Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 maí 2006

Burt með sorpritið!

DV

Rúm vika er nú liðin frá því að DV leið undir lok sem dagblað. Sannaðist þar endanlega gjaldþrot sorpblaðamennskunnar sem þar hafði verið iðkuð í rúm tvö ár. Sú brotlending var harkaleg og hvöss - duldist engum. Enn er DV gefið út sem helgarblað. Kom það í fyrsta skipti út sem slíkt í dag - ekki er byrjunin góð. Í umfjöllun í blaðinu í dag er fjallað um innflutning á eiturlyfjum og birt með skrifunum mynd af Elsu Guðrúnu Jónsdóttur frá Ólafsfirði sem er Íslandsmeistari í skíðagöngu kvenna, en hún tengist málinu ekki með neinum hætti. Fjallað er innflutning á 140 grömmum af kókaíni til landsins og stúlka á nítjánda ári sögð hafa smyglað því inn í smokkum sem faldir voru í leggöngum hennar. Stúlkan er nafngreind og tvær myndir fylgja fréttinni. Önnur er af umræddri stúlku en stærri myndin er af Elsu Guðrúnu.

Í dag sendi Skíðasamband Íslands frá sér yfirlýsingu þar sem fréttaflutningur DV er harðlega gagnrýndur. Skíðasambandið harmar í yfirlýsingunni að ein helsta afrekskona landsins skuli vera bendluð við málið með því myndbirtingu af þessu tagi. Fyrirsögnin er enda: "Skíðastúlka með kókaín innvortis". Í kvöld reyndi Páll Baldvin Baldvinsson ritstjóri DV, að verja þessa myndbirtingu en harmaði mistökin auðvitað. Skýringuna sagði hann vera þá að þegar nafn hinnar grunuðu í eiturlyfjamálinu væri slegið inn á leitarsíðu á netinu væri rangt nafn með myndinni. Hann sagðist í viðtali í kvöld biðjast afsökunar en tók fram því næst að DV hyggðist birta leiðréttingu í næsta blaði að viku liðinni. Hann tók sem ritstjóri ábyrgð á birtingunni með þessum hætti. Afsakanir hans voru lélegar og klénar - voru fyrir neðan allar hellur.

Að mínu mati er hið sorglega rit DV endanlega komið í ruslið við þetta. Ekki er byrjun helgarblaðsins góð. Ég held að þetta lið sem þarna sé með þessu nær algjörlega búið að fyrirgera rétti sínum til að vinna við blaðamennsku. Ég hvet eigendur þessa blaðs að henda því endanlega. Burt með þetta sorprit!!