Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 apríl 2006

Hvað varð um Framsókn?

exbé

Það eru 40 dagar til sveitarstjórnarkosninga og kosningabaráttan er að fara á fullt nú þegar að helgi páskahátíðarinnar er að líða undir lok. Framboðin eru víðast hvar komin á fullt og auglýsingarnar eru byrjaðar að þekja dálksentimetrana í dagblöðunum. Einkum eru það framboðin í Reykjavík sem hafa hafið auglýsingahluta kosningabaráttunnar. Hér norður á Akureyri eru auglýsingar komnar á fullt í Dagskránni, sem er aðalauglýsingamiðillinn hér um slóðir. Allsstaðar vekur athygli hvernig að Framsóknarflokkurinn kynnir sig fyrir þessar kosningar. Þar vekur athygli lógóið exbé sem virðist allsráðandi í kynningu. Vörumerkið Framsóknarflokkurinn virðist horfið út í veður og vind og er sennilega dæmt með öllu ósölulegt þessar vikurnar er styttist óðum í kosningar. Það er svosem varla undarlegt er farið er yfir stöðu flokksins í skoðanakönnunum og í umræðunni almennt.

Ef marka hefur mátt skoðanakannanir hefur ekki blásið byrlega fyrir Halldór Ásgrímssyni og Framsóknarflokknum. Fylgi flokksins og persónulegt fylgi hans sem forsætisráðherra hefur verið lítið. Framsóknarflokkurinn hefur náð sögulegu lágmarki í skoðanakönnunum í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Halldór, sem setið hefur á þingi, nær samfellt frá árinu 1974, varð forsætisráðherra í september 2004 og töldu flestir að flokkurinn og hann myndu hagnast á því að taka við embættinu. Það fór svo sannarlega ekki svo. Flokkurinn og Halldór sjálfur hafa því mjög lítið grætt á því að hafa hlotið forsætið í ríkisstjórn stjórnarflokkanna. Hart hefur verið sótt að Halldóri og mörgum finnst honum hafa gengið brösuglega að höfða til landsmanna í forsæti ríkisstjórnar, þrátt fyrir að hafa á að skipa löngum stjórnmálaferli. Það hefur lítið gert fyrir hann að hljóta embættið.

Nú er styttist í kosningar breiðir Framsóknarflokkurinn með eftirtektarverðum hætti yfir nafn sitt og merki og auglýsir sig sem exbé. Þetta er skiljanlega allnokkuð skondið. Flest virðist hafa gengið Halldóri Ásgrímssyni í óhag sem forsætisráðherra, á því sem margir höfðu áður talið að yrði hápunktur ferils hans. Það eru því sennilega ekki stórtíðindi að auglýsingasérfræðingar ráðleggi honum og flokknum að "poppa sig upp" og reyna að höfða til fólks með nýju lógói og heiti á maskínunni. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Framsóknarflokkurinn á í verulegum erfiðleikum og m.a. hafa ýmsir trúnaðarmenn flokksins lýst skelfingu sinni með gengi flokksins og nýlega hefur krónprins flokksins sagt sig frá vistinni á flokksfleytunni og ráðið sig til vellaunaðra starfa í flottri gluggaskrifstofu hjá Glitni í gamla Sambandshúsinu.

Það er svo sannarlega ekki öfundsvert að vera framsóknarmaður í dag. Annars er fyndið að sjá framsóknarmennina "poppa sig upp" með ýmsum hætti. Nýjasta trixið er að frambjóðendur exbé-flokksins í Reykjavík leggjast öll saman á gólfið og láta taka af sér mynd. Nei, það er þó sárasaklaus mynd og ekkert lóðarí sem menn eru í. Þau leggjast öll með hausana í hring og brosa og eru mjög kammó. Er ég sá þessa auglýsingu hélt ég að slagorðið hlyti að vera: "Við erum sko með hausinn í lagi sama hvað allir aðrir segja". En svo var víst ekki. En þetta er skondin auglýsing og merkilegt að sjá Björn Inga og félaga reyna að flýja verk Alfreðs Þorsteinssonar í borginni í komandi átökum með exbé-lógóið í stað hins gamalkunna lógós Framsóknarflokksins.

Sama gera þau hér fyrir norðan. Nú birtast þau Jói Bjarna, Gerður, Erla Þrándar, Erlingur Kristjáns, Ingimar og Petrea sem skipa sex efstu sæti exbé-listans á Akureyri í auglýsingu skælbrosandi og í hugmyndablaði sent inn í hvert hús hér með exbé-lógóið í bak og fyrir. Þau liggja þó ekki saman á gólfi en eru uppistandandi og í bakgrunni eru snjóug fjöllin norðan heiða. Ég hélt reyndar fyrst að myndin væri tekin í Ölpunum en svo er reyndar ekki. Var nokkuð fljótur að þekkja fjallið, enda með það fyrir augunum alla daga. En það er greinilega keyrt á sama lógói um allt land og þau hér láta snillingana fyrir sunnan kokka slagorð og lúkk á allt dæmið. Og enn og aftur er það exbé sem gnæfir yfir allt.

Spurt er: hvað varð um Framsókn? Er búið að stinga gamla lógóinu og heitinu í glatkistuna framyfir kosningar? Það er svosem varla furða er litið er á stöðu flokksins að reynt sé að búa til framboð á nýjum grunni en ekki þeim grunni sem Framsóknarflokkurinn hvílir á þessar vikurnar.