Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 september 2005

Punktar dagsins
Angela MerkelGerhard Schröder

Það leikur enginn vafi á því eftir þingkosningarnar í Þýskalandi á sunnudag að gríðarleg pattstaða er komin upp í pólitíkinni þar. Hvorugri valdablokkinni tókst að ná hreinum meirihluta atkvæða og stjórn jafnaðarmanna og græningja sem setið hefur frá árinu 1998 er fallin. Óhætt er að segja að úrslit kosninganna feli í sér mestu óvissustöðu í þýskum stjórnmálum í marga áratugi. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum undanfarnar vikur og mánuði mistókst hægrimönnum undir forystu dr. Angelu Merkel leiðtoga CDU, að vinna þann mikla kosningasigur sem talinn var í sjónmáli. Það blandast engum hugur um það að það voru gríðarleg vonbrigði fyrir Merkel og hægrimenn að ná ekki forystunni með afgerandi hætti, eftir gott gengi seinustu vikurnar. Úrslitin eru viss ósigur fyrir hægriblokkina - því verður vart neitað. Hinsvegar hefur Merkel sterkari stöðu en aðrir flokksleiðtogar eftir kosningarnar. Hún leiðir nú stærsta flokkinn í þýska þinginu, þann flokk sem flest atkvæði hlaut í kosningunum í dag. Gerhard Schröder kanslari, var brosmildur er úrslitin lágu fyrir og var ekkert að sýna neina minnimáttarkennd. Lýsti hann yfir með glott á vör að andstæðingunum hefði mistekist það verkefni sitt að koma sér frá völdum, þeir hefðu einsett sér að taka völdin og fella stjórnina en þeir hefðu ekki haft erindi sem erfiði. Þeir hafi ekki hlotið umboð almennings.

Það er vissulega rétt hjá Schröder að hægrimönnum mistókst að vinna þann kosningasigur sem þeim var nauðsynlegur til að taka völdin með trompi. Hinsvegar eru hægrimenn í betri stöðu en kratarnir til að taka við eftir þessar kosningar. Það blandast engum hugur um það að Schröder tapaði þessum kosningum, þó vissulega hafi honum tekist á lokasprettinum að hljóta betri úrslit en spáð hafði verið. Stjórn græningja og jafnaðarmanna sem mynduð var eftir kosningasigur vinstriaflanna árið 1998 og var endurmynduð eftir nauman sigur þeirra árið 2002 er enda fallin. Það er í hróplegu ósamræmi við úrslitin að Schröder ríki áfram eins og ekkert hafi gerst. Það verður enda ekki séð svo auðveldlega hvernig hann ætlar sér að sitja áfram við völd í Þýskalandi. Óvissuþátturinn hvað varðar kanslarann er auðvitað hvort að honum tekst að mynda aðra stjórn undir sínu forsæti með samstarfi við aðra flokka. Þar er ekki um marga að ræða. Helst eru það frjálslyndir demókratar og Vinstriflokkurinn. Báðir flokkarnir hafa með öllu hafnað samstarfi við Schröder á hans skilmálum. Ekki þarf að undrast að samstarf vinstriflokksmanna og krata sé útilokað snarlega. Flokkurinn er enda leiddur af Oskari Lafontaine fyrrum flokksleiðtoga kratanna og kanslaraefni þeirra árið 1990.

Schröder og Lafontaine voru leiðtogatvíeyki kratanna í kosningunum 1998 og tókst Jafnaðarmannaflokknum að vinna þær kosningar með Schröder sem kanslaraefni en Lafontaine sem leiðtoga. Hann varð fjármálaráðherra í vinstristjórn Schröders eftir kosningarnar. Sambúð þeirra var þó skammlíf. Ári síðar sagði Lafontaine af sér ráðherratigninni og hætti sem flokksleiðtogi - eftir rokna rimmu við kanslarann og harðvítug valdaátök bakvið tjöldin. Lafontaine fór síðar úr flokknum og hefur nú tekist að stimpla sig inn með nýja flokknum og vakti að nýju á sér athygli. Þeir sem þekkja til samskipta Lafontaine og Schröders vissu allan tímann að þeir gætu ekki myndað stjórn saman. Schröder hefur enda jafnan séð svart á seinustu árum er Lafontaine er annarsvegar og sagði margoft í kosningabaráttunni að samstarf milli þeirra og hvað þá flokkanna væri ekki í stöðunni. En það er von að spurt sé nú - hver vann og hver fær að stjórna landinu? Svarið er eins og fyrr segir mjög óljós. Segja má að aðeins tvennt sé raunhæft. Fyrri kosturinn er samstjórn kristilegra demókrata, græningja og frjálslyndra demókrata (sem unnu sinn stærsta kosningasigur í þessum kosningum með um 10% fylgi). Þetta hefur þótt ólíklegt mynstur og hafa græningjar tekið fálega í hann - en hann er samt enn til staðar.

Seinni kosturinn er svo auðvitað stóra samsteypa (grosse koalition) stjórn kristilegra og krata. Það virkar rökréttast og eðlilegast í stöðunni. En þetta er ekki svo einfalt - bæði Schröder og Merkel gera tilkall til kanslaraembættisins og vilja ekki una hinu að hljóta hnossið. Það gæti því hæglega komið þarna upp mikið þrátefli. Verði engin stjórn komin til sögunnar eftir þrjár kosningar um kanslara í þinginu og tilraunir við minnihlutastjórn verður að kjósa aftur. Væntanlega gæti það verið lausnin úr þessu þrátefli sem við blasir, ef ekkert mun ganga. Þetta er döpur staða í Þýskalandi sem við blasir. Það er enda alveg ljóst eftir þessar kosningar að það er mikilvægt að mynda sterka og samhenta stjórn í Þýskalandi. Það eru mikil vonbrigði að hægrimönnum hafi ekki tekist að mynda slíka stjórn. Það þarf að taka til hendinni og fara í þau verkefni sem blasa við eftir sjö ára vinstristjórn. Mikilvægt er að kraftur sé í nýrri stjórn. Án slíks afls er framundan mikill glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Angela Merkel talaði af krafti í kosningabaráttunni um svikin loforð vinstristjórnarinnar. Það blasir enda við að stjórn Schröders hefur algjörlega mistekist að stjórna af krafti og eftir valdatíð hennar blasa við eintóm verkefni og það sem meira er svikin loforð.

En hvernig vinna menn þessi verk af krafti í þeirri stöðu sem uppi er? Það er von að stórt sé spurt. Hver verður kanslari Þýskalands á þessum brothættu tímum í þýskum stjórnmálum - fáir vita svarið enda vilja báðir flokksleiðtogar stóru flokkanna fá hnossið. Hinsvegar blasir við viss naflaskoðun hjá báðum flokkunum enda mistókst báðum leiðtogunum að ná til kjósenda og fá skýrt umboð þeirra til að leiða þjóðina. Þar er lykilvandinn í stöðunni - það blasir við. Gríðarleg pattstaða er komin upp í þýskri pólitík – sem verður merkilegt að fylgjast með hvernig verði leyst úr á hinu pólitíska sviði.

Hópurinn á bakvið Everybody Loves Raymondi

Emmy-sjónvarpsverðlaunin voru afhend í Shrine-Auditorium í Los Angeles aðfararnótt sunnudags. Með þeim er verðlaunað helsta sjónvarpsefni í Bandaríkjunum sl. ár. Flestum að óvörum kom bandaríski gamanþátturinn Everybody Loves Raymond á óvart og hlaut verðlaunin sem besti gamanþátturinn. Þátturinn lauk göngu sinni eftir níu farsæl ár í vor og áttu fáir von á að hann myndi ná að sigra öfluga keppinauta, á borð við t.d. Desperate Housewifes og Arrested Development sem hafa hlotið mun meira umtal og athygli fjölmiðla seinustu mánuðina. En er á hólminn kom sló Ray þeim algjörlega við. Enda urðu margir hissa í salnum er úrslitin voru tilkynnt. Þetta er mikið gleðiefni, enda hef ég verið mikill unnandi þáttana um Ray Barone og fjölskyldu hans til fjölda ára. Ekki laust við að maður muni sakna þeirra - algjört eðalsjónvarpsefni. Sjónvarpsþátturinn Lost hlaut verðlaunin sem besta dramaþáttaröðin. Kemur það fáum á óvart - að mínu mati er Lost með betri dramaþáttum í sjónvarpi hin seinni ár. Stórfenglegir og spennandi þættir - gríðarlega vel gerðir. Er mikill unnandi þeirra og hef ekki misst einn einasta þátt úr. Mörgum að algjörum óvörum kom sjónvarpsmyndin Warm Springs (sem fjallar um Franklin D. Roosevelt forseta Bandaríkjanna og ævi hans) á óvart og vann verðlaunin sem besta sjónvarpsmyndin og sló við t.d. The Life and Death of Peter Sellers.

Fyrir leik í sjónvarpsmyndum hlutu verðlaunin þau Paul Newman, Geoffrey Rush, S. Epatha Merkerson og Jane Alexander. Verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki í dramaþáttum hlutu Patricia Arquette fyrir Medium og James Spader fyrir Boston Legal. Verðlaunin fyrir aukaleik í dramaþáttum hlutu William Shatner fyrir Boston Legal og Blythe Danner fyrir Huff. Fyrir besta leik í aðalhlutverki í gamanþáttum hlutu verðlaunin þau Felicity Huffman fyrir Desperate Housewifes og Tony Shalhoub fyrir Monk. Fyrir besta leik í aukahlutverki í gamanþáttum hlutu verðlaunin þau Brad Garrett og Doris Roberts fyrir Everybody Loves Raymond. The Amazing Race var svo valinn besti raunveruleikasjónvarpsþátturinn, þriðja árið í röð. Hápunktur kvöldsins var þegar að fréttahaukarnir Peter Jennings, Dan Rather og Tom Brokaw voru heiðraðir fyrir framlag sitt til fréttamennsku í gegnum tíðina, en þeir voru aðalfréttaþulir á ABC, CBS og NBC til fjölda ára. Á síðastliðnu ári hafa þeir allir horfið á skjánum. Fluttu Brokaw og Rather flotta þakkarræðu og minntust þar Jennings, sem lést fyrr á þessu ári úr krabbameini, 67 ára að aldri. Samkvæmt venju var þetta flott verðlaunahátíð og gaman að fylgjast með glaumnum og glysinu í Hollywood.

Ásta Möller

Í næstu viku tekur Ásta Möller sæti á Alþingi í stað Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Verður Ásta 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Ásta tók fyrst sæti á Alþingi eftir alþingiskosningarnar árið 1999 og sat á þingi allt það kjörtímabil. Hún náði ekki kjöri í alþingiskosningunum 2003. Hún hefur tekið nokkrum sinnum sæti á þingi á kjörtímabilinu, enda fyrsti varamaður flokksins í RN. lengst í veikindaforföllum Davíðs sumarið 2004 og þingveturinn 2004-2005 er Davíð var að jafna sig eftir veikindin. Ásta hefur verið áberandi talsmaður flokksins í heilbrigðismálum, enda hjúkrunarfræðingur að mennt og á að baki langan feril við kennslu og hjúkrun. Hún var formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 1994-1999. Ásta var kjörin formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna fyrr á þessu ári. Hún er fjórtánda konan sem gegnir þar formennsku. Verður áhugavert að fylgjast með störfum Ástu á þingi á næstu árum. Hef ég á seinustu árum fylgst vel með pólitískum verkum Ástu og fagna því mjög að hún fari aftur á þing, enda glæsilegur fulltrúi flokksins í mörgum lykilmálum sem flokkurinn þarf að fókusera sig vel á, á komandi árum. Ég óska henni góðs gengis í störfum sínum á þingi.

Bessi Bjarnason (1930-2005)

Bessi Bjarnason leikari, var jarðsunginn í dag. Hann lést í síðustu viku, 75 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn besti leikari Íslendinga á 20. öld. Hann setti sterkan svip á íslenskt leikhúslíf og var áberandi í auglýsingum, sjónvarpsmyndum og kvikmyndum á löngum leikferli og var heiðursfélagi í Félagi leikara. Bessi fæddist í Reykjavík 5. september 1930. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1952 og hóf störf við leikhúsið það ár. Bessi var fastráðinn við Þjóðleikhúsið allan sinn leikferil, árin 1952-1990, en hann lét þar af störfum árið 2000. Eftirlifandi eiginkona Bessa er Margrét Guðmundsdóttir leikkona. Þau giftust eftir að þau léku saman í hinum stórfenglega gamanleik Á sama tíma að ári, á áttunda áratugnum. Við leiðarlok er Bessi Bjarnason kvaddur með söknuði. Hann var í senn ógleymanlegur leikari og sá besti á sviði gamanleiks á seinnihluta tuttugustu aldarinnar. Sannkallaður meistari sem túlkaði stórbrotna karaktera með óviðjafnanlegum hætti. Hans verður minnst fyrir ógleymanlegan hlátur og fyrir að skemmta mörgum kynslóðum Íslendinga með sjarma sínum og yndisleika. Guð blessi minningu þessa mikla heiðursmanns.

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Kynningarferli vegna sameiningarkosninganna hér við Eyjafjörð eftir tæpar þrjár vikur er formlega hafið. Fyrsti kynningarfundur sameiningarnefndarinnar var á Siglufirði í gærkvöldi. Framundan eru svo fjöldi funda í firðinum. Sá síðasti verður hér á Akureyri að kvöldi 4. október nk. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og formaður sameiningarnefndar, var í löngu viðtali á Aksjón í gærkvöldi og kynnti málið. Í gærmorgun voru svo Sigrún Björk og Hólmgeir Karlsson oddviti í Eyjafjarðarsveit, gestir Kristjáns Sigurjónssonar í ítarlegu viðtali á Morgunvakt Ríkisútvarpsins. Bendi ég lesendum á það viðtal og ennfremur á heimasíðu sameiningarnefndar. Svo hefur Sigrún Björk skrifað greinar um málið seinustu daga í blöðin og vefrit hér í firðinum. Framundan er ítarlegt kynningarferli sem lýkur með kosningunni þann 8. október nk.

Saga dagsins
1519 Portúgalski landkönnuðurinn Ferdinand Magellan leggur af stað í langa ferð sína um heiminn.
1900 Ofsaveður gekk yfir landið - meira en 30 manns fórust í veðrinu, þar af drukknuðu 18 manns á Arnarfirði. Kirkjurnar á Urðum og Upsum í Svarfaðardal fuku af grunnum sínum og brotnuðu í spón.
1946 Fyrsta kvikmyndahátíðin í Cannes er haldin - kvikmyndahátíðir eru haldnar þar á hverju ári.
1979 Flóttamenn frá Víetnam, alls 34, komu til landsins - stærsti hópur útlendinga sem hingað kom.
1995 Ný brú, yfir Jökulsá á Dal, var formlega tekin í notkun. Hún er 125 metra löng og 40 metra há.

Snjallyrðið
Þó jörðin sé frosin og fokið í gömul skjól,
þá fylgir þeim gæfa, sem treysta á ástina og vorið.
Með einum kossi má kveikja nýja lífsins sól.
Eitt fagurt kærleiksorð getur sálir til himins borið.
Hin innsta lífsins þrá getur eld til guðanna sótt.
Ein auðmjúk bæn getur leyst hinn hlekkjaða fanga.
Svö fögnum við þá - og fljúgum þangað í nótt,
þar sem frelsið ríkir, og sígrænir skógar anga.

Á hvítum vængjum fljúgum við frjáls og ein,
og fram undan blika skógar og draumaborgir.
Í útsæ loftsins laugum við okkur hrein.
Í logandi eldi brennum við okkar sorgir.
Við fljúgum þangað, sem friðlausir eiga skjól.
Þar fagnar okkur heilagur griðastaður.
Í veröld austan við mána og sunnan við sól
á söngvarinn skjól - þar er hann frjáls maður.

Til óskalandsins fljúgum við saman frjáls og ein.
Þar fáum við öllu jarðnesku böli að gleyma.
Á vegi þínum á jörð er steinn við stein.
Í stjörnuborgum söngvanna áttu heima.
Þú elskar ljóðin, lifir í anda hans.
Ég lofsyng nafn þitt, helga þér veröld mína.
Mín vígða brúður, drottning míns draumalands.
Í drottins nafni krýp ég við fætur þína.

Með þig í faðminum flýg ég burt í nótt.
Nú finn ég gleðinnar töfra um hjartað streyma.
Að elska er að hafa eld til guðanna sótt
og opnað þeirra fegurstu sólarheima.
Þó jörðin sé frosin og fokið í hin gömlu skjól,
þá fylgir þeim gæfa, sem treysta á ástina og vorið.
Með einum kossi má kveikja nýja lífsins sól.
Eitt kærleiksorð getur sálir til himins borið.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Við fljúgum þangað)

Þetta er svo innilega fallegt ljóð - ein af perlum meistara ljóðanna orða frá Fagraskógi.