boð um að ferðast með einkaþotu Baugs til að vera við tískusýningu Mosaic Fashion Group í London. Séð og heyrt birtir ekki aðeins frásögn af þessu heldur birtir að auki myndir af einkaflugvélinni á Reykjavíkurflugvelli. Á einni af myndunum má sjá Toyota Landcruiser jeppa sem mun vera í eigu forsetaembættisins, sem sótti forsetafrúna á völlinn. Með henni í för voru Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs, og unnusta hans Ingibjörg Pálmadóttir. Þessi frétt er mjög merkileg. Að mínu mati ber það vott um dómgreindarleysi af hálfu forsetafrúarinnar að þiggja flugferð í boði Baugs, segja má að það sé eiginlega siðleysi á háu stigi. Fyrir rúmu ári voru miklir átakatímar hérlendis og þá var minnt á tengsl forseta Íslands við Baug. Eins og sést á þessum kærleikum milli forsetaembættisins og Baugs var það á rökum reist. Það blasir við.

Ég tel Dorrit vera fulltrúa forsetaembættisins. Hún er maki forseta Íslands, hún er hluti af þessu embætti. Það er bara þannig, það breytir því ekkert. Ég hefði talið að svona gæti vart gerst en það hefur nú gerst og er staðfest með myndum í Séð og heyrt og umfjöllun blaðsins sem staðfestir fréttina auðvitað. Það er ekki hægt annað en að gagnrýna þetta mjög harkalega. Þetta er á verulega gráu svæði. Mér finnst að forseti eða maki hans eigi ekki að þiggja neitt úr hendi fyrirtækja eða einstaklinga með þessum hætti, t.d. far með flugvél eða neitt slíkt. Forseti er vel launaður og ég get ekki skilið af hverju eiginkona hans eigi að vera að ferðast með auðjöfrum eða einstaklingum sem eiga einkaflugvélar. Þetta er því bara eins og hver önnur sporsla. Annars er þetta bara leitt mál og ég skil ekki að fólk í svona stöðu þiggi svona ferð með þessum hætti. Þetta opnar margar spurningar um tengsl Baugs við íslenska forsetaembættið, við sitjandi forseta seinustu árin.

Nordica-hotel

Í gær handtók lögreglan í Reykjavík þrjá einstaklinga sem höfðu ruðst inn á alþjóðlegu álráðstefnuna á Nordica hotel. Þar slettu þeir grænum vökva á ráðstefnugesti og urðu valdir að milljónatjóni í ráðstefnusalnum. Hefur nú komið í ljós að þar var um að ræða súrmjólk með grænu litarefni. Eins og ég sagði frá í gær var svokölluð Náttúruvakt með mótmæli þarna á mánudag þar sem þjóðfánar við hótelið voru dregnir í hálfa stöng og fundargestum afhent kynningarefni þar sem mótmælt er friðsamlega álveri við Reyðarfjörð og virkjun við Kárahnjúka. Náttúruvaktin stóð þó ekki að þessum mótmælum heldur voru þarna á ferð þrír umhverfisverndarsinnar, tveir útlendir og einn íslenskur. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með þessum mótmælum og hversu fólk er tilbúið til að ganga langt fyrir málstað sinn. Gengur þetta auðvitað algjörlega út í öfgar. Það er eiginlega spurning um hvernig fólk er á geði sem gengur svona langt. Það er mjög alvarlegt mál að fólk geti ekki haldið ráðstefnur eða aðrar opnar samkomur án þess að það eigi á hættu að vera truflað með þessum hætti. Er að mínu mati kominn tími til að þetta umhverfisverndarlið hugsi hlutina til enda, því veitti ekki af því.

Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti

Eins og öllum er kunnugt sem kynnt hefur sér stöðuna á verslunarmannahelgum seinustu ára hér hefur lífernið á tjaldsvæðinu hér við Þórunnarstræti verið allsvakalegt þá. Í ágúst í fyrra var íbúum hér við götuna algjörlega nóg boðið. Villimennskan og sukkið fór yfir öll mörk. Draslið og sóðaskapurinn var af því kalíberi að það tók þrifsveit nokkra daga að koma hlutunum í samt lag og áður. Við hér við Þórunnarstrætið og bæjarbúar almennt vorum búin að fá alveg nóg. Nú hefur verið tilkynnt að tjaldstæðið verði eingöngu opið fjölskyldufólki með fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna um verslunarmannahelgina. Samhliða þessu verður gæsla efld og aðgengi breytt. Jafnframt mun eftirlitið aukast með tilkomu girðingu í kringum svæðið. Ég tel tjaldsvæði á þessum stað barn síns tíma. Það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að það leggist af, enda ekki fólki bjóðandi í miðri íbúðabyggð. Útihátíð hér um verslunarmannahelgi er hið besta mál. Það er hinsvegar ólíðandi að meginfrétt helgarinnar æ ofan í æ sé óregla á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti og ómenningin sem þar hefur verið. Með þessu hefur verið tekið fyrir það, en betur má ef duga skal.

The Pirates of the Caribbean

Í gærkvöldi horfði ég á hina frábæru ævintýramynd The Pirates of the Caribbean. Er litríkt ævintýri sem gerist á 17. öld þegar sjóræningjarnir skunduðu um Karíbahafið. Hér segir frá sjóræningjanum Jack Sparrow sem tekur höndum saman við Will Turner til að bjarga unnustu Wills, Elizabeth Swann, dóttur ríkisstjórans Weatherby Swann og fjársjóði. Ætlun þeirra er að stöðva illar áætlanir óvinveittra sjóræningja undir forystu Barbossa. Mun þeim takast ætlunarverk sitt? Johnny Depp hefur sjaldan verið betri en í þessu hlutverki hins drykkfellda sjóræningja og á stórleik, smellpassar í þennan karakter. Sama má segja um óskarsverðlaunaleikarann Geoffrey Rush sem er eftirminnilegur í hlutverki Barbossa (skemmtilega illkvittnislegur) og fer sem ávallt fyrr á kostum, frábær leikari. Orlando Bloom, Keira Knightley og Jonathan Pryce fara einnig vel með sitt. En Depp á einfaldlega þessa mynd og leiðir leikarahópinn af krafti í gegnum ævintýrin sem fyrir augu ber. Myndin er virkilega skemmtileg, handritið kemur áhorfandanum oft mjög á óvart með því að fara í óvæntar áttir. Góður hasar og magnaðar tæknibrellur eru einnig aðall myndarinnar. Einstök skemmtun - sannkallað augnakonfekt fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.

Saddam í yfirheyrslunni :)

Saddam var í yfirheyrslu nýlega. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á því. :)

Saga dagsins
1864 Arlington-þjóðargrafreiturinn í Washington var vígður - herkirkjugarður þar sem stríðshetjur og leiðtogar eru grafnir. Þar var t.d. John Fitzgerald Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, jarðsettur.
1926 Kristján 10. konungur Danmerkur, kom í fyrsta skipti í opinbera heimsókn hingað til Íslands.
1954 UEFA knattspyrnusamtökin voru stofnuð í Basle í Sviss - þau eru forystusamtök í knattspyrnu.
1996 Bandaríska jazzsöngkonan Ella Fitzgerald deyr í Los Angeles - Ella, sem var 79 ára að aldri er hún lést, var talin ein besta söngkona 20. aldarinnar og var rómuð fyrir fagra og þýða jazzrödd sína.
2001 Um 6000 manns komu saman á rokktónleikum þýska rokkbandsins Rammstein í Laugardalshöll.

Saga morgundagsins
1877 Blaðið Ísafold var prentað í fyrsta skipti - Ísafoldarprentsmiðja var með því formlega stofnuð.
1909 Vatnsveita Reykjavíkur tekur til starfa - vatni úr Elliðaám var þá hleypt á dreifikerfi borgarbúa.
1944 Alþingi Íslendinga samþykkir formlega lýðveldisstofnun á Þingvöllum sem fram fór daginn eftir.
1992 Umdeild bók um Díönu prinsessu af Wales gefin út í Bretlandi - Díana og Karl prins skildu síðar sama ár, en lögskilnaður þeirra varð formlega að veruleika 1996. Díana lést í bílslysi 31. ágúst 1997.
1999 Ný kjördæmaskipan samþykkt á Alþingi. Breytt kjördæmaskipan gerði ráð fyrir 6 kjördæmum í stað 8 áður en sama fjölda þingmanna - lögin urðu að veruleika með þingkosningum 10. maí 2003.

Snjallyrðið
Hví ég græt og burt er æskan bjarta
bernsku minnar dáin sérhver rós.
Það er sárt í sínu unga hjarta
að sjá hve slokkna öll þín skærstu ljós.
Ó hve feginn vildi ég verða aftur
vorsins barn og hérna leika mér.
Nú er lamað þrek mitt, þrotinn kraftur
þunga sorg á herðum mér ég ber.

Hvað þá gráta gamla æskudrauma,
gamla drauma bara ór og tár.
Láttu þrekið þrífa stýristauma.
Það er hægt að kljúfa lífsins ár.
Kemur ekki vor að liðnum vetri?
Vakni ei nýjar rósir sumar hvert?
Voru hinar fyrri fegri betri?
Felldu ei tár en glöð og hugrökk vert.

Þú átt gott þú þekkir ekki sárin,
þekkir ei né skilur hjartans mál.
Þrek er gull en gull eru líka tárin,
guðleg svölun hverri þreyttri sál.
Stundum þeim er þrekið brýnt og kraftur
þögul höfuð féllu tár um kinn.
En sama rósin sprettur aldrei aftur,
þótt önnur fegri skreyti veginn þinn.
Guðmundur Guðmundsson skáld (Þrek og tár)