Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 desember 2005

Áramótauppgjör 2005

Áramót

Árið 2005 líður senn í aldanna skaut. Að baki er eftirminnilegt ár fyrir margra hluta sakir. Í ítarlegum áramótapistli mínum, sennilega þeim lengsta og ítarlegasta sem ég hef ritað á löngum pistlaferli mínum, sem birtist í dag á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna fer ég yfir árið með mínum hætti og það sem ég tel standa helst eftir þegar litið er yfir það.

Ársins 2005 verður í framtíðinni eflaust einna helst minnst hér heima sem ársins er Davíð Oddsson hætti þátttöku í stjórnmálum eftir glæsilegan feril, Geir H. Haarde varð formaður Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks varð tíu ára gömul, Síminn var seldur, tölvupóstar Jónínu Ben birtist í blöðum, skýrsla fjölmiðlanefndar var kynnt, tillögur til breytinga á RÚV voru kynntar, Ingibjörg Sólrún varð formaður Samfylkingarinnar, R-listinn leið undir lok, Bobby Fischer geistist með krafti til Íslands, sameiningu sveitarfélaga var hafnað, tekist var á um fréttastjóraráðningu á Ríkisútvarpinu, Gunnar Örlygsson gekk í Sjálfstæðisflokkinn, hræringar urðu í Framsóknarflokknum og Halldór Ásgrímsson gekk í gegnum pólitíska erfiðleika og deilt var um framboð Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Á erlendum vettvangi bar hæst að hryðjuverkamenn létu til skarar skríða í Lundúnum, náttúruhamfarir gengu yfir Pakistan og suðurríki Bandaríkjanna, Jóhannes Páll II páfi lést og þýski kardinálinn Joseph Ratzinger varð páfi, Angela Merkel varð kanslari Þýskalands fyrst kvenna og Gerhard Schröder vék af kanslarastóli eftir sjö ára feril, Tony Blair vann sigur í þriðju þingkosningunum í röð, David Cameron varð leiðtogi breska Íhaldsflokksins, þingkosningar fóru fram í Írak eftir 51 árs hlé í skugga einræðis, stjórnarskrá Evrópusambandsins beið skipbrot, Jacques Chirac beið táknrænan ósigur, uppstokkun varð í hæstarétti Bandaríkjanna, danska stjórnin hélt velli á árinu meðan að hin norska féll og hinn sögufrægi heimildarmaður The Washington Post í Watergate-málinu, er nefndur var Deep Throat, var loks afhjúpaður.

Að baki er svo sannarlega merkilegt ár. Í tilefni áramótanna er rétt að líta yfir nokkra hápunkta ársins 2005. Hvet ég ykkur til að lesa þessi skrif mín. Að mínu mati ber algjörlega hæst brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum. Hafði sú ákvörðun veruleg áhrif. Hún leiddi til þess að ný forysta tók við Sjálfstæðisflokknum og breytinga almennt á stjórnmálalitrófinu. Davíð hafði verið í forystu stjórnmála í aldarfjórðung, bæði á vettvangi borgarmála og landsmála. Fer ég í pistlinum vel yfir brotthvarf hans og tíðindin sem því fylgdu. Jafnframt fer ég vel yfir endalok R-listans. Erlendis voru náttúruhamfarir og hryðjuverk áberandi. Fjalla ég um öll þessi málefni í ítarlegum pistli og vona ég að þið njótið pistilsins og lesið hann af áhuga.


Maður ársins 2005

Thelma Ásdísardóttir

Við áramót er litið yfir sviðið og spurt hver sé maður ársins, hver skaraði framúr og stendur hæst þegar nýtt ár tekur við. Það er enginn vafi á því í mínum huga að Thelma Ásdísardóttir sé sú sem þann heiður eigi að hljóta að þessu sinni. Ég verð að viðurkenna að ég komst við þegar að ég heyrði hana segja sögu sína í viðtali í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í október. Thelma sagði þar söguna af því grófa kynferðislega ofbeldi sem hún var beitt af hálfu föður síns og fleiri karlmanna árum saman á æskuárum sínum. Styrkur hennar og kraftur við að segja frá beiskri æsku snerti alla landsmenn að mínu mati. Fyrst og fremst dáist ég að því hugrekki sem Thelma sýnir með því að rjúfa þögnina sem er svo mikilvægt að verði gert - þögnina um líkamlegt og andlegt ofbeldi og kynferðislega misnotkun.

Fáum blandast hugur um að sú bók sem hafi haft mest áhrif á samfélagið á árinu hafi verið bókin: Myndin af pabba - Saga Thelmu sem kom út í haust og var rituð af Gerði Kristnýju. Segja má með sanni að Thelma Ásdísardóttir hafi orðið táknmynd hugrekkis og mannlegrar reisnar og hvernig hægt hafi verið að rísa upp yfir aðstæður sínar til að takast á við erfiðleika fortíðar. Þegar ég leit yfir árið og var að velta fyrir mér því hver hefði verið sá sem ætti þennan heiður skilið var enginn sem komst ofar á blaðið mitt. Thelma stóð algjörlega upp úr að öllu leyti. Það er virðingarvert hversu hugrökk hún hefur verið við að segja frá sögu sinni. Að mínu mati er Thelma Ásdísardóttir sannkölluð hetja! Ég er stoltur af því að velja hana mann ársins 2005.


Táknrænar svipmyndir ársins 2005

Oft eru merkustu svipmyndir ársins og atburðir best tjáðar með táknrænum myndum sem einhvernveginn segja allt sem segja þarf um atburðinn sem hann lýsir - algjörlega án allra orða. Ekki ætla ég að draga upp margar myndir af árinu, tel mig hafa gert upp árið allavega pólitískt með mínum hætti í löngum pistli sem ég vona að einhverjir hafi jafngaman af og ég hafði af að skrifa hann og gera upp atburði, sem standa merkast pólitískt. Þrjár myndir eru að mínu mati lýsandi sem myndir ársins þegar það kveður. Þrjár táknrænar myndir.

Sú fyrsta lýsir í hnotskurn þeim miklu þáttaskilum sem urðu er Davíð Oddsson tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll þann 7. september að hann myndi víkja úr forystu íslenskra stjórnmála eftir farsælan stjórnmálaferil. Önnur myndin sýnir Jóhannes Páll II páfa blessa mannfjöldann í hinsta skiptið á Péturstorginu í Róm þann 30. mars 2005. Sú síðasta sýnir nýja forystu Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í október - Geir H. Haarde og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.


Davíð Oddsson



Jóhannes Páll II páfi



Þorgerður Katrín og Geir



Saga dagsins
1791 Skólapiltar í Hólavallaskóla í Reykjavík héldu áramótabrennu, þá fyrstu sem fram fór hérlendis.
1935 Vilhjálmur Þ. Gíslason síðar útvarpsstjóri, flutti annál ársins í fyrsta skipti í Ríkisútvarpinu að kvöldi gamlársdags. Hann flutti slíkt áramótaávarp til starfsloka hjá RÚV 1967. Allt frá starfslokum Vilhjálms til ársins 2004 héldu eftirmenn hans þeirri hefð að flytja ávarp að kvöldi gamlársdagsins.
1956 Styrkir úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins voru veittir í fyrsta skipti - það árið voru heiðraðir Snorri Hjartarson og Guðmundur Frímann. Margir helstu rithöfundar okkar hafa hlotið viðurkenningu.
1964 Ólafur Thors fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lést, 72 ára að aldri. Ólafur sat á Alþingi í 38 ár, allt frá 1926 til dauðadags. Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins, lengst allra í sögu hans, eða í 27 ár, 1934-1961. Ólafur Thors myndaði ráðuneyti alls fimm sinnum á löngum stjórnmálaferli, oftar en aðrir. Ólafur var frábær ræðumaður og gleymist seint ræðusnilld hans.
1999 Boris Yeltsin forseti Rússlands, segir af sér embætti í áramótaræðu á skrifstofu sinni í Kreml. Kom afsögn hans mjög óvænt, enda hafði verið talið að hann myndi sitja í embætti þar til kjörtímabili hans lyki í júní 2000. Eftirmaður hans í embætti varð Vladimir Putin forsætisráðherra. Var Putin svo kjörinn forseti í mars 2000 og endurkjörinn með yfirburðum í mars 2004 og situr í embætti til 2008.

Snjallyrðið
Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.

En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.

Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem prestur (1848-1930) (Nú árið er liðið)