Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 janúar 2006

Ritstjórar DV segja af sér

Jónas KristjánssonMikael Torfason

Báðir ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, sögðu af sér í dag og voru þeir Páll Baldvin Baldvinsson og Björgvin Guðmundsson ráðnir í þeirra stað. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Óhætt er að segja að samfélagið hafi skekist vegna "fréttamennsku" DV seinustu vikuna. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á blaðinu og ritstjórnarstefnu þess um leið og nýir eigendur tóku við eftir gjaldþrot gamla DV árið 2003. Mikael Torfason og Illugi Jökulsson tóku við ritstjórn blaðsins - segja má að það hafi þá algjörlega umpólast. Var um að ræða sorpblaðamennsku, hannaða af fyrrnefndum ritstjórum og viðbætt með innkomu Jónasar Kristjánssonar, sem var ritstjóra gamla DV á árunum 1981-2001 og aftur frá 2005, og Reynis Traustasonar.

Ekki ætla ég að fara mörgum orðum um það mál sem varð til þess að þjóðinni varð nóg boðið. Sjálfsmorð Gísla Hjartarsonar á Ísafirði er mikill harmleikur - það hlaut að slíku að koma eftir "fréttamennsku" DV. Forsíða þriðjudagsblaðs DV og umfang umfjöllunarinnar var sorgleg og fór langt yfir strikið - allt sómakært fólk blöskraði. Þjóðfélagið tók við sér og stíflan brast. Fólk fékk algjörlega nóg. En þetta er sorgleg þróun - sem vert er að hugsa um. Hvert stefnir þjóðfélagið okkar eiginlega? Er aftaka án dóms og laga aftur komin til sögunnar? Þetta er spurningin sem við fengum svar við í vikunni og vakti okkur vonandi öll til umhugsunar. Það varð allavega svo í mínu tilfelli. Mér brá og viðbrögð mín voru aðallega reiði og gremja yfir vinnubrögðum þessa blaðs - þetta varð kornið sem fyllti mælinn.

Oft hafði blaðið vakið athygli fyrir harðskeytta ritstjórnarstefnu. Fyrsta merki þess sást strax í desember 2003 þegar að DV birti nafn og mynd af manni frá Patreksfirði sem sakaður hafði verið um kynferðislega misnotkun á börnum. Var myndbirtingin réttlætt með því að um væri að ræða mikilvægt mál, fréttaefni sem komi öllum við. Var þetta ljótur blettur á ferli þessa blaðs og slæm slóð sem þarna var fetuð. Ritstjórar blaðsins vörðu þetta strax þá með lélegum rökum, ómögulegt var að verja þessa gjörð með góðu. Það vissu ritstjórar blaðsins. Um var einungis að ræða auglýsingabragð til að selja blaðið. Leitt var að menn gripu til svona ljótra ráða til að auka söluna. Ekkert annað var jú reynt með þessu. Þessi tegund blaðamennsku er ekki geðsleg og vonandi hverfur hún með þessum breytingum sem nú hafa orðið með því að Jónas og Mikael hrökklast í burtu frá sneplinum.

Björgvin Guðmundsson og Páll Baldvin Baldvinsson

Í kjölfar umfjöllunar DV um mál Gísla Hjartarsonar var ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Var hún samstarfsverkefni Deiglunnar, Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungra jafnaðarmanna, stúdentaráðs HÍ, Sambands ungra framsóknarmanna, Tíkarinnar, Múrsins, ungra frjálslyndra, ungra vinstrigrænna, Heimdallar, Vöku, Röskvu og H-listans. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Þetta er því mjög breið samstaða sem kom fram í þessari undirskriftasöfnun. Samfélagið logaði vegna málsins og vel kom fram afgerandi vilji almennings þess efnis að þessi tegund blaðamennsku hafi náð endastöð. Þetta var kornið sem fyllti mælinn.

Ánægjulegt var svo að sjá alla þingflokka lýsa yfir stuðningi við undirskriftasöfnunina og fordæma vinnubrögð DV. En nú eru ritstjórarnir farnir eftir lélega framgöngu sína og að hafa misst trúnað almennings. Komu örlög þeirra engum á óvart. En nú er það Björgvins og Páls Baldvins að taka við blaðinu. Líst mér vel á hina nýju ritstjóra á DV. Vona ég að þeir vinni af krafti í sínum störfum og færi blaðið rétta leið - burt frá sorpblaðamennskunni og í áttina að eðlilegri fréttamennsku. Það má telja öruggt að DV fari nú eftir siðareglum Blaðamannafélagsins, enda er Björgvin Guðmundsson ritstjóri DV, í stjórn BÍ. Málinu sem skekið hefur samfélagið er því lokið með því að Jónas og Mikael taka pokann sinn. Er það mikið gleðiefni!

Saga dagsins
1268 Gissur Þorvaldsson jarl, lést, sextugur að aldri - einn af mestu höfðingjum hérlendis á 13. öld.
1830 Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir, sem myrtu Natan Ketilsson og Pétur Jónsson, voru tekin af lífi í Vatnsdalshólum í A-Húnavatnssýslu - þetta var síðasta aftakan sem fram fór hér á Íslandi.
1940 Einar Benediktsson skáld, lést, 75 ára að aldri, að heimili sínu í Herdísarvík. Einar var jarðsettur í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, 27. janúar, fyrstur allra. Einar Ben var eitt af bestu skáldum okkar.
1976 Breska skáldkonan Agatha Christie, lést, 86 ára gömul - var einn besti spennusagnahöfundurinn.
1993 Samningur um aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði (EES), var samþykktur á Alþingi eftir lengstu umræðurnar í þingsögunni, alls um 100 klukkustundir. Samningurinn tók gildi 1. janúar 1994.

Snjallyrðið
Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu, að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja.

Og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur.

En þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

Og segðu " Hann brotlegur sannlega er,
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir.
En sekt þessa vesalings faðirinn dæmir."

Svo legðu með andakt að hjartanu hönd.
Með hangandi munnvikum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

Já, hafir þú öll þessi happasælu ráð,
ég held þínum vilja þá fáir þú náð
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður.
En máske, að þú hafir kunnað þau áður!
Páll J. Árdal skáld (1857-1926) (Ráðið)