Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 janúar 2006

Áramótakveðja 2006

Áramót

Í upphafi ársins 2006 vil ég þakka lesendum þessa vefs samfylgdina í gegnum tíðina og jafnframt óska þeim farsæls og gleðilegs árs. Ennfremur vil ég færa þeim öllum kveðju sem ég hef kynnst í gegnum skrifin hér fyrir gagnleg skoðanaskipti og umræður um stjórnmál með einum eða öðrum hætti. Ég hef kynnst mörgum í gegnum skrifin og pólitíska þátttöku á liðnu ári og fyrir það þakka ég af heilum hug, samskipti við fólk um pólitík eða aðra þætti eru nú sem fyrr mjög mikilvæg og gagnleg þegar málefni samtímans eru rædd. Ég vil þakka öllum þeim sem litu á vefinn á liðnu ári fyrir að lesa pistla mína og hugleiðingar um hitamál samtímans.

Árið sem að baki er var einkar viðburðaríkt og eftirminnilegt. Margir stórviðburðir áttu sér stað. Fyrir þá sem skrifa um málefni samtímans var nóg að fjalla um. Á seinasta ári ritaði ég rúmlega 130 pistla, vikulega birtust sunnudagspistlar um helstu fréttir hverrar viku og margir ítarlegir pistlar um fleiri málefni voru ritaðir og ég hélt úti þessum bloggvef með nær daglegri umfjöllun um helstu málefnin. Ég lít því yfir árið með gleði í huga. Margt gott gerðist á þessu merka ári, mörg ný tækifæri komu til sögunnar og mörg krefjandi verkefni eru að baki. Vonandi verður árið 2006 jafn viðburðaríkt og spennandi eins og hið liðna ár.

Áramótaþættirnir

Áramót

Venju samkvæmt var horft á áramótaþættina af miklum áhuga. Í hádeginu á gamlársdag hófst Pressuballið á NFS. Þar var mjög áhugavert spjall um málefnin við ýmsa blaða- og fréttamenn. Svansí, Þorsteinn J. og Inga Lind stjórnuðu þættinum af miklum krafti og hann var virkilega áhugaverður. Um tvöleytið fór ég að horfa á Kryddsíld Stöðvar 2. Þar voru leiðtogar flokkanna gestir venju samkvæmt. Nú eru Davíð og Össur horfnir á braut og Geir og Ingibjörg Sólrún komin í þeirra stað. Spjallið var mjög líflegt og skemmtilegt, venju samkvæmt. Farið var yfir helstu fréttir ársins á innlendum vettvangi og eins og nærri má geta var mest rætt um brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum, stöðuna í borgarmálum og endalok R-listans.

Mjög ánægjulegt var að Davíð Oddsson var valinn maður ársins af NFS. Hann er svo sannarlega vel að því kominn. Þór Jónsson átti mjög gott viðtal við Davíð í þættinum. Davíð var senuþjófur þáttarins, þó hann hafi vikið af hinu pólitíska sviði. Klukkan þrjú hófst áramótaþátturinn á bæjarsjónvarpsstöðinni Aksjón, Gaffalbitar. Þar tóku Birgir, Hilda Jana, Þráinn og Sigrún á móti góðum gestum. Undir lokin var rætt við bæjarstjóra, Oktavíu, Hermann Jón, Sigrúnu Stefánsdóttur og Odd Helga um bæjarmálin í skugga þess að Oktavía hefur sagt skilið við Samfylkinguna sem hún leiddi í kosningunum 2002. Var mjög áhugavert spjall þar og sérstaklega merkilegt að sjá spennuna milli Oktavíu og Hermanns Jóns. Var rætt um pólitík af krafti.

Um kvöldið var ég með matarboð og bauð góðum gestum þar upp á svínabóg og góðan eftirrétt. Að því loknu var farið að brennu úti í þorpi og mjög notaleg og góð stund sem þar var. Síðar um kvöldið var horft á áramótaskaupið. Þótti mér það óvenjuslappt núna, vægast sagt. Nokkur fyndin atriði voru en í heildina var þetta það daprasta sem ég man eftir. Alveg með ólíkindum að RÚV geti ekki fundið fyndið fólk til að semja og leikstýra þessum árvissa viðburði sem svo mikilvægt er að sé vandað mikið og vel til. Þetta skaup er það lélegasta sem ég hef séð frá því ég man eftir mér. Mjög mikið drasl, svo ég orði þetta pent. Var það svo lélegt að maður var farinn út að skjóta upp flugeldum áður en því lauk.

Eftir miðnættið fór ég í áramótateiti hjá Hönnu systur og var þar til um tvö. Þá fór ég á skemmtistað með góðu fólki og skemmti mér vel fram á rauðanótt. Á nýársdag var horft á gamlar og góðar kvikmyndir og slappað vel af. Rifjaði ég upp góð kynni mín af Íslenska drauminum, frábærri íslenskri mynd. Alltaf hægt að hlæja vel að henni. Að kvöldi nýársdags horfði ég ásamt fleirum á góða dagskrá á Stöð 2. Þar voru flottir tónleikar og myndin Dís með Álfrúnu frænku minni Örnólfs. Horfði svo á afgang hinnar stórfenglegu myndar As Good as it Gets með eilífðartöffaranum Jack Nicholson. Var því mjög góð helgi hér á þessum bænum.

Kvikmyndir ársins 2005

Kvikmyndir

Á gamlársdag birti ég á vef mínum lista yfir bestu kvikmyndir ársins 2005. Á listanum sem ég setti saman voru eftirtaldar eðalmyndir: Sin City, Der Untergang, Oldboy, Hotel Rwanda, Million Dollar Baby, The Aviator, King Kong, Sideways, Batman Begins, A Little Trip to Heaven, Vera Drake, Ray, Finding Neverland, Harry Potter and the Goblet of Fire, Cinderella Man, Closer, The Sea Inside, Charlie and the Chocolate Factory, Star Wars: Episode III – The Revenge of the Sith og Kinsey. Allt eru þetta toppmyndir.

Enginn vafi er í mínum huga um að Sin City skari fram úr öðrum sem sýndar voru hér í bíó í fyrra. Þetta er mögnuð úrvalsmynd frá þeim Robert Miller og Robert Rodriguez. Er hún byggð á teiknimyndasögunum Sin City eftir Miller og er teiknimyndasögustílnum viðhaldið með snilldarlegum hætti. Stórbrotið meistaraverk þar sem bókstaflega allt gengur upp kvikmyndalega séð: tónlist, handrit, kvikmyndataka og leikur, allt er í úrvalsflokki. Mjög frumleg og fersk mynd sem segir þrjár sögur sem tengjast allar. Sannkölluð kvikmyndabomba. Útkoman er mynd sem að mínu mati stendur algjörlega uppúr í kvikmyndagerð ársins. Hiklaust besta kvikmynd ársins 2005.

Saga dagsins
1597 Heklugos hófst með miklum eldgangi og jarðskjálftum - varð eitt stærsta Heklugos sögunnar.
1888 Kristín Bjarnadóttir kaus fyrst kvenna til bæjarstjórnar í Reykjavík og varð fyrst kvenna til að notfæra sér kjörrétt til sveitarstjórna sem veittur var 1882. Kosningaréttur kvenna var lögfestur 1915.
1925 Benito Mussolini tilkynnir að hann taki sér einræðisvald á Ítalíu - sat þar við völd allt til 1943.
1948 Þýskur togari bjargaði fjórum skipverjum sem hrakist höfðu í nær átta sólarhringa á hafi úti á vélbátnum Björgu eftir að vél bátsins bilaði - voru þeir orðnir kaldir og hraktir er þeim var bjargað.
1990 Íslandsbanki hóf formlega starfsemi - bankinn var stofnaður með sameiningu Alþýðubankans, Verslunarbankans, Iðnaðarbankans og Útvegsbankans. Tók hann yfir mestöll fyrri viðskipti bankanna.

Snjallyrðið
Þú, sem fyrr með ást og orku kunnir
efla mentir þessa klakalands,
fljetti nú það mál, sem mest þú unnir,
minning þinni lítinn heiðurskrans.
Biðjum þess, að íslenskt mál og mentir
megi hljóta þroska, rík og sterk.
Göngum allir fram sem braut þú bentir!
Blómgist æ þitt drengilega verk.
Hannes Hafstein ráðherra (1861-1922) (Landið)