Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 desember 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í síðasta sunnudagspistli ársins 2005 fjalla ég um þrjú mál:

- í fyrsta lagi fjalla ég um þá ákvörðun mína að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, sem haldið verður 11. febrúar nk. Hef ég ákveðið að gefa kost á mér í þriðja sæti listans. Ég hef verið flokksbundinn í tólf ár og gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tel rétt að gefa kost á mér nú. Spennandi barátta er framundan. Mun ég í prófkjörsbaráttunni kynna vel mína framtíðarsýn fyrir Akureyri og hverju eigi að stefna að á næsta kjörtímabili. Það er alveg ljóst að rödd yngri kjósenda þarf að vera virk í bæjarmálum hér. Mér þykir doði vera í stjórnmálalitrófi ungra kjósenda hér og rödd þeirra hafa gleymst. Því verður að breyta. Skoðanir okkar og stefnumál skipta að mínu mati sköpum í kosningabaráttunni á næsta ári. Við þurfum að koma með okkar mat á stöðuna: hvað viljum sjá á næsta kjörtímabili? – að hverju viljum við stefna að? – hvernig á bærinn að vera á næstu árum? Allt eru þetta stórar spurningar. En það er mikilvægt að við svörum þeim. Ég mun allavega fara á þennan vettvang af krafti.

- í öðru lagi fjalla ég um bækur sem komið hafa út á seinustu árum um Halldór Kiljan Laxness. Nýlega kom út þriðja og síðasta bindi Hannesar Hólmsteins um hann – þar kemur margt nýtt fram. Sérstaklega hefur þar borið hæst umfjöllun um nóbelsverðlaunin 1955. Komið hefur í ljós nánari umfjöllun en áður hefur sést um atburðarásina sem leiddi til þess að Halldór Kiljan Laxness hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir hálfri öld. Lengi hefur verið vitað að valið stóð þá á milli Halldórs og annars öndvegisrithöfundar, Gunnars Gunnarssonar. Lengi hafa margar kjaftasögur gengið um rás atburða og hið sanna legið í þagnargildi. Það hefur nú breyst. Í bók sinni lýsir Hannes því hvernig menn reyndu með ófrægingarherferð að koma í veg fyrir að Gunnar Gunnarsson hlyti verðlaunin. Fer ég yfir það mál í pistlinum.

- í þriðja lagi fjalla ég um Geir Hallgrímsson fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, en á föstudag voru 80 ár liðin frá fæðingu hans. Á löngum stjórnmálaferli sínum varð Geir í senn bæði sigursæll leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgar- og landsmálum og leiddi hann ennfremur á miklum erfiðleikatímum sem mörkuðust bæði af klofningi innan flokksins og áberandi deilum í forystusveit hans á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Í ítarlegum pistli á vef SUS á föstudag fór ég yfir ævi hans og stjórnmálaferil. Þakka ég kærlega fyrir þau góðu viðbrögð sem ég fengið við pistlinum. Þótti mér áhugavert að rita pistilinn og ánægjulegt að fara yfir merka ævi og feril Geirs í stjórnmálum. Í gær ritar svo Björn Bjarnason vandaðan og góðan pistil um Geir.


Menn ársins 2005 hjá TIME

Menn ársins 2005 hjá TIME

Í dag tilkynnti bandaríska fréttatímaritið TIME um val sitt á mönnum ársins. Fyrir ári hlaut George W. Bush forseti Bandaríkjanna, þennan heiður. Það var í annað skiptið sem forsetinn hlaut nafnbótina. Hann var valinn maður ársins 2000, skömmu eftir að hafa unnið nauman sigur í umdeildum og sögulegum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Í umsögn blaðsins fyrir ári sagði að forsetinn hefði verið valinn vegna þess að honum tókst að ná endurkjöri með því að hljóta rúmlega helming greiddra atkvæða og að hafa náð að efla stöðu sína fyrir kosningarnar með afgerandi hætti og að ná til hins almenna landsmanna og með því styrkt leiðtogaímynd sína. Þá kom fram í mati Jim Kelly ritstjóra blaðsins, að Bush forseti, væri áhrifamikill en jafnframt umdeildur maður í heimalandi sínu og um allan heim og það væri t.d. ein af ástæðum þess að hann hefði verið valinn sem maður ársins, öðru sinni. Hann hefði verið sá maður á árinu sem öll umræða hefði snúist um. Sigur hans hefði svo verið toppurinn á velheppnuðu ári af hans hálfu. Var það í sjötta skipti sem einhver hlaut heiðurinn tvívegis.

Að þessu sinni hlutu heiðurinn þrír einstaklingar, sem er óvenjulega mikið. Nær er því að tala um fólk ársins að mati blaðsins. Heiðurinn hlutu írski rokksöngvarinn og mannréttindafrömuðurinn Bono og bandarísku hjónin og mannvinirnir Bill og Melinda Gates. Hljóta þau titilinn vegna starfa sinna að mannúðarmálum til fjölda ára, sem náð hefði hámarki á árinu 2005. Eins og allir vita er Bill Gates einn af ríkustu mönnum heim, en hann stofnaði fyrir tveim árum hugbúnaðarrisann Microsoft. Kemur fram í mati TIME að Gates-hjónin hljóti heiðurinn vegna þess að þau hafi farið mjög nýstárlegar leiðir í góðgerðamálum og mannúðarmálum. Ennfremur hafi þau haft áhrif á stjórnmál og knúið fram af krafti við að tala máli réttlætis. Hafi þau aukið von og hvatt aðra til að fylgja fordæmi þeirra. Bono er valinn vegna forystu sinnar á árinu við að koma upp Live8-tónleikunum í júlímánuði, þar sem tónlistarmenn hvöttu stjórnmálamenn í iðnríkjunum 8 til að hlúa að vanþróuðum löndum. Hafi hann leitt verkefnið með krafti og hlýju - sem hafi skilað miklum árangri.

Ennfremur velur TIME þá George H. W. Bush og Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna, fyrir ötult og heilsteypt mannúðarstarf sitt í kjölfar flóðbylgjunnar í Asíu í lok ársins 2004 og fellibylsins Katrínar í suðurríkjum Bandaríkjanna í sumar. Minnist blaðið sérstaklega á það að þeir hafi orðið gegnheilir vinir eftir samstarf sitt í þessum málum. Þeir voru eins og flestir vita andstæðingar í forsetakosningunum 1992, en Clinton felldi Bush eldri af forsetastóli. Unnu þeir saman af hugsjón og krafti til að efla mannúðarstarf í kjölfar þessar hörmunga. Er mjög ánægjulegt að lesa umfjöllun TIME og er ég svo sannarlega sammála vali blaðsins á fólki ársins. Öll verðskulda þau heiðurinn, enda má með sanni segja að þau hafi öll unnið með gegnheilum og virðingarverðum hætti að mannúðarmálum á árinu. Framlag þeirra skipti sköpum.

Saga dagsins
1897 Fyrsta sýningin hjá Leikfélagi Reykjavíkur - sýndir voru þá á sviði Iðnó tveir danskir leikþættir.
1958 Spámaðurinn, lífsspeki í ljóðum eftir Kahlil Gibran, kom út í íslenskri þýðingu eftir Gunnar Dal. Bókin hefur síðan verið gefin út 12 sinnum og hefur selst hérlendis í alls fjörutíu þúsund eintökum.
1982 Kvikmyndin Með allt á hreinu, var frumsýnd. Ágúst Guðmundsson leikstýrði myndinni og í aðalhlutverkum voru hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar. Myndin sló öll aðsóknarmet og um 115.000 Íslendingar sáu hana í bíó. Framhaldsmynd: Í takt við tímann, var frumsýnd um jólin 2004.
1997 Frumvarp um að Skotland fái eigið þing og heimastjórn kynnt í Glasgow. Áður höfðu Skotar samþykkt heimastjórn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Donald Dewar varð fyrsti forsætisráðherra landsins.
1998 Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli, hið sextugasta síðan árið 1200, stóð það í rúma viku. Í upphafi náði mökkur frá eldstöðvunum upp í 10 kílómetra hæð og öskufalls varð vart norðanlands.

Snjallyrðið
Ljósadýrð loftin gyllir
lítið hús yndi fyllir
og hugurinn heimleiðis leitar því æ
man ég þá er hátíð var í bæ.

Ungan dreng ljósin laða
litla snót geislum baðar
Ég man það svo lengi sem lifað ég fæ
lífið þá er hátíð var í bæ.
Ólafur Gaukur Þórhallsson tónlistarmaður (1930) (Hátíð í bæ)