Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 maí 2006

Ný skoðanakönnun á Akureyri

Akureyri

Það eru 12 dagar til sveitarstjórnarkosninga. Kraftur er kominn í kosningabaráttuna á lokasprettinum enda sér nú fyrir endann á baráttunni í næstu viku. Mitt í önnum dagsins í dag kom ný skoðanakönnun á fylgi framboðanna hér á Akureyri. Hún sýnir í stuttu máli sagt nákvæmlega sömu skiptingu bæjarfulltrúa og sama landslagið og sást í könnun NFS fyrir mánuði er borgarafundur þeirra var haldinn hér. Það sem vekur mesta athygli mína er auðvitað hversu margir taka ekki afstöðu eða hafa ekki myndað sér skoðun á því hvaða framboð skuli kjósa. 34,8% nefna Sjálfstæðisflokkinn, 22,6% nefna Samfylkinguna, 18,2% nefna Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, Framsóknarflokkurinn mælist með 13,5%, Listi fólksins hefur 8,8% og Framfylkingarflokkurinn mælist með 1,6% fylgi. Yrðu þetta úrslitin væri Sjálfstæðisflokkurinn með fjóra bæjarfulltrúa, Samfylkingin hefði þrjá, VG hlyti tvo, Framsóknarflokkur og Listi fólksins hefði einn og Framfylkingarflokkurinn engan.

Sumt í þessari könnun kemur mér á óvart en annað ekki. Ég taldi að Framsóknarflokkurinn myndi ná að rétta eitthvað úr kútnum eftir erfiðleika í fyrri könnunum. Ef þetta verða úrslit kosninganna stefnir í sögulegt afhroð Framsóknarflokksins á Akureyri - en staðurinn hefur verið eitt táknrænasta og sterkasta vígi flokksins á landsvísu. Fengi Framsókn aðeins einn bæjarfulltrúa á Akureyri væru það stórtíðindi og myndu tákna algjört skipbrot flokksins í þessu sterka vígi þeirra og vera til vitnis um vonda stöðu flokksins um allt land. Allsstaðar nema í Fjarðabyggð er Framsókn að mælast með afleita útkomu. Í Reykjavík hefur flokkurinn ekki mælst með mann inni alla kosningabaráttuna og í Kópavogi stefnir í að flokkurinn verði fyrir gríðarlegu áfalli. Það er því ekki að furða að framsóknarfólk hér á Akureyri verði gáttað við að sjá þessa könnun og þessa stöðu sem við blasir. Hún boðar enda fátt gott fyrir þá.

Verði þessi könnun að veruleika sýnist mér stefna í vinstrimeirihluta hér á Akureyri á næsta kjörtímabili. Flestir sem ég tala við setja ekki andlit leiðtoga vinstriarmanna saman við þessa meirihlutamyndun, enda hver myndi vilja að Hermann væri bæjarstjóri, Oddur forseti bæjarstjórnar og Baldvin formaður bæjarráðs, svo eitthvað sé nefnt um skiptingu hluta í þessu batteríi þeirra. Það er ekki kræsileg staða. Nú er það okkar sjálfstæðismanna að benda á mögulega stöðu eftir kosningar og sýna fólki að það eru betri valkostir í boði en vinstri meirihluti sem þessi könnun sýnir drögin að. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um margvísleg mál sem orðið hafa til heilla í sveitarfélaginu - við erum ánægð með okkar verk og göngum því óhrædd til þessara kosninga. Ég tek undir með Sigrúnu Björk í vinnustaðaheimsókn í morgun: "Við höfum sýnt að við náum árangri og munum áfram lofa að ná árangri, það skiptir mestu."

Nú er lokaspretturinn eftir. Þessi könnun kemur á góðum tímapunkti fyrir okkur. Nú er að slá í klárinn og landa góðum sigri eftir tólf daga, laugardaginn 27. maí og tryggja farsæla forystu Sjálfstæðisflokksins ÁFRAM!

Umfjöllun um skoðanakönnun NFS í apríl 2006