Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 febrúar 2006

Pælt í lífinu og tilverunni - að njóta góðrar bíómyndar

Stefán Friðrik

Seint í gærkvöldi fékk ég gott símtal frá góðum vin sem býr erlendis. Hann var að kanna stöðuna á undirrituðum. Ég sagði honum alla sólarsöguna af mér og mínum verkum og pælingum seinustu vikur. Hann hafði fylgst með skrifunum undanfarnar vikur en ekki haft samband við mig í síma fyrr en þá, sá greinilega á blogginu að ég var að róast aftur eftir skapkastið mikla sem ættingjar og vinir kannast ábyggilega orðið vel við, bæði af prívatsamtölum og lestri hér. Hann hlustaði meðan að ég lét móðan mása. Eftir það kom ein spurning sem hann hafði greinilega velt lengi fyrir sér allan tímann þær mínútur sem ég talaði og hann jánkaði á meðan greinilega hugsi. Spurningin var: Ætlarðu að láta bjóða þér þetta - hvað ætlarðu að gera eftir að hafa verið sjálfstæðismaður bakvarðasveitanna til fjölda ára? Þá kom að því að ég væri hugsi og ég sagði honum sem væri að ég væri að hugsa mín mál, væri að velta vöngum yfir því hvort maður ætti hreinlega að gefa skít í þetta allt saman og snúa við blaðinu eða jafnvel að vinna áfram í þessari blessuðu pólitík á eigin vegum áfram - spila sig sóló og gera þetta eftir behag.

Hann vissi sem var að pólitík og ég erum samofin, ég hef dýrkað stjórnmál og allt tengt því í mörg herrans ár. Það fær mig ekkert til að hætta að vera fréttafíkill par exellance og ekkert mun gera mig afhuga þeirri stjórnmálabakteríu sem hefur heltekið mig. Pabbi og ég erum alveg eins að svo mörgu leyti. Hann veit hvenær ég er stemmdur á hlutina og hvenær ekki. Hann varð reyndar svo reiður að hann sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum eftir að róaðist hafði eftir að við höfðum öll meðtekið stöðu mála hér á svæðinu. Hann sagðist ekki gefa mikið fyrir þennan flokk minn. Það er ekki alveg víst hvor okkar er þó meira hugsi yfir þessu öllu. Pabbi er reyndar ekki tryggasti sjálfstæðismaður sögunnar en hann hefur skoðanir og er stjórnmálafíkill eins og ég. Hann veit hvað ég er að hugsa og sagði við mig að hvað sem ég myndi segja myndi ekki breyta því að hann gæti ekki stutt þennan flokk í vor. Ég skil hann mjög vel og það má Guð vita að ekki rak ég á eftir honum með að skipta um skoðun. Skapið er ríkt í föðurættinni minni - ég erfði þetta skap svosem og kvarta ekki.

En aftur að þessum góðvini mínum. Hann sagði mér reyndar í spjallinu að ég ætti að slá þessu upp í kæruleysi, fara út úr þessu öllu og sinna öðrum hlutum og taka upp önnur áhugamál. Sagði mér í fúlustu alvöru að ég ætti að fara að velta mér upp úr kvikmyndunum aftur og verða bóhem svona meðan að maður væri enn ungur og ferskur. Kannski maður bara geri það - varð svarið hinumegin á línunni. Eftir það hló ég við og satt best að segja sá ég mig ekki staddan heima öll kvöld horfandi á kvikmynd og lesandi bækur og alls ekki að stússast í þessu öllu. En ég fór að hugsa um það hversu notalegt það væri bara að hugsa um sjálfan sig og gefa skít í allt annað. Púki í höfðinu á mér öskraði á mig um að gera einmitt það. Hinumegin var staddur engillinn sem sagði mér að ég ætti nú að hætta að hugsa um mig en þess þá meira um flokksins hag og behag ráðandi manna. Þetta er svona eins og í bíómyndunum: góði og vondi kallinn öskrandi sínhvor skilaboðin. Ég hafði bara nett gaman af þessum pælingum og við kvöddumst báðir í friði hvorn við annan.

Ég þakkaði ráðleggingarnar og sagðist hugsa málið - sem ég og enn geri. En gærkvöldið var mjög skemmtilegt að öllu leyti. Við Kári Allans fórum saman í bíó og fengum okkur að borða áður. Fengum okkur kjúlla á Crown Chicken og fórum svo að því loknu á kvikmyndina The Constant Gardener, sem nú er sýnd hér í Borgarbíói. Sú mynd er alveg stórfengleg og var eins og sætasti NóaSíríus-konfektmoli í augum mér. Ég hugsaði mikið meðan að myndin stóð - hún fékk mig til að hugsa gang lífsins tilveru með nokkuð merkilegum hætti. Ég fór úr bíóhúsinu mjög hugsi og naut myndarinnar mjög. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu rithöfundarins John le Carré. Segir frá því er aktívistinn Tessa Quayle er myrt á afskekktu svæði í Norður-Kenía. Starfsfélagi hennar stingur af í kjölfarið og beinast öll spjót að honum. Sagt er að Tessa og samstarfsfélaginn hafi átt í ástarsambandi. Eiginmaður Tessu, Justin Quayle (leikinn af Ralph Fiennes) tekur fréttunum afar illa og neitar að trúa því að Tessa hafi verið honum ótrú. Hann heldur af stað og reynir að leysa gátuna.

Þetta er stórfengleg mynd - full af pælingum og stúderingum á lífinu. Leikkonan Rachel Weisz brillerar í hlutverki Tessu og hlýtur vonandi óskarinn fyrir sitt glæsilega framlag. Leikstjóri myndarinnar er Fernando Meirelles, en hann leikstýrði áður hinni stórfenglegu City of God. Fiennes var svo líka flottur sem maðurinn sem stendur eftir án konu sinnar og hugsi yfir lífsins gangi og döprum örlögum hennar. Það er ekki fjarri því að ég hafi skilið hann vel og sett mig í spor hans eilitla stund. Það er jú erfitt að halda áfram án þess akkeris sem tilvera manns hefur snúist utan um. Þetta var flott mynd, vel gerð og stórfenglega leikin. Mæli eindregið með henni. Eftir myndina fórum við Kári svo á Kaffi Karó og spjölluðum um lífsins gang og stjórnmálapælingar voru ekki langt undan. Við Kári höfum oft rætt saman í vetur og gaman að hafa hann fyrir norðan. Nú er hann að flytja aftur suður og leitt að hann fari finnst mér. Við Kári erum að pæla í stjórnmálum af lífi og sál og höfum virkilegan áhuga á málunum.

Það er bæði lærdómsríkt og áhugavert að ræða við svoleiðis fólk og stúdera málin. Alveg eðall að sitja með svoleiðis fólki yfir kaffibolla og útpæla pólitíkina. Lífsins pælingar eru gulls ígildi. Segja má það sama um kvikmyndir. Það er eðall að horfa á eðalmynd og njóta hennar frá öllum hliðum kvikmyndapælinganna sem fylgja ástríðu á kvikmyndum. The Constant Gardener er mynd sem situr enn eftir í huga mér daginn eftir að hafa séð hana - svoleiðis mynd situr lengur eftir en það. Það er mín lífsreynsla. Svoleiðis myndir er unun að sjá jafnt í fyrsta skiptið sem og hið tíunda ef út í það er farið. Góð kvikmynd er eins og gott rauðvín - ávallt gott, ávallt ferskt og umfram allt ávallt mannbætandi. Það er kannski spurning um að fá sér rauðvínsstaup og velja sér góða mynd til að horfa á í kvöld. Var að hugsa um að horfa jafnvel á Casino með Robert De Niro - mynd um mafíósa í spilavítisheimum hinnar fölsku en íðilfögru Las Vegas sem svífast einskis til að knésetja jafnvel stuðningsmenn sína og bandamenn. Mjög áhugavert, ekki satt?

Casino er flott mynd. Ég er semsagt að spá í að horfa á Casino með áhuga núna í kvöld og pæla jafnframt í svo mörgu öðru í leiðinni. Pælingarnar halda áfram - jafnt í huga mér sem og á þessari vefsíðu. Hér erum við alltaf lifandi og fersk í pælingum - ekki satt?

stebbifr@simnet.is