Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 maí 2006

Daufleg kosningabarátta í höfuðborginni

Lúðvík Geirsson

Mesti fókusinn í kosningabaráttunni beinist venju samkvæmt að Reykjavík. Leiðtogar framboðanna fimm, þau Vilhjálmur Þ, Björn Ingi, Dagur B, Svandís og Ólafur F, hafa verið mjög áberandi seinustu vikur við að kynna sig og málefni síns framboðs. Að mati flestra er þó kosningabaráttan í borginni frekar daufleg að þessu sinni. Minni átök og málefnaágreiningur er sýnilegur núna en var í síðustu borgarstjórnarkosningum árið 2002. Reyndar var sú kosningabarátta með því harðara sem sést hafði og jafnaðist á við baráttuna árið 1994 þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Árni Sigfússon börðust á hæl og hnakka fyrir atkvæðum borgarbúa í jafnri baráttu. Síðast áttust Björn Bjarnason og Ingibjörg Sólrún við í sönnum leiðtogaslag sem jaðraði við að vera hreint einvígi enda voru litlir kærleikar þeirra á milli og mikil heift í slagnum.

Kosningabaráttan er því gjörólík því sem var fyrir fjórum árum. Það helgast eflaust líka af því að meirihlutaaflið býður ekki lengur fram og heyrir sögunni til og þrjú framboð eru komin í stað R-listans. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa því aðra stöðu en í þrem seinustu kosningum. Það er ekki óeðlilegt að mörgum þyki baráttan í borginni dauf enda eru fá sem engin kosningamál í gangi sem hiti er um. Kosningarnar eru lítið til umræðu og lítil átök - ótrúlega lítið um að vera sé mið tekið af því að það eru aðeins 13 dagar til kosninga. Tekist hefur verið á um flugvöll á Lönguskerjum vissulega og málefni aldraða hefur verið í umræðunni. En bitmikil mál sem brenna á eru varla til staða að neinu ráði. Seinustu daga hefur aðalmálið í umræðunni verið það að Framsókn keyrði bíl sínum, sem er risavaxinn Hummer að gerð, í stæði fatlaðra og mynd náðist af því sem fór eins og eldur í sinu um netið.

Um fátt hefur verið rætt meira og ber þetta auðvitað vitni slappri málefnabaráttu í þessum kosningum. Deilt hefur verið um það skiljanlega að Steinunn Valdís fari í fundaferð sem borgarstjóri um borgina rétt fyrir kosningar, þegar að allir vita að borgarstjóraferli hennar er að ljúka. Það er ekki furða að margir séu hissa þegar að aðalumræðuefnin eru flugvöllur úti á skerjum sem virkar framtíðarsinfónía, jeppatröll Framsóknar í fatlaðrastæði og fundabrölt fráfarandi borgarstjóra. Nú þegar haldið er inn í næstsíðustu viku kosningabaráttunnar má búast við harðari línum og meira fjöri - auglýsingar í sjónvarpi fara væntanlega að verða meira áberandi og svo má búast við að tekist verði af að alvöru seinustu dagana.

Nú þegar lokaspretturinn blasir við stefnir flest í endalok vinstristjórnarinnar og valdatöku Sjálfstæðisflokksins á þessum tímapunkti en væntanlega verður harkan meiri eftir því sem fleiri kannanir koma en ískyggilega langt er orðið frá þeirri síðustu. Nú þegar að kosningabaráttan er að verða búin mun könnunum fjölga og krafturinn aukast væntanlega - enda eftir miklu að slægjast í kosningunum í Reykjavík.