Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 júní 2005

Stefán Friðrik StefánssonTveggja ára afmæli heimasíðu
Í dag, 1. júní, eru tvö ár liðin frá því heimasíða mín opnaði á stebbifr.com - þar sem er vettvangur pistlaskrifa minna. Þann sama dag birtist fyrsti sunnudagspistillinn. Ákvað ég þegar vefurinn hóf göngu sína að á hverjum sunnudegi myndi birtast á heimasíðunni skrif um fréttir vikunnar og þau málefni sem hæst bæru í þjóðmálum. Þótti mér réttast að þau skrif birtust á sunnudegi, enda á þeim degi við hæfi að líta yfir fréttavikuna og helstu málefnin. Allt frá þeim tíma hafa slíkir pistlar birst vikulega og eru sunnudagspistlarnir komnir núna á annað hundraðið. Annað árið í sögu sunnudagspistlanna er því á enda.

Hef ég allt frá fyrsta degi fengið mikil viðbrögð við skrifunum, fengið marga tölvupósta og viðbrögð við efnistökum. Aldrei hefur mig vantað umfjöllunarefni og ekki hefur vantað í af minni hálfu afl og kraft til að skrifa. Þetta er mér í senn bæði ánægja og áskorun að sinna þessu og því mun ég halda áfram af miklum krafti. Er vissulega mikið verkefni að halda úti vef með reglulegum skrifum og krefst aga og því að verkefninu sé sinnt af mikilli alúð. Ég hef alltaf tekið þessu sem vinnu - alla mína ævi hef ég verið vinnusamur og öflugur í áhugamálunum og sinni mínum verkum samviskusamlega.

Breytingar á blogginu
Sumartíminn er hafinn og júnímánuður er runninn upp. Bloggið hefur verið mjög öflugt í vetur. Varla hefur dagur dottið úr og umfjöllun verið mjög öflug og kraftmiklar færslur verið á nær hverjum degi á þessu ári. Í febrúarbyrjun á þessu ári gerði ég þær breytingar að dag hvern komu til umfjöllunar svokallaðir fjórir punktar dagsins. Á undan því var ítarleg umfjöllun á tveim málum, eins og verið hefur jafnan. Umfjöllunin varð enn ítarlegri. Hefur þetta form gefist vel og ég hef eytt miklum tíma í að taka saman málin og vinna úr þannig að vefurinn sé spennandi og áhugaverður. Það vantar allavega ekki skoðanir hér á þennan vef, það er alveg klárt. Fólk hefur getað gengið að því að hér hafi ég skoðanir á helstu hitamálunum og taki þau fyrir með mínum hætti.

Viðbrögðin hafa nú sem fyrr verið góð, margir senda póst og ræða um efnið og heimsóknartölur staðfesta að margir koma hingað. Fyrir það er ég mjög þakklátur og þakka kærlega öllum þeim sem fylgjast með fyrir að halda tryggð við mig og fylgjast með efninu og ekki síður skoðunum mínum. Það er mér ómetanlegt. Ég hef gaman af þessum skrifum og líkar vel ef aðrir deila þeim áhuga mínum. Í fyrrasumar tók ég mér nær enga pásu frá skrifunum og ég var mjög öflugur í dæminu, enda var síðasta sumar eitt hið heitasta í pólitíkinni í mörg ár. Nú í sumar ætla ég hægja aðeins á og taka þessu rólegar en verið hefur. Áfram verður í færslunum sá hluti sem ég hef nefnt punkta en efri hlutinn, sem einkenndist af ítarlegri samantekt um mál, verður nú hvíldur næstu vikurnar.

Er rétt með hækkandi sól að skipta um áherslur og hafa formið léttara og færslurnar styttri samhliða því. Með haustinu mun sama form verða tekið upp aftur og farið ítarlega yfir málin að nýju á pólitískum vetri - kosningavetri.

bestu kveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson


Punktar dagsins
Mark Felt

Í þrjá áratugi hefur verið deilt um það hver var heimildarmaður The Washington Post í Watergate-málinu í byrjun áttunda áratugarins. Alla tíð var þó vitað að sá sem lak upplýsingunum til blaðsins var áhrifamaður í fremstu röð og með allar upplýsingar tiltækar. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, varð að segja af sér embættinu, fyrstur manna, sumarið 1974. Heimildarmaðurinn var jafnan nefndur Deep Throat og aðeins þrír menn vissu hver hann var: blaðamennirnir Carl Bernstein og Bob Woodward og Ben Bradlee ritstjóri The Washington Post. Í kvikmyndinni All the President's Men, sem segir sögu alls málsins, var Deep Throat skiljanlega ekki sýndur nema í skugga, við sjáum hann aðeins í samtali við Woodward í bílakjallara. Til fjölda ára hafði því verið bæði deilt um hver heimildarmaðurinn var og ekki síður reynt af krafti að upplýsa það af öðrum fjölmiðlum. Hafði getum verið leitt að því að heimildarmaðurinn væri George H. W. Bush fyrrum forseti og þáv. forstjóri CIA og Alexander Haig starfsmannastjóri Hvíta hússins. Lengi hafði þetta verið í umræðunni.

Í gær var komið að því að svipt yrði hulunni af þessu mikla leyndarmáli seinni tíma stjórnmálasögu. Þá var upplýst að Mark Felt aðstoðarforstjóri FBI væri heimildarmaðurinn. Hélt hann blaðamannafund við heimili sitt í gær og var þá hulunni svipt. Felt er nú 91 árs að aldri og aðeins eru þrjú ár síðan hann skýrði fjölskyldu sinni frá því að hann væri heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Í gærkvöldi gáfu svo Bernstein og Woodward út yfirlýsingu þar sem þeir staðfestu að Felt væri heimildarmaðurinn frægi. Watergate-málið var gríðarlega umfangsmikið. Í það blönduðust forseti Bandaríkjanna og nánustu samstarfsmenn hans í ólöglegt athæfi og urðu að víkja vegna þess. Er ánægjulegt að öll atriði málsins liggi fyrir og nú sé vitað hver heimildarmaðurinn var. Þrem áratugum eftir lok málsins er kominn tími til að hulunni sé svipt af þessum meginpunkti málsins: hver það var sem veitti upplýsingarnar sem svipti hulunni af Watergate-málinu.

Ég á fimm ítarlega heimildarþætti um Watergate-málið og bandaríska heimildarmynd um málið að auki sem ég keypti þegar ég fór til Washington í fyrra. Það er við hæfi að horfa á eitthvað af þessu í kvöld og fara yfir málið að nýju. Svo þarf ég að fara að horfa aftur á All the President´s Men, hina frábæru kvikmynd um þetta mál. Sú mynd er alltaf góð og ég horfi reglulega á hana, er að mínu mati ein besta pólitíska kvikmynd sögunnar. Þetta var stórt og umfangsmikið mál - eitt mesta pólitíska hneyksli seinni tíma. Það er alltaf áhugavert að kynna sér það.

Gunnar I. Birgisson

Gunnar I. Birgisson alþingismaður, hefur nú tekið við embætti bæjarstjóra í Kópavogi. Um þessar mundir hefur bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks setið við völd í bænum í 15 ár. Sigurður Geirdal var bæjarstjóri í Kópavogi samfellt í 14 ár. Við snögglegt fráfall Sigurðar í nóvember 2004 tók Hansína Ásta Björgvinsdóttir við bæjarstjórastarfinu og kláraði starfstíma Sigurðar en við meirihlutamyndun eftir kosningarnar 2002 var samið um að Gunnar tæki við á þessum degi. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með Kópavogi vaxa og dafna undir styrkri forystu Sigurðar og Gunnars. Þeir náðu saman um að koma vinstrimönnum frá völdum eftir kosningarnar 1990 og mynda sterkt bandalag til að stuðla að breytingum og eflingu bæjarins. Það góða samstarf hélt áfram við leiðtogaskiptin í Framsóknarflokknum er Hansína Ásta tók við forystunni við lát Sigurðar.

Sú uppbygging sem Sigurður og Gunnar leiddu saman í tæpan einn og hálfan áratug sést hvar sem farið er um bæinn. Kópavogur er kraftmikið og öflugt sveitarfélag. Þó við Gunnar höfum orðið ósammála í pólitík undanfarna mánuði og ég deilt mjög harkalega á hann vegna sólómennsku hans í samgöngumálunum samgleðst ég honum með þetta embætti. Hann er þar á heimavelli og mun eflaust sinna störfum bæjarstjóra með sóma, enda verið öflugur í sveitarstjórnarmálunum. Það er þó mikið undrunarefni að Gunnar taki sér ekki launalaust leyfi frá þingmennsku frá og með deginum í dag. Það hefði farið best á því fyrir Gunnar sjálfan að víkja algjörlega frá þingmennskunni er hann varð bæjarstjóri. Hefur Gunnar í hyggju að taka sér launalaust leyfi frá þingmennskunni frá og með 1. október nk. er þing kemur saman. Er við hæfi að það gerist, en það hefði átt að verða strax.

Í ítarlegum pistli sínum á vef SUS í dag fer vinur minn, Árni Sigurjónsson fyrrum formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, yfir stöðu mála í Kópavogi á síðustu 15 árum og fjallar um bæjarstjóraskiptin í dag í Kópavogi, er sjálfstæðismaður tekur í fyrsta skipti við forystu sveitarfélagsins.

Jacques Chirac

Jacques Chirac forseti Frakklands, flutti í gærkvöldi ávarp til frönsku þjóðarinnar. Fyrr um daginn hafði hann skipt um forsætisráðherra í ríkisstjórn sinni og skipt um megináherslur í forystunni eftir tapið í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrá Evrópusambandsins á sunnudag. Fyrr um daginn hafði ný ríkisstjórn haldið sinn fyrsta ríkisstjórnarfund. Dominique de Villepin forsætisráðherra, hafði þá skipað Nicholas Sarkozy leiðtoga stjórnarflokksins, sem innanríkisráðherra landsins. Sagði forsetinn í ræðu sinni að franska neitunin hefði ekki verið merki þess að Frakkar hefðu hafnað Evrópusamstarfinu. En niðurstaðan fæli í sér kröfu um aðrar aðgerðir í Evrópumálum og aðrar aðferðir. Segja má að þar hafi forsetinn í fyrsta skipti viðurkennt vandann sem hann og stjórn hans stendur frammi fyrir. Ljóst er að forsetinn þarf að breyta um kúrs ætli hann að tryggja hægrimönnum völdin eftir næstu forseta- og þingkosningar eftir tvö ár. Nú reynir á hvernig forsetinn heldur utan um verkefni sitt.

Í dag fer svo fram þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána í Hollandi. Bendir allt til þess að henni verði hafnað þar með afgerandi hætti. Ef marka má seinustu kannanir sem birtar voru þar í gær munu 65% landsmanna, afgerandi meirihluti, fella stjórnarskrána. Ef sú verður raunin mun hrikta verulega í stoðum ESB og stjórnarskrárgemlingurinn eiga mjög erfitt uppdráttar. Sumir myndu segja að hann væri allt að því dauður ef sú verður raunin.

Akureyri

Á fundi bæjarstjórnar í gær var samþykkt tillaga um að stöðumælar muni brátt heyra sögunni til hér í bænum. Munu þá öll bílastæði í miðbænum verða gjaldfrjáls. Er þessi ákvörðun tekin til að jafna aðstöðu verslana og fyrirtækja í bænum. Í stað stöðumælanna sem verið hafa í bænum og innheimt gjald fyrir að leggja bíl þar munu koma svokallaðar framrúðuklukkur. Mun þessi breyting taka endanlega gildi er líður á þennan mánuð. Er þessi tillaga mjög sniðug og tel ég hana opna skemmtilega möguleika. Nýju framrúðuklukkurnar eru gerðar úr pappa sem festar eru við framrúðu bifreiðarinnar. Ökumaður stillir klukkuna á þann tíma sem hann yfirgefur bifreiðina, en misjafnt er eftir legu stæðanna hve langan tíma bifreiðin má standa. Sé farið yfir þann tíma kemur til sektargreiðslu. Þetta er einfalt og gott kerfi, sem verður fróðlegt að fylgjast með á næstunni. Hið besta mál!

Saga dagsins
1926 Leikkonan Marilyn Monroe fæðist - varð eitt helsta kyntákn aldarinnar. Hún lést 5. ágúst 1962.
1958 Charles De Gaulle snýr aftur í forystu franskra stjórnmála - varð forseti landsins síðar sama ár og sat á forsetastóli til 1969 er hann sagði af sér eftir tap í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann lést 1970.
1976 Síðasta þorskastríðinu lauk með samningum við Breta og sigri Íslendinga í landhelgismálum.
1980 Cable News Network hefur formlega útsendingar - CNN varð áhrifamesta fréttastöð sögunnar.
1999 Veðurstofa Íslands tók upp metra á sekúndu sem mælieiningar í veðurspám í stað vindstiganna.

Snjallyrðið
Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur.
Haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.

Geislar hennar, út um allt,
eitt og sama skrifa
á hagann grænan, hjarnið kalt:
Himneskt er að lifa!
Páll Ólafsson skáld (1827-1905) (Blessuð sólin)