Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 janúar 2006

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í fyrsta sunnudagspistli ársins 2006 fjalla ég um þrjú mál:

- í fyrsta lagi fjalla ég um áramótapistil minn sem birtist á gamlársdag á vef SUS og það sem í mínum huga stendur uppúr frá liðnu ári, ennfremur fjalla ég um áramótauppgjör forsætis- og utanríkisráðherra og fróðlegar umræður í Kryddsíld á fréttastöðinni NFS á gamlársdag. Mörgum að óvörum útnefndi fréttastofa NFS, Davíð Oddsson seðlabankastjóra, sem mann ársins 2005. Sérstaklega beini ég sjónum mínum í umfjölluninni að grein Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu á gamlársdag. Þar beinir Geir helst sjónum sínum að þeim skattalækkunum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur staðið fyrir á þessu kjörtímabili. Ýmsar breytingar urðu þar um áramótin, t.d. var eignarskattur afnuminn og tekjuskattur lækkaði.

- í öðru lagi fjalla ég um veikindi Ariels Sharons forsætisráðherra Ísraels, sem fékk alvarlegt heilablóðfall í vikunni. Það hefur sýnt sig seinustu daga að ísraelska þjóðin er þrumu lostin vegna veikindanna og óvissustaðan er mikil. Einkum er það auðvitað viðbúið sérstaklega vegna þess hversu stutt er til kosninga í landinu og raun ber vitni. Mikil óvissa hefur einkennt ísraelsk stjórnmál allt frá því að Sharon baðst lausnar í nóvember og boðað var til þingkosninga þann 28. mars. Jafnframt tilkynnti Sharon að hann hefði ákveðið að segja skilið við Likud-bandalagið og stofna nýjan flokk, Kadima. Nú horfir svo við að kosningabaráttan er að hefjast á fullum krafti. Við upphaf hennar liggur forsætisráðherra landsins og vinsælasti stjórnmálamaður landsins í dái á sjúkrahúsi.

- í þriðja lagi fjalla ég um stöðuna í breskum stjórnmálum en Charles Kennedy leiðtogi frjálslyndra, hefur sagt af sér eftir að boðuð hafði verið vantraustskosning gegn honum. Með þessu lauk tæplega sjö ára löngum leiðtogaferli Kennedys. Merkilegt er hvernig ferlinum lauk. Árið 2005 var enda sigursælasta ár flokksins í áttatíu ára sögu hans og hann náði sínum bestu kosningaúrslitum frá stofnun. Á meðan að frjálslyndir glíma við innri vandamál styrkist sífellt staða David Cameron og íhaldsmanna.


Spennumyndir eftir sögum
Agöthu Christie


Agatha Christie (1890-1976)

Til fjölda ára hef ég verið mikill unnandi spennusagna bresku skáldsagnakonunnar Agöthu Christie. Hún var drottning spennusagnanna á 20. öld - enginn var betri en Agatha í þessum geira. Hún kunni betur þá list en nokkur annar að segja flotta spennusögu sem hélt plottinu leyndu allt til loka. Á ég nokkrar af bókum hennar og ennfremur fjölda kvikmynda eftir sögum hennar. Lengi hef ég metið mest spennusögur hennar um leynilögreglumanninn Hercule Poirot. Að öðrum ólöstuðum var hann besta spennusagnahetjan hennar. Að kvöldi þorláksmessu bar svo við að Ríkissjónvarpið sýndi eina bestu myndina eftir sögum hennar, Evil under the Sun. Um kvöldið, er öllum jólaundirbúningi var lokið, settist ég því niður og horfði á þessa flottu mynd. Ótrúlegt en satt var það í fyrsta skiptið í um áratug sem ég sá myndina. Reyndar fyrsta skiptið sem ég sá hana einn. Mér fannst myndin ennþá betri í það skiptið en oft áður. Horfði ég á með miklum áhuga, þó að ég vissi auðvitað allt plottið frá upphafi til enda bakvið morðið á Arlenu Stuart, aðalpersónunni sem myrt er um miðbik myndarinnar. Myndin er sólrík og flott - allt smellur saman.

Það er enda oft svo að maður skynjar betur plottið með því að fara yfir atburðarásina vitandi niðurstöðuna. Þá sér maður enn betur smáatriðin sem máli skipta. Best er þó auðvitað að sjá myndina fyrsta sinni, vitandi ekki um neitt hver hinn seki er - þá getur maður spáð og spekúlerað í niðurstöðunni og reynt að vita hver hinn seki er. Þegar ég sá myndina fyrst árið 1989 þóttist ég viss nær alla atburðarásina hver hinn seki væri. Vitaskuld var það vitlaust mat og Agatha kom mér á óvart - ekki í fyrsta skiptið né hið síðasta. Hún var sannkallaður snillingur í fléttumyndun hinnar fullkomnu skáldsögu. Í Evil under the Sun leikur óskarsverðlaunaleikarinn Sir Peter Ustinov aðalsöguhetjuna. Hann varð ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir leik sinn á spæjaranum í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratugnum. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik í aukahlutverki, í kvikmyndunum Spartacus og Topkaki. Lést hann í marsmánuði 2004. Oft átti hann stórleik á glæsilegum ferli, t.d. sem Poirot (enginn kom einkaspæjaranum betur til skila á hvíta tjaldinu en hann að mínu mati).

Um jólin hélt ég áfram að horfa á Poirot-myndir - þetta voru því sannkölluð spennujól og gaman að horfa á þessar myndir aftur. Sá t.d. Death on the Nile (aðra Poirot-mynd með Ustinov) og Murder on the Orient Express (þar sem Albert Finney leikur Poirot með snilldarbrag). Báðar eru í sérflokki. Þær eru alltaf viðeigandi - flottar og vel gerðar. Ég hvet alla unnendur góðra spennumynda um að horfa á þessar myndir - hafi þeir tækifæri til. Nú ef ekki er að fara út í næsta bókasafn og fá bækur Agöthu og kynna sér meistaraverk hennar. Oft er ekki síðra að lesa bækurnar og skapa söguhetjurnar í huga sér og kynna sér plottið betur áður en horft er á myndirnar.

Saga dagsins
1895 Framsókn, fyrsta kvennablaðið hérlendis, hefur göngu sína á Seyðisfirði. Kom út allt til 1903.
1928 Knattspyrnufélag Akureyrar, KA, stofnað á Akureyri - alla tíð stærsta íþróttafélagið á Akureyri.
1959 Charles De Gaulle hershöfðingi, tekur við forsetaembættinu í Frakklandi - var við völd til 1969.
1965 Sigríður Sigurðardóttir handknattleikskona, var kjörin íþróttamaður ársins, fyrst allra kvenna.
1996 Francois Mitterrand fyrrv. forseti Frakklands, lést úr krabbameini, 79 árs að aldri. Mitterrand gegndi embætti forseta landsins, lengur en nokkur annar, í rúm 14 ár, eða á tímabilinu 1981-1995.

Snjallyrðið
Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við.
Minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum, ljúfum dvel ég hjá.
Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,
heyrirðu storminn kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina
sem aldrei gleymi, meðan lífs ég er.
Valdimar Hólm Hallstað skáld (1905-1996) (Í fjarlægð)