Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 janúar 2006

Stefán Friðrik

Í gær birtist grein eftir Odd Helga Halldórsson bæjarfulltrúa Lista fólksins, í Vikudegi. Þar er hann að ráðast að Kristjáni Þór og ákvörðun hans um að sækjast eftir fyrsta sætinu á framboðslista flokksins fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. Oddur Helgi hefur verið í pólitískri kyrrþey seinustu árin - allt þetta kjörtímabil. Hann hefur passað sig á því að sitja hjá í bæjarstjórn og bæjarráði - verið lítt sýnilegur. Nú er greinilegt að Oddur Helgi er kominn á pólitíska leiksviðið, enda styttist í kosningar og stefnir á framboð. Þetta er sami status og við sáum fyrir kosningarnar 2002. Oddur Helgi fór inn við annan mann árið 2002: Marsibil Fjólu Snæbjarnardóttur. Massa hefur verið lítið sýnileg á tímabilinu og ekki verið áberandi t.d. á fundum bæjarstjórnar. En Oddur Helgi er greinilega kominn af stað og allt bendir til að Listi fólksins sé að undirbúa framboð. Þau hafa auðvitað mikið fylgi að verja - XL-ið hans Odds fékk enda tæp 20% atkvæða - er stærst minnihlutaaflanna nú.

Merkilegast í þessari kostulegu grein Odds Helga, sem einkennist af pólitísku óstuði, eru ummæli hans um ÚA. Er hann þar að væna okkar fólk um að hafa selt meirihlutavaldið í ÚA burt úr bænum. Eins og allir vita fór meirihlutastaðan í meirihlutatíð Framsóknarflokks og Alþýðuflokks - þá var Oddur Helgi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins. Það er ekki nema von að fólk kippist svona eilítið við að lesa þessa grein. Oddur Helgi varð vissulega uppsigað við Framsókn fyrir kosningarnar 1998 en eftir stendur að hann var í hópi framsóknarmanna þegar að söluferlið fór á fullt. Það muna annars flestir eftir hasarnum fyrir áratug þegar að kratinn Gísli Bragi tók framsóknarmennina fimm í sex manna meirihlutanum í gíslingu og fékk þá til að fylgja sinni línu. Oddur Helgi ætti að líta í sagnfræðina sína áður en hann talar meira um ÚA - alltsvo í þessum dúr. En það er greinilegt að Oddur er að vakna til lífsins og hyggur á framboð að vori. Verður fróðlegt að sjá hvort hann heldur fylginu sínu.

Þau gleðitíðindi berast nú hingað norður að Iceland Express hafi í hyggju að hefja beint flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar nú í sumar. Fyrsta ferðin mun verða farin undir lok maímánaðar. Er í hyggju að fljúga einu sinni í viku fram á haust og hugsanlega lengur ef áhuginn verður til staðar. Okkur hér fyrir norðan sárnaði þegar að beint flug lagðist af milli Akureyrar og Köben fyrir nokkrum árum. Vonum við auðvitað að betur muni nú ganga í þessum efnum. Ef marka má fréttir mun farmiðinn milli Akureyrar og Köben verða á eitthvað um 8000 kallinn aðra leiðina - sem er í samræmi við almennan prís hjá Iceland Express. Þetta er gleðiefni - óska okkur öllum til hamingju með þetta. Kannski maður skelli sér til Köben í sumar. :)

Fór á fund í gærkvöldi - er heim var komið var slappað af. Ég horfði á James Bond kvikmyndina Goldeneye frá 1995. Poppaði og fékk mér kók og Nóa kropp með - ekta gott. Myndin alltaf góð - Bondinn klikkar aldrei. Njósnari hennar hátignar er alveg ódauðlegur - hann átti bara mjög vel við á þessu ískalda vetrarkvöldi hér fyrir norðan í gærkvöldi.

Keypti mér í gær geisladiskinn með tónlist Mugison úr A Little Trip to Heaven - myndin er alveg frábær og tónlistin guðdómleg. Titillagið er algjör snilld. Hvet alla til að fá sér diskinn og hlusta á hann. Mugison klikkar aldrei og setur flottan svip á þessa góðu mynd Baltasar.

Jæja, þá er komið að bóndadegi. Þorrinn hafinn - öll þorrablótin framundan með allri þeirri gleði og ánægju sem þeim fylgir. :)

stebbifr@simnet.is