Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 janúar 2006

Stefán Friðrik

Eins og flestir vita yfirgaf Oktavía Jóhannesdóttir Samfylkinguna fyrir nokkrum vikum og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Greinilegt er að sú ákvörðun er mjög umdeild. Í gær héldu Samfylkingarmenn í nefndum og ráðum bæjarins á fund bæjarstjórnar í Ráðhúsinu við Geislagötu og mótmæltu með því með þöglum hætti bágum hlut sínum í bæjarstjórn. Eins og flestir vita er flokkurinn nú bæjarfulltrúalaus og á engan málsvara í bæjarstjórn og bæjarráði. Greinilegt er að sú ákvörðun Oktavíu að fara í annan flokk en gerast ekki óháð mælist illa fyrir hjá fyrrum samherjum hennar. Framboðslisti Samfylkingarinnar liggur nú fyrir og hlýtur að vera erfitt fyrir leiðtoga framboðslista Samfylkingarinnar, Hermann Jón Tómasson, að eiga ekki sæti í bæjarstjórn og geta ekki komið sinni rödd að. Vissulega er sú ákvörðun Samfylkingarfólks táknræn að mæta á fundi bæjarstjórnar og fylgjast með verkum fulltrúa síns í bæjarstjórn - fulltrúa sem nú hefur skipt um flokkslit á einni nóttu.

Ef marka má vefi bæði flokksins í bænum og varaþingmannsins Láru Stefánsdóttur hefur Oktavía sært fyrrum samherja með vistaskiptunum - er það skiljanlegt enda hefur nú þeirra fulltrúi gerst málsvari meirihlutans en ekki minnihlutans sem sem hún tilheyrði í hálft fjórða ár - meginþorra kjörtímabilsins. Samkvæmt skrifum Jóns Inga Cæsarssonar formanns Samfylkingarfélags Akureyrar og sjötta manns á framboðslista flokksins við komandi kosningar er þetta ekki í eina skiptið sem Samfylkingarfólk mótmælir því að Oktavía hafi skipt um lit. Ætla þau að sitja alla fundi sem eftir lifir kjörtímabilsins og minna með nærveru sinni á sig og flokkinn sem Oktavía yfirgaf - flokk sem engan fulltrúa á lengur. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með þessu næstu vikurnar. Annars munu væntanlega eðli mótmælanna ráðast mjög mikið af því hvort að Oktavíu Jóhannesdóttur verða falin einhver trúnaðarstörf að hálfu Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu í febrúar.

Ef marka má orðróminn á götunni var Oktavía lengi óánægð áður en hún yfirgaf Odd, Valgerði og Mössu í minnihlutanum. Ber Oktavíu og fyrrum samstarfsfólki hennar í kratadóbíunni ekki saman um ástæður þess að hún stökk af Samfylkingarfleytunni og stökk yfir á annað skip. Veit ég ekki um forsögu þeirrar úlfúðar og láta sem einkenndu Samfylkinguna undir forystu Oktavíu. Er óvarlegt af minni hálfu að tjá mig um þetta - verandi einstaklingur sem aldrei hef á fund í Lárusarhús farið eða tekið þátt í starfi látinna krataflokka eða arftaka þeirra, vonarneistans þeirra rauða sem tók upp krossmerki allra flokkanna fyrir nokkrum árum. En ég skynja það að mörgu sjálfstæðisfólki sé lítt um það gefið að hafa bæjarfulltrúa annars flokks sem barið hefur á Sjálfstæðisflokknum meginþorra kjörtímabilsins nú sem frambjóðanda til öruggs sætis á lista flokksins. Það blasir við - þó kannski einhverjum sé skemmt yfir flótta bæjarfulltrúans.

En ég skynjaði sárindi Samfylkingarfólks í gær - fólks sem kaus fulltrúa jafnaðarmennsku í bæjarstjórn sem varð á einni nóttu íhaldsmaður. Merkilegt nokk vissulega! Við sjálfstæðismenn fylgdumst altént á bæjarstjórnarfundi í gær með særðum krötum um leið og við horfum á fyrrum krata verða sjálfstæðismann með undraskjótum hætti.


Í gær heyrði ég fréttir austan frá Eskifirði um framtíð gömlu kirkjunnar á staðnum sem hefur verið nokkuð á reiki. Kirkjan var tekin í notkun árið 1900 og þjónaði bæjarbúum í heila öld, allt til ársins 2000. Kirkjan er órjúfanlega tengd fjölskyldu minni. Þar var Lína amma meðhjálpari í þrjá áratugi, mamma var þar skírð og fermd - mamma og pabbi giftust þar árið 1967, afi jarðsunginn þar árið 1990 og Lína amma var sú síðasta sem jarðsungin var þar, fyrir nákvæmlega sex árum, í janúar 2000. Fjöldi ættingja minna fyrir austan hafa átt þar ýmsar gleði- og sorgarstundir lífsins - rétt eins og ég sjálfur. Nú berast já þær fréttir að innrétta eigi þetta sögufræga hús í sögu Eskifjarðar sem íbúðarhús í þrem einingum. Mér varð svo brugðið að heyra af þessu að því fá engin orð lýst. Þvílíkt smekkleysi vissra manna hvernig farið er með þetta stórmerkilega guðshús. Svei mér þá ef ekki hefði verið hreinlega betra að rífa kirkjuna en velja henni þessi örlög.


Þau sögulegu tíðindi urðu í vikubyrjun að ríkisstjórn Frjálslynda flokksins í Kanada féll í þingkosningum. Með því lauk þrettán ára stjórnarferli vinstrimanna í landinu. Ég fjallaði um hægribylgjuna í Kanada í ítarlegum pistli á vef SUS í gær.

stebbifr@simnet.is