Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 júlí 2005

Punktar dagsins
Eskifjörður (séð frá Hólmanesi)

Seinustu dagana hef ég verið á ferðalagi vítt og breitt. Vefurinn hefur borið þess merki á meðan að ég hef verið lítið við tölvu og bloggið lítið verið uppfært á meðan því stóð. Nú er ég aftur kominn heim til Akureyrar og færslurnar fara því að verða reglulegri á ný. Þeir sem líta á bloggið eiga því von á tíðari skrifum en verið hefur í mánuðinum en færslur seinustu vikna hafa verið óvenju fáar, eins og athugulir gestir hafa séð mjög vel. Sumarið hér fyrir norðan hefur verið hæðótt. Seinustu daga hefur verið sól og brakandi blíða og það hefur verið notað. Í gær fór ég í notalegan og góðan göngutúr í Kjarnaskóg og fínan hjólatúr með því auðvitað. Á heimleiðinni kom ég við í Brynju og fékk mér þar besta ís í heimi (að mínu mati allavega). Hann er rosalega góður, hefur alla tíð verið og mun alla tíð verða (að því gefnu að menn kasseri ekki uppskriftinni!!). Nú spyrja sjálfsagt einhverjir hvort ráðlegt sé að fara í göngutúr og langan hjóltúr og hjóli svo að því loknu beint í næstu ísbúð og fái sér þar Brynjuís. Eflaust er það öfug röð á heilsusamlegu líferni að einhverra mati, en hvað með það. Það skiptir engu máli, þetta er forgangsröðun sem hentar þegar manni vill líða vel á góðum og fögrum degi í bænum við fjörðinn fagra (það er ekki flóknara en það).

Um síðustu helgi fór ég austur á firði. Þangað er alltaf gaman að koma. Með aldrinum er mér alltaf að skiljast betur og betur hversu austfirska taugin er sterk í mér. Ég hef enda farið oftar austur á firði á þessu ári en jafnan áður. Í gamla daga var sumarferð austur á firði fastur liður í tilverunni. Mamma er að austan og alltaf var farið í vikutíma (stundum lengur) í ferð til Eskifjarðar og litið til Valda frænda, Stínu konu hans, fjölskyldu þeirra og auðvitað litið til Friðriks afa. Það voru skemmtilegar ferðir, hreint ógleymanlegar. Stína hefur alltaf verið höfðingi heim að sækja, eldhúsið hennar var einstakt og fyrir matgæðing eins og mig jafnaðist ekkert á við að heimsækja þessa einstöku konu, þá sem ávallt síðar. Það er ekki laust við að þegar þessar línur séu ritaðar fari minningarstígurinn á fulla ferð í huganum. Mér fannst tilveran fyrir austan dofna mjög þegar að afi og Valdi kvöddu þennan heim með skömmu millibili á síðasta áratug. Það er ekki eins að fara austur síðan, það hefur alltaf eitthvað vantað síðan. Báðir voru þeir öflugir karakterar og settu mikinn svip sinn á tilveruna fyrir austan. En austur er alltaf gaman að fara. Þar er eitthvað sem heillar mig og einhvernveginn finn ég betur með aldrinum hversu vænt mér þykir um þetta svæði. Það skiptir mig máli.

Í síðustu ferð fór ég í Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði og hitti gott og skemmtilegt fólk. Safnið er gulls ígildi fyrir sagnfræðilegan áhugamann, eins og mig. Þangað var gaman að koma. Reyndar er skömm frá því að segja að þetta var fyrsta ferð mín þangað frá því það var opnað fyrir áratug. Alltaf hef ég ætlað að fara í það, en nú kom loks að því. Reyndar sé ég alltaf betur, nú þegar Reyðarfjörður blómstrar, hversu góður bær þetta er og fullur af tækifærum og náttúrufegurð. Í dag birtist á vef SUS pistill minn um stöðu mála fyrir austan, en þar er ótrúleg uppbygging á öllum sviðum. Þessi pistill talar sínu máli. Þeir sem lesa hann sjá eflaust þar hvaða hug ég ber til Austfjarðanna og þess sem þar á sér stað samhliða álvers- og virkjunarframkvæmdum á Austurlandi. Fer ég yfir það mál með mínum hætti. Hef ég alltaf haft mjög ákveðnar skoðanir á stóriðjumálunum fyrir austan og hika aldrei við að tjá þær. En ég er semsagt kominn heim aftur. Ferðin austur var skemmtileg - enda var gott veður og fallegt um að líta. Austfirska þokan var þó á sínum stað - það er alltaf eitthvað heillandi við hana.

Guðbrandur, Bjarki og Kristján Þór á Ráðhústorginu

Undanfarinn mánuð hafa félagarnir Guðbrandur Einarsson og Bjarki Birgisson gengið hringinn í kringum landið saman undir kjörorðinu "Haltur leiðir blindan". Um er að ræða glæsilegt afrek hjá þeim félögum. Bjarki er hreyfihamlaður og Guðbrandur er næstum því blindur. Þeir hafa sigrast á hverri þraut á leiðinni og farið í gegnum þær með glans. Í gær komu kapparnir til Akureyrar. Var stutt móttökuathöfn þeim til heiðurs við Leirunesti, við innkomuna í bæinn. Þar tók Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, á móti þeim ásamt fleiri bæjarfulltrúum. Labbaði hópurinn með þeim frá Leirunesti og í bæinn. Bjarki og Guðbrandur eru nú rúmlega hálfnaðir á hringferð sinni og eiga nú eftir að fara bara frá Akureyri suður til borgarinnar. Er óhætt að fullyrða að þeim hafi tekist að vekja athygli á málstaðnum og hefur allsstaðar verið tekið með kostum. Akureyri er engin undantekning og ánægjulegt að heyra í þeim hljóðið og finna kraftinn í þeim, þrátt fyrir langa göngu um landið. Það er ánægjuefni að fylgjast með þessum köppum á ferð sinni. Vonandi gengur þeim vel alla leið á leiðarenda.

Eggert Skúlason með góðum félögum

Fleiri kappar hafa verið á hringferðinni en þeir Bjarki og Guðbrandur. Á föstudag lauk Eggert Skúlason hringferð sinni um landið. Hjólaði hann hringinn til styrktar Hjartaheill, landssamband hjartasjúklinga, og vakti athygli með því á þörfu og góðu málefni. Var Eggert þrjár vikur að fara hringinn. Sjálfur fékk Eggert hjartaáfall fyrir fjórum árum. Á ferð sinni fékk hann marga þekkta Íslendinga til að hjóla með sér. Vann Eggert þetta með glæsilegum hætti að mínu mati og á hrós skilið. Með þessu fékk hann marga til að hugsa um þessi mál með markvissum hætti, þess er þörf, enda eru hjartasjúkdómar algengir og málefnið sem vakið er máls á er gríðarlega mikilvægt. Það er mikilvægt að allir landsmenn styrki félagasamtök á borð við LHS, sem vinna að hag og heill okkar allra. Er það hvatning fyrir okkur öll að styrkja málefnið eftir að hafa heyrt af afrekum Eggerts í þágu LHS. Hvet ég alla til að hringja í 907-2001 eða 907-2003 og styrkja þetta góða málefni. Í tilefni þessa átaks Eggerts samdi Akureyringurinn Jónsi frábært lag sem var einkunnarorð hjólatúrsins og meginstef þess. Hvet ég alla til að hlusta á smellinn Slag fyrir slag eftir Jónsa.

Sverrir Páll Erlendsson kennari

Undanfarnar vikur hefur Sverrir Páll Erlendsson íslenskukennari við MA, verið með athyglisverða (og ekki síður mjög góða) pistla á Rás 1. Er hann einn af fimm einstaklingum sem sjá um þáttinn Sögumenn samtímans, þar tala þau til fólks um hugleiðingar sínar. Sem jafnan fyrr er Sverrir Páll ófeiminn við að tjá skoðanir sínar. Er gaman að hlusta á hugleiðingar hans og get ég ekki annað en bent á þessa pistla hans hér á vefnum. Þessar hugleiðingar þessa góða íslenskukennara okkar Akureyringa í MA eru jafnan góðar og eiga erindi við fólk. Sérstaklega vakti athygli mína góðar hugleiðingar Sverris Páls um íslenskt mál og málrækt almennt í ljósi amerískra menningaráhrifa á tungumálið (en eins og gefur að skilja er íslenskt mál megináhugamál Sverris Páls sem mikils postula í málrækt). Hefur Sverrir Páll nú um nokkuð skeið haldið úti áhugaverðum bloggvef um málrækt, sem hann kallar Mannamál, sem jafnan er gaman að líta á. En ég hvet alla til að hlusta á pistla Sverris Páls eða lesa þá og önnur skrif hans. Áhugavert, eins og jafnan þegar Sverrir Páll tjáir skoðanir sínar.

Baldurshagi

Þegar heim var komið úr fríinu mikla var Baldurshagi horfinn. Það var óneitanlega svolítið merkileg tilfinning að labba þennan stutta spöl sem er héðan frá Þórunnarstræti 136 að Baldurshaga, hér rétt fyrir neðan í götunni og skoða vinnusvæðið - húsið var farið. Auðvitað vissu allir að þetta væri handan við hornið, vinnuframkvæmdir komnar á fullt og allt í fulle swing þarna. En merkilegt var að sjá húsið farið. Þetta hús var merkilegt kennileiti þar sem það var og setti svip á bæinn, eins og öll hús sem eiga merka sögu og hafa sál sem talar framan í þá sem framhjá því keyrðu, hjóluðu eða gengu dag hvern til fjölda ára. En nú er það farið og í staðinn koma tvær blokkir, kraftmiklar og tignarlegar. Fögur hús á fögru svæði í hjarta bæjarins. Verður gaman að sjá framkvæmdirnar á næstunni.

Saga dagsins
1914 Sigurður Eggerz verður ráðherra Íslands - Sigurður var einnig forsætisráðherra árin 1922-1924.
1944 Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna, útnefndur forsetaefni demókrataflokksins í fjórða skiptið - Roosevelt sat á forsetastóli lengur en nokkur annar, rúm 12 ár, eða allt til dauðadags 1945.
1963 Skálholtskirkja formlega vígð við hátíðlega athöfn af Ásgeiri Ásgeirssyni þáv. forseta Íslands.
1969 Bandaríkjamaðurinn Neil Armstrong stígur fyrstur manna fæti á tunglið - við það tækifæri féllu hin fleygu spakmæli hjá Armstrong: "That's one small step for man but one giant leap for mankind."
1994 Tony Blair kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins - hann varð forsætisráðherra Bretlands 2. maí 1997, eftir kosningasigur flokksins, og setið síðan við völd og unnið þrjár þingkosningar í röð.

Snjallyrðið
Ástarfaðir himinhæða,
heyr þú barna þinna kvak,
enn í dag og alla daga
í þinn náðarfaðm mig tak.

Náð þín sólin er mér eina,
orð þín döggin himni frá,
er mig hressir, elur, nærir,
eins og foldarblómin smá.

Einn þú hefur allt í höndum,
öll þér kunn er þörfin mín,
ó, svo veit í alnægð þinni
einnig mér af ljósi þín.

Anda þinn lát æ mér stjórna,
auðsveipan gjör huga minn,
og á þinnar elsku vegum
inn mig leið í himin þinn.
Steingrímur Thorsteinsson skáld (1831-1913) (Ástarfaðir himinhæða)