Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 janúar 2006

Veikindi Ariel Sharon

Ariel Sharon

Sl. miðvikudagskvöld var Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, fluttur á Hadassah-sjúkrahúsið öðru sinni. Fljótlega kom í ljós að hann hefði fengið heilablóðfall öðru sinni og það væri mun alvarlegra en hið fyrra sem hann fékk um miðjan desembermánuð. Sharon sýndi þá engin merki alvarlegrar heilabilunar eða þess að veikindin hefðu sett mark á hann að neinu alvarlegu ráði. Sharon var útskrifaður af sjúkrahúsinu tveim dögum síðar. Birtist hann skælbrosandi er hann yfirgaf spítalann og sagði heilsu sína góða. Fréttir bárust þó af því að læknar hefðu fyrirskipað honum að leggja af, en hann hefur til fjölda ára verið of þungur og barist við offituvandamál. Í þetta sinn var sýnt að staða mála væri grafalvarleg. Var hann færður í bráðaaðgerð eftir að komið hafði í ljós í sneiðmyndatæki alvarleg heilablæðing. Var forsætisráðherrann á skurðarborðinu í tæpa sjö klukkutíma. Að því loknu var heili Sharons kannaður að nýju í sneiðmyndatækinu. Kom önnur blæðing í ljós og önnur aðgerð tók við, að þessu sinni í rúma fjóra tíma. Sólarhring síðar tók við þriðja aðgerðin.

Umheiminum varð ljóst að veikindi Sharons væru lífshættuleg. Þeir sem þekkja til veikinda af þessu tagi vita að heilablóðfall er dauðans alvara. Það boðar enda aldrei gott þegar að sjúklingur er á skurðarborðinu í aðgerð á heila í tæpa tólf tíma á innan við sólarhring. Blæðing í heilanum boðar enda í fjölda tilfella mikinn skaða, lömun og getur auðvitað leitt til dauða. Þegar um er að ræða jafnáhrifamikinn mann og forsætisráðherra Ísraels lamast auðvitað stjórnmálalitrófið. Enda hefur það sýnt sig seinustu daga að ísraelska þjóðin er þrumu lostin vegna veikindanna og óvissustaðan er mikil. Einkum er það auðvitað viðbúið sérstaklega vegna þess hversu stutt er til kosninga í landinu og raun ber vitni. Mikil óvissa hefur einkennt ísraelsk stjórnmál allt frá því að Sharon baðst lausnar og boðað var til þingkosninga þann 28. mars. Jafnframt tilkynnti Sharon að hann hefði ákveðið að segja skilið við Likud-bandalagið, sem hann hafði leitt frá árinu 1999. Hann var einn af stofnfélögum í flokknum árið 1973 og lykilforystumaður innan hans alla tíð.

Ariel Sharon

Í nóvember tilkynnti Sharon um stofnun nýs flokks síns, miðjuflokksins Kadima. Nú horfir svo við að kosningabaráttan er að hefjast á fullum krafti. Við upphaf hennar liggur forsætisráðherra landsins og vinsælasti stjórnmálamaður landsins í dái á sjúkrahúsi. Um leið og ljóst varð að kvöldi miðvikudags að Sharon hefði fengið annað heilablóðfall og þyrfti að fara í aðgerð var ákveðið að Ehud Olmert aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, tæki við völdum hans. Segja má að sú staða sé nú komin upp að Olmert sé orðinn forystumaður í ísraelskum stjórnmálum. Litlar sem engar líkur eru enda á því að skriðdrekinn Sharon nái að sigrast svo á þessum veikindum að hann geti snúið til starfa að nýju. Reyndar má telja kraftaverki líkast ef Sharon tekst að halda lífi eftir þessi alvarlegu veikindi og þrjár heilaskurðaðgerðir á innan við þrem sólarhringum. Jafnvel kraftaverkamaður á borð við Sharon er ekki líklegur til að snúa aftur í forystu stjórnmálaheimsins eftir slíkt áfall. Reyndar hefur verið sagt seinasta sólarhringinn að líðan hans sé betri en pólitísk endurkoma er þó mjög ólíkleg.

Það er því mikið tómarúm sem fylgir stöðu mála í ísraelskum stjórnmálum þessa stundina. Ariel Sharon var enda bæði umdeildasti stjórnmálamaður Ísraels undanfarna áratugi og jafnframt sá vinsælasti. Telja má líklegt að Olmert muni nú takast á hendur það verkefni að leysa Sharon af hólmi og leiða Kadima inn í þingkosningarnar þann 28. mars. Vandinn sem blasir við Olmert er auðvitað tvíþættur. Í fyrra lagi er ekki formlega búið að byggja Kadima upp sem stjórnmálaflokk - hann var stofnaður utan um áherslur Sharons og vinsældir hans sem stjórnmálamanns. Í seinna lagi blasir við honum það verkefni að stjórna Ísrael næstu 100 dagana, fram yfir kosningarnar, og halda þeim öfluga svip sem var á landsstjórninni á taflborði stjórnmálanna undir stjórn Sharons þrátt fyrir að hún væri í raun fallin. Olmert er ekki öfundsverður af sínu hlutskipti. Það er þó margt sem verður til þess að hjálpa honum. Hann virðist hafa óskoraðan stuðning innan Kadima til forystustarfa deyji Sharon eða verði það varanlega heilaskaddaður að hans njóti ekki við.

Ehud Olmert

Ehud Olmert sem fæddur er árið 1945, og er því tæplega tveim áratugum yngri en Sharon, er einn nánasti samstarfmaður hans og fylgdi honum úr Likud um leið og Sharon fór úr honum. Olmert var borgarstjóri í Jerúsalem í tíu ár, árin 1993-2003, og hefur gegnt fjórum ráðherraembættum á ferlinum. Hann er nú utanríkisráðherra í stjórn Sharons. Segja má að Olmert sé mjög líkur Sharon á hinu pólitíska taflborði og sé sá eini sem geti tekið við keflinu af Sharon og leitt hjörðina saman í kosningar. Það stefnir í spennandi kosningar þann 28. mars njóti Sharons ekki við. Forveri Sharons á leiðtogastóli í Likud, Benjamin Netanyahu, sem var forsætisráðherra Ísraels 1996-1999 og leiðtogi Likud 1993-1999, hefur verið kjörinn leiðtogi flokksins að nýju. Það stefnir því í spennandi baráttu milli Olmerts og Netanyahus um hægrafylgið. Segja má að Netanyahu stjórni nú leifunum af Likud, öfgasinnaðasta armi flokksins og sæki fram, enda geti staðan varla versnað fyrir þá í ljósi þess að Likud hefur verið að mælast með um 15 þingsæti seinustu vikur í stað um 40.

Likud hefur til fjölda ára verið stærsti flokkur landsins og berst nú við Kadima um að leiða hægrihliðina. Á vinstrihliðinni er Verkamannaflokkurinn, miklu vinstrisinnaðri en lengi áður, nú undir forystu verkalýðsleiðtogans Peretz. Segja má að kosningarnar í mars snúist um hvort að pólitískt hugarfóstur Ariels Sharons verði eitthvað meira en nafnið eitt - hvort þess bíði eitthvað líf og raunhæf stjórnarforysta í Ísraels í skugga minningarinnar um skriðdrekann öfluga Ariel Sharon. Ef marka má kannanir á Kadima líf án Sharons framundan. Það gæti þó breyst er alvörubarátta hefst. Kadima leggur nú í kosningabaráttu undir forystu Ehud Olmert - í skugga þess liggur hinn sterki og kraftmikli Ariel Sharon á sjúkrahúsi í Jerúsalem og berst fyrir lífi sínu. Stjórnmálaferill hans virðist á enda en við blasir að mesta barátta hins aldna leiðtoga verði að berjast fyrir lífi sínu en ekki forsætisráðherrastólnum í kosningum.

Ariel Sharon

Það sem átti að verða sigurferð hins aldna höfðingja á vettvangi stjórnmálanna virðist nú runnið út í sandinn vegna heilsuleysis. Lífsbaráttan ein stendur nú eftir fyrir skriðdreka ísraelskra stjórnmála.

Saga dagsins
1919 Theodore Roosevelt 26. forseti Bandaríkjanna, lést, 61 árs að aldri. Hann var forseti 1901-1909.
1923 Halldór Laxness var skírður og fermdur til kaþólskrar trúar í Clervaux-klaustri í Lúxemborg. Með þessu tók hann formlega upp kaþólska dýrlingsnafnið Kiljan. Halldór var kaþólskur allt til æviloka. Trú Halldórs staðfestist er hann var kvaddur að hætti kaþólskra við sálumessu sína í febrúarmánuði 1998.
1949 Leikstjórinn Victor Fleming lést, 59 ára að aldri. Fleming leikstýrði á löngum ferli fjölda góðra kvikmynda, þeirra þekktastar eru án vafa stórmyndirnar Gone with the Wind og The Wizard of Oz.
1968 Rannsóknarstöð Hjartaverndar í Reykjavík, tekin í notkun. Tilkoma hennar markaði þáttaskil í hjartalækningum og aðstöðu til rannsókna. Fyrsti yfirlæknir þar var Ólafur Ólafsson, síðar landlæknir.
2001 George W. Bush ríkisstjóri í Texas, formlega kjörinn sem forseti Bandaríkjanna, er öldungadeild Bandaríkjanna staðfestir formlega úrslit forsetakosninganna 2000. Það kom í hlut Al Gore varaforseta, sem forseta öldungadeildarinnar að stjórna fundinum og lýsa formlega yfir kjöri Bush. Gore hafði verið mótframbjóðandi Bush í kjörinu og hlotið fleiri atkvæði á landsvísu en tapað í kjörmannakjöri.

Snjallyrðið
Þar sem lækir fleygjast
hvítum vængjum
ofan hlíðina
gegnt upprisu dagsins
drúpi ég höfði
einn með sorg minni og þrá
trúin á regnbogann
byrgð undir hellu
sem enginn morgunn fær lyft

En magn jarðar
finn ég undir fótum mér
finn ég í brjósti
taugar slagæðar líf
mátt upprunans
sem rofið gæti steininn
vakið nýtt líf
nýja trú.
Snorri Hjartarson skáld (1906-1986) (Dögun)