Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 apríl 2006

Sjálfstæðisflokkurinn með meirihluta í borginni

Skoðanakönnun í borginni

Nú þegar að 27 dagar eru til sveitarstjórnarkosninga eru allra augu á stöðu mála í Reykjavík þar sem við blasir að komi nýr meirihluti enda heyrir R-listinn sögunni til. Á fimmtudag mættust leiðtogar framboðanna fimm í borginni í spjallþætti á Ríkissjónvarpinu og ræddu málefni kosningabaráttunnar. Var það heilt yfir litlaus umræða en ágætir hápunktar komu inn á milli, einkum hvað varðaði málefni Reykjavíkurflugvallar. Þar fannst mér Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson koma áberandi best fyrir. Svo er greinilegt að Svandís Svavarsdóttir er að sækja í sig veðrið og hagnast verulega á því að vera eina konan í hópnum. Dagur B. Eggertsson og Ólafur F. Magnússon áttu vondan dag og sérstaklega fór Dagur illa að ráði sínu er hann reyndi að ráðast með afar ósmekklegum hætti að Vilhjálmi. Dagur B. virðist sífellt vera að fjara meira út sem leiðtogi og er ekki að standa sig sem skyldi og hlýtur að valda flokk sínum vonbrigðum.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallups sem birt var fyrir tæpum klukkutíma mælist Sjálfstæðisflokkurinn nú með hreinan meirihluta, 49% - 8 borgarfulltrúa inni. Samfylkingin missir nokkurt fylgi milli kannana Gallups - mælist nú með rétt rúm 30% og hefur misst um fimm prósentustig. VG mælist með 11% og standa í stað. Frjálslyndir bæta við sig, hafa tæp 5% en voru með rúm 3% síðast. Athygli vekur að þrátt fyrir miklar auglýsingaherferð og kynningamaskínu mælist Framsóknarflokkurinn með rétt rúm 3% og ná enn engum manni inn. Þar sem bæði Framsókn og Frjálslyndir mælast ekki með menn inn er Samfylkingin með 5 og VG með 2. Næsti maður inn er níundi maður Sjálfstæðisflokksins á kostnað VG. Það blasir því við skv. þessu að áttundi maður Sjálfstæðisflokksins er mjög öruggur inni og gæti flokknum dugað 44-45% atkvæða til að vinna borgina verði þetta niðurstaðan.

Samfylkingin virðist vera að missa flugið undir forystu Dags B. Eggertssonar. Þessi mæling hlýtur að vera þeim mikið áfall, enda mikið púður lagt á kynningunni á stefnu flokksins og frambjóðendum í fjölmiðlum. Fari kosningarnar með þessum hætti hljóta þau að teljast pólitískt áfall fyrir bæði Dag og Björn Inga Hrafnsson sem leiða flokka sína nú og teljast vera menn nýrrar kynslóðar í forystu stjórnmálanna. Á sama tíma virðist Vilhjálmur Þ. vera að eflast í aðdraganda kosninganna og njóta trausts til forystu. Þessi könnun er mjög merkileg, enda blasir þar við að Samfylkingin missir fylgi til hægri. Breytingin í þessari könnun virðist vera styrkari staða minnihlutaaflanna. Nú þegar að 27 dagar eru í kjördag blasir því við spennandi lokasprettur.

Stærsta spurning kosningabaráttunnar í Reykjavík virðist vera nú hversu traustur meirihluti Sjálfstæðisflokksins verði. Ef marka má þetta er ljóst að vinstrimeirihlutinn missir bráðlega völdin í borginni.