Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 febrúar 2006

Stefán Friðrik

Pantaði mér í dag flugferð til Austurríkis. Þangað fer ég eftir nákvæmlega mánuð á ráðstefnu Demyc að hálfu SUS. Förum við nokkur í þá ferð - formaður og varaformaður SUS og forystufólkið í utanríkismálanefndinni. Hlakka til að fara þessa ferð. Ég hef aldrei til Austurríkis farið og líst því vel á að fara. Þetta verður góð og gagnleg ferð. Fyrst og fremst hlakkar mér aðallega til að skella mér eitthvað í burt og slappa af. Seinustu mánuðir hafa verið mjög þungir hjá mér - mikil keyrsla og nóg um að vera á mörgum póstum, bæði í einkalífinu og í stjórnmálunum. Næg verkefni og nægar áskoranir hafa blasað við mér. Það verður gaman að fara til Vínar. Munum við fara til Wolfgang Schüssel kanslara, í morgunverð og skoða kanslarabústaðinn í miðborg Vínar og ennfremur fara í þinghúsið.

Félagi minn, Páll Heimisson, sem stýrir nefndinni okkar, hefur staðið sig vel í að undirbúa þetta að okkar hálfu og hlakkar mér til að skella mér í þetta. Við munum skemmta okkur vel saman úti og verður eins og ávallt er farið er í slíkar ferðir gaman að hitta erlenda hægrimenn og ræða stöðu mála - alþjóðamálin með víðum hætti.


Í kvöld áttust leiðtogaefni Samfylkingarinnar: Dagur B. Eggertsson, Stefán Jón Hafstein og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, við í Kastljósinu. Prófkjör flokksins verður um þarnæstu helgi - sömu helgi og prófkjör okkar sjálfstæðismanna á Akureyri. Í skugga þessara umræðna birtist ný skoðanakönnun Gallups sem sýnir litla breytingu á mælingu flokkanna í borginni fyrir kosningarnar í vor. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 9 borgarfulltrúa ef kosið yrði nú, Samfylkingin 5 og Vinstri grænir 1. 55% aðspurðra sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Missti ég af þessum umræðum - enda lítið heima þessa dagana og mikið á ferðinni á fundum og í fleiru. Ég tel að þetta sé slagur á milli Stefáns Jóns og Dags. Er í raun sama um hver þeirra muni vinna - í raun bendir afar fátt til þess að í þessu prófkjöri sé verið að velja næsta borgarstjóra í Reykjavík. Það er mikið gleðiefni vissulega. Þessi könnun staðfestir það að Samfylkingin fær fleiri borgarfulltrúa en síðast en nær fjarri því meirihlutastöðu.

Fannst mikið gleðiefni að heyra af þessari skoðanakönnun. Átti jafnvel von á einhverju fylgistapi milli kannana vegna prófkjörsbaráttu Samfylkingarinnar. Það er ekki að gerast. Staða Sjálfstæðisflokksins er miklu sterkari á þessum tímapunkti nú en nokkru sinni á síðustu 15 árum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í upphafi kosningaárs ekki verið að mælast sterkari í borginni frá árinu 1990. Líst vel á þessa könnun og stöðuna sem þarna kemur fram.


Jafnframt birtist skoðanakönnun Gallups á fylgi flokkanna á landsvísu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 43% fylgi - bætir við sig 1% frá síðustu könnun. Samfylkingin mælist með 27% og Vinstri grænir með 18%, fylgi beggja flokka er óbreytt frá því síðast. Framsóknarflokkurinn tapar hinsvegar 1% og mælist með 10% fylgi en fylgi Frjálslynda flokksins er það sama og síðast eða 2%. Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög sterkt um þessar mundir. Formaðurinn að sinna innra starfinu með miklum krafti með fundaferð um allt land - byrjaður að undirbúa næstu þingkosningar. Geir er allt öðruvísi stjórnandi greinilega en Davíð Oddsson hvað það varðar að hann er rólegri og hefur annað vinnulag. Það er ekkert óeðlilegt, enda eru engir tveir leiðtogar algjörlega eins. Geir er greinilega vinsæll, nýtur mikils trausts landsmanna - hefur sterka stöðu. Þessi könnun staðfestir allavega mjög sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins - sem er mikið fagnaðarefni.


Í kvöld var haldinn fundur hjá okkur sjálfstæðismönnum í Hamborg. Þar var rætt um hvernig fólk liti á Sjálfstæðisflokkinn. Framsögur fluttu Gísli Aðalsteinsson formaður málfundafélagsins Sleipnis, sem er málfundafélag okkar sjálfstæðismanna, og Hlynur Hallsson starfandi alþingismaður VG. Að þeim loknum var lifandi og góð umræða um stjórnmál. Helgi Vilberg ritstjóri Íslendings og fyrrum formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, stýrði fundi. Hafði mjög gaman af þessu og var gaman að hitta aðra frambjóðendur sem og aðra flokksfélaga. Við áttum gott spjall og góða kvöldstund yfir heitum kaffibolla í Hamborg á þessu fimmtudagskvöldi.

stebbifr@simnet.is