Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 desember 2005

Jólamyndir

It´s a Wonderful Life

Um jólin er viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna. Tvær þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.

Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Mynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð. Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða.

Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum.

Myndin var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2005 og 1946. Sígildur boðskapurinn á alltaf við. Fastur partur jólunum - ómissandi þáttur heilagra jóla að mínu mati.

Miracle on 34th Street

Ein besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood, Maureen O'Hara og Thelmu Ritter í aðalhlutverkum. Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök.

Love Actually

Ein af bestu jólamyndum seinni tíma er hin óviðjafnanlega breska gamanmynd Love Actually. Hún hefur verið mér mjög kær allt frá því að ég sá hana fyrst í bíói fyrir tveim árum. Þetta er í senn bæði ljúf og sykursæt mynd. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu. Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Er algjörlega fullkomin. Punkurinn yfir i-ið er flottur flutningur Billy Mack (í glæsilegri túlkun Bill Nighy) á laginu Christmas is all around (áður Love is all around með Wet, Wet, Wet). Þessi er alveg ómissandi yfir jólin seinni árin - verður svo væntanlega um ókomin ár!

Vonandi eigið þið annars góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum. Gott dæmi yfir úrvalið í bíói um jólin eru myndir á borð við t.d. King Kong, The Family Stone, Harry Potter and the Goblet of Fire, The Chronicles of Narnia, Memoirs of a Geisha og The Brothers Grimm. Er reyndar þegar búinn að sjá King Kong og ætla að skrifa um hana milli jóla og nýárs þegar að ég geri upp bíóárið. Nóg af úrvalsefni er því í boði í kvikmyndahúsunum. Gott úrval kvikmynda og þátta verður svo í sjónvarpi yfir jólin.

Jólatónlist

Elly og Vilhjálmur syngja jólalög

Get ekki annað en bent á tvo ómissandi jóladiska í lokin að þessu sinni. Jólin hjá mér koma ekki fyrr en settur hefur verið í spilarann stórfenglegur jóladiskur systkinanna Elly Vilhjálms og Vilhjálms Vilhjálmssonar, sem gefinn var út árið 1971. Hann er fallegri en allt annað að mínu mati - ennfremur jólalegri en allt annað. Sígildur og góður - algjörlega ómissandi. Elly og Vilhjálmur voru með bestu söngvurum sinnar kynslóðar og sungu allt fram í andlátið. Vilhjálmur lést í bílslysi, langt fyrir aldur fram, árið 1978, aðeins 33 ára að aldri. Elly lést úr krabbameini árið 1995, sextug að aldri. Þau voru að mínu mati aldrei betri en á þessum ljúfa jóladiski sem varð fastur hluti jólanna um leið og hann kom út. Ég ólst upp með þessari plötu og keypti mér útgáfu hennar á diski árið 1992 og hef spilað hann mjög mikið síðan. Algjör snilld að mínu mati - jólalegasti jóladiskurinn.

Á jólanótt

Fyrir áratug gaf Tjarnarkvartettinn í Svarfaðardal út jóladiskinn Á jólanótt. Um leið og hann kom út ávann hann sér sess í huga mér. Diskurinn er löngu orðinn fastur liður jólaundirbúningsins. Það er afslappandi og notalegt að setja hann í spilarann og njóta þeirrar kyrrðar sem hann færir. Þar syngur kvartettinn jólalög án undirleiks. Aðeins er fagur söngur - rólegt og undurljúft. Tjarnarkvartettinn var skipaður þeim Hjörleifi Hjartarsyni, Kristjáni Hjartarsyni, Kristjönu Arngrímsdóttur og Rósu Kristínu Baldursdóttur. Hann hætti að syngja opinberlega fyrir nokkrum árum, en gaf út þennan disk og tvo til. Allir sem njóta fallegrar og notalegrar jólatónlistar verða að eignast þennan.

Marga fleiri diska mætti nefna, t.d. eru jóladiskar Kristjáns Jóhannssonar, Boney M, Diddúar, Bing Crosby, Mahaliu Jackson og Borgardætra mikið spilaðir á mínu heimili. Alltaf bætist svo við - þessi jólin kom út jóladiskur systkinanna Ellenar og KK sem hefur þegar unnið sér fastan sess. Falleg jólatónlist er ómissandi í jólaundirbúningnum.

Saga dagsins
1945 Ölfusárbrú við Selfoss var opnuð til umferðar - var þá langstærsta og mesta brú sem byggð hafði verið hérlendis. Hún er 134 metra löng og leysti af hólmi eldri brú sem tekin var í notkun 1891.
1952 Kveikt var á 15 metra háu jólatré á Austurvelli í Reykjavík. Þetta var fyrsta tréð sem Oslóarbúar gáfu Reykvíkingum. Frá þessu hefur það verið árleg hefð að tré komi þaðan sem gjöf til Reykvíkinga.
1958 Charles De Gaulle hershöfðingi, kjörinn með miklum meirihluta sem forseti Frakklands, og hlaut mun meiri pólitísk völd en forverarnir. De Gaulle sat í embætti allt til ársins 1969, og lést 1970.
1988 Flugvél Pan Am-flugfélagsins, á leið frá London til New York, sprakk í loft upp yfir smábænum Lockerbie á Skotlandi. 258 létust, þarmeð taldir allir farþegar vélarinnar og fólk á jörðu niðri er vélin hrapaði til jarðar. Líbýskir menn grönduðu vélinni og voru þeir handteknir og sóttir til saka 2001.
1999 Þingsályktun um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun var samþykkt á Alþingi. Síðar var fallið frá þessum áformum, sem kennd voru við Eyjabakka og ákveðið að stefna frekar að Kárahnjúkavirkjun.

Snjallyrðið
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja hann ei sem bæri
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Í Betlehem var það barnið fætt,
sem best hefur andar sárin grætt,
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnari heimsins væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum brátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Sr. Einar Sigurðsson á Heydölum (1538-1626) (Nóttin var sú ágæt ein)