Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Í gærkvöldi var haldinn fjölmennur og kraftmikill fundur um stóriðjumál í Ketilhúsinu hér á Akureyri. Þar voru fluttar ítarlegar framsögur um stóriðju á Norðurlandi og málefni tengd henni. Ég komst því miður ekki fyrr en um áttaleytið og þá var salurinn orðinn smekkfullur. Við Lína systir og Skarphéðinn mágur minn fórum saman á fundinn og þurftum að vera uppi á svölum í Ketilhúsinu og standa allan tímann eins og svo margir fleiri. Var fundurinn mjög áhugaverður. Segja má að þetta sé mál málanna hér fyrir norðan - og hafi lengi verið. Enda leikur enginn vafi á því að gert hafi verið ráð fyrir því að næsta álver yrði reist á Norðurlandi, enginn hefur reynt að bera á móti því að svo sé, gert er ráð fyrir slíku t.d. í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrir nokkrum árum. Það er því með ólíkindum að ráðherra iðnaðarmála sem er fyrsti þingmaður kjördæmisins hafi því ekki beitt sér meira í málinu en raun ber vitni. Við höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum með framtaksleysi hennar.

Eins og allir vita hér fyrir norðan er draumurinn um álver eða einhverskonar stóriðju hér á þessum slóðum mjög gamall. Til fjölda ára hafði verið í umræðu að byggja stóriðju hér fyrir norðan. Segja má að litlu hafi munað að til þess kæmi að reist yrði hér á þessum slóðum álverksmiðja í kringum 1990, er Aluminium átti í viðræðum við stjórnvöld um byggingu álverksmiðju. Komu þá til greina þrjár staðsetningar fyrir verksmiðjuna: Dysnes í Eyjafirði, Reyðarfjörður og Keilisnes (sem er skammt frá Keflavík). Að lokum náðust samningar um að reisa álver við Keilisnes, og varð það mál eitt af kosningamálum vorið 1991. Haustið 1991 gjörbreyttist staðan er álfyrirtækið hætti við framkvæmdina vegna lágs álverðs í heiminum. Álver í Keilisnesi rann því í sandinn og varð aldrei meira en hugmyndin ein. Alla tíð hefur verið gert ráð fyrir að það álver yrði reist í Eyjafirði, eins og fyrrnefnd byggðaáætlun gerir augljóslega ráð fyrir að verði. En þarna komumst við hér fyrir norðan næst því enn sem komið er að fá stóriðju hingað.

En nú er komið að okkur. Það er hiklaust okkar krafa. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem mættu á fundinn vilja nú að framkvæmdir tali og málið komist á þann rekspöl sem nauðsynlegur er. Það var ljóst á öllum svipbrigðum fundarmanna að nú viljum við að verkin tali - samstaða náist meðal Norðlendinga um staðsetningu og keyra málið áfram. Það er það sem hefur hér skort - samstaðan er lykilatriði viljum við stóriðju á Norðurlandi. Ég tel að hún muni nást að fullu núna. Enda eru það aðeins nokkrir vinstri grænir sem tala gegn þessum hugmyndum. Eins og sást á fundinum í gær er sú rödd VG að vera á móti stóriðju hér mikið minnihlutaálit almennings hér. Á þessum fundi flutti Valgerður ráðherra fyrst ágætisframsögu um stöðu málsins. Að því loknu kynnti Andrés Svanbjörnsson formaður samráðsnefndar um aðgerðaráætlun (sem mynda Fjárfestingarstofan fyrir hönd ráðuneytis, Akureyrarbær, Sveitarfélagið Skagafjörður, Húsavíkurbær, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Alcoa) stöðu málsins og næstu skrefin í ferlinu.

Að mínu mati var fundurinn gagnlegur. Það voru fluttar fræðandi og góðar framsögur, skemmtilegar pallborðsumræður urðu um stöðuna og síðast en ekki síst - samstaða okkar hér í firðinum varð enn betur ljós. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að fólk hér vill þennan valkost - vill fá stóriðju á svæðið. Nú er mikilvægt að fyrir liggur samstaða sveitarfélaganna þriggja að fara eftir þeirri athugun sem nefnd um málið vinnur að til að kynna sér kosti þeirra þriggja staðsetninga sem til álita koma og hlíta þeim. Taka höndum saman um að tryggja að stóriðja rísi þar sem það er hagkvæmast - að mati fjárfestanna sem vilja reisa stóriðjuna. Er um að ræða þrjá staði sem til greina koma - eru það Dysnes hér í Eyjafirði, Brimnes við Skagafjörð og Bakki við Skjálfanda. Að mínu mati fannst mér mesta gleðiefnið við niðurstöðurnar að sjá hversu vel Dysnes kemur út. Kemur það mér ekki á óvart - enda vita allir að staðsetningin þar er fyrsta flokks og nálægðin við Akureyri hefur mikið að segja. Hefur jafnvel úrslitaáhrif á stöðuna.

Greinilegt er að Dysnes og Bakki standa upp úr. Valið verður væntanlega á milli þeirra. Þó að margir kostir séu við Brimnes er harla ólíklegt að stóriðja rísi þar. En já niðurstöðurnar voru fræðandi - nú er það Alcoa að taka ákvörðun um staðarvalið og væntanlega mun það álit liggja fyrir snemma í marsmánuði. Eftir um eða yfir mánuð munum við vita hvað Alcoa vill. Burtséð frá niðurstöðunni vil ég að fram komi að ég tel rétt að farið verði eftir því mati sem þá verði kynnt. Lykilatriði er að tryggja að stóriðjan rísi - fara á eftir mati Alcoa og standa saman um það val þeirra. Ef við gerum það er mikilvægasti sigurinn unninn. Er auðvitað mjög mikilvægt fyrir atvinnulíf í Eyjafirði að fá þennan valkost á svæðið - tryggja tilveru stóriðju hér á komandi árum. Óneitanlega fannst mér pirrandi að heyra enn eina ferðina nöldurtóninn hjá VG á fundinum, sem fram kom í máli varaþingmanns flokksins. Hann er mjög hvimleiður sá tónn sem þar kom fram. En klapp almennings og stuðningur við stóriðju kom vel fram þarna og er afgerandi.

Mikinn skugga á þessa gleði okkar og vonir um samstöðu til að tryggja farsæla niðurstöðu málsins vofir yfir okkur vegna þess að við vitum ekkert um það hvar við munum lenda í röðinni eftir stóriðju. Það er okkur algjörlega óásættanlegt að þurfa að vakna upp við þá martröð náist samstaða um staðarvalið eftir mánuð að horfa upp á aðra komast á undan og ná stóriðjukostum til sín. Það voru mér og eflaust langflestum fundargestum gríðarleg vonbrigði að iðnaðarráðherrann gæti ekki með nokkru einasta móti gefið til kynna um röðina. Það þótti mér dapurt hjá henni. Vissulega er rétt að taka undir það mat hennar að ekki sé eðlilegt að hömlur séu uppi á stöðu mála af hálfu ríkisins eftir að raforkumarkaður var gefinn frjáls. En ráðherra hefði getað talað mun meira afgerandi sem Valgerður Sverrisdóttir þingmaður Norðausturkjördæmis. En það er alveg ljóst að við munum vart una þess lengi að ráðherra og tengdir aðilar dragi lappirnar náum við samkomulagi um málið samhliða niðurstöðu Alcoa.

En nú köllum við héðan að norðan einum rómi: við viljum stóriðju hér. Það er ekki flóknara. Það er niðurstaða fundarins í Ketilhúsinu. Samstaða okkar og kraftur í þeirri baráttu er afgerandi og ráðherra og forsvarsmenn Alcoa og samráðsnefndarinnar heyrðu mat okkar á fundinum. Vilji okkar er skýr - við viljum að kalli okkar um ákvörðun í málinu verði svarað! Nú er komið að okkur í "röðinni" eftir stóriðju. Hér eru allir kostir til staðar og samstaða almennings virðist vera til staðar. Fundurinn í gærkvöldi sannfærði okkur best um það þegar að rödd afturhaldsseminnar í VG tók til máls við litla hrifningu meginþorra viðstaddra. Nú er komið að því að klára þetta mál. Nú er að fá farsæla niðurstöðu í þessu máli og tryggja góða lausn fyrir allt Norðurland. Með samstöðuna að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir á stóriðjubrautinni!Kiddi frændi og Hanna amma

Ég settist niður mjög seint í gærkvöldi og skrifaði minningargrein um ömmubróður minn Kristján Stefánsson - skrifaði niður á blað orð sem ég verð að segja. Ég verð að kveðja Kidda með viðeigandi orðum - þetta hef ég sagt við mig seinustu dagana. Það er miklu erfiðara að skrifa svona grein en orð fá lýst. Sumt er viðeigandi - annað ekki. Hún fær mig til að skoða alla ævi mína í einu augnabliki - vekja upp ógleymanlegar og uppsafnaðar notalegar minningar um einstakling sem skipti mig miklu máli. Kiddi hefur alltaf verið til staðar - nú hefur það liðið undir lok. Þrátt fyrir veikindin, þrátt fyrir sárin sem þeim fylgdi hef ég ekki náð því enn að þessum tíma í lífi mínu sé lokið. Það er mér svo gríðarlega sárt, en þetta er svona. Því fær enginn breytt. Ógnarlegur sjúkdómur fær þó ekki grandað þeim minningum sem mesta sælan er yfir. Skrifin mörkuðu bitra kveðjustund í tilveru minni og ævilöngum samskiptum mínum við Kidda og Stínu - árin í Hríseyjargötu.

Annað tengt þessari kveðju fær mig til að gleðjast í hjartanu yfir því að kvalirnar angra ekki lengur frænda minn. Dauðinn er mjög dökkur - en þrátt fyrir það er hann lausn í erfiðum veikindum. Ég verð að viðurkenna að það er mér mjög þungbært að standa í þessari kveðjustund samhliða þeim verkefnum sem við mér blasa þessa dagana. En það er því miður bara eins og það er. Það er mikið ský yfir okkur öllum þessa dagana. Mestur er sennilega sársaukinn hennar ömmu. Hún og Kiddi voru tvíburar. Höfðu fylgst alla tíð að. Ég held að enginn hafi þekkt Kidda betur en hún. Þau voru alveg gríðarlega samhent - eftir að Kiddi flutti í Víðilundinn eftir að Stína dó héldu þau eiginlega saman heimili. Sársauki hennar er mjög mikill. Framundan er erfið vika - á meðan stendur lokasprettur prófkjörsbaráttu. Það er því í mjög mörg horn að líta hjá mér þessa dagana.

Fann þessa mynd af ömmu og Kidda í tölvunni og set hér inn. Þetta er af seinustu myndunum sem ég tók af þeim saman - tekin sumarið 2005 á góðri stundu í grillveislu í fjölskyldunni.


Annars er prófkjörsbaráttan já á fullu. Ég er farinn að auglýsa í blöðunum hér og á Aksjón og greinaskrifin ganga á eins miklum hraða og ég treysti mér þessa dagana. Lokavikan er framundan - stefnir vonandi í öfluga lokaviku. Annars er dauflegra yfir þessum prófkjörsslag en ég taldi að yrði. En nú er lokahnykkurinn framundan!

stebbifr@simnet.is