Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 desember 2005

Oktavía gengur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn

Oktavía Jóhannesdóttir

Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi, tilkynnti á blaðamannafundi í dag í Hamborg, húsnæði Sjálfstæðisflokksins í miðbænum hér á Akureyri, að hún hefði ákveðið að segja skilið við Samfylkinguna og genga til liðs við okkur í Sjálfstæðisflokknum. Hún mun sitja áfram í bæjarstjórn fram til vorsins og sitja í þeim nefndum sem hún hefur verið kjörin til setu í. Með þessu missir Samfylkingin á Akureyri sinn eina bæjarfulltrúa. Jafnframt eflist með þessu meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Áður voru sjö bæjarfulltrúar sem tilheyrðu meirihlutanum en verða nú átta. Bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins fjölgar því nú um einn og verða þeir fimm talsins frá og með þessu. Þetta hljóta að teljast mikil tíðindi, enda hafði Oktavía ekki boðið sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar og flestir talið að hún myndi hætta í sveitarstjórnarmálum með vorinu.

Oktavía Jóhannesdóttir var kjörin í bæjarstjórn Akureyrar í bæjarstjórnarkosningunum 1998 af hálfu Akureyrarlistans. Skipaði hún þá annað sæti listans. Ákváðu Akureyrarlisti, sem var sameiginlegt framboð vinstriflokka, og Sjálfstæðisflokkur í kjölfar kosninganna að mynda saman meirihluta. Varð Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Oktavía gegndi ýmsum forystustörfum í nefndum á kjörtímabilinu. Í aðdraganda kosninganna 2002 varð Oktavía leiðtogi Samfylkingarinnar. Tók hún ekki þátt í prófkjöri flokksins í nóvembermánuði og talið að hún myndi alfarið hætta þátttöku í stjórnmálum. Varamaður hennar í bæjarstjórn, Hermann Jón Tómasson, ákvað að gefa kost á sér til leiðtogastöðunnar og þótti flestum ljóst að Oktavía hefði átt erfiðan slag fyrir höndum - hefði hún gefið kost á sér.

Í yfirlýsingu Oktavíu segir að það hafi verið henni sárt sem stofnfélaga í Samfylkingunni að þurfa að viðurkenna fyrir sjálfri sér að flokkurinn hafi ekki verið og verði seint sá frjálslyndi og framsækni jafnaðarmannaflokkur sem hún hafi reiknað með. Hún kveður því Samfylkinguna með köldum kveðjum í garð flokksins. Hún tekur því þá ákvörðun að víkja úr flokknum, væntanlega við litla hrifningu fyrrum samherja hennar. Enda stendur Samfylkingin nú eftir án fulltrúa í bæjarstjórn næsta hálfa árið, fram að kosningum. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvaða áhrif þessi breyting hefur fyrir Samfylkinguna, sem nú á ekki lengur neinn fulltrúa í bæjarstjórn og missir væntanlega nefndarmenn sína í kjölfarið.

Saga dagsins
1984 Rajiv Gandhi og Kongress-flokkurinn vinnur mikinn sigur í indversku þingkosningunum, sem haldnar voru nokkrum vikum eftir að móðir hans, Indira Gandhi sem verið hafði forsætisráðherra nær samfellt í 20 ár, var myrt. Rajiv sat í embætti til ársins 1989, en féll fyrir morðingjahendi í maí 1991.
1986 Harold Macmillan fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lést, 92 ára að aldri - hann sat í embætti sem forsætisráðherra og leiðtogi breska Íhaldsflokksins 1957-1963 og hlaut viðurnefnið Super Mac og Mac the Knife í breskum stjórnmálum. Hann hætti afskiptum af stjórnmálum vegna heilsubrests 1963.
1989 Vaclav Havel kjörinn forseti Tékkóslóvakíu - hann sat í embætti þar til landinu var skipt í tvennt árið 1993. Varð þá forseti Tékklands og sat í embætti í tvö 5 ára kjörtímabil og lét af embætti 2003.
1992 Fernando Collor de Mellor forseti Brasilíu, segir af sér embætti vegna hneykslismála - Mellor var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins í 29 ár og sigraði naumlega í forsetakosningum árið 1990.
1995 Ríkisstjórnin samþykkti að banna umsækjendum um opinberar stöður að njóta nafnleyndar.

Snjallyrðið
Máninn hátt á himni skín, hrímfölur og grár.
Líf og tími líður og liðið er nú ár.
Bregðum blysum á loft bleik þau lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.

Kyndla vora hefjum hátt, horfið kveðjum ár.
Dátt hér dansinn stígum dunar ísinn grár.
Bregðum blysum á loft bleik lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.

Komi hver sem koma vill! Komdu nýja ár.
Dönsum dátt á svelli, dunar ísinn blár.
Bregðum blysum á loft bleik lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.
Jón Ólafsson skáld (1835-1920) (Álfareiðin)