Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 september 2005

Punktar dagsins
Ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar

Þáttaskil urðu í íslenskri stjórnmálasögu í gær þegar að Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, lét af ráðherraembætti og þingmennsku. Með því lauk í raun stjórnmálaferli Davíðs. Hann mun þó gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum fram að landsfundi um miðjan októbermánuð. Eftir að teknar höfðu verið hefðbundnar myndir af nýrri ríkisstjórn héldu nýjir ráðherrar á nýja vinnustaði sína og tóku þar við lyklavöldum. Davíð Oddsson tók á móti eftirmanni sínum í utanríkisráðuneytinu. Er óhætt að segja að Geir hafi fengið nóg af lyklum og fylgihlutum við að taka við húsbóndavaldinu á Rauðarárstígnum. Þaðan fór Geir á sinn gamla vinnustað og afhenti Árna lyklavöldin þar. Eitthvað þótti fólki það fátæklegri skipti, enda bara einn lykill um að ræða. Var skondið þegar að Geir tók fram með gleðisvip að þetta væri nú fátæklegt þarna í fjármálaráðuneytinu. Þaðan fór svo nýr fjármálaráðherra yfir í sjávarútvegsráðuneytið og afhenti eftirmanni sínum, Einari Kristni, völdin þar. Vakti Einar reyndar athygli á því að kippan að ráðuneytinu væri merkt Slysavarnarfélaginu og fannst honum það skondið mjög. En svona gekk rúnturinn á milli ráðuneytanna í miðbænum. Mikil þáttaskil fylgdu þessum tilfærslum og breytingum öllum. Eftir lyklaskiptin hafði einn litríkasti stjórnmálamaður landsins seinustu áratugina yfirgefið ríkisstjórn landsins eftir langan og mjög farsælan feril.

Í gærkvöldi var Davíð svo gestur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Kastljósinu. Var farið þar víða yfir og um margt rætt. Var það virkilega áhugavert spjall. Hafði ég gaman af að horfa á þetta viðtal. Þar var Davíð algjörlega í essinu sínu: fyndinn, rólegur og með skarpa sýn á þjóðmálin, eins og ávallt. Er enginn vafi á því að Davíð er fremsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf hans að mínu mati. Í mínum huga er hann fremsti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Valdaskeið hans er enda gríðarlega öflugur tími og hann leiddi það tímabil af miklum krafti og var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill og hann var í þann eina og hálfa áratug sem Davíð leiddi hann. Nú er það þeirra sem taka við völdunum innan flokksins að tryggja að flokknum farnist vel á komandi árum. Tryggja að við náum að stýra þjóðarskútunni af krafti við breyttar forsendur. Breytingum fylgja ný tækifæri - svo er í þessu tilfelli sem öðrum.

Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn sé samhentur. Þetta á ekki síður við um ungliðahreyfingu flokksins. Þetta hef ég haft alla tíð að markmiði og er tilbúinn til að vinna með öllum þeim sem vilja styrkja og efla Sjálfstæðisflokkinn. Við eigum að vinna saman að mikilvægum verkefnum - við sem erum í þessum flokki og höfum valið okkur þar pólitískt heimili eigum að tryggja að okkur farnist vel. Það gerum við fyrst og fremst með því að styrkja flokkinn til komandi verkefna - tveggja kosninga á næstu árum. Að því mun ég vinna, nú sem ávallt áður. Í gær sendi stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, skeyti til Davíðs Oddssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, og þakkaði honum forystu sína af hálfu flokks og þjóðar á undanförnum áratugum. Þótti okkur rétt að kveðja Davíð með þessum hætti og vildum ennfremur þakka honum persónulega í nafni okkar og félagsins fyrir farsæla forystu við þau þáttaskil að hann lætur af ráðherraembætti og forystu í Sjálfstæðisflokknum.

Bjarni Benediktsson

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur beðist lausnar úr stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra, sem skipuð var í byrjun ársins. Var hann varaformaður nefndarinnar og hafði verið mjög áberandi í störfum hennar undanfarna mánuði. Nú þegar Geir er orðinn forystumaður Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn og tekur bráðlega við formennsku flokksins er rétt af honum að fela öðrum verk sín í nefndinni. Í stað Geirs hefur verið skipaður í nefndina Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar Alþingis og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Auk Bjarna sitja í nefndinni þau Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, sem er formaður, Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Eins og fram hefur komið er miðað að því að endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem nefndin vinni að, verði einkum bundin við fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla. Stefnt hefur verið að því að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá liggi fyrir í síðasta lagi í byrjun ársins 2007 og verði samþykkt fyrir þingkosningar síðar sama ár.

Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóriLogi Bergmann Eiðsson

Það er óhætt að segja að mikil tíðindi séu að eiga sér stað á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Brátt munu fréttamiðlar 365 breytast með tilkomu Fréttavaktarinnar, fyrstu íslensku fréttastöðvarinnar. Verður sent út þar samfellt í um tuttugu klukkutíma á dag fréttum og fréttatengdu efni. Með nýrri stöð og öðrum áherslum í fréttastefnu og útsendingum á fréttum þarf meiri mannskap. Það kom mörgum á óvart í gær að heyra af því að Logi Bergmann Eiðsson varafréttastjóri Sjónvarpsins, hefði verið ráðinn einn af aðalfréttalesurum 365, bæði á Stöð 2 og Fréttavaktinni. Er honum ennfremur ætlað að stjórna fréttatengdum þáttum á næstunni hjá fyrirtækinu. Kom þetta mörgum að óvörum einkum í ljósi þess að í síðustu viku var tilkynnt að Logi Bergmann myndi ritstýra nýjum dægurmálaþætti Sjónvarpsins, Opið hús, sem hefur göngu sína þann 10. október nk. og mun leysa Kastljósið, Ópið og Mósaík af hólmi. Í dag var svo tilkynnt að Þórhallur Gunnarsson, sem var umsjónarmaður Íslands í dag á Stöð 2, stýri dægurmálaþætti Sjónvarpsins. Í dag var svo ennfremur tilkynnt að Þórir Guðmundsson hefði verið ráðinn varafréttastjóri Stöðvar 2, en hann var fréttamaður Stöðvar 2 í áratug, 1986-1996. Nóg af breytingum á fjölmiðlamarkaði semsagt.

Angela Lansbury í hlutverki Jessicu Fletcher

Eflaust muna allir vel eftir Jessicu Fletcher, sakamálarithöfundinum í Cabot Cove í Maine, sem bæði rannsakaði sjálf morðmál og skrifaði um þau með listilegum hætti. Hún var aðalsögupersóna ógleymanlegs sakamálaþáttar sem bar heitið Murder, She Wrote. Þátturinn naut gríðarlegra vinsælda og gekk samfellt í bandarísku sjónvarpi í rúman áratug, árin 1984-1996. Jessica var túlkuð með stórfenglegum hætti af bresku leikkonunni Angelu Lansbury. Ég var mikill aðdáandi þessa þáttar og missti aldrei þátt úr. Þetta var að mínu mati einn besti sakamálaþáttur í bandarísku sjónvarpi hin seinni ár og mjög áhugaverður. Hann átti enda sína tryggu aðdáendur um allan heim. Þeir voru margir hér heima á Íslandi sem með honum fylgdust. Þættirnir um Jessicu fylgdu manni í mörg ár. Á ég þónokkurn fjölda af þáttunum og horfi stundum á þá, rétt eins og þættina um Matlock, sem ég minntist á um daginn. Þetta voru bestu sakamálaþættir síns tíma. Þeir verða aldrei úreldir eða lélegir. Í gærkvöldi fór ég í geymsluna eftir að hafa rifjað upp stundirnar með Matlock og horfði á nokkra þætti af Morðgátu, eins og þættirnir hétu hér heima á Íslandi. Var það mjög gaman - vægast sagt. Þessir þættir verða ekki síðri með árunum - klassík í bandarískri sjónvarpssögu.

Blair séð í skondnu ljósi

Í gær hélt Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, ræðu á flokksþingi Verkamannaflokksins. Áttu margir von á að Blair myndi þar tilgreina hvenær hann myndi láta af leiðtogaembætti og hætta í stjórnmálum. Fyrir liggur að hann ætlar ekki að gefa kost á sér í þingkosningunum eftir fimm ár en hefur ekki sagt heldur neitt um hvenær hann hættir nákvæmlega. Ræðan sem margir töldu að yrði uppgjör og tímasetning fyrir tilkynningu um að hætta varð að öflugri og beittri stefnuræðu næstu ára. Ræðan var allavega ekki með vott af svanasöng hjá Blair. Mikið hefur verið rætt um hvenær að Gordon Brown fjármálaráðherra Bretlands, muni taka við af Blair en greinilegt er að það gerist ekki strax. Skopmyndateiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á ræðunni, eins og sést hér að ofan.

Saga dagsins
1988 Ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar tók við völdum - var fyrsta vinstristjórnin
í sögu landsins sem mynduð var án þingkosninga. Stjórn Steingríms sat með breytingum allt til 1991.
1994 Bílaferjan Estonia ferst á Eystrasalti - 854 manns fórust með ferjunni, flestir Svíar. Þetta var mannskæðasta sjóslys frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir sem fórust liggja í kaldri gröf í flaki skipsins, en öll ríki við Eystrasaltið ákváðu að ferjan skyldi algjörlega friðuð og ekki hreyft við því.
2000 Heimsókn hins umdeilda stjórnmálamanns Ariel Sharon í hina helgu Al-Aqsa mosku, leiðir til mikilla óeirða milli Palestínumanna og Ísraela. Sharon varð forsætisráðherra Ísraels í janúar 2001.
2000 Pierre Elliot Trudeau fyrrum forsætisráðherra Kanada, deyr í Toronto, áttræður að aldri. Trudeau var einn fremsti stjórnmálamaður Kanada og var forsætisráðherra 1968-1979 og 1980-1984.
2003 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Elia Kazan deyr í New York, 94 ára að aldri. Kazan var einn af umdeildustu leikstjórum 20. aldarinnar og hlaut hann tvívegis óskarsverðlaun fyrir leikstjórn: fyrir Gentleman's Agreement og On the Waterfront. Hann hlaut heiðursóskar fyrir ævistarf sitt 1999.

Snjallyrðið
Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.

Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó.

En gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Stjörnurnar)

Ein af ljóðaperlum Davíðs frá Fagraskógi - virkilega fallegt ljóð.