Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 desember 2005

Ár frá hörmungum

Eftir hörmungarnar

Mikill harmur var kveðinn yfir heimsbyggðinni eftir hina skelfilegu jarðskjálfta sem gengu yfir Asíu á öðrum degi jóla fyrir ári. Skjálftinn, sem varð um klukkan átta að morgni þess dags er einn sá öflugasti sem orðið hefur vart á jörðinni í yfir fjörutíu ár og sá fimmti öflugasti síðan á aldamótunum 1900. Upptök skjálftans, sem mældist 9 á Richter-skala, voru nálægt eyjunni Súmötru á Indónesíu. Hann varð neðan sjávar og minnst sex eftirskjálftar urðu í kjölfarið, þar af einn sem mældist yfir 7 á Richter. Á eftir fylgdu gríðarlegar flóðbylgjur, sem líklega náðu yfir 10 metra hæð. Flóðbylgjurnar skullu á ströndum Indlands, Indónesíu og Sri Lanka og ollu þar gríðarlegri eyðileggingu. Tæplega 300.000 manns fórust. Sorglegust er sú staðreynd að aldrei verður hægt með vissu að staðfesta endanlegar tölur, enda voru engar mannfjöldaskrár til staðar yfir fjölda þeirra svæða sem urðu fyrir náttúruhamförunum. Liggur fyrir að flest fórnarlömb náttúruhamfaranna voru í Indónesíu og á Sri Lanka.

Mikið var af ferðamönnum í Asíu um jólin 2004 og ljóst að margir þeirra voru Norðurlandabúar. Fjöldi Svía fórust í hamförunum. Ekki hafa jafnmargir Svíar farist síðan farþegaskipið Estonia sökk haustið 1994 með þeim afleiðingum að 500 létust. Nú þegar minnst er árs afmælis þessara mannskæðu hamfara koma upp í hugann fréttamyndir af hörmungunum. Þar sést er öldurnar hrifsuðu með sér fólk og hluti eins og ekkert væri, rústuðu heilu bæjunum og þorpunum og eyðilagði líf fjölda fólks og fjölskyldna. Afleiðingarnar voru alveg skelfilegar, mannfall varð eins og fyrr segir gríðarlegt, milljónir manna glötuðu lífsviðurværi sínu og heimili og stóðu eftir slyppir og snauðir, misstu ættingja sína og allt annað sem það átti. Ennfremur hefur verið mjög átakanlegt að rifja upp þessa atburði og minnast þess áfalls sem maður varð fyrir um jólin fyrir ári að heyra fregnirnar af þessum miklu hamförum.

Um heim allan var fólki brugðið vegna þessara hörmunga og um allan heim var safnað til styrktar þeim sem áttu um sárt að binda og til að styrkja hjálparstarf. Það gerðist á Íslandi í janúar 2005 og söfnuðust um 300 milljónir króna til bjargar fólkinu og sýndi það samhug í verki af hálfu Íslendinga í garð þeirra sem allt sitt misstu. Reyndar hafði aldrei safnast áður svo há upphæð hér á landi til alþjóðlegs hjálparstarfs Rauða krossins á svo skömmum tíma. Ennfremur var boðin fram aðstoð Íslendinga til hjálpar slösuðum Norðmönnum og Svíum frá Asíu og á heimaslóðir, eða á sjúkrahús á Íslandi. Þessir atburðir eru enn ofarlega í huga okkar allra og við minnumst þessa skelfilega atburðar og helgum þeim sem fórust í hamförunum hugsanir okkar á þessum tímamótum.

Saga dagsins
1832 John C. Calhoun verður fyrsti varaforseti Bandaríkjanna, sem segir af sér embætti í sögu þess.
1871 Leikritið Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson fyrst sýnt - varð opnunarverk Þjóðleikhússins 1950.
1897 Leikritið Cyrano de Bergerac, frumsýnt í París - eitt af frægustu leikverkum í sögu Frakklands.
1908 Jarðskjálfti í Messina á Sikiley verður 75.000 manns að bana - skjálftinn í Messina varð einn af stærstu jarðskjálftum aldarinnar og telst hann hiklaust einn af 5 stærstu og mannskæðustu á 20. öld.
1967 Borgarspítalinn í Fossvogi var tekinn í notkun - hann varð svo hluti af Landsspítalanum árið 1999.

Snjallyrðið
Fögur er foldin,
heiður er Guðs himinn,
indæl pílagríms ævigöng.
Fram, fram um víða
veröld og gistum
í Paradís með sigursöng.

Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.

Fjárhirðum fluttu
fyrst þann söng Guðs englar,
unaðssöng , er aldrei þver:
Friður á foldu,
fagna þú, maður,
frelsari heimsins fæddur er.
Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Fögur er foldin)