Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 apríl 2006

Saving Private Ryan

Saving Private Ryan

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi kvikmynda sem sýna tilveruna í stríði og átökum. Einkum er það vegna þess að þær sýna tilfinningaskalann allan og sýna mannlega reisn og tilveru í skugga hörmunga. Þó að oft á tíðum sé sjónarsviðið dökkt býður kvikmyndaramminn upp á svo margt stórfenglegt. Að mínu mati er ein besta stríðsmynd seinustu ára stórmyndin Saving Private Ryan eftir Steven Spielberg. Þegar að hún var frumsýnd árið 1998 hlaut hún fádæma lof allra gagnrýnenda og áhorfenda og hafði afgerandi áhrif á kvikmyndaunnendur. Myndin var tilnefnd til 11 Óskarsverðlauna og hlaut fimm, fyrir leikstjórn, kvikmyndatöku, klippingu, hljóð og hljóðklippingu.

Sagan, sem sögð er frá sjónarhóli lítillar bandarískrar hersveitar, hefst á landgöngunni á "Omaha"-ströndinni í Normandí þar sem um 2.400 bandarískir hermenn og 1.200 Þjóðverjar féllu, en gerist eftir það inni í landinu þar sem nokkrum mönnum hefur verið falið hættulegt sérverkefni. Kafteinn John Miller verður að fara með menn sína inn fyrir víglínuna til að hafa uppi á óbreyttum James Ryan, en komið hefur í ljós að þrír bræður hans hafa fallið í átökunum. Andspænis þessu vonlausa verkefni spyrja þessir menn sig að því hvers vegna verið sé að tefla lífi 8 manna í tvísýnu til að bjarga lífi eins. Umkringdir af hinum grimma raunveruleika stríðsins verða þeir hver fyrir sig að finna svar við þessari spurningu - og styrk til að takast á við framtíð sína með heiðri, æðruleysi og hugrekki.

Tom Hanks sýnir sannkallaðan stórleik í hlutverki hetjunnar John Miller, og hefur ekki leikið betur á sínum ferli, að mínu mati. Saving Private Ryan hafði mikil áhrif á mig fyrst þegar að ég sá hana. Hún heillaði alla helstu kvikmyndaunnendur og er margverðlaunuð. Steven Spielberg hlaut fyrir hana æðstu viðurkenningu sem bandaríski herinn veitir almennum borgurum. Saving Private Ryan fór inn á 160 bandaríska Topp-10 lista yfir bestu myndir ársins 1998, hlaut Golden Globe-verðlaunin sem besta dramamynd ársins og fyrir bestu leikstjórn, verðlaun framleiðenda í Bandaríkjunum og tíu tilnefningar til bresku kvikmyndaverðlaunanna BAFTA. Saving Private Ryan var mest sótta bandaríska myndin í heiminum 1998.

Ég horfði á þessa gæðamynd enn og aftur á þessum laugardegi og hvet alla sanna kvikmyndaunnendur til að rifja upp kynnin af henni. Upphafsatriðið eitt er það vel gert og ógleymanlegt að hver einasti áhugamaður um kvikmyndaformið verður orðlaus. Og tónlist meistara John Williams er rúsínan í pylsuendanum. Enn og aftur skapar hann tónlist sem passar svo undurljúft við atburðarásina. Stórfengleg kvikmynd sem vekur marga til umhugsunar um hrylling stríðsátaka og ekki síður mannlega virðingu í skugga erfiðleika og innri átaka.