Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 apríl 2006

Sorprit geispar golunni

Skaftahlíð 24

Tilkynnt var í dag um þá ákvörðun 365 miðla að hætta að gefa DV út sem dagblað en það verði þess í stað helgarblað sem út komi á laugardögum. Segja má að sögu DV í þeirri mynd sem við þekkjum hana sé með þessu lokið. Með þessu líður ennfremur undir lok 96 ára ferli þess sem dagblaðs. DV er blað með langa sögu að baki. Vísir, annar af forverum þess, kom fyrst út árið 1910. Árið 1975 varð ósætti innan blaðsins og ákvað hluti starfsmanna að halda á brott og stofnaði Dagblaðið. Eftir harða og óvægna samkeppni Dagblaðsins og Vísis í sex ár var ákveðið að sameina blöðin í Dagblaðið - Vísir, DV. DV varð gjaldþrota árið 2003 en útgáfa þess hélt áfram af hálfu nýrra eigenda allt til þessa dags. Undir lokin var DV slúðurblað að breskri fyrirmynd (Sun t.d.)

Lengstu óslitnu útgáfu dagblaðs á Íslandi, sem staðið hefur í tæpa öld, hefur því runnið sitt skeið á enda. Blaðið í dag er hið seinasta sem kemur út á virkum degi í sögu þess. Svo kaldhæðnislega vill til að það er 96. tölublað 96 árgangs. Ástæðan fyrir því að útgáfu DV er hætt í þessari mynd er léleg afkoma þess. Verulega hefur dregið úr sölu blaðsins og auglýsingatekjum. Páll Baldvin Baldvinsson mun einn stýra helgarblaðinu en Björgvin Guðmundsson, hinn ritstjóri blaðsins, heldur til annarra verkefna. 10 manns er sagt upp hjá blaðinu vegna þessarar ákvörðunar að skera blaðið niður að nær öllu leyti. Nú þegar að slúðurblaðið DV heyrir sögunni til hlýtur það að teljast skellur fyrir Gunnar Smára Egilsson sem mótaði DV að því slúðursorpi sem það var seinustu árin - tilraun sem mistókst.

Í janúar á þessu ári varð upphaf endalokanna hjá DV. Þá hrökkluðust báðir ritstjórar blaðsins, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, frá. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á því árið 2003. Var um að ræða sorpblaðamennsku, hannaða af ritstjórunum Illuga Jökulssyni og Mikael Torfasyni og viðbætt með innkomu Jónasar Kristjánssonar, sem var ritstjóra gamla DV á árunum 1981-2001 og aftur frá 2005. Ekki ætla ég að fara mörgum orðum um það mál sem varð til þess að þjóðinni varð nóg boðið. Sjálfsmorð Gísla Hjartarsonar á Ísafirði þótti mikill harmleikur - það hlaut að slíku að koma eftir "fréttamennsku" DV.

Vinnulag DV í því máli í janúar varð þess valdandi að öllu sómakæru fólki blöskraði. Þjóðfélagið tók við sér og stíflan brast. Fólk fékk algjörlega nóg. Ákveðið var að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Breið samstaða landsmanna skilaði þeim árangri sem við blasir nú.

Það er mikið fagnaðarefni að lágkúruleg efnistök af þessu tagi hafi nú náð endastöð sinni. Það munu fáir sakna þess sorpsnepils sem DV var undir lokin. Endalok þess eru svo sannarlega gleðitíðindi.