Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 desember 2005

Stefán Friðrik Stefánsson

Í gær var framboðslisti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 27. maí nk. samþykktur á fjölmennum fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, í Valhöll. Listann skipa 15 karlar og 15 konur, þar af eru 5 karlar og 5 konur í 10 efstu sætum framboðslistans og 8 konur og 8 karlar í 16 efstu sætunum. Kynjaskiptingin er því mjög góð. Efstu þrettán sætin eru skipuð eftir úrslitum prófkjörs flokksins í byrjun nóvembermánaðar. Í fyrstu tíu sætunum eru: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Jórunn Ósk Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Bolli Skúlason Thoroddsen og Marta Guðjónsdóttir. Þetta er sigurstranglegur og góður listi að mínu mati. Eins og skoðanakannanir hafa verið að spilast er Sif gulltrygg inn í borgarstjórn. Reyndar virðist mér á seinustu tveim skoðanakönnunum Gallups að verið sé að spila um níunda mann sjálfstæðismanna inn í borgarstjórn. Það er að mínu mati ekki óviðeigandi að stimpla níunda sætið sem hið sanna baráttusæti - berjast eigi af krafti eftir því að ná góðum sigri með góðri útkomu með níu borgarfulltrúum.

Bolli Thoroddsen formaður Heimdallar, skipar níunda sætið. Eins og fyrr segir hafa kannanir Gallups verið að spilast með þeim hætti að níundi maður framboðslistans sé inni. Það er enginn vafi á því í mínum huga að menn eigi að leggja kosningabaráttuna upp með þeim hætti að tryggja kjör Bolla Thoroddsen inn í borgarstjórn – tryggja að unga kynslóðin í flokknum eigi tryggan fulltrúa inn í borgarstjórn. Það væri glæsilegt fyrir okkur alla hægrimenn ef flokkurinn hlyti sterkt og gott umboð með því að ná inn níu borgarfulltrúum í þessum kosningum. Öll hljótum við að vilja sigur flokksins sem stærstan. Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups í dag hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn rúm 55% atkvæða og hefur algjöra yfirburði. Vinstriflokkarnir eru í rúst bara, bandalag þeirra myndi ekki hljóta meirihluta og eru mjög fjarri því. Þó að þeir vildu starfa saman er það enginn valkostur haldist þessi öfluga staða Sjálfstæðisflokksins. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil hafa átt sér stað í borgarmálunum. Vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn er enda samkvæmt þessum tölum kolfallinn og víðsfjarri því að eiga möguleika á að halda sínu, með sex borgarfulltrúa inni.

Samfylkingin fengi rúm 25% og 4 borgarfulltrúa og VG hefur rúm 12% og 2 borgarfulltrúa. Lífakkeri hins steindauða R-lista, Framsóknarflokkurinn, er heillum horfinn þrátt fyrir að hafa nú losnað við fyrrum heillagrip R-listans, Alfreð Þorsteinsson, úr forystusveitinni. Framsókn hefur um 5% fylgi og hefur bætt sig örlítið, en er samt nokkuð frá því að ná inn manni. Þetta gerist þrátt fyrir brotthvarf Alfreðs og innkomu Björns Inga Hrafnssonar inn á sviðið. Frjálslyndir hafa svo rúm 2%. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndir fengju því kjörinn borgarfulltrúa. Þessi könnun er mjög öflug fyrir Sjálfstæðisflokkinn - sérstaklega á þessum tímapunkti er framboðslistinn liggur fyrir. Verkin eftir R-listann sáluga eru nú dæmd eftir tólf ára valdaferil í þessari skoðanakönnun sem mælir stöðuna og landslagið nú alveg afdráttarlaust. Borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórninni í borginni og vilja skipta um forystu. Það undrast fáir, það þýðir ekki fyrir vinstriöflin að flýja R-listann til að reyna að halda völdum. Það stoðar lítið.

Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin. En þessi könnun sýnir okkur þáttaskil í borgarmálunum - nýtt landslag. Nú er brýnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vinna af krafti - og vinna þessar kosningar með miklum glæsibrag og tryggja níu borgarfulltrúa inn í vor!

Dimmugljúfur

Nýlega las ég bók Ómars Ragnarssonar, Kárahnjúkavirkjun - með og á móti, þar sem hann fer yfir kosti og galla Kárahnjúkavirkjunar. Ómar er landsmönnum vel þekktur, hann hefur verið til fjölda ára ötull í fjölmiðlum, mikill flugmaður og náttúruunnandi en þekktastur þó væntanlega sem sjónvarpsmaður. Enginn vafi leikur á því að náttúra landsins er honum mikils virði. Í gegnum verk hans hefur komið fram hversu mjög hann ann íslenskri náttúru og sögu hennar. Nægir að líta á Stikluþætti hans sem löngu eru orðnir klassískir og þætti hans á seinustu árum, Fólk og firnindi. Hefur hann seinustu fimm árin sinnt mjög því áhugamáli sínu að fá fram umræðu um virkjun á Austurlandi og álver við Reyðarfjörð.Kynnti hann þessi mál í mynd sinni: Á meðan land byggist, árið 2002 og heldur nú þeirri umfjöllun áfram í bókinni. Er hún sett þannig upp að mál eru greind í opnur og á annarri blaðsíðunni er farið yfir jákvæða punkta málsins en á hinni neikvæða, báðar skoðanir koma vel fram.

Er þessi bók mjög fróðleg lesning og ætti að vera áhugaverð öllum þeim sem hafa kynnt sér málið, þekkja til náttúru landsins og Austfjarða. Lengi hefur mér verið annt um Austurland, enda á ættir mínar að rekja þangað og tel nauðsynlegt að standa vörð um mannlíf þar. Þó að við Ómar séum ósammála um þetta mál, met ég það að hann reyni af krafti að tjá báðar skoðanir með þessum hætti og fái fram umræðu um það. Það er nefnilega það nauðsynlega við þetta, að fá umræðu um kosti og galla framkvæmdarinnar og þess sem gera þarf til að styrkja og efla Austfirðina. Enginn vafi er á því að virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð eru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Það stefnir í nýtt og öflugt hagvaxtarskeið, atvinnuástand mun styrkjast verulega, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna hækka. Mikill uppgangur hefur verið á öllum sviðum á Austurlandi.

Fór ég austur í Fjarðabyggð í sumar og þótti mjög ánægjulegt að sjá hversu vel gengur þar núna og að finna fyrir þeim mikla krafti sem býr í fólki þar og öllum framkvæmdum sem í gangi eru. Framkvæmdirnar þar styrkja Norðausturkjördæmi í heild og efla Austurland og síðast en ekki síst mannlífið í Fjarðabyggð. Það er því rétt að taka umræðuna um málið, en eftir stendur að kostirnir við framkvæmdina yfirgnæfa alla mögulega galla sem tíndir eru fram í bók þessari. Er enginn vafi á því að virkjun á Austurlandi og virkjun í Reyðarfirði er kraftmikil byggðaframkvæmd sem mun styrkja stöðu mála í kjördæminu til framtíðar.

It Happened One Night

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmynd leikstjórans Frank Capra, It Happened One Night. Í aðalhlutverkum í þessari mögnuðu mynd eru Claudette Colbert og Clark Gable. Segir í myndinni frá hinni ofdekruðu Ellie Andrews sem flýr undan ofríki föður síns sem vill ekki leyfa henni að giftast glaumgosa einum. Á leiðinni í rútu til New York kynnist hún útbrenndum blaðamanni Peter Warner. Þegar rútan bilar á leiðinni lenda þau í vandræðum enda hætta á að faðir hennar komist að því hvar hún er, blaðamaðurinn þekkir auðmannsdótturina og vonast til að þarna sé komið efni í stórfrétt sem kemur honum á sporið aftur í bransanum. Vandræðin hefjast þó fyrir alvöru er þau verða ástfangin á leiðinni til New York. Stórfengleg kvikmynd sem varð gríðarlega vinsæl og hlaut 5 óskarsverðlaun 1934, sem besta kvikmynd ársins, fyrir leik Gable og Colbert, fyrir leikstjórn Capra og handritið. Var It Happened One Night fyrsta kvikmyndin sem hlaut óskarinn í 5 stærstu flokkunum; kvikmynd, leikstjórn, bestu aðalleikarar og handrit. Aðeins tvær myndir hafa náð þeim árangri frá 1934, One Flew Over The Cuckoo's Nest 1975 og The Silence of the Lambs 1991: báðar miklar gæðamyndir.

Þorsteinn Pálsson

Þorsteinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og sendiherra, tilkynnti í viðtali í Laufskálanum á Rás 1 í morgun að hann hefði tekið þá ákvörðun að hætta við að rita sögu þingræðis á Íslandi. Forsætisnefnd Alþingis samþykkti snemma í haust að fela honum það verk og hann hafði hafið ritunina eftir að hann lét af sendiherraembætti í Danmörku snemmvetrar. Í kjölfar þessa mótmæltu fræðimenn því að Þorsteini hefði verið falið að skrifa söguna og ennfremur var það gagnrýnt í þingumræðu, þó að allir flokkar í forsætisnefnd hefðu staðið að valinu á Þorsteini. Sagði Þorsteinn í Laufskálaviðtalinu að forsendur væru brostnar fyrir ákvörðun forsætisnefndarinnar og hann hefði ákveðið að hætta við. Þorsteinn er mikill heiðursmaður og tekur rétta ákvörðun. Hann fer frá þessu máli hnarreistur og með glæsilegum hætti. Ég óska honum góðs í þeim verkefnum sem hann tekur sér nú fyrir hendur eftir að hann lét af sendiherraembætti.

KK og Ellen

Keypti mér um daginn geisladisk systkinanna Ellenar og KK - Jólin eru að koma. Mæli mjög með þessum diski. Á honum er undurfögur jólatónlist með einföldum og tærum blæ. KK spilar á kassagítarinn og syngur ásamt Ellen ógleymanleg jólalög. Fer þetta fallega saman og skapar flotta jólastemmningu, sem flýtur notalega í gegn. Góður diskur - sem á vel við nú á aðventunni.


Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa sent mér notalegar og góðar kveðjur vegna ákvörðunar minnar um framboð í prófkjörinu í febrúar. Það er gott að eiga góða vini að!

Saga dagsins
1930 Ríkisútvarpið tók formlega til starfa - útvarpað var í upphafi þrjá tíma á kvöldin, en eftir því sem árin liðu lengdist útsendingartíminn og er nú útvarpað á Rás 1 frá 6:45 til 01:00 að nóttu. Árið 1966 hóf RÚV rekstur fyrstu sjónvarpsstöðvar landsins og 1983 var svo stofnuð önnur útvarpsrás, Rás 2. Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson, en núverandi útvarpsstjóri RÚV er Páll Magnússon.
1973 Aðskilnaðarsamtök Baska, ETA, ráða Luis Carrero Blanco forsætisráðherra Spánar, af dögum í sprengjutilræði í Madrid - almenn þjóðarsorg var á Spáni vegna dauða hins sjötuga forsætisráðherra.
1974 Snjóflóð féllu á Neskaupstað og ollu stórtjóni á mannvirkjum. 12 manns fórust í snjóflóðinu, margir voru grafnir lifandi upp úr snjónum. Tvítugur piltur bjargaðist eftir rúmlega 20 klukkustundir.
1975 Kröflueldar hófust með miklu eldgosi í Leirhnjúki - gosið stóð allt fram til febrúarmánaðar 1976.
1983 Kvótakerfi á fiskveiðar var samþykkt á Alþingi - kerfið sem varð umdeilt tók gildi 1. janúar 1984.

Snjallyrðið
Framtíð okkar svo fallvölt er,
fortíð leit hjá sem blær
jólanóttin er nú og hér.
Nóttin heilög og kær.

Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gleymdu sorg og þraut
vittu til að vandamálin hverfa á braut.
Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gjöf, sem dýrmætust er.
Í kærleika að kunna að gefa af sjálfum sér.

Hér og nú hjartkær vinafjöld
hjá oss eru í kvöld sem fyrr.
Jólabarn við oss brosir rótt
björt er jólanótt, hljóð og kyrr.
Ómar Ragnarsson fréttamaður (1940) (Glæddu jólagleði í þínu hjarta)