Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 september 2005

Punktar dagsins
Davíð Oddsson utanríkisráðherra

Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi. Er þetta í síðasta skipti sem Davíð kemur fyrir allsherjarþingið og flytur þar ræðu, en hann hættir eins og flestir vita þátttöku í stjórnmálum nú í haust. Lætur hann af embætti utanríkisráðherra á þriðjudag og hættir formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi um miðjan næsta mánuð. Í ræðu sinni fór Davíð yfir fjölda mála. Tók hann mun vægar til orða hvað varðar málefni umsóknar Íslands um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, gerði fyrir tæpri viku er hann ávarpaði allsherjarþingið. Kom fram í máli Davíðs að Ísland hefði sýnt áhuga á þátttöku í Öryggisráðinu árin 2009-2010 en nefndi ekki framboðið beint eða lagði áherslu á það. Er það mikið ánægjuefni að Davíð hafi verið varfærnari en Halldór í ræðu sinni í New York. Davíð hefur seinustu daga óhikað tjáð andstöðu við umsókn okkar, en ekki sagst hafa talið rétt að taka ákvörðun um það enda sé hann að hætta þátttöku í stjórnmálum. Er það mitt mat að Davíð hefði átt að taka ákvörðunina strax í vor, enda þá þegar vitað að málið væri komið í verulegar ógöngur og séð fram á andstöðu við málið innan stjórnarflokkanna, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins.

Tjáði hann reyndar efasemdarraddir í vor þegar að hann flutti þinginu skýrslu sína um utanríkismál og var orðinn mjög efins um framboðið undir lok ráðherraferilsins. Í ræðu sinni lýsti Davíð yfir vonbrigðum með að ekki hefði náðst samstaða um fjölgun ríkja í öryggisráðinu og umfangsmikla endurreisn SÞ, en mjög hefur hallað á hana sem stofnun seinustu árin vegna hneykslismála og fjárhagsvandræða. Var Davíð ekki að hika við að tjá áhyggjur sínar um að engin niðurstaða stæði eftir vatnið. Kom fram í máli hans að skjalið sem samþykkt var í lok fundar hafi verið mjög útvatnað og sagði Davíð að þrátt fyrir að flest gildi sem fram komi í stofnsáttmálanum séu staðfest í lokaskjalinu þá væri það skoðun íslenskra stjórnvalda að mannréttindum og ábyrgð ríkja, eða leiðtoga þeirra, gagnvart borgurum sínum hafi ekki verið gerð nægilega góð skil. Hann sagði íslensk stjórnvöld telja alþjóðasamfélagið bera ábyrgð gagnvart ríkjum sem bregðast borgurum sínum, ríki þar sem framin eru mannréttindabrot á borgurum eða þjóðarmorð. Sagði Davíð að Öryggisráðið og aðrar stofnanir hafi þá lykilskyldu umfram allt að bregðast við slíkum brotum gegn borgurum.

Í ræðu Davíðs kom fram að íslensk stjórnvöld styðji stofnun lýðræðissjóðs Sameinuðu þjóðanna og muni leggja í hann fé. Davíð lýsti einnig yfir stuðningi Íslands við endurbætur á mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Segja má að ræðan hafi verið eitt síðasta embættisverk Davíðs sem utanríkisráðherra og forystumanns í stjórnmálum, en eins og fyrr segir lýkur ráðherraferli Davíðs í næstu viku og þátttöku hans í stjórnmálum lýkur brátt. Mikil þáttaskil fylgja brotthvarfi hans úr stjórnmálum - hinsvegar verður lítil breyting á utanríkisstefnu þjóðarinnar með nýjum utanríkisráðherra.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Greinilegt er á tíðindum síðustu daga að staða Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, hefur veikst verulega innan síns eigin flokks. Kemur þetta vel fram í fréttaskýringu í Fréttablaðinu á mánudag. Innsti kjarni stuðningsmanna flokksins finnst Halldór hafa veikst og hafi lítið samráð við þingflokk og forystu í stórmálum. Kristallast þessi óánægja vel í máli málanna þessa dagana í pólitíkinni hér heima: umsókn Íslands um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009-2010. Það blandast engum hugur um það eftir atburði seinustu daga að deilt er um málið innan Framsóknarflokksins. Það hefur komið vel fram seinustu daga. Ef marka má heimildarmenn Fréttablaðsins þykir þeim að Halldór eigi að víkja af forystu flokksins og þar þurfi að stokka upp. Koma þessar efasemdarraddir um forystu Halldórs engum á óvart. Á því ári sem hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands hefur hann sífellt veikst sem forystumaður Framsóknarflokksins. Flest virðist hafa gengið Halldóri Ásgrímssyni í óhag sem forsætisráðherra, á því sem margir höfðu áður talið að myndi verða mesti hápunktur stjórnmálaferils hans. Flokkurinn hefur gengið í gegnum hvert áfallið á þessu síðastliðna ári: hann mælist ekki vel í skoðanakönnunum og persónulegt fylgi við Halldór er í sögulegu lágmarki hvað varðar vinsældir forsætisráðherra Íslands.

Best kom veik staða Halldórs fram við lok flokksþings Framsóknarflokksins í mars er forysta flokksins var kjörin. Þá hlaut Halldór rúm 80% atkvæða, um 16% minna fylgi en á síðasta flokksþingi fyrir það. Segir það eflaust margt um stöðu Halldórs að hann hlaut lakari kosningu í embætti flokksformanns eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra, en sem utanríkisráðherra, er hann var meira erlendis og fjarri innra starfinu beint. Þetta þótti mjög athyglisverð niðurstaða. Við blasir að ástandið í Framsóknarflokknum er eldfimt. Raunveruleg átök um völd og áhrif munu væntanlega verða á næsta flokksþingi, sem haldið verður á kosningaári, á árinu 2007. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á því væntanlega erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins. Svo verður fróðlegt að sjá hvort samstarf flokkanna breytist, nú er Davíð Oddsson hættir þátttöku í stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn og Halldór eru allavega á vissum þáttaskilum, nú þegar hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands í nákvæmlega ár.

Verður fróðlegt að fylgjast með stjórnmálaferli Halldórs á næstu árum og fylgjast þá einkum með því hvort hann muni leiða flokkinn framyfir næstu þingkosningar, eða víkja af pólitíska sviðinu á kjörtímabilinu eins og Davíð Oddsson. Ef marka má heimildarmenn Fréttablaðsins (sem virðast jafnvel koma úr innsta hring) telja þeir að Halldór eigi að víkja fyrir kosningar og kjósa eigi nýja forystu vel fyrir alþingiskosningarnar 2007. Eru þetta merkileg ummæli - og til marks um veikari stöðu Halldórs í forystu flokksins.

Jóhannes Jónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi ákærum í svokölluðu Baugsmáli vegna galla á málatilbúnaði ákæruvaldsins. Eins og við er að búast voru verjendur ánægðir með niðurstöðuna en forsvarsmenn ákæruvaldsins lýstu því yfir að úrskurðurinn yrði kærður til Hæstaréttar. Úrskurður héraðsdóms byggir m.a. á því að ekki sé nægilega skilgreint hvernig sakborningar eiga að hafa brotið af sér, hvernig þeir eiga að hafa auðgast á brotum og hugsanlega valdið öðrum tjóni. Lýst sé ýmsum peningafærslum og ráðstöfunum sakborninga en þær þurfi í sjálfu sér ekki að vera refsiverðar. Ákæruvaldið hefði þurft að lýsa með skýrara hætti hvernig sakborningar eiga að hafa dregið sér fé eða slegið eign sinni á það. Margar aðrar athugasemdir eru gerðar við málatilbúnað ákæruvaldsins og varða þær 4 af 6 sakborningum. Bent er á að ákærðu verði að fá að vita hvað þeim sé gefið að sök til að geta varið sig og dómari verði sömuleiðis að vita um hvað málið snúist svo hann geti lagt á það dóm. Þessi niðurstaða er mikill áfellisdómur yfir ákæruvaldinu og kemur sem mikið högg á það eftir að rannsókn hefur staðið í nokkur ár og miklu til kostað til að rannsaka málið. Þetta er auðvitað áfall fyrir þá sem lögðu málið fram - því verður ekki neitað.

Ekki er hægt að segja að niðurstaðan komi algjörlega á óvart. Dómendur höfðu fyrir nokkru gert alvarlegar athugasemdir við 18 af 40 ákæruliðum málsins. Niðurstaðan sem varð ljós í gær er með þeim hætti að verulegur hluti ákærunnar og atriða tengdum henni sé svo gallaður að ekki verði komist hjá því að vísa málinu í heild frá dómi. Hæstiréttur getur fellt úrskurð Héraðsdóms úr gildi og sagt dómnum að taka málið til efnismeðferðar, jafnvel að hluta til, það fer eftir kröfugerð ákæruvaldsins. Það verður merkilegt að sjá niðurstöðu málsins. Standi þessi dómur er ekki séð hvernig litið verði á það öðruvísi en sem rothögg á embætti Ríkislögreglustjóra. Standi þessi úrskurður þar er alveg ljóst að menn geta ekki sætt sig við að forystumenn hjá Ríkislögreglustjóra sitji áfram í embættum sínum. Svo einfalt er það bara. Áfellisdómurinn yrði svo mikill að ekki yrði framhjá honum gengið með æðstu forystumenn embættisins þar. Það er þó auðvitað réttast að niðurstöðu Hæstaréttar sé beðið. Það er reyndar svo að t.d. Össur Skarphéðinsson er farinn á taugum í málinu ef marka má kostuleg skrif og vill ekki bíða lokaniðurstöðu. Það er merkilegt að fylgjast með skrifum hans. Niðurstaðan kemur í Hæstarétti - fyrr ekki.

Elín Margrét Hallgrímsdóttir

Í dag birtist grein í Morgunblaðinu eftir vinkonu mína, Elínu Margréti Hallgrímsdóttur, en við höfum til fjölda ára starfað saman í flokksstarfinu hér á Akureyri. Þar skrifar Ella Magga um málefni Reykjavíkurflugvallar, sem hefur verið aðalmálið í fréttum og pólitískri umræðu í Reykjavík seinustu vikur og verður sennilega framyfir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Er ég mjög sammála skrifum hennar og mati á málinu og hvet fólk til að lesa grein hennar, sem birtist ennfremur í dag á Íslendingi, vef flokksins hér á Akureyri. Þar segir t.d.: "Eins og umræðan um flugvöllinn hefur verið virðist sem reykvíkingar hafi gefið það frá sér að Reykjavík verði áfram höfuðborg landsins þar sem nálægð flugvallarins við opinberar þjónustustofnanir landsmanna veitir nauðsynlegt öryggi og sparar dýrmætan tíma og orku fólks. Flutningur flugvallarins úr Vatnsmýrinni er ekki einagrað mál heldur órjúfanlegt umræðu um hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins og opinbera stjórnsýslu þess sem nánast öll er í Reykjavík. En vissulega má hugsa sér breytingar á því."

Kristinn H. Gunnarsson

Seinustu daga hefur verið mikil umræða um merkilegan pistil eftir Kristin H. Gunnarsson alþingismann Framsóknarflokksins. Í pistlinum greinir Kristinn H. með nokkuð athyglisverðum hætti fylgissveiflur Framsóknarflokksins og beitir til þess svokölluðum kynjasjónarmiðum. Kristinn H. hefur ekki verið ófeiminn að gagnrýna forystu Framsóknarflokksins á þessu kjörtímabili og minnt nokkuð á sig. Eftir að hann missti þingflokksformennsku flokksins sumarið 2003 hefur hann verið nokkuð óþægur ljár í þúfu fyrir forystu flokksins og frægt varð er hann var tekinn með öllu út úr nefndum flokksins á þingi fyrir ári. Hann var svo síðar settur aftur í nefndir er líða tók á veturinn - sem var leið forystunnar til að semja frið við órólegu deildina í flokknum. Í pistlinum segir Kristinn að flokkurinn sé að missa fótfestu sína meðal kvenna og rekur það með merkilegum hætti. Bendi lesendum á þennan pistil - hann er nokkuð merkileg lesning í ljósi skrifanna um forsætisráðherrann hér ofar.

Saga dagsins
1918 Fyrsta konan fékk ökuskírteini, Áslaug Þorláksdóttir - þá höfðu um 80 karlar fengið skírteini.
1937 Bókin Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien kemur út - í kjölfarið á því kom Hringadróttinssaga út.
1974 Leikarinn Walter Brennan lést, 80 ára að aldri - hann hlaut þrenn óskarsverðlaun á ferli sínum.
1998 Myndbandsupptaka af vitnisburði Bill Clinton um samband sitt við Monicu Lewinsky, sýnd.
2000 Örn Arnarson varð í fjórða sæti í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu.

Snjallyrðið
Í dag eru allir svanir í sárum,
söngurinn breyttur í þagnarmál,
héla á steinum, blóð á bárum,
banvænt eitur í hverri skál.
Grasið er sölnað og ilmur enginn,
allir bátar settir í naust.
Að sævardjúpi er sólin gengin,
sumarið liðið og komið haust.

Í dag eru tár í allra augum,
allir með grátt og hélað hár,
tryggðir feigar, brestir í baugum,
barmur jarðar eitt opið sár.
Af liminu blöðin fölnuð falla,
fjúk í lofti og veðragnýr.
Skuggarnir vefjast um allt og alla.
Angistin heltekur menn og dýr.

Í dag er söngvarinn dauðahljóður,
í djúpið hrunin hver skýjaborg.
Enginn á föður, enginn móður,
enginn neitt - nema þögla sorg.
Hver von er drukknuð í brimi og bárum,
hver bátur settur og lokuð naust.
Í dag eru allir svanir í sárum,
sumarið liðið og komið haust.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Haust)

Ljóð með tilfinningu og sál - ein af ljóðaperlum Davíðs sem manna best orðaði sannar tilfinningar.